Fyrir skömmu átti ég leið um Egilsstaði og Hallormsstað ásamt fleira fólki. Þar sem það fólk kemur við sögu hér síðar þá er bara best að geta þeirra: Hveratúnsbændurnir Sigurlaug og Magnús, tenórinn Egill Árni og píanóleikarinn Hrönn. Þarna vorum við á ferð í ágætum bíl Einbúablárhjónanna Sæbjörns (Mannsa) og Arndísar (Dínu) og þar sem veðrið var með slíkum eindæmum að annað eins höfðum við ekki upplifað sunnanlands misserum saman, varð úr að við renndum í Atlavík.
Sá staður, við þessar aðstæður, var eiginlega draumkenndur, ekki aðeins fyrir fegurðar sakir og veðurs, heldur einnig vegna blámóðu loftsins og drapplits Lagarfljótsins.
Við svona aðstæður er fyrsta hugsun nútímamannsins að taka af sér sjálfsmynd til dreifingar, svo aðrir geti notið hennar með honum. Þarna voru nútímamenn á ferð og viðþolslitlir drifu ferðalangarnir sig úr bifreiðinni og niður á vatnsbakkann og hófu að taka sjálfsmyndir. Og þeir tóku sjálfsmyndir, og þeir tóku sjálfsmyndir og síðan tók við tími sem fór í að séra þessum myndum, öðrum til ánægju.
Um þessa mynd er lítillega fjallað í textanum. |
Ég, ólíkt sumum hinna, séraði myndunum ekki og hafði það svo sem ekki einusinni í hyggju, taldi myndefnið ekki vera þess eðlis að það ætti erindi í almenna dreifingu.
Það var, sem sagt, sérað og síðan fóru sérarnir að keppast um hver fengi flest lækin, svona rétt eins og gengur og gerist. Og ekki meira af því, utan eftir á að hyggja þá velti ég fyrir mér, hvort það var náttúrufegurðin eða sjálfsmyndirnar, sérin og lækin, sem héldu athygli ferðamannanna mest.
Það var haldið heim á leið og daginn eftir varð mér litið í símann minn (já, ég á snjallsíma með myndavél). Þá blasti þar við mér einstaklega vel heppnuð sjálfsmynd og þar með varð ekki aftur snúið.
Ég séraði sjálfsmyndinni með þessum hætti:
Það var eins og við manninn mælt, miðillinn logaði fram eftir kvöldi og næsta dag, bæði af lækum og kommentum. Annað eins hef ég ekki reynt á þessum vettvangi og neita því auðvitað ekki, þó svo sjálfsmyndinni hafi verið sérað í hálfkæringi, að viðbrögðin kitluðu og eftir þau er ég líklega orðinn meiri nútímamaður. Uppskeran varð 113 læk og 16 komment. Kommentin voru sum þess eðlis að ég roðnaði með sjálfum mér og lyftist allur að innan, en hvorki lét né læt á neinu bera hið ytra.
Sagan er hinsvegar ekki öll.
Skömmu eftir þetta átti Hveratúnsbóndinn afmæli. Hann er reyndar bróðir minn, fyrir þá sem ekki vita. Eins og vera bar streymdu inn að prófílinn hans hlýjar afmæliskveðjur. Allt í lagi með það.
Sjálfsmynd Hveratúnsbóndans, sem vikið er að í textanum. |
En viti menn.
Lækin og kommentin streymdu að og nú er þarna að finna 119 læk og 17 komment!
Ég hef velt talsvert fyrir mér ástæðum þessa sigurs bróður míns, en ekki fundið neina haldbæra, utan þá að þarna bættust við nokkrir sem höfðu gleymt að óska honum til hamingju með afmælið og reyndu þarna að bæta úr, eftir því sem kostur var, með þessum hætti.
-------------------------------------------------
Varnagli: Ég vona að lesendur átti sig á raunverulegum tilgangi mínum með þessum skrifum. Áður en þeir túlka þennan tilgang með neikvæðum hætti, þætti mér vænt um að fá að heyra frá þeim.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli