06 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (1)

Ekki vil ég nú viðurkenna að það hafi hvarflað að mér að árans pestarskrattin sem hefur verið að leika mig grátt undanfarna daga, sé aldurstengdur, og ekki fannst mér skólameistarinn fara fínt í það þegar hann ýjaði að því að svo kynni að vera, þegar ég tilkynnti mig veikan, fyrsta sinni þennan veturinn. 

Ég blæs á allt sem gefur í skyn að með því aldur minn fluttist úr því að vera 59 ár, yfir í 60, hafi eitthvað breyst að því er varðar líkamlegt atgerfi mitt. Vissulega hefur það verið að þroskast og breytast í allmörg undanfarin ár; ýmislegt, sem á hverjum tíma hefur mátt teljast lítilsháttar, hefur, þegar litið er til lengri tíma, reynst hafa þroskast og breyst stórlega. Ég tel ekki að þessi vettvangur sé sá rétti til að velta sér upp úr því hvernig ástand mitt að þessu leyti, hefur breyst frá sem það var fyrir 40 árum eða svo: það getur hver maður (á mínum aldri, í það minnsta) ímyndað sér.
Það er miklu áhugaverðara, að mínu mati, að skoða aðra þætti sem viðkoma sjálfum mér, í þessu samhengi. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt hefur með að gera þá starfsemi sem á sér stað í heilanum: hugsuninni, tilfinningunum (sálarlífinu) og viðhorfunum.  Að þessu leyti má segja að mikil átök séu í gangi. Þar eru á ferð ótal spurningar um lífið og tilveruna. Þar er fjallað um hlutverk mitt sem einstaklings í samfélaginu. Svakalegar spurningar, sem fá svör fást við.

Ég, auðvitað til í að prófa ýmislegt, lét mig hafa það um daginn, að taka þátt í einhverju vitleysisprófinu sem gaf sig út fyrir að geta sagt til um aldur minn í andanum (mental age). Það kom mér svo sem ekki í opna skjöldu að ég skyldi reynast vera 19 ára á þeim mælikvarða. Sem sagt, annaðhvort afskaplega vanþroskaður, eins og flest fólk á þeim aldri er (að mínu mati), eða þá einstaklega vel með á nótunum í nútíma samfélagi. Auðvítað kýs ég að telja það vera hið síðarnefnda, þó ekki geti ég nú sagt að það höfði sérstaklega til mín að fara á "djammið" um hverja helgi (enda snýst slíkt aðallega um hormónastarfsemi) eða skjótast í Smáralindina til að öskra af tilfinningasemi yfir einhverjum internetgúrúum (reyndar var það fólk ekki 19 ára, en liggur bara vel við höggi sem samanburður).

Mér finnst það hafa komið mér vel á þessu sviði að hafa fengið að umgangast fólk milli tektar og tvítugs í daglegum störfum áratugum saman of þannig notið þess að drekka í mig tíðarandann á hverjum tíma. Mér finnst ég skilja fólk á þessum aldri að ýmsu leyti, en það sem skilur mig frá því er lífaldurinn. Ég er í þeirri aðstöðu að geta metið viðhorfin og skoðanirnar í ljósi áratuga reynslu. 
Jú, ég gæti fjallað um það allt saman í löngu máli, en það er ekki markmið þessa pistils, heldur frekar þau óeiginlegu tímamót sem ég upplífði þann 30. desember s.l.

Ég hef nú aldrei verið þessi afmælismaður. Man enga afmælisdaga að ráði, hef ekki talið mikilvægt að halda upp á afmælið mitt (fD hefur reyndar ávallt af gæsku sinni reitt fram tvennt á þessum degi, árlega, sem mér finnst betra en margt annað; brauðtertu og rjómatertu). Þessir dagar haf liðið einn af öðrum án þess að mikið væri við haft. Þar fyrir utan er þessi dagur á þeim stað í almanakinu, að varla er á bætandi hátíðahöldin.
Það varð niðurstaða þessu sinni, að sinna þessum degi, þó í litlu væri, enda varlegt að blása til stórveislu þegar allra veðra er von. Þessi samkoma fór vel fram og ég var harla kátur með að Kvisthyltingar voru þarna allir saman komnir meðal annarra góðra gesta.

Í tilefni þessa dags, sem markaði fyrst og fremst tímamót í óeiginlegum skilningi, bárust mér ansi margar kveðjur um samfélagsmiðla og með öðrum hætti. Ég mun koma að þeim að einhverju leyti í framhaldspistli, en hér læt ég fylgja eina kveðjuna, en hún lyfti sannarlega andanum og líklegast umfram það sem innistæða er fyrir. 
Hér mælir rímsnillingur sem hefur gefið sjálfri sér skáldanafnið "Hirðkveðill Kvistholts", en raunverulegt nafn hennar er Helga Ágústsdóttir:

Sextíu árin svifin eru að baki,
söm er lundin, gleði prýðir fas,
þó áfram líði tíminn taumaslaki,
sem telur korn í lífsins stundaglas.

Það er mælt að miklu ætíð varðar,
að mega ganga farsældar um veg,
og vera sannur vinur fósturjarðar,
þá verður æviferðin dásamleg.

Gleðstu Páll með gáskafullu sinni,
og geðprýði sem ávallt fylgir þér.
Allir þeir sem eiga við þig kynni,
af þér geyma mynd í hjarta sér.

Þakkir eiga skilið þjóðarhlynir,
þú ert slíkur eins og fjöldinn sér,
undir þetta allir taka vinir,
einum rómi og skála fyrir þér.

Ég hef bara ákveðið að trúa því að þarna sé á ferð raunsönn lýsing, og hyggst halda hnarreistur á grundvelli hennar inn í nýjan áratug.

Það er von á framhaldi umfjöllunar af sama tilefni og þá ekki síst í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun sem varð vegna hennar í til teknu dagblaði og viðbrögð mín og annarra við henni.

24 desember, 2013

Jólagola í Laugarási


Jú, það hreyfir vind, en samt ekki að neinu marki. Auðvitað bara eðlilegt sem fyrirboði þess sem koma skal með öllu því tilstandi sem fylgir. Með golunni færist ró yfir húsið, einstaka smellir heyrast í prjónum frúarinnar, sem kveðst ekkert vera viss um hvað hún sé að prjóna. Kannski er það einhver jólaandi. Yngri hluti þeirra Kvisthyltinga sem heima eru, sinnir verkefnum út á við
Það er að koma að því að aftengja þetta samband við umheiminn um stund og og við tekur væntanlga að sinna einhverjum þeim verkum sem mér kunna að verða falin.
Hér með skrái ég von mína um að þið sem kikið inn á þetta svæði mitt við og við, eigið friðsæl og góð jól.

13 desember, 2013

Andvarp tenórsins


Það var spurning hvort ætti að taka til tvo stóla eða þrjá. 
Kórfólkið streymdi að. 
Hann tók þrjá. Það hlyti að fara að rætast úr þessu. 
Þarna kom einn. Þá voru þeir orðnir tveir.
Sópranarnir streymdu inn kirkjugólfið. 
Altarnir streymdu inn kirkjugólfið.
Meira að segja birtist hver bassinn á fætur öðrum. 
En það komu ekki fleiri tenórar
Það voru komnir tíu til  fimmtán sópranar, tíu til fimmtán altar og fimm bassar. 
Tenórarnir urðu bara tveir.
Einn stóllinn var auður.

Jæja, það þýddi ekkert að vorkenna sjálfum sér.
Það var ekki annað í boði en að standa sig.
Hreinsa úr kverkunum, liðka þindina, finna hvernig kjálkarnir mýktust.
Gæta þess samt að láta ekki á neinu bera. 
Tenórar láta ekki á neinu bera.
Þeir þurfa þess ekki því þeir búa yfir hinni einu rödd - röddinni hreinu, sem tónskáldin hafa úthlutað sínum fegurstu línum.

Svo var æft. 

Yfir sópranana tíu til fimmtán risu fögru tenórraddirnar tvær.
Yfir altana tíu til fimmtán flögruðu tenórraddirnar tvær.
Yfir bassana fimm gnæfðu tenórraddirnar tvær.
Þær renndu sér um tónstigann, af leiftrandi léttleika og fyrirhafnarleysi.
Þær hittu fyrir allt sem almættinu er kærast, og það brosti af velþóknun.
Röddina einu skiptir fjöldinn ekki máli. 
Það er fegurðin sem á alltaf síðasta orðið.
Það er léttleikinn, styrkurinn, stöðugleikinn.
Það er tenórinn.



10 desember, 2013

Krakkakassar

Ef þú nennir ekki, eða hefur ekki læsi til, þá dugir þér að skrolla niður fyrir línuna hérna fyrir neðan, til að átta þig á hvað ég er að fara með þessu kassatali.

Við erum góð í að búa til kassa utan um börnin okkar. Við tölum okkur niður á hentuga stærð og gerð - einn stóran kassa sem á að rúma öll börnin okkar. Þessi kassi samanstendur af öllum þeim lögum og reglum sem við viljum að gildi um blessaða ungana, allt frá því þau byrja í leikskóla og þar til þau ljúka háskólanámi. Þarna mynda allskyns námskenningar, sem breytast í áranna rás, hryggjarstykkið. Þarna er ákveðið hvernig námið á að fara fram, hvernig framvinda þess á að vera, hvernig aðbúnaður barnanna á að vera, hver réttindi barnanna og foreldra þeirra eru, hvenær börnin hætta að vera börn, hverjar kröfurnar skuli vera til barnanna, og svo framvegis. Þetta er kassi 1.

Inn í þennan stóra kassa setjum við svo fjóra kassa, sem einnig eru hentugir að stærð og gerð þar sem hver um sig á að rúma tiltekið aldursbil, eða skólastig. Þarna inni skal síðan beita öllum því sem kassi 1 ákvarðar að beita skuli  á hverju skólastigi. Þetta er kassi 2

Inni í hverjum þessara fjögurra kassa eru síðan settir misjafnlega margir kassar sem eru einnig taldir vera hentugir að stærð og gerð, en þetta eru einstakir skólar. Í þessum kössum skal það gerast sem ákvarðað er af kössum 1 og 2. Þarna skal hver kassi tileinka sér allt það sem við á, en getur beitt ólíkri útfærslu og skipulagt starf sitt með mismunandi hætti, svo fremi að regluverkinu sem ákvarðað hefur verið með fyrri kössum, sé fylgt.    Þetta er kassi 3

Inni í hverjum þessara kassa eru enn margir kassar sem rúma ákveðin aldursbil, brautir eða deildir og þessir kassar eru einnig, að okkar mati hentugir að stærð og gerð fyrir blessuð börnin. Þarna kemur til regluverk sem sett er af kassa 3, sem sett er á grundvelli og með hliðsjón af því sem kassi 3 segir til um á grundvelli fyrstu tveggja kassanna. Þetta er kassi 4

Inni í þessa kassa, hvern um sig, eru enn settir kassar, mismargir eftir hlutverki hvers, en þarna væru þá komnir kassarnir sem börnin fara endanlega inn í - það sem við getum einnig kallað námsgreinar eða námshópa. Það sem þarna á að fara fram á að byggja að öllu því sem ákvarðað hefur verið af fyrstu fjórum kössunum. Þarna skal það gerast - þarna menntast börnin okkar. Allavega viljum við trúa því. Þetta er kassi 5

Svona lítur þessi kassaleikur út.

KASSI 1:
Þjóðin talar um stóra kassann sinn sem gott menntakerfi sem sendir frá sér "menntaða" einstaklinga í stórum stíl.

KASSI 2:
Þó svo það sem gerist ínni í þessum kassa lúti (eða eigi að lúta) lögmálum kassa 1 virðist talsvert skorta á að samspil þeirra sé eins og gert er ráð fyrir. Þegar allt kemur til alls þá voru þessir fjórir kassar settir í þann stóra, einmitt til að mynda samfellu fyrir börnin á eins ár aldri og uppúr, þegar þau myndu skríða fullmenntuð út úr stóra kassanum.

KASSI 3:
Hér koma til allkyns skólagerðir. Sumar eru reknar af sveitarfélögum, aðrar af ríkinu og enn aðrar eru einkareknar. Allar eiga þær í grunninn að starfa samkvæmt þeim lögum og reglum sem sett hafa verið. Því setur hver skólagerð sér námskrá, sem á að endurspegla þann grundvöll sem lagður hefur verið. Þessar námskrár eiga að lýsa því hvernig viðkomandi skólagerð ætlar að koma nemendum áfram á næsta stig.

KASSI 4:
Hér koma allskonar deildir, bekkir og brautir, sem byggjast til að byrja með á aldri nemenda, en síðar einnig á vali þeirra. Þarna kemur til deilda- eða brautaskipulag, sem, sem fyrr, á að byggja á öllu því regluverki sem ytri kassar hafa sett. Hér er tilgreint hvaða námsgreinar nemendum er ætlað að læra á hverri braut/deild, hver markmiðin skuli vera á grundvelli þeira laga og reglna sem sett hafa verið með ytri kössunum þrem.

KASSI 5:
Hér koma til sögunnar einstaka fagmenn sem hlotið hafa, á einhverjum tíma, þjálfun í ólíkum greinum og hvernig kenna beri þær ungu fólki á menntabraut. Þeir setja fram reglur og áætlanir um einstaka námsáfanga eða námsgreinar; hvað nemendur eiga að kunna við námslok.

_______________________________________________________________________

Sannarlega þarf að hafa lög og reglur, marka stefnuna eins við við teljum hana vera réttasta. Það verður hinsvegar ekki framhjá því litið að lögin, stefnan og markmiðin er eitt, hinn mannlegi þáttur í öllu saman getur svo verið eitthvað allt annað. Í gegnum allt þetta kerfi okkar kemur mannskepnan að, á öllum stigum, með sína drauma og þrár, viðhorf og persónueiginleika. Þarna koma við sögu foreldrarnir, ráðuneytismennirnir, sveitarstjórnendurnir, skólastjórnendurnir og kennararnir, auk nemendanna. Ráðuneytismennirnir horfa á einhverja heildarmynd og reyna að sjá til þess að hún líti eins vel út og kostur er, og í því skyni setja þeir þrýsting á sveitarstjórnarfólk og skólastjórnendur, sem þrýsta síðan niðurfyrir sig  og þar er áfram beitt þrýsingi enn neðar. Foreldranir eru eins misjafnir og þeir eru margir, flestir hafa tiltölulega jákvætt viðhorf til þessa kerfis og reyna að aðstoða, aðrir sjá skólann sem óvin barnanna sinna og leggja sig fram um að krefjast þess sem þeir telja barni sínu vera fyrir bestu þó svo það geti komið barninu fremur illa þegar upp er staðið.

Hver kassi um sig, reynir að verja sig, og gefur ekkert annað út til kassanna sem hann er í, en að hann sé algerlega með þetta, fremstur á sínu sviði, allir ánægðir, allir í bullandi menntagír, hann sé að gera allt rétt. Það er í eðli okkar að verja það sem okkar er. Ekki efa ég það, að á öllum stigum eru margir að gera margt rétt, en ég fullyrði einnig að á öllum stigum eru margir að gera ýmislegt sem hægt er að segja, út frá þeim lögum og reglum sem sett eru, sé rangt.

Við tölum um að menntunarstig þjóðarinnar sé hátt, sem er nú dálítil klisja, sem ekki hafa endilega verið færðar sönnur á. Miðað við hvað er menntunarstigið hátt?

Þegar upp er staðið spyr ég mig hvort þetta menntakerfi okkar sé að senda frá sér afurð sem hægt er að vera stoltur af, svona í alþjóðlegum samanburði.
Ég spyr mig oft, hvort skólakerfið er að gera það sem það segist vera að gera.
Leikskólinn segist sinna málörvun barna af krafti, en er hann að gera það? Getur hann gert það?
Grunnskólinn segist vera að kenna börnum að lesa. Er hann að gera það?  Er hann kannski að kljást við börn sem koma úr leikskóla mállítil vegna örvunarleysis?
Framhaldsskólinn kveðst vera fyrir alla. Er hann það í raun?
Háskólar útskrifa meistara og doktora sem aldrei fyrr. Hefur innihald slíkrar menntunar haldið gildi sínu?

Ég þykist ekki hafa svörin, frekar en fyrri daginn, en það þarf að spyrja.

Á öllum skólastigum starfar úrvalsfólk, miðlungsfólk og fólk sem ætti frekar að sinna öðrum störfum og hentugri, rétt eins og annarsstaðar. Ég tel, að mestu máli skipti í menntun barna og ungs fólks sé það sem gerist innan veggja skólans (kassa 4) og innan veggja skólastofunnar (kassa 5). Hinir kassarnir, hversu fallegir sem þeir kunna að vera, eru til lítils ef þessir tveir kassar klikka.

07 desember, 2013

Kannski bara vitlaust gefið

Það er nú kannski að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að bætast í flokkinn sem hefur allar skýringarnar á því að íslenskir grunnskólanemendur koma illa út úr alþjóðlegri könnun  á læsi. Það fór eins og mig grunaði, að margir hafa  á þessu skoðanir, sem er smám saman að stefna í þá átt að þessi könnun sé að mæla vitlaust; við séum bara að leggja áherslu á aðra og nútímalegri kennsluhætti, sem gamaldags könnunin er mælir ekki. Við séum í farabroddi í kennslu og námi ef grannt er skoðað.

Ég er nánast að springa undir þessari umræðu allri, en verð að gæta mín að segja ekkert, stöðu minnar vegna, sem gæti gengið verulega gegn viðtekinni skoðun fólks, hvort sem það er til kallað til að lýsa áliti sínu, eða tjáir sig um þetta hvar sem tjáning er möguleg.

Það er fjarri mér að skella því framan í lesendur, að það hafi allt verið betra áður fyrr, engin vandamál, eða börn í vandræðum með nám - það hefur alltaf verið og mun alltaf verða. Ég ætla hinsvegar að varpa fram nokkrum dæmum um spurningar hér á eftir, sem mér finnst nauðsynlegt að fá svör við áður en við hlaupum til og dæmum PISA könnunina sem gamaldags. Það er góð regla, að fullyrða sem fæst áður en fyrir liggur einhver ábyggileg rannsókn sem styður það sem maður er að segja.

1. Hvernig læra börn málið í nútímanum? Það liggur fyrir, óvéfengjanlega, að langstærstur hluti barna fer í leikskóla áður en máltaka hefst. Þar dvelja þau, í miklum mæli, 8 klukkustundirvirka daga með hóp af öðrum börnum fram á grunnskólaaldur. Ég tel að það sé nákvæmlega sama hve metnaðarfullir leikskólakennarar eru, þeir ná því ekki að sinna málfarslegum þörfum barna á þeim tíma ævinnar sem þau eru móttækilegust fyrir að læra móðurmálið, máltökuskeiðið. Jú, jú það er lesið fyrir börnin og þau fá eflaust formlega þjálfun í ýmsum þáttum málsins, en hvar beita þau málinu mest? Ég tel að máltaka barna fari fram að stærstum hluta gegnum samtöl við önnur börn á sama aldri. Ef ég hef rétt fyrir mér, þá er það talsvert alvarlegt. Jú, jú, foreldrarnir tala eflaust við börnin þegar þeir koma þreyttir heim úr vinnu, og um helgar, en er það í einhverjum umtalsverðum mæli? Er það ef til vill svo, að einhver umtalsverður hluti foreldra, þegar þeir loksins fá hvíld frá vinnunni, líti svo á að þá eigi þeir rétt á að fá einnig hvíld frá samskiptum við börnin sín? Finnst þeim þeir eiga rétt á að sinna sínum áhugamálum óáreittir? Hve miklum tíma, síðdegis, á kvöldin og um helgar, eyða foreldrar t.d. í tölvum? Hve miklum í heimilishald af ýmsu tagi? Hve miklum í bein, jákvæð samskipti við börnin?  Hver ber megin ábyrgð á máltöku barna? Er það ef til vill svo, að í nútímasamfélaginu okkar sé mikilvægi færni í beitingu tungumálsins ofmetin? Er tungumálið smám saman að leita einföldunar?
Getur það verið að þær uppeldisstefnur sem unnið er eftir í leikskólum, t.d. svokölluð Reggio-Emilia stefna, séu bara hreint ekki að virka?
Á þessu sviði finnst mér nauðsynlegt að byrja að rannsaka. Kannski er það búið, hver veit? Ef svo er væri gaman að skoða niðurstöðurnar.

2. Hvernig má það vera að svo stór hluti barna sem raunin virðist vera, samkvæmt könnuninni getur ekki lesið sér til gagns eða yndis við fimmtán ára aldur? Er skýringarinnar að leita í einhverju sem gerðist á máltökuskeiðinu,  þeim námskenningum sem unnið er eftir (t.d. uppgötvunarnám**), lestrarkennslu í molum, tölvunotkun, starfsfólki sem ekki veldur starfi sínu, almennri upplausn í samfélagsgerðinni? Ef stór hluti að skólagöngu barna í leikskóla og fyrrihluta grunnskólans fer í að fjalla um tilfinningar, innsæi, tjáningu án orða, rökhyggju og kerfishugsun (sjá Reggio-Emilia), fer þá ekki eitthvað forgörðum, sem síðara nám krefst. Ef máltökuskeiðið (sá tími ævinnar sem barn er móttækilegast fyrir að tileinka sér tungumálið) fer að einhverju leyti forgörðum má álykta sem svo að framhaldið geti orðið erfitt, nema því meiri áhersla verði lögð á tungumálið síðar.  Mér finnst þetta nú afskaplega rökrétt. Börn verða ekki alltaf börn og þar kemur að til þeirra eru gerðar kröfur um að þau búi yfir þekkingu og færni til að geta tekist á við nám, störf og líf sem fullvaxta, ábyrgir einstaklingar. Ef þeir geta ekki lesið, tjáð sig með orðum, þannig að mark sé á takandi, verð ég að gera ráð fyrir að þeir rekist á veggi.
Þetta samhengi allt þarf að rannska svo hægt sé að tala um það á einhverjum vitrænum grundvelli og að skoðanir séu ekki afgreiddar sem bull og vitleysa.

3. Hversvegna koma strákar talsvert ver út en stelpur í könnuninni?
Er það vegna þess að þeir eiga í eðli sínu erfiðara með nám? Er það vegna þess að sá rammi sem skólinn er, hentar þeim ekki? Er meðferð skólakerfisins á þeim með einhverjum öðrum hætti en meðferðin á stelpum? Getur það verið að skólinn sé kvenlæg stofnun, með kvenlæg gildi, kvenlæga sýn  og kvenlægar aðferðir við nám, sem strákar í eðli sínu finna sig ekki eiga samleið með?  Getur verið að strákar haldi síður áfram í námi og gangi ver, vegna þess að sú mynd af náminu sem þeir fá í gegnum 14 ára mótun kvenna (meira og minna), gengur gegn eðli þeirra?  Gengur skólinn í of miklum mæli út frá því, að strákar og stelpur séu, að upplagi, eins?
Tölvunotkun hefur verið tiltekin sem mikilvægur þáttur í þeim mun sem þarna kemur fram og það má vel vera. Ég stóð sjálfur að könnun á tölvunotkun meðal hóps  framhaldsskólanema s.l. vor, og þar kom í ljós, mér til undrunar, að stelpur nota jafn mikinn tíma í tölvum, fyrir utan námstengda notkun, og strákar.

Ég get sjálfsagt haldið lengi áfram um þessi mál, mörgum til armæðu, og hver veit nema ég taki næst fyrir efniviðin sem framhaldsskólinn fær til að vinna úr, eftir að fólk hefur varið 15 árum með ástríkum foreldrum, velmeinandi leikskólum, og alltumlykjandi grunnskólum.  Þar er ótal spurningum ósvarað, t.d. hvort framhaldsskólinn sé í takt við það sem á undan er gengið? Þetta þarf að rannsaka áður er eitthvað er fullyrt út í bláinn.



* Reggio-Emilia- stefnan:    Í héraði á Ítalíu varð til eftir síðari heimstyrjöldina leið/stefna í uppeldi ungra barna sem hefur notið vaxandi athygli víða um lönd. Þessi uppeldisstefna er kennd við hérað á Ítalíu þar sem hún varð til og nefnist Reggio Emilia. Stefnan spratt upp að frumkæði foreldra sem var umhugað um að fasismi næði aldrei aftur að höfða til fólks. Þeir stofnuðu leikskóla sem áttu að ýta undir gagnrýna hugsun barnanna. Sálfræðingur að nafni Loris Malaguzzi var helsti höfundur að hugmyndafræði leikskólanna í Reggio Emilia. Hann gagnrýndi vestrænt skólakerfi og menningu og sagði hefðbundna skólann byggja á rökhyggju og kerfishugsun og að of rík áhersla væri lögð á tungumálið. Ekki væri litið til tilfinninga og innsæis, tjáning án orða ætti sér ekki viðreisnar von í hinu almenna skólakerfi, hugur og líkami væru aðskilin. Malaguzzi varð strax hugmyndafræðilegur leiðtogi leikskólanna sem átti eftir að fjölga. Starfið í skólunum var mótað af heimspeki, sálfræði, vísindum og listum. Uppeldisstarf Reggio leikskólanna byggist á hugmyndum Malaguzzi, auk kenninga Piaget, Dewey, Celestine, Freinet, Bruno Giari og Gianni Rodari (Berglind Káradóttir o.fl. 1994-5:4).
Malaguzzi lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að örva sjón og skynjun barns fyrir vitsmunaþroska þess. Skynjun er börnum mikilvæg til að geta tengt hluti og atburði fyrri reynslu. Barnið þarf að fá að vera sjálfstætt þegar það túlkar reynslu sína og upplifun, fullorðnir verða að varast að stýra skoðunum barna um of. Markviss örvun sjónskyns leiðir til lifandi og skapandi hugsunar sem er í senn hugmyndarík og raunsæ (Börn hafa hundrað mál 1988:7-8). Þannig beinist uppeldisstefna Reggio mjög að auganu sem sér og hendinni sem framkvæmir. Augað sér það sem höndin framkvæmir og tengir allt við þá heild sem heilahvelin mynda, það vinstra með orðagreiningu og það hægra með myndskyni sínu (Börn hafa hundrað mál 1988:14-15).*Uppgötvunarnám: 
** Uppgötvunarnám: Sú kennsluaðferð sem Jerome S. Bruner lagði áherslu á hefur verið kölluð uppgötvunarnám (e. learning by discovery). Að mati Bruners tileinkar nemandinn sér skipan námsefnis best með uppgötvunarnámi. Nemandinn leitar sjálfur að lausn viðfangsefna og aflar þekkingar til að svara spurningum sem vekja áhuga hans. Þessi kennsluaðferð er í eðli sínu aðleidd aðferð. Í framhaldi af þessu talar Bruner fyrir svokallaðri spíralaðferð við framsetningu á námsefni og þeirri skoðun sinni að kenna skuli undirstöðuatriði, meginlögmál eða „strúktúr“ fræðigreinar í stað einstakra þekkingaratriða. Nemandinn á ekki að læra að hrúga upp staðreyndum, hann á að læra að skipa staðreyndum í kerfi og nýta á þann veg þekkingu sína á tilteknum grundvallarlögmálum. Grundvallarhugsun hjá Bruner var að allar kennslufræðikenningar yrðu að ganga út frá sýn á þroska mannsins (Bruner, 1966). Hann leit einnig svo á að nám væri virkt, félagslegt ferli þar sem einstaklingurinn skapar nýjar hugmyndir og hugtök sem byggð eru á fyrri þekkingu. Félagsleg samskipti, í ólíku samhengi, eru lykilatriði í námsferlinu.

03 desember, 2013

Dramb er falli næst

Ég gæti líka tekið jákvæða nálgun á reynslu mína í dag með því að beita orðatiltækinu: Svo lengi lærir sem lifir.

Forsagan er sú að ég fór í vinnuna sem fyrr á þessu hausti og búinn með sama hætti og venja stendur til, en búnaðinum mun ég ekki lýsa því það gengi of nærri virðingu minni.
Veður var bara nokkuð gott; hafði snjóað lítillega og gekk á með rólyndislegum éljum. Allt eins og vera bar og ég sinnti minni vinnu.

Um miðjan morgun hringdi samstarfsmaður sem var á leið úr höfuðborginni yfir Mosfellsheiði, miður sín yfir að hafa ekið bifreið sinni út af í dimmu éli "um 10 mínútur frá Þingvöllum". Hann reyndist þó heppinn þar sem hann fékk fljótlega aðstoð við að koma bifreiðinni upp á veginn og kom í til vinnu á tilsettum tíma, nokkuð skekinn af reynslunni.
Í hádeginu gekk ég síðan nokkuð djarflega fram í að skjóta á borgarbarnið fyrir klaufaskapinn. Vísaði ég til dæmis til þess að svona væri það þegar fólk úr 101 færi í bíltúr upp í sveit og þar fram eftir götunum. Samstarfsmaðurinn tók þessu öllu vel þó ég viti nú ekki hvernig honum varð innanbrjósts við skotin.
Hádegið leið og ég þurfti að bregða mér stuttan spöl á Qashqai, en nú voru élin orðin þéttari og meiri. Á leið minni til baka gekk yfir svo mikið él að ég sá lítt út um framrúðuna, og þar sem ég var að beygja inn heimreiðina að vinnustaðnum, fann ég skyndilega að Qashqai fór fram af einhverju og í sama mund áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hitt á heimreiðina og var kominn útaf. Ég ek nú á fjórhjóladrifinni bifreið, svo ég taldi þetta ekki verða mikið mál og þar sem ég þekkti staðhætti vel, gaf ég bara í til að freista þess að komast upp á heimreiðina. Þá kom auðvitað í ljós að það hafði skafið í kantinn og þar var kominn alldjúpur skafl, sem, þegar upp var staðið, reyndist fjórhjóladrifnum kagganum mínum ofviða. Ég reyndi auðvitað allt, með engum árangri, yfirgaf loks farartækið og staulaðist í gegnum skaflinn í kantinum og upp á heimreiðina í þann mund er élinu slotaði. Þarna blasti Qashqai við hverjum sem sjá vildi, æpandi vitnisburður um einstakan klaufaskap. Hver myndi svo sem trúa því að élið hefði verið svo dimmt sem það var?
Auðvitað komst ég svo að því að fólk glotti, tísti, kumraði og skellihló að aðstæðum mínum. Ég reyndi að hlæja með, en hið innra blasti við allt önnur mynd.
Sannarlega voru menn boðnir og búnir til að aðstoða og á endanum skaust Qashqai úr skaflinum, með aðstoð Kirkjuholtsbóndans. Endirinn var vissulega góður, en lexía dagsins var þörf: Ég mun framvegis sýna fyllstu hluttekningu þegar samferðamenn mínir lenda í óhöppum í aðstæðum sem ég þekki ekki.
  

23 nóvember, 2013

Sagan um veggspjaldið

Þessi texti, sem fjallar um aðdraganda þess að veggspjaldi, í tilefni af geðræktaarári Heilsueflandi framhaldsskóla, var komið fyrir í Menntaskólanum að Laugarvatni. Frásögnin var sett saman í tilefni af Jólahlaðborði STAMEL og ML og flutt um borð í fólksflutningabifreið GT á leiðinni frá Kvistholti í Efstadal. Ég geri ekki ráð  fyrir að neinn sem ekki er kunnugur málum í skólanum hafi gagn eða gaman af því að lesa þennan texta, en ég set hann hér eiginlega í geymslu.
En svona hljóðar þessi frásögn: 

Ég hef ágætan skilning á því að andrúmsloftið í Menntaskólanum að Laugarvatni hafi verið dálítð rafmagnað undanfarna 10 daga eða svo. Fyrir því eru góðar og gildar ástæður sem ég ætla að reyna að gera grein fyrir að hluta til á þessum vettvangi. Þetta er ef til vill áhættuatriði hjá mér, enda verð ég óhjákvæmilega að snerta ýmsa strengi sem eru mis viðkvæmir.

Þetta hófst, eins og það snýr að mér, þegar fyrir lá að hreyfingarárinu var að ljúka og geðræktarárið var framundan. Ég fór að heyra utan að mér að einhverjar breytingar væru í farvatninu á stýrihópnum. Þetta heyrði ég hvískrað í nágrannaskrifstofunni - engin bylting, en svona lítilsháttar andlitslyfting.

Formlega frétti ég ekki af neinum hrókeringum fyrr en ég fékk póstinn. Þar var almennur inngangur og í beinu framhaldi kom þetta:
Nú er verkefnið geðrækt eins og við vitum. Í ljósi verkefnisins og tengsla geðheilbrigðis við mætingar, ástundun og almenna líðan ert þú til í að .... vera í hópnum ?
Einstaklega vel undirbyggt, reyndar svo vel að ég sá enga undankomuleið – og svaraði því póstinum efnislega í lítillæti mínu, og var síðan boðin sálfræðiaðstoð í svari við svarinu.

Þarna fór boltinn að rúlla – við tók málþing um geðræktarárið þar sem kynnt var til sögunnar veggspjald, sem skólar gátu fengið sér að kostnaðarlausu – 1.30x2 – með ýmsum gagnlegum upplýsingum fyrir nemendur – ég og annað hópsfólk vorum á því að þiggja veggspjaldið. Það var ekki mikið testósterón á þessu málþingi. Hví?

Segir nú ekki af þessum málum fyrr en fyrir um þrem vikum, þegar pósturinn tilkynnti um stóran pakka á pósthúsinu á Selfossi, sem hann kæmi ekki í póstbílinn. Það var samdóma álit þeirra sem um fjölluðu innanhúss, að það væri gagnrýnisvert að senda svo stóran pakka með póstinum og ýmislegt fleira var sagt.

Segir nú ekki af þessum pakka fyrr en morgun einn þegar hann hafði ratað inn á skrifstofu skólameistara. Þarna reyndist maðurinn hafa átt leið á Selfoss á jeppanum. Þar tók hann pakkann, sem var reyndar alltof stór fyrir stórt farartækið. Það var ekki látið skipta máli, inn fór pakkinn, 1.30x2 þannig, að hann lá eftir jeppanum endilöngum og var sveigður yfir bílstjórasætið. Ég leyfi fólki síðan að ímynda sér þær aðstæður sem öðrum ökumönnum á Biskupstungnabraut og Laugarvatnsvegi voru búnar síðdegis þennan dag.

Næstu daga var minnst á þennan pakka, veggspjaldið, við og við, í skrifstofuumhverfinu. Ég fékk það dálítið á tilfinninguna að þarna væri kominn heitur pakki. Heita pakka þarf að meðhöndla gætilega, með þykkum vettlingum eða pottaleppum. Tilvera pakkans kom til umræðu á skrifstofu skólameistara, en þar gat hann augljóslega ekki átt framtíðarstað. Tilvera hans kom einnig til tals á skrifstofusvæðinu að öðru leyti. Þá jafnvel upp úr eins manns hljóði, sem viðbrögð við tölvupóstum. Dagarnir liðu og að því kom að tölvupóstar voru sendir á fleiri aðila og þar kom málið inn á mitt borð, vegna tengsla minna við geðræktarárs stýrihóp um heilsueflandi framhaldsskóla.

Þarna hófst eiginlega atburðarás sem fullvissaði mig um mikilvægi þess að halda svona geðræktarár. Ég treysti mér ekki, á þessum vettvangi til að lýsa, eða vitna í sendingarnar eða hver sagði hvað. Þarna var komið upp eitthvað, sem hljómaði svo einfalt en var samt svo flókið.

Í grunninn snerist umræðan um heppilegan stað fyrir veggspjaldið, sem var 1.30x2. Aðilar máls færðu rök fyrir skoðunum sínum og rök gegn skoðunum hinna eða hins. Ég leyfði mér að koma lítillega inn í umræðuna, ekki síst til að slá aðeins á hitann. Auðvitað fikraði ég mig varlega inn á hverasvæðið, enda beggja megin borðs, eins og reyndar í mörgum málum innanhúss. Ég leik nefnilega tveim skjöldum.








Margt væri hægt að ræða um póstsendingarnar í aðdraganda ákvörðunar um staðsetningu veggspjaldsins sem ekki er tími til að rifja upp hér, en með réttu eða röng kom þetta kvæði Gríms Thomsen, "Á Glæsivöllum", upp í hugann nokkrum sinnum:


Hjá Goðmundi á Glæsivöllum
gleði er í höll,
glymja hlátra sköll
og trúðar og leikarar leika þar um völl
en lítt er af setningi slegið.
Áfengt er mungátið
og mjöðurinn er forn,
mögnuð drykkjarhorn,
en óminnishegri og illra hóta norn
undir niðri er stiklunum þruma.
Á Grími enum góða
af gulli höfuð skín,
gamalt ber hann vín
en horns yfir öldu eiturormur gín
og enginn þolir drykkinn nema jötnar.
Goðmundur kóngur
er kurteis og hýr,
yfir köldu býr.
Fránar eru sjónir en fölur er hans hlýr
og feiknstafir svigna í brosi.
Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt.
En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.
Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógværi fylgja orð,
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð
brosir þá Goðmundur kóngur.
Náköld er Hemra
því Niflheimi frá
nöpur sprettur á.
En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,
kalinn á hjarta þaðan slapp ég.
                                  (Grímur Thomsen)

Ekki dettur mér í hug að halda því fram að umfjöllunarefni kvæðisins eigi sér einhverja skírskotun í samskpti starfsfólks skólans. Mér fannst hinsvegar í lagi að lesa þetta kvæði í því samhengi sem er hér til umræðu, ekki síst í montvímunni eftir niðurstöður ráðuneytisúttektar.

Svo er það aftur að veggspjaldinu.

Um tíma virtist stefna í óefni með ákvörðun um staðsetninguna. Hugmyndir um staðsetningu fólu í sér mis mikla virðingu fyrir veggspjaldinu. Það má ímynda sér, t.d. að sú hugmynd að setja það upp á þröngum gangi kæmi til af reynslunni af flutningnum frá Selfossi. Við þessar aðstæður sá ég fram að að þurfa að beita mér af yfirveguðum þunga í málinu. Þarna sendi ég því frá mér tvo pósta og ég er eindregið þeirrar skoðunar að þeir hafi ráðið úrslitum um staðarvalið:

Í þeim fyrri segir svo:
Ég vil nú svo sem ekkert sérstaklega vera að velja á milli sjónarmiða að þessu leyti, en hallast þá að því að það væri skynsamlegra, í ljósi stöðu stofnunarinnar á Geðræktarári í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, að setja spjaldið á áberandi stað, sem ég á erfitt með að fallast á að gangurinn við fyrirlestrasalinn falli undir.

Í þeim síðari, sem endanlega gerði út um málið, að mínu mati, sagði ég þetta:
Föstudagsmorgunninn fíni
Er fullur af múskati,
gremju og dulitlu gríni
og geðræktarplakati.
Fyrir þá sem ekki þekkja muninn á múskati og matarsóda þá er múskat krydd sem maður notar lítið af og því má segja að þar sem vísan greinir frá morgni sem var fullur af múskati, þá hafi verið heldur mikið kryddað.

Það var ákveðið að setja veggspjaldið á vegginn á móti matsalnum. Þar með fór þetta stóra mál yfir á framkvæmdastig. Það þýðir nú samt ekki að fullrætt væri allt sem ræða þurfti.

Þar hefst í raun annar kafli frásagnar og mér er til efs að hægt sé að leggja þá frásögn á þennan hóp við þessar aðstæður.

Það sem þurfti að gera til að veggspjaldið kæmist upp var aðallega tvennt:
     A. Það þurfti að skrifa inn á það upplýsingar sem er sérstakar fyrir okkar svæði.
     B. Það þurfti að koma því á sinn stað með fagmannlegum hætti.

Í staðsetningarákvörðunarferlinu var aðeins eitt sem þurfti að ákveða, og því er lýst nokkuð hér að framan. Nú þurfti að ákveða tvennt sem síðan þurfti að framkvæma. Mér þótti vandséð hvernig það gæti gengið, enda kom í ljós að það ferli varð síst einfaldara en hitt.

Hópsformaðurinn tók saman, í talsvert löngu máli, upplýsingar um helstu stofnanir og fyrirtæki í grenndinni sem honum þótti rétt að geta á veggspjaldinu – sendi þessar þetta tillögur sínar á hópinn með óskum um athugasemdir eða fleiri tillögur, með engum árangri, en það eru nú yfirleitt örlög slíkra tölvupóstsbeiðna. Þannig stóð það mál þegar kom að því að ákveða hver skyldi rita upplýsingarnar á veggspjaldið. Þar reyndust margir kallaðir, en aðeins einn var á endanum útvalinn, en þá var staðan orðin sú, að sá sem fenginn hafði verið til að setja veggspjaldið upp (það mál var afgreitt á hinni stóru skrifstofunni) kom til að framkvæma verkið, þá hafði skriftarmálið ekki verið útkljáð, sem kostaði þar með fýluferð uppsetningarmannsins.

Það mun hafa verið skotið á stuttum fundi til að stilla saman strengi. Tími var ákveðinn, skrifarinn fékk embættið og allt var klárt. Sú yfirlýsing uppsetningarmannsins, að hann kæmi ekki fet fyrir en búð væri að ganga frá skriftinni, varð síður en svo til að tefja fyrir framkvæmd hennar.

Veggspjaldið var lagt á borð í mötuneytinu. Því næst þurfti að ræða margt:

Hve nákvæmar ættu upplýsingarnar að vera
Hvernig átti að raða þeim
Átti skriftin/letrið/upplýsingarnar að halla með tilteknum hætti
Hve stórt ætti letrið að vera, átti það kannski að vera misstórt
Átti að skrá þarna einkafyrirtæki.
Hve langan tima átti ritarinn að fá til að æfa sig.
Það má nærri geta að þetta ferli allt tók á, en ég var þarna þátttakandi í aukahlutverki, silent partner, en með tillögurétt.

Þegar settur hefur verið lokafrestur á verk þá lýkur því á lokafresti á Íslandi, ekki fyrr og ekki seinna. Þannig var það einnig með þetta verk.

Uppsetningarmaðurinn kom fet á tilsettum tíma og tókst á við sinn hluta verkefnisins af festu. Verk hans hefði ekki gengið jafn vel og raun bar vitni ef ekki hefði komið til ómetanleg aðstoð frá brytanum, sem var matarlega séð með allt á hreinu fyrir hádegisverðinn og mér, sem hef innsýn í ótrúlegustu kima mannlífsins – hokinn af reynslu og víðsýni.

Veggspjaldið er komið upp og fyrir óinnvígða gerðist að algerlega hnökra- og vesenislaust. Sagan hér að framan greinir frá litlu broti þess sem gerðist undir niðri.

Ég gæti auðveldlega tekið fyrir önnur mál sem hafa verið ofarlega í umræðunni innan stofnunarinnar að undanförnu. Það verður að bíða betri tíma. Eitt þeirra er enn á tölvupóststigi og þar er heldur bætt í en hitt.


Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...