11 október, 2014

Verkir í lendum og mjaðmargrind.

Ekki var ég nú alveg viss um hvað var framundan þar sem ég sat í stofu D2-106 í Álaborgarháskóla föstudaginn 2. október síðastliðinn. Sannarlega vissi ég að næstelsti sonurinn, Þorvaldur Skúli, myndi þarna verja doktorsverkefni sitt og í framhaldinu líklegast fá doktorsnafnbót. Umrætt verkefni ber yfirskriftina "Lumbopelvic pain - sensory and motor aspects".  Ekki ætla ég mér nú að fara að lýsa innihaldi eða tilgangi verkefnisins, en í sem stærstum dráttum fjallar það um tiltekið verkjamódel sem var notað til að rannsaka hvort og hvernig sársauki í lendum og mjaðmagrind breytir niðurstöðum í tilteknum greiningarprófum.
Í stofu D2-106 var samankominn um 30 manna hópur til að fylgjast með vörninni, bæði fulltrúar fjölskyldnanna sem standa að doktorsefninu og fyrrum og núverandi kollegar hans auk einhverra nema í þeim fræðum sem þarna er um að ræða.
Áður en athöfnin hófst setti yngsti Kvisthyltingurinn, sá sem hefur menntað sig í miðlun, upp samband við internetið, sem olli því auðvitað að áhugasamir gátu fylgst með öllu sem fram fór.

Svo hófst athöfnin með því að Thomas Graven-Nielsen, prófessor, sem hélt utan um athöfnina, bauð fólk velkomið og greindi frá því sem þarna myndi fara fram. Hann kynnti til sögunnar andmælendur eða matsnefnd, þau Dr. Lieven Danneels frá háskólanum í Ghent í Belgíu og Dr. Britt Stuge frá Háskólasjúkrahúsinu í Osló og formann hópsins Parisa Gazerani, dósent, frá Álaborgarháskóla.
Þessu næst hófst 45 mín. fyrirlestur Þorvaldar, sem var skreyttur með viðeigandi glærum.


Að loknu stuttu hléi tóku andmælendur til máls, fyrst Dr. Britt Stuge. Hún fór yfir ýmsa þætti í verkefninu með gagnrýnum hætti og kallaði eftir svörum og útskýringum, en þetta fór þannig fram að hún talaði úr sæti sínu en Þorvaldur stóð berskjaldaður og þurfti að bregðast við athugasemdum og spurningum.
"Hér stend ég og get ekki annað"
Meðan á þessum þætti stóð vaknaði alloft með móðurinni, sem þarna var auðvitað stödd, þörf á að láta hendur skipta gagnvart andmælandanum, en til þess kom ekki.  Þegar Dr Britt hafði lokið sér af, tók Dr Lieven Danneels við og kallaði sömuleiðis eftir skýringum á ýmsu og gagnrýndi sumt. Þessi hluti athafnarinnar tók upp undir 2 klukkustundir og tók nokkuð á.

Formaður nefndarinnar tilkynnir
niðurstöðu nefndarinnar.
Fv. Parisa Gazerani, Dr. Britt Stuge,
 Dr. Lieven Danneels
Andmælendur drógu sig síðan í hlé til að ráða ráðum sínum, en öðrum viðstöddum var boðið til móttöku í tilteknu herbergi annarsstaðar í húsinu, sem reyndist ekki auðfundið, en fannst auðvitað að lokum. Þar hafði verið komið fyrir léttum veitingum og hópurinn sem þarna var stóð í kringum borðið og beið eftir að niðurstaðan yrði kunngjörð. Eftir um 20 mínútur gengu andmælendur í salinn og formaðurinn tilkynnti að Þorvaldur hefði fullnægt kröfum og væri þar með orðinn doktor.
Þessu næst setti Professor Thomas  þennan undarlega hatt á höfuð Þorvaldar (setti hann ekki rétt á, nema það sé svona sem Danir setja svona hatta á fólk) og íklæddi hann svarta skikkju. Hann flutti síðan ávarp, en hann var leiðbeinandi Þorvaldar í doktorsverkefninu.
Þá gerðu gestirnir veitingum góð skil áður en heim var haldið.

Þarna var hápunktur langs ferils sem hófst í raun með meistaranámi í Perth í Ástralíu og síðar í Osló.
Það sem ekki síst gerði Þorvaldi kleift að vinna að þessu verkefni var ríkulegur styrkur sem hann fékk árið 2012 frá frændum okkar Dönum, en hann kallast EliteForsk rejsestipendium. Þorvaldur hlaut þennan styrk fyrstur Íslendinga og fyrstur sjúkraþjálfara í Danmörku.

Ég þarf væntanlega ekkert að fjölyrða um það, en við foreldrarnir og fjölskyldan öll erum afar stolt af okkar manni og einnig stoð hans og styttu í gegnum þetta, henni Ástu Huldu.


21 september, 2014

Hörður (að verða) 80

Á morgun, þann 22. september, fagnar Hörður Vignir Sigurðsson áttræðisafmæli. Hann er einn þeirra sem hafa verið samferðamenn Laugarásbúa af minni kynslóð nánast alla ævi. Ég mun hafa verið 10 ára þegar fjölskyldan flutti í Gamla bæinn í Hveratúni, Hörður, þrítugur og Ingibjörg tuttugu og fjögurra ára, með synina Atla, fjögurra ára og Bjarna, tveggja ára.
Ári eftir að þau fluttu bættist Kristín síðan við hópinn. Hörður og Ingibjörg eða Ingibjörg og Hörður finnst mér hafa markað upphaf þeirrar miklu fólksfjölgunar sem varð í Laugarási á síðari hluta sjöunda áratugarins.

Í Gamla bænum bjuggu þau í um það bil 3 ár en fluttu þá í húsið sem þau höfðu komið sér upp í Lyngási, norðan Laugargerðis, vestan Skálholtsvegar, í og undir Kirkjuholti.
Landið sem Lyngás stendur á er 1,4ha. Gróðurhúsið sem þau Lyngáshjón byrjuðu með svo fljótt sem mögulegt var eftir flutninginn, var um 800m² (br.) , pökkunarskúrinn/aðstöðuhúsið var byggt 1965, og hitt gróðurhúsið sem byggt var, er rúmir 400² , en það reis 1974.

Skúrinn og gróðurhúsið
í Lyngási 1970
Mér finnst ræktunin í Lyngási hafi alltaf verið blóm og þá aðallega krysi og jólastjarna, löngum bæði þannig að þessar tegundir voru seldar sem græðlingar til framhaldsræktunar og einnig í endanlegri mynd. Ég var á einhverjum tíma sumarstarfsmaður hjá þeim og veit því örlítið um þetta.







Það sem sést af íbúðarhúsinu
í Lyngási, 2014




Eins og lífið gengur nú fyrir sig þá kom að því að aldur þeirra hjóna kallaði á breytingar og fyrir 12 árum fluttu þau í Hveragerði, þar sem þau búa enn.
Lyngás er hér enn og gegnir nú talsvert ólíku hlutverki. Fyrsta gróðurhúsið þeirra er orðið að minningu, hitt gegnir óræðu hlutverki, og pökkunarskúrnum hefur verið breytt í einhverskonar vistarverur.


1984 fluttum við Kvisthyltingar í næsta nágrenni við Lyngás. Börnin okkar fengu ekki síst að njóta þessa nágrennis, en á það bar aldrei skugga.

Eftir að þessi ágætu hjón fluttu í Hveragerði hafa samskiptin dregist saman, enda er Hveragerði þannig í sveit sem að maður er annaðhort að "drífa sig í bæinn" eða að "drífa sig heim". Það var þessvegna kærkomið að fá að komast í myndasafnið hjá Ingibjörgu og hafa þar með beinlínis skothelda ástæðu til að kíkja í heimsókn til þeirra á þessu ári.

Lyngásfjölskyldan 1969

11 september, 2014

Ekki sáttur

Ég er maður sem fylgist með stefnum og straumum, enda löngu búinn að átta mig á því að þeir sem gleyma sér smá stund í tíma sem löngu er liðinn (eða ekki svo löngu) eru óðar orðnir á eftir að flestu leyti, ekki aðeins tæknilega heldur einnig í hugsun, málbeitingu og flestu því öðru sem því fylgir að lifa og starfa í nútímanum. Lengi gæti ég nú fjallað um þetta eins og margt annað, en það bíður eftirlaunaáranna. Nú er það hraðinn sem gildir; snaptsjattshraðinn.

Fyrir skömmu átti ég leið um Egilsstaði og Hallormsstað ásamt fleira fólki. Þar sem það fólk kemur við sögu hér síðar þá er bara best að geta þeirra: Hveratúnsbændurnir Sigurlaug og Magnús, tenórinn Egill Árni og píanóleikarinn Hrönn. Þarna vorum við á ferð í ágætum bíl Einbúablárhjónanna Sæbjörns (Mannsa) og Arndísar (Dínu) og þar sem veðrið var með slíkum eindæmum að annað eins höfðum við ekki upplifað sunnanlands misserum saman, varð úr að við renndum í Atlavík.
Sá staður, við þessar aðstæður, var eiginlega draumkenndur, ekki aðeins fyrir fegurðar sakir og veðurs, heldur einnig vegna blámóðu loftsins og drapplits Lagarfljótsins.

Við svona aðstæður er fyrsta hugsun nútímamannsins að taka af sér sjálfsmynd til dreifingar, svo aðrir geti notið hennar með honum. Þarna voru nútímamenn á ferð og viðþolslitlir drifu ferðalangarnir sig úr bifreiðinni og niður á vatnsbakkann og hófu að taka sjálfsmyndir. Og þeir tóku sjálfsmyndir, og þeir tóku sjálfsmyndir og síðan tók við tími sem fór í að séra þessum myndum, öðrum til ánægju.

Um þessa mynd er lítillega fjallað í textanum.
Ég er auðvitað nútímamaður og sem slíkur var ekki um annað að ræða hjá mér en að taka sjálfsmynd(ir), sem ég  gerði auðvitað, þó svo þetta sé einn þeirra þátta í fari nútímamannsins sem ég hef enn einna minnsta skilninginn á.

Ég, ólíkt sumum hinna, séraði myndunum ekki og hafði það svo sem ekki einusinni í hyggju, taldi myndefnið ekki vera þess eðlis að það ætti erindi í almenna dreifingu.
Það var, sem sagt, sérað og síðan fóru sérarnir að keppast um hver fengi flest lækin, svona rétt eins og gengur og gerist.  Og ekki meira af því, utan eftir á að hyggja þá velti ég fyrir mér, hvort það var náttúrufegurðin eða sjálfsmyndirnar, sérin og lækin, sem héldu athygli ferðamannanna mest.

Það var haldið heim á leið og daginn eftir varð mér litið í símann minn (já, ég á snjallsíma með myndavél). Þá blasti þar við mér einstaklega vel heppnuð sjálfsmynd og þar með varð ekki aftur snúið.
Ég séraði sjálfsmyndinni með þessum hætti:

Það var eins og við manninn mælt, miðillinn logaði fram eftir kvöldi og næsta dag, bæði af lækum og kommentum. Annað eins hef ég ekki reynt á þessum vettvangi og neita því auðvitað ekki, þó svo sjálfsmyndinni hafi verið sérað í hálfkæringi, að viðbrögðin kitluðu og eftir þau er ég líklega orðinn meiri nútímamaður. Uppskeran varð 113 læk og 16 komment. Kommentin voru sum þess eðlis að ég roðnaði með sjálfum mér og lyftist allur að innan, en hvorki lét né læt á neinu bera hið ytra.

Sagan er hinsvegar ekki öll.

Skömmu eftir þetta átti Hveratúnsbóndinn afmæli. Hann er reyndar bróðir minn, fyrir þá sem ekki vita. Eins og vera bar streymdu inn að prófílinn hans hlýjar afmæliskveðjur. Allt í lagi með það.
Sjálfsmynd Hveratúnsbóndans, sem vikið er að í textanum.
Eins og vera ber þakkaði maðurinn svo fyrir allar kveðjurnar daginn eftir og lét þar fylgja með sjálfsmynd sem hafði verið tekin við áðurnefnt tilvik í Atlavík. Þessi sjálfsmynd komst auðvitað ekki í hálfkvisti við mína fínu mynd, Bæði var, að uppbygging myndarinnar fullnægði ekki stöðlum góðrar sjálfsmyndar og myndefnið skorti einfaldlega hinn rétta tón.
En viti menn.
Lækin og kommentin streymdu að og nú er þarna að finna 119 læk og 17 komment!

Ég hef velt talsvert fyrir mér ástæðum þessa sigurs bróður míns, en ekki fundið neina haldbæra, utan þá að þarna bættust við nokkrir sem höfðu gleymt að óska honum til hamingju með afmælið og reyndu þarna að bæta úr, eftir því sem kostur var, með þessum hætti.

-------------------------------------------------

Varnagli: Ég vona að lesendur átti sig á raunverulegum tilgangi mínum með þessum skrifum. Áður en þeir túlka þennan tilgang  með neikvæðum hætti, þætti mér vænt um að fá að heyra frá þeim.

06 september, 2014

Fóstbræður stíga af sviðinu

Sigurður Bjöndal og Skúli Magnússon
(gæti verið tekin skömmu eftir 1930)
Í dag er Sigurður Blöndal á Hallormsstað borinn til moldar. Hann fæddist 3. nóvember 1924 og lést á nítugasta aldursári, þann 26. ágúst, s.l.
Sigurður var skógtæknifræðingur að mennt og var skógarvörður á Hallormsstað og síðar skógræktarstjóri ríkisins.

Pabbi kallaði hann fóstbróður sinn.

Um svipað leyti og Sigurður fæddist kom pabbi í fóstur í Mjóanes til Sigrúnar og Benedikts, foreldra Sigurðar, sem þá voru nýflutt frá Eiðum. Þá var hann um það bil sex ára gamall. Hann ólst síðan upp hjá fjölskyldunni þar til hann hélt suður á bóginn í lok árs 1939.

Uppeldi þeirra fóstbræðra varð til þess að báðir gerðu gróður jarðar að ævistarfi hvor með sínum hætti.

Ég læt hér fylgja gamlar myndir af þeim félögum, fjölskyldunni á Hallormsstað og af Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.

Eftir langar og farsælar ævir létust fóstbræðurnir með stuttu millibili nú í ágúst,.

Sigrún, Sigurður, Skúli og Benedikt.
(Ég giska á að þessi sé tekin 1936-8)

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað.
(Þeir sem eru góðir í að þekkja árgerðir bíla gætu fundið út hvenær þessi
mynd var tekin).

31 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (2)

Skírn 2014
Það sem fer hér á eftir getur seint talist neinn skemmtilestur, en þeir fá hrós sem klára. :) 
-------
Ég held að pæling mín í fyrri hluta þessa pistils hafi reynst nokkuð gagnsæ, en til upprifjunar þá hljóðaði hún upp á það að í einhverjum skilningi hefði ég verið hænsnahirðir stærstan hluta ævi minnar.  Fyrsta reynsla mín í því starfi var hænsnaumhirðan í Hveratúni í æsku, en síðan valdi ég mér nám og starfsvettvang sem leiddi mig að störfum í skólakerfinu, síðustu tæpu 30 árin í heimavistarframhaldsskóla á  Suðurlandi, nánar tiltekið á  Laugarvatni. Það er þaðan sem ég hef séð einna mesta samlíkingu við starf mitt í æsku.

Inngangur 

Án þess að ég viti það með einhverri vissu, þá tel ég að í dýraríkinu, og þá aðallega meðal dýra sem eru hópsækin, þurfi þau dýr sem koma ný inn í hópinn að undirgangast einhverjar raunir, eða að sanna sig, áður en þau geta talið sig til hópsins. Þá er það alþekkt að dýr sem skera sig frá öðrum í hópnum, víkja frá því sem hópurinn telur eðlilegt, eiga erfiðara uppdráttar en önnur.  Ég þykist hafa heyrt eða lesið um að þetta teljist vera hluti af svokölluðu náttúruvali; gallaðir einstaklingar hafa síðri möguleika á að flytja erfðaefni sitt áfram (við slíkar aðstæður verður þá eineltið til, eitthvert mesta böl sem manninum fylgir, en sem verður líklega aldrei aflagt).
Skírn 2011
Hvað varðar það fyrrnefnda þá hefur maðurinn þróað með sér gegnum árþúsundin einhverskonar vígsluathafnir til að staðfesta fullgildingu einstaklinga inn í tiltekna hópa. Það er sama hvert litið er, hvarvetna þurfa einstaklingar að sanna sig til að öðlast hlutdeild í hópum.
Þeir gera það  með því að taka próf af einhverju tagi: bílpróf, stúdentspróf, háskólapróf, pungapróf, sveinspróf, meistarapróf, og svo framvegis.
Þeir gera það með vígslum eða formlegum inntökuathöfnum: prestvígslu, fermingu, skírn, doktorsvörn, svo einhver dæmi sú nefnd.
Þarna er um að ræða formlegar og viðurkenndar aðferðir við að taka fólk inn í hópa, þó svo samlíkingin við hænurnar mínar sé sannarlega sjáanleg.
Hugmyndirnar á bak við allar inntökuathafnir eða próf snúast auðvitað um að viðkomandi þarf að sanna með einhverjum hætti að hann sé þess verður að verða hluti hópsins.

Prófum og inntökuathöfnum má svo í grófum dráttum skipta í tvennt: formlegum og viðurkenndum, annarsvegar og óformlegum og ekki almennt viðurkenndum, hinsvegar.
Ég ætla að fjalla lítillega um um þessar síðarnefndu athafnir hér á á eftir.

Skírn 2011

"Busavígslur"

Hvað er busi?
Vísindavefur Háskólans svarar því svo:
Orðið busi hefur verið notað í íslensku frá því á 19. öld. Þá var það haft um stráka í neðsta bekk mennta- eða latínuskóla en nú er það haft jafnt um stráka og stelpur. Það er líklegast myndað af lýsingarorðinu novus ‘nýr’. Þágufall fleirtölu er novis en busi er hugsanlega myndað af síðari lið orðmyndarinnar novibus sem er ranglega myndað þágufall fleirtölu.
Þetta hugtak, "busi" merkir með öðrum orðum nýnemi, sem hefur komist í viðkomandi skóla á grundvelli fyrri afreka í námi, en á eftir að undirgangast innvígslu í samfélag þeirra nemenda sem fyrir eru í skólanum.  Þar með verða síðan til "busavígslur", sem eru eiginlega eins nálægt þeim raunum sem nýjar hænur í hænsnakofa þurfa að undirgangast og hugsast getur. Hugmyndin er væntanlega sú, að til þess að vera tækir í nemendasamfélagið þurfi nýir nemendur að standast ýmsar þolraunir. Það er ekki fyrr en að þeim loknum sem þeir teljast hæfir til að taka vígslu. Vígslan inn í nemendafélagið í Menntaskólanum að Laugarvatni felst í því að nýnemar eru vatni ausnir í Laugarvatni. Til verksins er notuð gömul skólabjalla og skírarinn (hávaxinn piltur úr 4. bekk) fer með texta á latínu (þó svo latína sé ekki lengur kennd í skólanum).
Skírn 2014

Skírnin hefur ekki verið umdeild og að mínu mati er hún afar skemmtileg hefð. Aðdragandi skírnarinnar; það sem nemendur hafa bætt við gegnum árin, er það sem umdeilt er og það með réttu.
Ég ætla ekki að eyða tíma í að lýsa því hvernig þessi aðdragandi hefur farið fram, ég hef talið að þær athafnir hafi ekki sýnt eldri nemendur í mjög jákvæðu ljósi.  Sannarlega hafa þeir litið á þær "hefðir" sem um hefur verið að ræða sem skemmtun eða grín og þannig hefur það verið, þegar grannt er skoðað. Þessi skemmtun eða grín, var hinsvegar klædd í einstaklega neikvæðan búning, sem einkenndist af dýrslegum öskrum og ógnandi búningum (svartir plastpokar og sósulitur), sem gerði, að mínu mati ekkert annað en gera lítið úr eldri nemendum og þar með námi þeirra í skólanum: þeir sýndu mátt sinn og megin með því að vísa beint í dýrslegt eðli, en ekki þroska hins menntaða einstaklings. Með öðrum orðum fólust þessar athafnir í því að þeir sem eldri voru og þroskaðri gerðu lítið úr sjálfum sér í stað þess að sýna fram á andlega yfirburði sína.
Skírn 2014
Í allmörg ár hafa skólayfirvöldin ljóst og leynt freistað þess að fara þá leið að vinna með nemendum að því að breyta innihaldi þeirra "hefða" sem mótuðust í aðdraganda skírnarinnar í vatninu og því er ekki að neita að það tókst að talsverðum hluta. Gleðin og galsinn varð stöðugt ríkari þáttur í uppákomunum. Það sem erfiðast og nánast ómögulegt reyndist, var að fjarlægja umbúnaðinn og þar skipti litlu þó ýmis gagnmerk rök væru færð fram. "Hefðunum" mátti ekki breyta, í það minnsta ekki með góðu. Þar kom til aðallega tvennt, að því er ég tel: annarsvegar vildi engin stjórn verða stjórnin sem átti þátt í að afnema "hefðirnar" og hinsvegar voru fyrrverandi nemendur ákafir í því að viðhalda þessum og héldu þeim skoðunum mjög á lofti - þar til þeirra börn nálguðust framhaldsskólaaldur.

Hvernig urðu svo þessar "hefðir" "busavikunnar" til?  Jú, þær voru eftirlíkingar á svipuðu fyrirbæri í öðrum framhaldsskólum, þar sem hver apaði eftir öðrum, en ekki upphugsaðar og mótaðar innan skólans.
-------------
Skírn 2011
Á þessu hausti sýndi stjórn nemendafélagsins þann kjark, að vinna með skólastjórnendum að því að umbylta aðdraganda skírnarinnar. Í stað svartra ruslapoka og sósulitar komu litríkir skrípabúningar og fastir þættir sem verið hafa undanfarin ár voru hreinlega skornir af og aðrir jákvæðari settir inn.  Á þessu hausti var þetta fyrirkomulag prufukeyrt, og mun vonandi mótast sem jákvæður þáttur í skólalífinu.

Grundvallaratriðið í mótttöku nýnema in framhaldsskóla er að þeim finnist þeir velkomnir, en jafnframt að þeir fái tækifæri til að blandast eldri nemendum með skemmtilegum uppákomum.
------------
Svo er það nú annað mál, en samt tengt og sem lengi má ræða, en það er hvort við erum farin að vernda börn of mikið, of lengi.  Hvenær rennur upp sá tímapunktur að við teljum börnin okkar orðin fær um að takast á við allt óréttlætið og erfiðleikana sem fylgja því að vera fullorðin manneskja?
Ég get sagt óskaplega margt um það, en nenni því bara ekki núna.

Ég held áfram enn um sinn að vera nokkurskonar hænsnahirðir, en ég held að skjólstæðingarnir nú séu á réttri leið.

30 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (1)

Þetta er ekki hæna frá Hveratúni.
Það kann að virðast undarlegt að ég skuli skrifa það sem hér fer á eftir, en fyrir því eru ástæður sem ég mun fjalla um í framhaldinu.

Þegar ég var í kringum 10 ára aldur var ég maður með hlutverk á heimili fjölskyldunnar. Ég var hænsnahirðir og fóðraði hænur heimilisins, sem voru eitthvað í kringum 20 að jafnaði, bara svona venjulegar hænur, hvítar með rauðan kamb. Fóðrið var blanda af hænsnakorni og leifum sem hrutu af borðum Hveratúnsfólks.  Starfi mínu fylgdi einnig sú ábyrgð að sjá til þess að hænurnar hefðu alltaf nóg að drekka, hleypa þeim út til að viðra sig á sumrin og ná í eggin sem þær notuðu til að greiða fyrir tilveru sína.

Ég veit ekki hvernig svo æxlaðist að ég fékk þetta hlutverk, en held því auðvitað fram að systkin mín hafi bara ekki talist hæf til starfans. Ég veit hinsvegar að þau munu bera fram aðrar skýringar á ástæðum þessa og munu örugglega halda því fram að þau hafi einnig sinnt fiðurfénu, en ég andmæli slíkum fullyrðingum.

Náið samneyti við hænur í svo litlum hóp, þar sem hver hæna fékk að lifa svo lengi sem henni entist heilsa, hafði óhjákvæmilega þau áhrif að hænsnahirðirinn myndaði tengsl við flokkinn. Hver hæna fékk nafn og þær höfðu mjög mismunandi persónueiginleka. Sumar voru gæfar, en aðrar vildu sem minnst samskipti hafa við hirði sinn.

Hænsnakofinn var bak við gamla bæinn, með einum suðurglugga og dyrnar sneru að bakhlið íbúðarhússins. Byggingarefnið var holsteinn. Innan dyra var borð vinstra megin þegar inn var komið og þar fyrir ofan prik sem íbúarnir settust á þegar rökkvaði. Í hægra horninu fjærst voru síðan varpkassarnir og mig minnir að í þá hafi verið settir hefilspænir.  Loftið var rykmettað og með einhverju millibili þurfti að moka út úr kofanum og í staðinn var settur ilmandi spænir.

Ég tel að hænurnar í Hveratúni hafi verið það sem kallast núm "hamingjusamar hænur". Þær nutu útiverunnar í heimilsgarðinum fyrir framan suðurhlið íbúðarhússins (ég sé fyrir mér hænur spígsporandi á pallinum í Kvistholti, þar sem fD liggur og nýtur sólar. Afar rómatísk hugmynd). Hamingja þeirra fólst einnig í því að hafa svo umhyggjusaman hirði sem raun bar vitni.

Þar kom í lífi hænsnanna að þær drápust úr elli eða sjúkdómum. Ég hygg að ekki hafi verið mikið spáð í hvort þær verptu eða ekki, þó mig minni að hænsnabóndi í Hrunamannahrepp, sem var alltaf kallaður Blómkvist eða Blommi (Andrés Blómkvist Helgason í Miðfelli 3 (1927-2005)) hafi eitthvað komið að endurnýjun stofnsins.  Ég minnist þess að hafa nokkuð oft fjarlægt hænsnalík úr kofanum.

Nýrra hænsna, sem voru varla komnar af ungaaldri beið ekkert sældarlíf til að byrja með. Oftar en ekki lögðust hænurnar sem fyrir voru á þær, gogguðu í hausinn á þeim eða plokkuðu af þeim fjaðrirnar. Eins og allir vita þá er í gildi skýr goggunarröð í hænsnakofum, og ég vissi hverju sinni hver var forystuhænan og hver var sú sem neðst var í goggunarröðinni.
Eftir raunirnar voru nýju hænurnar yfirleitt teknar í hópinn, en það kom vissulega fyrir að þær lifðu ekki af.

Ætli hænsnahaldi hafi ekki lokið í Hveratúni einhverju eftir að fjölskyldan flutti í nýja bæinn, eða eftir að ég komst á þann aldur að erfiðara var að fá mig til að sinna skyldum mínum. Ég efast ekki um að systkini mín muna þetta betur en ég, en svo mikið veit ég, að ég var farinn að nálgast tvítugt þegar ég borðaði fyrst kjúkling.

Ég er eiginlega farinn að ímynda mér að, þegar grannt er skoðað, hafi ég gegnt starfi hænsnahirðisins stærstan hlut lífs míns.

En meira um það næst.
  

27 ágúst, 2014

Af gömlum unglingi og fleiru.

Skúli Magnússon
Haustið er að ganga í garð og gróður jarðar býr sig undir að tryggja upprisu að vori. Mannlífið skiptir um takt og daglegt líf Kvisthyltinganna tveggja, sem eftir eru í kotinu þegar börn og barnabörn eru horfin til síns heima til að sinna sínu, er sem óðast að komast í fastar skorður og því líkur á að upp verði tekinn þráðurinn á þessum vettvangi sem ýmsum öðrum.

Viðfangsefni mitt þessu sinni er sú breyting sem varð í lífi okkar, afkomenda Skúla Magnússonar, garðyrkjubónda í Hveratúni, þegar hann lét gott heita í byrjun ágúst og kvaddi jarðlífið eftir langa og nokkuð vel útfærða glímu við Elli kerlingu. Hann var á 96. áldursári og þótti það bara orðið ágætt, kvaddi sáttur, saddur lífdaga.
Við skildum og skiljum það vel að hann var tilbúinn að hverfa á braut. Þannig er nú lífinu einusinni háttað, að það tekur enda einhverntíma og svo langt líf sem hans er hreint ekki sjálfsagt, en þakkarvert. Þrátt fyrir að allir væru nokkuð sáttir við þessi málalok, var þarna um að ræða endinn á langri sögu og þar með fylltumst við trega og söknuði. Okkar bíður auðvitað það hlutskipti að halda áfram okkar leið á okkar forsendum. Við systkinin erum nú kominn á þann aldur að við teljumst, eftir því sem ég best veit, fullfær um að kunna fótum okkar forráð, en samt... með "gamla unglingnum" hvarf töluvert mikilvægur þáttur í tilveru okkar, rétt eins og gerist oftast, allsstaðar og á öllum tímum þegar lífi lýkur.

Ég nefndi langa sögu, sögu sem hófst við aðstæður sem nútímamaðurinn á erfitt með að ímynda sér. Pabbi fæddist í september, veturinn eftir að frostaveturinn mikli hafði valdið fólki ýmsum búsifjum. Foreldrar hans, eins og svo margir aðrir í þeirra sporum, liðu fyrir skort á jarðnæði á láglendinu, svo þau tóku það til bragðs að flytja að Rangárlóni við norðanvert Sænautavatn í Jökuldalsheiði, líklegast vorið 1918, með tvo syni á barnsaldri og þann þriðja á leiðinni. Sjá einnig hér.

Það er eiginlega ekki fyrr en maður fer að skoða þau lífskjör sem svokölluðu almúgafólki voru búin á fyrri hluta síðustu aldar ofan í kjölinn út frá einhverjum sem maður þekkir, sem maður áttar sig á hvílikar breytingar hafa átt sér stað.  Það hlýtur að vera mikið spunnið í þær kynslóðir sem þurftu að takast á við tilveruna á fyrri hluta tuttugustu aldar, ekki síst þann hluta þeirra sem þurfti að leggja á sig ómælt erfiði til að hafa í sig og á.  Þetta fólk fann leiðir til lífsbjargar, en það þurfti líka að færa fórnir. Föðurforeldrar mínir eru, til að mynda, sagðir hafa eignast 10 börn, en einungis sex þeirra náðu að vaxa úr grasi.  Faðir minn var sendur um sex ára gamall í fóstur á næsta bæ, líklegast til að létta á barnmörgu heimili.  Eftir það ólst hann upp með Sigurði Blöndal, syni hjónanna í Mjóanesi og síðar á Hallormsstað, sem hann hefur ætíð vísað til sem fóstbróður síns.
Þar sem ég sit og skrifa þetta fæ ég þær fregnir að Sigurður hafi látist í gær. Þeir fóstbræðurnir munu því ferðast áfram saman, nú á slóðum sem ég kann ekki að fjalla um.

Ég ætla nú ekki að fara að rekja ævigöngu föður míns, en hann dvaldi í Hveratúni til haustsins 2012, en þá varð það úr að hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu.
Fram til þess síðsta tókst honum að halda léttri lund og þeim sem heimsóttu hann mætti alltaf brosandi andlitið, eða í það minnsta glott út í annað. Hann spurði frétta og tók í nefið og svo spurði hann aftur frétta. Hann var ekkert mikið fyrir að gera sjálfan sig og sína líðan að umfjöllunarefni, hafði meiri áhuga á því sem var að öðru leyti um að vera. Svo þegar umræðuefnið þraut um stund kom fyrsta línan í einhverri vísu, svona einskonar biðleikur til að kalla fram frekari frásagnir. Þessi var til dæmis nokkuð algeng

Svo er það við sjóinn viða
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
     hvað er auðvitað alveg rétt!
Í hjónabandi að lifa og líða
uns lausakaupamet er sett.
          (ég hef ekki fundið höfundinn)

Við sem umgengumst hann lærðum þessar vísur smám saman og þá fór hann að láta sér nægja að fara með fyrstu línuna og beið svo eftir að við kláruðum dæmið og svo skellihló hann á viðeigandi stöðum.

Dvölin á Lundi á Hellu er kapítuli út af fyrir sig. Miðað við allt og allt held ég að betri staður til ljúka langri vegferð sé vandfundinn. Þetta segi ég ekki endilega vegna þess að mér finnist Hella í sjálfu sér vera sérlega hentugur staður fyrir aldraða í uppsveitum Árnessýslu, heldur vegna þess, að starfsfólkið á Lundi er einstaklega vel starfi sínu vaxið.
Við setjum lög og reglur um aðbúnað hinna ýmsu þjóðfélagshópa, meðal annars þeirra sem þurfa einhverja aðhlynningu síðustu árin. Þar er gert ráð  fyrir lágmarksfermetrafjölda á mann, lágmarks lofthæð og hvaðeina sem varðar ytri aðbúnað.
Ég leyfi mér að segja að húsakynnin eru ekki það sem mestu máli skiptir, heldur fólkið sem hefur þann starfa að annast um þá sem aldraðir eru, reynsluboltana, sem eiga langa og viðburðaríka sögu, en eru smám saman að missa krafta, eru orðnir vígamóðir í baráttu sinni við áður nefnda Elli, tapa heyrn eða sjón og jafnvel dvelja æ meir á sviðum sem raunveruleikinn nær ekki alveg til.  Við þessar aðstæður er það starfsfólkið sem skiptir sköpum. Það þarf að nálgast öldungana þar sem þeir eru á hverjum tíma og reyna að setja sig í spor þeirra, sinna þeim og þörfum þeirra af nauðsynlegri þolinmæði og umhyggju, spjalla við það og grínast við það.
Lífsgæði aldraðra felast ekki síst í því að þeir fái að njóta þess að finnast þeir skipta máli.

Hér fyrir ofan var ég að lýsa nálgun starsfólksins á Lundi, eins og við systkinin upplifðum hana. Rangæingar eru eflaust þakklátir fyrir að svo samhent, velhugsandi og dugmikið fólk skuli starfa við umönnun aldraðra á Lundi.
Svona fólk eiga aldraðir skilið í lok ævidagsins og fyrir umhyggjuna, velvildina og nærgætnina erum við systkinin afar þakklát.

Við sem stöndum undir samfélagsrekstrinum hverju sinni, skuldum öfum okkar og ömmum hverju sinni það, að síðustu áranna fái þau að njóta áhyggjulaust og við bestu aðstæður.  Nútíminn talar mikið um að horfa fram á veginn, en sannleikurinn er auðvitað sá, að ef ekki væri sá vegur sem þegar hefur verið farinn, þá væri heldur enginn vegur framundan.
---------
Í lokin skelli ég hér myndbandi af söng Laugaráskvartettsins. Þeir flytja Nú máttu hægt, en lagið er eftir H. Pfeil og ljóðið eftir Þorstein Erlingsson. Upptakan var gerð í Skálholti 16. ágúst. Laugaráskvartettinn skipa æskufélagar úr Laugarási: Egill Árni og Þorvaldur Skúli Pálssynir frá Kvistholti og Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt í Laugarási. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti sem myndaði og klippti, meðupptökumaður hljóðs var Guðný Rut Pálsdóttir frá Kvistholti.
Laugaráskvartettinn flutti þetta lag við útför afa síns og fyrrum nágranna.

NÓTT (Nú máttu hægt)




Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...