30 mars, 2008

Já, gerum það


Já, styðjum Hannes Hólmstein Gissurarson. Hann hefur gert þjóð sinni margt gott. Hann er líklega einn af vísari vinum alþýðunnar og þar að auki einn skeleggasti, vandvirkasti og virtasti fræðimaður sem starfar við Háskóla Íslands. Svona menn eiga það sannarlega skilið þegar þeir verða fyrir ómaklegum árásum, annarsvegar frá þeim sem þeir ólu og hvöttu til dáða, og hinsvegar frá illviljandi kommúnístum, að við styðjum vel við bakið á þeim. Við förum létt með að borga inn á reikninginn dágóða upphæð og gera Hannesi þannig kleift að halda áfram sínu góða starfi, hvort það er á vettvangi fræðimennskunnar eða þá við að setja ofan í við óþæga skoðanabræður.
Styðjum Hannes

28 mars, 2008

Sjálfsmorð vestrænnar menningar?

Ég ætlaði að fara að horfa á hollensku myndina Fitnah sem birtist á LiveLeak í gær. Þá finnst hún ekki þar lengur en í staðinn er þetta:

Following threats to our staff of a very serious nature, and some ill informed reports from certain corners of the British media that could directly lead to the harm of some of our staff, Liveleak.com has been left with no other choice but to remove Fitna from our servers. This is a sad day for freedom of speech on the net but we have to place the safety and well being of our staff above all else. We would like to thank the thousands of people, from all backgrounds and religions, who gave us their support. They realised LiveLeak.com is a vehicle for many opinions and not just for the support of one.Perhaps there is still hope that this situation may produce a discussion that could benefit and educate all of us as to how we can accept one anothers culture.We stood for what we believe in, the ability to be heard, but in the end the price was too high.

Í sem allra stystu máli segjast þeir hafa neyðst til að fjarlægja myndina vegna mjög alvarlegra hótana í garð starfsfólks og að þeir setji öryggi þess ofar tjáningarfrelsinu.

Ég tel mig nú ekki vera æsingamann, en ég verð samt að vera þeirrar skoðunar að það sé ekki bara si svona ásættanlegt að við þurfum að bugta okkur og beygja í þeim menningareimi sem við byggjum, fyrir menningarheimi fólks sem hefur flutt sig af ýmsum ástæðum inn í okkar.

Ég tel einnig að sá tími færist nær að Evrópubúar bregðist við, en jafnframt held ég að þá verði það og seint. Ég held að umburðarlyndi okkar hafi leitt til þeirrar stöðu sem nú er uppi. Við verðum þá bara að taka því.

Fyrst ég gat ekki fundið myndina fann eg þennan náunga, sem ég er sammála að mörgu leyti þó ég eigi erfitt með að kyngja sumu af því sem hann lætur sér um munn fara.




WHEN IN ROME DO AS THE ROMANS DO

24 mars, 2008

Páskauppgjör

Hér á þessu landi elds og ísa, þar sem uppsveitastemningin er eins og hún getur best orðið, hafa páskarnir einkennst af allmiklum rólegheitum hið ytra, en hið innra hefur staðið yfir baráttan milli þess að drífa bévítans skattframtalið af og hins, að fresta því til síðustu stundar. Niðurstaðan hefur orðið millivegur, en með opnum möguleika á frestun.
Það hefur verið fastur liður á þessu heimili undanfarin 20 ár, á að giska, að iðka söngmennt af krafti á og í kringum páska. Fyrst á pálmasunnadag, þá á skírdagskvöld, og loks í messu á páskadag, oftast bara einni, en nú undanfarin ár að einhverju leyti líka kl 8 að morgni þessa dags.
Þetta söngstand átti sér ekki stað um þessa páska. Hvað verður síðar veit enginn. Ástæður mínar eru tiltölulega einfaldar. Ég tel þá sem fara fyrir málum á Skálholtsstað ekki hafa sýnt kórnum þann sóma sem hann hefur átt skilinn. Fyrir utan það að heilmikið ástand hefur verið með málefni organistans á staðum á síðustu misserum, þá hafa fyrirmenn á staðnum lítilsvirt starf kórsins með því að mæta ekki til tónleika sem hann hefur haldið. Ég nefni hér bara tvenna: útgáfutónleka vegna geisladisks kórsins sem voru haldnir í nóvember s.l. (það var Skálholtsstaður sem gaf diskinn út) og síðan glæsilega aðventutónleika í desember, en þá var yfirvaldinu sérstaklega boðið.
Þetta var í mínum huga dropinn sem fyllti mælinn, og bætist við ítrekað almennt sinnuleysi um velferð kórsins. Ég hef tekið mér ótímabundið frí frá þessum störfum, í það minnsta þar til sú breyting verður á Skálholtsstað sem ég sætti mig við.
Þessi síða átti ekki að verða vettvangur minn fyrir það sem neikvætt er í veröldinni, en ég verð bara í þessu tilviki að vísa til þess, að undantekningin sannar regluna. Það vona ég, í það minnsta.

22 mars, 2008

BJÓR var það heillin

Upgrade your email with 1000's of emoticon icons
Þá er komið að þeim tímapunkti, að ekki verður þessum leik haldið áfram lengur. Þegar þátttakendur eru farnir að leita heimilda um víðan völl og grafa upp dæmi úr fornsögum og seðlasafni Orðabókar Háskólans, þá er þetta bara orðið gott. Það virðist ljóst að sumir þeirra sem hér hafa lagt sitt af mörkum hafa líklegast misst nokkurn svefn og sálarró og því er nauðsynlegt að gefa fólki færi á að borða páskaeggin sín í rólegheitum.


Síðasta tilraun sem gerð var til að ráða gátuna hljóðar svo:


Mig minnti mig hafa lesið það fyrir löngu síðar. Sá síðan texta á þá leið í Ritmálsskrá Orðabókar Háskóla Íslands en sé nú að ég hef verið fullfljótur á mér því bjór þýðir gaflhlað. Dæmi um notkun þess má finna hér:
Setti líka nokkur hér meðfylgjandi:
þeir rufu þá kirkjuna á bak við altarið, og brutu í burtu bjórinn, Biór, gafl í húse, gafl-hlad.
hann dró biskup óþyrmsamlega út um biórinn á kórgaflinum.
Gaflhlað á baðstofu er nefnt ,,bjór`` [þe: á Vestfjörðum]. Á Vestjörðum, einkum í Arnarfirði sumstaðar, eru endernir á baðstofum kallaðir bjórar.
En vissi líka að bjór er skinn, sbr.:
Eg skal giefa þier Ostsneid, ef þú rakar Biór minn.
Skinn voru notuð til gagns á margan hátt en bundinn á fótum er ég lens með. Dettur helst í hug að um skóþveng sé að ræða. Þeir voru skornir úr skinni hér áður fyrr.
Mar 22, 2008 10:44:00 AM


Hér er Skúli frændi Sæland á ferð, en hann hefur gert ítrekaðar tilraunir til ráðningar og er nú kominn furðu nálægt réttri niðurstöðu, en þetta með gaflhlaðið virkar ekki allskostar.


Hér á eftir verður þess freistað að varpa ljósi á merkingu gátunnar.


Upphaf þess máls lýtur að þeim aðstæðum sem gátan var sett fram við. Viðkomandi voru nýkomin heim úr kaupstaðarferð. Það, í sjálfu sér, var fyrsta vísbendingin því lesendur hefðu átt að átta sig á samhenginu milli kaupstaðarferðar og 'kaupstaðarlyktar', en kaupstaðarlykt fylgdi og þeim er komu úr kaupstað, ekki síst áður fyrr. Síðasta dæmið sem ég þekki er þegar Stebbi í Höfða kom heim úr kaupstað og hafði þá í fórum sínum pela af VAT69 og honum fylgdi þessi sérstaki kaupstaðarkeimur.
Gamli maðurinn hafði, sem sagt, sýnt áhuga á að vita hvernig 'Skjálfti' frá Ölvisholti smakkaðist og af þeim sökum var þessa drykkjar aflað í umræddri kaupstaðarferð. Þegar heim var komið þótti við hæfi að skoða málið nánar með því að taka tappa af einni flöskunni. Það var þá sem gátan leit dagsins ljós hjá þeim gamla. Kom hægt, en kom samt.


Skjálfti hefur nokkuð sérstakt bragð, en ég dæmi ekki um gæði hans þar sem ég er ekki mikið fyrir drykki af þessu tagi.
Upgrade your email with 1000's of emoticon icons
Hér ætla ég að freista þess að skýra hvað um er að ræða.


Bjór hefur í þessari gátu tvær merkingar eins og ég hef þegar nefnt í vísbendingu. Annarsvegar er auðvitað um að ræða drykkinn, en hinsvegar merkinguna skinn eða húð (leður).




Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
Maður verður kátur af bjór og bjór er sútaður (við vinnslu á húð) eða merkingin getur líka vísað til þess að fólk fer í sjúklegt þunglyndi sem afleiðingar af neyslu bjórs.


til gagns menn mig elta, en skemmd af mér hljóta.
það er búið til ýmislegt gagnlegt með því að elta skinn (nudda það unz það verður hvítt og mjúkt) af drykknum geta menn hinsvegar hlotið skaða eins og nærri má geta.
Til reiðar er hafður, um hálsa ég renn,
reiðtygi eru búin til úr leðri (hnakkar og beisli) - já, já... drykkurinn rennur um hálsinn - það getur hver maður séð.
til höfuðs ég stíg, en er bundinn til fóta.
Það kannst margir við það hver áhrif fylgja því þegar áfengið í bjórnum fer að hafa áhrif á höfuðið. Að lokum var fótabúnaður áður fyrr búinn til úr skinni/leðri.
Og þar hafið þið það ágætu lesendur.
Loks þakka ég þátttakendum við lausn gátunnar góðar undirtektir.
Böl er bjór börnum

21 mars, 2008

Og ég er......

Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
til gagns menn mig elta, en skemmd af mér hljóta.
Til reiðar er hafður, um hálsa ég renn,
til höfuðs ég stíg, en er bundinn til fóta.
Ég nenni nú ekki að bíða mikið lengur eftir því að þið, vísu lesendur, finnið út úr þessu. Ég þakka ykkur samt fyrir heiðarlegar tilraunir. Nú ætla ég að gefa ykkur tvær vísbendingar sem geta varla leitt til annars en niðurstöðu í málinu:
1. Hér er um að ræða tvennt, afar ólíkt, sem hefur sama heiti.
2. Íslensk orðabók gefur þessa skýringu á öðru heitinu:
- hörund, skinn, skinnpjatla, lélegt skinn
Baldinn er brókarlaus maður

19 mars, 2008

TUMI Í SVEITINNI

Hver er ég?

Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
til gagns menn mig elta, en skemmd af mér hljóta.
Til reiðar er hafður, um hálsa ég renn,
til höfuðs ég stíg, en er bundinn til fóta.

Nú er nýlokið enn einni kaupstaðarferðinni fyrir páskana. Gamli maðurinn var að sjálfsögðu með í för til páskainnkaupa í búðinni einu sönnu. Í gær fékk hann í hendur endurnýjað ökuskírteini og ég tók til þess hve létt (og jafnvel unglegt) göngulagið var úr bílnum inn til sýslumanns og til baka aftur með hið nýja skírteini.
Hvað um það, þegar heim var komið úr verslunarferðinni, og hann hafði fagnað því að vera kominn aftur til síns heima (hvort sem það var vegna akstursmátans eða einhvers annars) þá lagði hann fyrir okkur gátuna sem sjá má hér fyrir ofan.
Nú spyr ég þá sem eitthvað þykjast kunna fyrir sér, og hina líka, hvort þeir geta ráðið þessa gátu. Það er skilyrði, að með ráðningunni fylgi útlistun á því hvernig hver liður hennar tengist því sem um er spurt.
Svarið verður síðan birt innan skamms (viku) og vænti ég þess að þá verði það komið.
Ljúf eru löngu sporin.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...