24 mars, 2008

Páskauppgjör

Hér á þessu landi elds og ísa, þar sem uppsveitastemningin er eins og hún getur best orðið, hafa páskarnir einkennst af allmiklum rólegheitum hið ytra, en hið innra hefur staðið yfir baráttan milli þess að drífa bévítans skattframtalið af og hins, að fresta því til síðustu stundar. Niðurstaðan hefur orðið millivegur, en með opnum möguleika á frestun.
Það hefur verið fastur liður á þessu heimili undanfarin 20 ár, á að giska, að iðka söngmennt af krafti á og í kringum páska. Fyrst á pálmasunnadag, þá á skírdagskvöld, og loks í messu á páskadag, oftast bara einni, en nú undanfarin ár að einhverju leyti líka kl 8 að morgni þessa dags.
Þetta söngstand átti sér ekki stað um þessa páska. Hvað verður síðar veit enginn. Ástæður mínar eru tiltölulega einfaldar. Ég tel þá sem fara fyrir málum á Skálholtsstað ekki hafa sýnt kórnum þann sóma sem hann hefur átt skilinn. Fyrir utan það að heilmikið ástand hefur verið með málefni organistans á staðum á síðustu misserum, þá hafa fyrirmenn á staðnum lítilsvirt starf kórsins með því að mæta ekki til tónleika sem hann hefur haldið. Ég nefni hér bara tvenna: útgáfutónleka vegna geisladisks kórsins sem voru haldnir í nóvember s.l. (það var Skálholtsstaður sem gaf diskinn út) og síðan glæsilega aðventutónleika í desember, en þá var yfirvaldinu sérstaklega boðið.
Þetta var í mínum huga dropinn sem fyllti mælinn, og bætist við ítrekað almennt sinnuleysi um velferð kórsins. Ég hef tekið mér ótímabundið frí frá þessum störfum, í það minnsta þar til sú breyting verður á Skálholtsstað sem ég sætti mig við.
Þessi síða átti ekki að verða vettvangur minn fyrir það sem neikvætt er í veröldinni, en ég verð bara í þessu tilviki að vísa til þess, að undantekningin sannar regluna. Það vona ég, í það minnsta.

2 ummæli:

  1. Já, það verður að segjast að frekar var nú öðruvísi stemmning hjá okkur sem þó drusluðumst til að syngja í Skálholti bæði á skírdagskvöld og páskadag. Flest okkar mættum þar með stoltið eitt að leiðarljósi og kannski einhverja barnatrú í fylgsnunum líka.
    Stoltið stóð til þess að klára samninginn sem við undirgengumst. Skrif þín í pistlinum hér á undan hefðu hæglega getað verið mín orð og nú verðum við að sjá hvað setur. Fyrir mína parta verð ég að segja að ég vil sjálf fá að ákveða hvort ég gleðjist við að hitta fólk sem ég kalla vini mína. Vettvangurinn hefur verið Skálholtskórinn og næringingin verið í formi þess að fá að skapa tónlist með frábærum stjórnanda og góðum félögum. Hitt fóðrið er að hittast og spjalla og finna að maður er félgsvera sem þarf á öðru fólki að halda.
    Ég saknaði ykkar hjóna í félgaskapnum um páskana en skil afstöðu þína ágætlega.
    Ég á mig sjálf, vil fá að eiga mig og ykkur áfram og vona að við finnum eða fáum farveg fyrir slíkt í nákominnni framtíð.

    Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.

    Bestu kveðjur,
    Aðalheiður

    SvaraEyða
  2. Ég segi nú bara loksins, það þarf að standa uppi í hárinu á þessu liði. Kirkjan(Skálholtsstaður) hefur of lengi fengið að komast upp með ólíðandi framkomu við fólk sem gefur sig að fullu í starf í þágu kirkjunnar og sjálfs sín. Verst að stjórnin situr uppi með að þurfa að uppfylla samning sem er marklaus. Hvað segir samningurinn? Tiltekur hann tildæmis hvað þarf til svo kallast megi kór? Talar hann um hverjir eru persónulega skuldbundnir kirkjunni við undirritun? Eru refsiákvæði? Ég er ekki alveg að skilja þetta.

    Ánægjan af því að syngja og eiga stundir með skemmtilegu fólki, er ekki bundin í samning, og því ætti það að vera hægt utan hans :)

    Annars er ég orðin svo bálreiður á að hugsa um þetta lið sem kemur svona fram við mesta tónlistarlíf sveitarinnar og vanvirðir á nánast allan mögulegan hátt, tilraunir þeirra til að halda því við, að ég held ég setji bara puntinn hér.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...