22 mars, 2008

BJÓR var það heillin

Upgrade your email with 1000's of emoticon icons
Þá er komið að þeim tímapunkti, að ekki verður þessum leik haldið áfram lengur. Þegar þátttakendur eru farnir að leita heimilda um víðan völl og grafa upp dæmi úr fornsögum og seðlasafni Orðabókar Háskólans, þá er þetta bara orðið gott. Það virðist ljóst að sumir þeirra sem hér hafa lagt sitt af mörkum hafa líklegast misst nokkurn svefn og sálarró og því er nauðsynlegt að gefa fólki færi á að borða páskaeggin sín í rólegheitum.


Síðasta tilraun sem gerð var til að ráða gátuna hljóðar svo:


Mig minnti mig hafa lesið það fyrir löngu síðar. Sá síðan texta á þá leið í Ritmálsskrá Orðabókar Háskóla Íslands en sé nú að ég hef verið fullfljótur á mér því bjór þýðir gaflhlað. Dæmi um notkun þess má finna hér:
Setti líka nokkur hér meðfylgjandi:
þeir rufu þá kirkjuna á bak við altarið, og brutu í burtu bjórinn, Biór, gafl í húse, gafl-hlad.
hann dró biskup óþyrmsamlega út um biórinn á kórgaflinum.
Gaflhlað á baðstofu er nefnt ,,bjór`` [þe: á Vestfjörðum]. Á Vestjörðum, einkum í Arnarfirði sumstaðar, eru endernir á baðstofum kallaðir bjórar.
En vissi líka að bjór er skinn, sbr.:
Eg skal giefa þier Ostsneid, ef þú rakar Biór minn.
Skinn voru notuð til gagns á margan hátt en bundinn á fótum er ég lens með. Dettur helst í hug að um skóþveng sé að ræða. Þeir voru skornir úr skinni hér áður fyrr.
Mar 22, 2008 10:44:00 AM


Hér er Skúli frændi Sæland á ferð, en hann hefur gert ítrekaðar tilraunir til ráðningar og er nú kominn furðu nálægt réttri niðurstöðu, en þetta með gaflhlaðið virkar ekki allskostar.


Hér á eftir verður þess freistað að varpa ljósi á merkingu gátunnar.


Upphaf þess máls lýtur að þeim aðstæðum sem gátan var sett fram við. Viðkomandi voru nýkomin heim úr kaupstaðarferð. Það, í sjálfu sér, var fyrsta vísbendingin því lesendur hefðu átt að átta sig á samhenginu milli kaupstaðarferðar og 'kaupstaðarlyktar', en kaupstaðarlykt fylgdi og þeim er komu úr kaupstað, ekki síst áður fyrr. Síðasta dæmið sem ég þekki er þegar Stebbi í Höfða kom heim úr kaupstað og hafði þá í fórum sínum pela af VAT69 og honum fylgdi þessi sérstaki kaupstaðarkeimur.
Gamli maðurinn hafði, sem sagt, sýnt áhuga á að vita hvernig 'Skjálfti' frá Ölvisholti smakkaðist og af þeim sökum var þessa drykkjar aflað í umræddri kaupstaðarferð. Þegar heim var komið þótti við hæfi að skoða málið nánar með því að taka tappa af einni flöskunni. Það var þá sem gátan leit dagsins ljós hjá þeim gamla. Kom hægt, en kom samt.


Skjálfti hefur nokkuð sérstakt bragð, en ég dæmi ekki um gæði hans þar sem ég er ekki mikið fyrir drykki af þessu tagi.
Upgrade your email with 1000's of emoticon icons
Hér ætla ég að freista þess að skýra hvað um er að ræða.


Bjór hefur í þessari gátu tvær merkingar eins og ég hef þegar nefnt í vísbendingu. Annarsvegar er auðvitað um að ræða drykkinn, en hinsvegar merkinguna skinn eða húð (leður).




Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
Maður verður kátur af bjór og bjór er sútaður (við vinnslu á húð) eða merkingin getur líka vísað til þess að fólk fer í sjúklegt þunglyndi sem afleiðingar af neyslu bjórs.


til gagns menn mig elta, en skemmd af mér hljóta.
það er búið til ýmislegt gagnlegt með því að elta skinn (nudda það unz það verður hvítt og mjúkt) af drykknum geta menn hinsvegar hlotið skaða eins og nærri má geta.
Til reiðar er hafður, um hálsa ég renn,
reiðtygi eru búin til úr leðri (hnakkar og beisli) - já, já... drykkurinn rennur um hálsinn - það getur hver maður séð.
til höfuðs ég stíg, en er bundinn til fóta.
Það kannst margir við það hver áhrif fylgja því þegar áfengið í bjórnum fer að hafa áhrif á höfuðið. Að lokum var fótabúnaður áður fyrr búinn til úr skinni/leðri.
Og þar hafið þið það ágætu lesendur.
Loks þakka ég þátttakendum við lausn gátunnar góðar undirtektir.
Böl er bjór börnum

2 ummæli:

  1. Takk fyrir gátuna frændi sæll. Missti að vísu ekki svefn. Bara svekktur að ná ekki að negla lausnina í lokin þó elting skinna hafi verið að koma.

    Mér var þó bent á að önnur útgáfa þessarar vísu væri eignuð Einari Ben. og svo virðist sem hún lifi góðu lífi á meðal vísnaspekinga þjóðarinnar í ýmsum útgáfum.

    Leikur svo forvitni á hvernig þér gekk sjálfum að ráða gátuna þegar afi skellti henni á þig ;)

    SvaraEyða
  2. Ég er af þeirri kynslóð sem enn naut þeirra forréttinda að snerta fortíðina. Lausnin reyndist mér ekki sérlega vandasöm þegar tekið var mið af þeim aðstæðum sem uppi voru: afhausaður skjálfti og öldungur að rifja upp gamla vísu. PRICELESS

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...