15 apríl, 2008

Fólk í hvítum sloppum

Bara svona til þess að gera tilraun til að halda í skefjum pælingum um heilsufar mitt eftir síðustu færslu vil ég nefna þetta:
Það hafði snjóað afar mikið í Laugarási á stuttum tíma. Snjórinn og umhverfið ýtti þá skyndilega við undarlega skáldlegum streng, og þeim atgangi lauk með skrifum þeim sem þarna má sjá.
Til frekari útskýringar á ljóðinu sem þarna birtist, þá var það svo, að ég tók mér skóflu í hönd og mokaði frá fjórhjóladrifna jepplingnum, ók honum síðan af stað í áttina að aðalgötunni. Þar var hinsvegar staðan sú, að snjóruðningsbíll hafði rutt upp snjóhrygg fyrir heimreiðina og var þá um tvennt að velja: moka hrygginn burt, sem ég hafði ekki nennu til á þeim tímapunkti, eða taka tilhlaup og láta vaða í gegn, sem ég var miklu meira tilbúinn í. Trjágróður með heimreiðinni byrgir sýn til hliðanna, þannig að hér var um að ræða talsverða áhættu, eða þannig. Tilhlaupið var tekið, en rétt í þann mund að ég var að þeysast í gegnum haftið á jepplingnum þá ók vígslubiskup framhjá á Volkswagen bifreið sinni, og við hlið hans sat biskupsfrúin. Þetta sá ég allt í snarhendingu áður en ég flaug inn á miðjan veg.
Þar sem ég var þarna búinn að losa bílinn, án þess að slys eða skemmdir hefðu hlotist af, þá var auðvitað allt gott.
Tilvitnun í morgunbænir Aðalheiðar var fengin að láni af bloggsíðu sælu andarinnar (athugasemdahluta) þar sem mér þótti athugasemdin sú henta ljóðinu vel.
Hér má sjá, að útskýringin er lengri en ljóðið, sem segir bara það, að það er hagkvæmara að því er orðafjölda varðar. Vandinn er bara sá, að það er undir hælinn lagt hvort allir lesendur skilja, hin fíngerðu blæbrigði sem því er ætlað að flytja.

Ekki er ljóðið öngstrætis fyrirboði

13 apríl, 2008

Hvítur er litur sakleysisins og birtunnar

Þessi óumræðilega loftmikli og eftirgefanlegi hjúpur, sem nú hylur storð, kallar fram ólíkustu kenndir meðal manna. Birta vorsins verður enn áþreifanlegri, ungplönturnar í gróðurhúsunum taka vaxtarkipp og lofa bóndanum góðu sumri. Allt hið ljóta í landslaginu fær á sig óræðan blæ sem felur í sér ógegnsæja leyndardóma. Líkaminn leysir út orku sem lengi hefur beðið þess að þörf væri fyrir hana. Verkfæri sem ekkert hlutverk höfðu fá að blómstra í önnum köfnum höndum hreystimennis. Fjórhjóladrifsfarartæki er tekið til langþráðra kosta. Næstum búið að aka inn í hliðina á VW pútu vígslubiskups í einu tilhlaupinu. Allt klárt og frágengið í mjallhvítri undraveröld þar sem hvað sem er getur gerst.
(Aðalheiður biður og kallast það "Morgunbænir... mæ ass".)
Allt er gott.
Snjódýpt um hádegi í Kvistholti mældist 40 cm. Þar sem myndavélin góða er fjarri góðu gamni vísa ég á áður birtar myndir frá janúar. Þær sýna stöðu mála eins og hún er nú, 13. apríl.
Í mjallhvítri veröld er margur ókátur

12 apríl, 2008

Helvítis ári sniðugur poki

Það er svo að víðar er ritstíflan en í Ástralíu. Því verður sá sem er með ritræ.... að taka að sér að skrá það sem skrá þarf eða ekki.
Frúin tekur sig stundum til og býr til hitt og þetta eins og flestir þeir sem þetta lesa vita nú fyrir. Eitt það nýjasta í þessari flóru er hliðartaska, eða hliðarveski sem mun vera unnið þannig, að fyrst er prjónað eftir kúnstarinnar reglum, í þessu tilviki úr rauðum lopa. Þegar prjónaskapnum er síðan lokið er þetta sett í þvottavél, á suðu og kemur þaðan út sem fullbúið hliðarveski/hliðartaska. Þessu næst liggur leiðin á Selfoss að vanda, í helgarinnkaupin með þennan ágæta grip. Með í för er innkaupalisti frá gamla unglingnum í Hveratúni. Þegar heim er komið þarf auðvitað að gera upp skuldir vegna innkaupanna. Frúin fer ofan í hliðartöskuna/hliðarveskið til að ná í skiptimynt, því rétt skal vera rétt. Þeim gamla verður nokkuð starsýnt á gripinn en segir loks: 'Helvítis ári er þetta sniðugur poki'. Frúin lýsti því yfir skömmu síðar við undirritaðan að henni væri alveg sama þótt hann hafi kallað hliðartöskuna/hliðarveskið poka.
Allir sáttir

Hliðarpokar hanga vel.

10 apríl, 2008

Hvenær er maður veikur......

.... og hvenær er maður ekki veikur? Það er spurningin. Að þessari spurningu skuli varpað fram hér er engin tilviljun því síðari hluta dags í gær fór ég að finna lítillega fyrir slæmsku í hálsi og taldi það nú ekki geta verið merkilegra en sálrænan fyrirboða kóræfingar sem framundan var í gærkvöldi.
--------------------------------------------------------------
(Best að afgreiða spurningar lesenda strax, en einhverjir munu vafalaust vísa til yfirlýsingar minnar í tengslum við söngleysi á páskum, og telja að ekki sé nú mikið að marka yfirlýsingar úr þessari átt úr því svona er. Ég fékk meira að segja skot af þessu tilefni á ofangreindri kóræfingu. Þessum aðilum kýs ég að svara svo:
Ég hef kannski ekki orðað yfirlýsingu nægilega vel, en hún var svona:
Þetta var í mínum huga dropinn sem fyllti mælinn, og bætist við ítrekað almennt sinnuleysi um velferð kórsins. Ég hef tekið mér ótímabundið frí frá þessum störfum, í það minnsta þar til sú breyting verður á Skálholtsstað sem ég sætti mig við. (24. mars, s.l.)
Auðvitað ber að skilja þetta þannig að ég hyggst ekki taka þátt, sem söngmaður í kór, í athöfnum á vegum Skálholtsstaðar. Það er hinsvegar svo, að fólkið í sveitinni ber þarna ekki sök, og ef um það er að ræða að eðal-tenórraddar minnar sé óskað við athafnir sem snerta íbúana, þá er ég að öllu jöfnu reiðubúinn. Þá er það frá)

Hvað um það, á kóræfingu fór ég með fjöður í hálsi. Þetta gekk vissulega allt ágætlega, jafnvel dúettinn með Braga, en þar voru væntingar miklar, þar sem samskonar samsöngur tenóra á páskum mun hafa kallað fram tár á mörgum hvarmi (Þetta var allavega haft eftir lánstenórnum honum Sæmundi Heiðubróður) Það verð ég að segja að dúett okkar Braga getur ekki hafa kallað fram síðri viðbrögð kórmeyjanna, en þegar téður Sæmundur stóð við hlið Braga í stað mín. Fjöður í hálsi eða engin fjöður í hálsi. (EF MENN HAFA EKKI TRÚ Á SJÁLFUM SÉR Í ÞESSUM EFNUM SEM ÖÐRUM ÞÁ EIGA ÞEIR Í ÞAÐ MINNSTA AÐ ÞEGJA YFIR ÞVÍ)

----------------------------------------------------------------------
Ég mun hafa verið að tala um veikindi.
Nú, nóttin var með óskemmtilegasta móti og þótti mér ljóst, hvað eftir annað, að ekki yrði um það að ræða, að ég héldi til vinnu minnar á þessum morgni. Hvað þá í heilsuræktina með frúnni uppúr kl. 6.
Hvað gerist svo? Jú, var það ekki? Ég reis upp af kodda í morgun á tilsettum fótaferðatíma (reyndar fór frú Dröfn ein í ræktina), aldeilis ekki viss um hvort ég væri veikur; eða nægilega veikur til að það kallaði á fekari rúmlegu. Svona er þetta yfirleitt þegar ég á í hlut.
Niðurstaðan varð sú, að ég ákvað að skella mér til vinnu, hóstandi og með hita, en, að eigin mati, ekki nægilega mikill sjúklingur til að liggja bara í bælinu.

Í ljósi þessa hef ég komist að eftirfarandi niðurstöðu:
ÉG ER HETJA - einn þessara ekki svo mörgu á þessum síðustu tímum, sem líta svo á að það sé aumingjaskapur að sinna ekki vinnu sinni eða námi með smávegis kverkaskít eða hitamollu.

Í því starfi sem ég sinni frá degi til dags eru veikindamál þau mál sem fara hvað mest í taugarnar á mér, svo mjög að eitt sinn fyrir nokkrum árum tók ég mig til, í einu kastinu vegna aumingjaskaparins sem ég upplifði allt í kringum mig, og skrifaði grein sem ég kallað "AUMINGJAVÆÐING" - hún varð mjög löng og fór ekki lengra en í möppu í tölvunni minni. Ég taldi að enginn myndi skilja mig. Síðan greinin var skrifuð hefur ástandið heldur versnað, því nú eru það ekki bara margir nemendur sem eru veikir einu sinni til tvisvar í viku, heldur jafnvel starfsmenn almennt (auðvitað eru þetta lítilsháttar ýkjur, til áhrifaauka)

Hvað er það sem veldur þessu ástandi, eða þessum viðhorfum til þess að vera veikur? Hvenær verður ástandið orðið þannig að ekki verði við svo búið lengur?

Ég held áfram að vera veikur eða ekki veikur og sé til á morgun.

Auminginn er einskis nýtur

06 apríl, 2008

Þeir sem eiga að vera, fara

... en þeir sem eiga að fara, gera það ekki , vegna þess að þeir geta ekkert annað heldur - að minnsta kosti ekki þetta.
......ég hef sagt upp störfum sem grunnskólakennari og ætla að snúa mér að öðru. Það er svo sem kominn tími til. Ég er búinn að vera óánægður með launun mín öll þessi ár, en mér hefur líkað þetta starf og fundist það eiga vel við mig og því hef ég tórað í því. En undanfarin misseri hef ég bæði verið fúll með launun og starfið. Og þá er ekkert annað í stöðunni en að hætta og finna sér annað að gera. Í sumar mun ég byrja í nýju starfi sem málari. Það er starf sem ég þekki vel og það er nóg að gera.
Sá sem þetta skrifar er Karl Hallgrímsson, sem hefur kennt við grunnskóla Bláskógabyggðar undanfarin ár. Hann hefur jafnframt starfað í Skálholtskórnum eins og ég og hefur haft stöðugt vaxandi áhrif á tónlistarlíf og annað menningarlíf hér í uppsveitum. Svo á hann líka merka konu, hana Grétu Gísladóttur, myndlistarmann og leikskólakennara.
Það er hörmulegt að aftur og aftur þurfi það að gerast, að fólkið sem á að vera kennarar, hrökklast úr starfinu vegna skammarlegra launa. Svo er í þessu tilviki. Án þess að ég vilji varpa rýrð á þá sem halda áfram (ég er einn af þeim sem lifði af þessar þrengingar, eða lét mig lifa þær af), flestir þeirra eru öflugir í faginu, þá hefur fjölgað þeim í þessari stétt sem þar eiga ekkert erindi og það er ekki einusinni hægt að losna við þá vegna ákvæða í starfsmannalögum nr. 70/1996. Vegna þeirra, að stórum hluta til, eru launakjör kennara þau sem þau eru.

Sorglegt.

Böl er barna kennsla



05 apríl, 2008

Alþjóðlegri vefdagbók מחל לי כי חטאתי

Nýjar stemningsmyndir komnar hér
Síðasta færsla á þessa síða kostaði umtalsverðan hluta af því þreki sem ég hef verið að safna upp á undanförnum mánuðum með hóflegri líkamsþjálfun minni. Það er af þeirri ástæðu sem nú er nánast orðin vika síðan ég heiðraði þessa síðu og þar með það alþjóðlega samsafn einstaklinga sem lætur svo lítið að kíkja hér inn, með því að skrá hér inn vangavelltur mínar um lífið og tilveruna. Það hefur heldur hefur dregið af alþjóðlegum heimsækjendum vegna þessa þrekleysis míns. Já, þetta veit ég því mér var boðinn ansi merkilegur fídus sem gerir mér kleift að fylgjast allnákvæmlega með gestakomum hér inn. Mér finnst harla eðlilegt að við og við láti nokkrir nákomnir Íslendingar, Þjóðverjar, Ástralir og Danir sjá sig hér inni, en þegar fór að bera á því að Bandaríkjamenn, Frakkar og ekki síst Ísraelar, tóku að birtast, þá fóru að renna á mig einhverjar grímur. Hvaða erindi skyldu t.d. Ísraelar eiga inn á svo gagnmerka, íslenska vefdagbók? Um þetta hef ég hugsað nokkuð og strax hefur skotið upp í hugann nokkrum mögulegum skýringum:
1. Ísraelskur hershöfðingi er að kynna sér nýjar eldflaugategundir og hefur heyrt að það nýjasta í þeim efnum sé PS-P640. Hann gúglar því PS-P640 og þá finnur hann auðvitað þessa síðu eins og þeir sem hér hafa fylgst með frá upphafi vita.
2. Ísraelskur gagnnjósnari fregnaði af fjársöfnun til handa HHG (nefni hann ekki hér til að erfiðara verði fyrir hann að gúgla færsluna aftur). Upplýsingarnar gæti hann hafa fengið hjá Bandaríkjamönnum. Hann langaði að taka þátt, en fann ekki reikningsnúmerið. Hann gúglaði því nafnið, sem ég nefni ekki aftur - bingó - birtist ekki síðan: 'Höfuð Kvisthyltinga'.
3. Arabískur hryðjuverkamaður sem var, ásamt Al K.... félögum sínum, að undirbúa sjálfsmorðsárás í Hollandi, þurfti að horfa á nýjustu tilraunina til að gera lítið úr hugmyndafræði Kóransins og afleiddra rita, til að öðlast hinn sanna anda sjálfsmorðingjans. Hann vissi að myndin kallaðist Fi...... (slæ það ekki inn aftur til að draga úr áhættu).
Nú, hvað gerist? Birtist ekki nákvæmlega þessi síða, eins og ekkert sé sjálfsagðara?
4. Að lokum ætla ég að geta mér þess til að leit einhvers Ísraelans að VAT69 - sem lítillega er fjallað um, hafi leitt hann á þessa kolröngu braut.
Ég vil hér með biðja þessa Ísraela afsökunar á að valda þeim þessum óþægindum, og lofa Al K.... félaganum að birta ekki mynd af Mú.... á þessari síðu. رب اغفر لي ذنوبي
LAUMULEGT BLOGG ER TIL LÍTILS

30 mars, 2008

Helgardægradvöl


Þá stefnir í að enn einni helginni ljúki og við taki næsta vinnuvika lífsins. Við Kvisthyltingar, sem enn gistum landið góða gerðum skurk í að halda lítillega upp á afmæli höfuðborgarans. Þetta fólst í höfuðborgarferð. Þar var auðvitað í leiðinni heilsað upp á barnabarnið, sem er orðið afar óþekkt. Í framhaldi af því lá leið hópsins, að undanteknu barnabarninu, á það sem heimsborgarar í höfuðborginni kalla 'Stælinn' - ég kýs frekar að kalla það AMST í ljósi nútímalegrar skammstöfunarstefnu, eða þá bara hamborgarastað. Já- við létum okkur bara duga að fara á hamborgarastað þessu sinni. Þar fengum við góðan viðurgjörning að mörgu leyti miðað við tilkostnað, utan það að nýbökuðu brauðin voru tveggja daga.
Sumir Kvisthyltingar hafa það ekki fyrir sið að taka sér góðan tíma í að borða, með þeim afleiðingum í þessu tilfelli, þrátt fyrir góðan ásetning þeirra sem að jafnaði telja að máltíða eigi að neyta í rólegheitum, að máltíðinni lauk töluvert áður en tími var kominn á næsta líð höfuðborgarheimsóknarinnar. Bílstjórinn (ég) ók hægt og rólega, eftir krókaleiðum í átt að Breiðholtinu, og þurfti auðvitað nokkuð oft að gefa skýringar á því hversvegna hann fór þessa leið en ekki hina.

Að lokum var rennt í hlað Sambíóanna við Álfabakka.

Þar höfðu daginn áður verið keyptir miðar á midi.is, á glóðvolga, íslenska kvikmynd: Stóra planið. Ekki vildi betur til en svo, að þegar miðarnir voru prentaðir út við brottför, reyndist dagsetningin ekki vera sú sem skyldi. Það var því rennt við í Álfabakkanum fyrr um daginn til að leiðrétta þennan misskilning; láta þá bíómenn vita af því að Kvisthyltingar höfðu ekki ætlað í bíó í gærkvöld, heldur í kvöld. Þeir breyttu dagsetningunni ljúfmannlega og allt bjargaðist að lokum, en eftir stendur sannfæring mín um að sökin á vitleysunni var hreint ekki mín, þar sem ég hafði örugglega valið réttan dag og tíma á midi.is. Þetta var án vafa kerfisvilla hjá fyrirbærinu midi.is. Ekki meira um það.

Hópurinn kom í hlað 45 mínútum áður en sýning skyldi hafin, korter yfir 7, en þá voru fréttir í sjónvarpinu í útvarpinu og þótti þátttakendum tilvalið að sitja í bílnum og bíða eftir fréttinni af fernum tvíburum í Tungunum, sem getið hafði verið í fréttayfirliti. Fréttin sú reyndist svo vera sú síðasta og harla ómyndræn að auki; rætt við tvíburamóðurina Helenu og tvíburaföðurinn Knút, auk væntanlegrar tvíburamóður, Hallberu. Allt mjög áhugavert en myndlaust.
Það kom að þeirri stund, rétt fyrir 19.30 að Kvisthyltingar héldu innreið sína í kvikmyndahúsið. Það kom þeim nokkuð á óvart (hluta þeirra í það minnsta) að þar var nánast enginn fyrir, ekki nema hálftími í sýningu á íslenskri mynd á öðrum sýningardegi. Þarna hefði þegar átt að vera komin löng röð af spenntum kvikmyndahússgestum! Jæja, þeir seinu skyldu þá bara fá lélegustu sætin. Nú var bara að stilla sér upp í röð og vera tilbúin þegar miðarífillinn fjarlægði hindranirnar og byrjaði að hleypa inn. Fljótlega tóku tveir ungir menn sér stöðu fyrir aftan mig (í kringum tvítugt) og hófu ákafar samræður sem voru í mínum eyrum ótrúleg samsuða af íslensku og ensku. Hvert skyldi nú umfjöllunarefni hafa verið? Jú ég skal ekki draga ykkur á svarinu við því: Heath Ledger - kvikmyndaleikarinn sem nýlega safnaðist til feðra sinna. Ekki treysti ég mér til að endursegja ástríðuþrungnar lýsingar á þessum frábæra leikara að öðru leyti en þessu:
"Ef ég hefði farið á Brokeback Mountain eftir að hann dó mundi ég hafa fokkins farið að skæla."
"Skæla, hvað er það?"
"Skæla? .... Gráta."
"Nú? Ekki ég."
Kvisthyltingar héldu ekki uppi sambærilegum samræðum, en skiptust þess í stað á mikilvægum (nánast hneykslunarfullum) augngotum, og héldu áfram að bíða eftir miðaríflinum.
Það fór svo, að með því að standa fremst í röðinni, þrátt fyrir að þó nokkur slatti unglingspilta hefði troðið sér fram fyrir, sem fyllti frú Dröfn baráttuanda í garð svona liðs, þá reyndust vera nokkuð mörg sæti í kvikmyndasalnum (stærsti salur kvikmyndahússins) og því um auðugan garð að gresja þegar kom að sætavali, sem var í höndum ML-ingsins.
Ef ég færi að segja hér frá myndinni væri meiri hætta en þegar er orðin, á því að þeir fáu lesendur sem enn eru að píra augun í þennan texta, gæfust upp. Ég læt það því vera, en get þess svona í lokin, að íslenska kvikmyndin Stóra planið er í góðu lagi.
BROTHÆTT ER BAKS FJALL

Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Mér var sagt það fyrir nokkrum árum, að einni konu hefði tekist það að verða bæði amma afa míns, Magnúsar Jónssonar (1887-1965) og langamma...