|
Skúli Magnússon |
Haustið er að ganga í garð og gróður jarðar býr sig undir að tryggja upprisu að vori. Mannlífið skiptir um takt og daglegt líf Kvisthyltinganna tveggja, sem eftir eru í kotinu þegar börn og barnabörn eru horfin til síns heima til að sinna sínu, er sem óðast að komast í fastar skorður og því líkur á að upp verði tekinn þráðurinn á þessum vettvangi sem ýmsum öðrum.
Viðfangsefni mitt þessu sinni er sú breyting sem varð í lífi okkar, afkomenda
Skúla Magnússonar, garðyrkjubónda í Hveratúni, þegar hann lét gott heita í byrjun ágúst og kvaddi jarðlífið eftir langa og nokkuð vel útfærða glímu við Elli kerlingu. Hann var á 96. áldursári og þótti það bara orðið ágætt, kvaddi sáttur, saddur lífdaga.
Við skildum og skiljum það vel að hann var tilbúinn að hverfa á braut. Þannig er nú lífinu einusinni háttað, að það tekur enda einhverntíma og svo langt líf sem hans er hreint ekki sjálfsagt, en þakkarvert. Þrátt fyrir að allir væru nokkuð sáttir við þessi málalok, var þarna um að ræða endinn á langri sögu og þar með fylltumst við trega og söknuði. Okkar bíður auðvitað það hlutskipti að halda áfram okkar leið á okkar forsendum. Við systkinin erum nú kominn á þann aldur að við teljumst, eftir því sem ég best veit, fullfær um að kunna fótum okkar forráð, en samt... með "gamla unglingnum" hvarf töluvert mikilvægur þáttur í tilveru okkar, rétt eins og gerist oftast, allsstaðar og á öllum tímum þegar lífi lýkur.
Ég nefndi langa sögu, sögu sem hófst við aðstæður sem nútímamaðurinn á erfitt með að ímynda sér. Pabbi fæddist í september, veturinn eftir að frostaveturinn mikli hafði valdið fólki ýmsum búsifjum. Foreldrar hans, eins og svo margir aðrir í þeirra sporum, liðu fyrir skort á jarðnæði á láglendinu, svo þau tóku það til bragðs að flytja að Rangárlóni við norðanvert Sænautavatn í Jökuldalsheiði, líklegast vorið 1918, með tvo syni á barnsaldri og þann þriðja á leiðinni. Sjá einnig
hér.
Það er eiginlega ekki fyrr en maður fer að skoða þau lífskjör sem svokölluðu almúgafólki voru búin á fyrri hluta síðustu aldar ofan í kjölinn út frá einhverjum sem maður þekkir, sem maður áttar sig á hvílikar breytingar hafa átt sér stað. Það hlýtur að vera mikið spunnið í þær kynslóðir sem þurftu að takast á við tilveruna á fyrri hluta tuttugustu aldar, ekki síst þann hluta þeirra sem þurfti að leggja á sig ómælt erfiði til að hafa í sig og á. Þetta fólk fann leiðir til lífsbjargar, en það þurfti líka að færa fórnir. Föðurforeldrar mínir eru, til að mynda, sagðir hafa eignast 10 börn, en einungis sex þeirra náðu að vaxa úr grasi. Faðir minn var sendur um sex ára gamall í fóstur á næsta bæ, líklegast til að létta á barnmörgu heimili. Eftir það ólst hann upp með
Sigurði Blöndal, syni hjónanna í Mjóanesi og síðar á Hallormsstað, sem hann hefur ætíð vísað til sem fóstbróður síns.
Þar sem ég sit og skrifa þetta fæ ég þær fregnir að Sigurður hafi látist í gær. Þeir fóstbræðurnir munu því ferðast áfram saman, nú á slóðum sem ég kann ekki að fjalla um.
Ég ætla nú ekki að fara að rekja ævigöngu föður míns, en hann dvaldi í Hveratúni til haustsins 2012, en þá varð það úr að hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu.
Fram til þess síðsta tókst honum að halda léttri lund og þeim sem heimsóttu hann mætti alltaf brosandi andlitið, eða í það minnsta glott út í annað. Hann spurði frétta og tók í nefið og svo spurði hann aftur frétta. Hann var ekkert mikið fyrir að gera sjálfan sig og sína líðan að umfjöllunarefni, hafði meiri áhuga á því sem var að öðru leyti um að vera. Svo þegar umræðuefnið þraut um stund kom fyrsta línan í einhverri vísu, svona einskonar biðleikur til að kalla fram frekari frásagnir. Þessi var til dæmis nokkuð algeng
Svo er það við sjóinn viða
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
hvað er auðvitað alveg rétt!
Í hjónabandi að lifa og líða
uns lausakaupamet er sett.
(ég hef ekki fundið höfundinn)
Við sem umgengumst hann lærðum þessar vísur smám saman og þá fór hann að láta sér nægja að fara með fyrstu línuna og beið svo eftir að við kláruðum dæmið og svo skellihló hann á viðeigandi stöðum.
Dvölin á Lundi á Hellu er kapítuli út af fyrir sig. Miðað við allt og allt held ég að betri staður til ljúka langri vegferð sé vandfundinn. Þetta segi ég ekki endilega vegna þess að mér finnist Hella í sjálfu sér vera sérlega hentugur staður fyrir aldraða í uppsveitum Árnessýslu, heldur vegna þess, að starfsfólkið á Lundi er einstaklega vel starfi sínu vaxið.
Við setjum lög og reglur um aðbúnað hinna ýmsu þjóðfélagshópa, meðal annars þeirra sem þurfa einhverja aðhlynningu síðustu árin. Þar er gert ráð fyrir lágmarksfermetrafjölda á mann, lágmarks lofthæð og hvaðeina sem varðar ytri aðbúnað.
Ég leyfi mér að segja að húsakynnin eru ekki það sem mestu máli skiptir, heldur fólkið sem hefur þann starfa að annast um þá sem aldraðir eru, reynsluboltana, sem eiga langa og viðburðaríka sögu, en eru smám saman að missa krafta, eru orðnir vígamóðir í baráttu sinni við áður nefnda Elli, tapa heyrn eða sjón og jafnvel dvelja æ meir á sviðum sem raunveruleikinn nær ekki alveg til. Við þessar aðstæður er það starfsfólkið sem skiptir sköpum. Það þarf að nálgast öldungana þar sem þeir eru á hverjum tíma og reyna að setja sig í spor þeirra, sinna þeim og þörfum þeirra af nauðsynlegri þolinmæði og umhyggju, spjalla við það og grínast við það.
Lífsgæði aldraðra felast ekki síst í því að þeir fái að njóta þess að finnast þeir skipta máli.
Hér fyrir ofan var ég að lýsa nálgun starsfólksins á Lundi, eins og við systkinin upplifðum hana. Rangæingar eru eflaust þakklátir fyrir að svo samhent, velhugsandi og dugmikið fólk skuli starfa við umönnun aldraðra á Lundi.
Svona fólk eiga aldraðir skilið í lok ævidagsins og fyrir umhyggjuna, velvildina og nærgætnina erum við systkinin afar þakklát.
Við sem stöndum undir samfélagsrekstrinum hverju sinni, skuldum öfum okkar og ömmum hverju sinni það, að síðustu áranna fái þau að njóta áhyggjulaust og við bestu aðstæður. Nútíminn talar mikið um að horfa fram á veginn, en sannleikurinn er auðvitað sá, að ef ekki væri sá vegur sem þegar hefur verið farinn, þá væri heldur enginn vegur framundan.
---------
Í lokin skelli ég hér myndbandi af söng Laugaráskvartettsins. Þeir flytja Nú máttu hægt, en lagið er eftir H. Pfeil og ljóðið eftir Þorstein Erlingsson. Upptakan var gerð í Skálholti 16. ágúst. Laugaráskvartettinn skipa æskufélagar úr Laugarási: Egill Árni og Þorvaldur Skúli Pálssynir frá Kvistholti og Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt í Laugarási. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti sem myndaði og klippti, meðupptökumaður hljóðs var Guðný Rut Pálsdóttir frá Kvistholti.
Laugaráskvartettinn flutti þetta lag við útför afa síns og fyrrum nágranna.
NÓTT (Nú máttu hægt)