Bara svona til þess að gera tilraun til að halda í skefjum pælingum um heilsufar mitt eftir síðustu færslu vil ég nefna þetta:
Það hafði snjóað afar mikið í Laugarási á stuttum tíma. Snjórinn og umhverfið ýtti þá skyndilega við undarlega skáldlegum streng, og þeim atgangi lauk með skrifum þeim sem þarna má sjá.
Til frekari útskýringar á ljóðinu sem þarna birtist, þá var það svo, að ég tók mér skóflu í hönd og mokaði frá fjórhjóladrifna jepplingnum, ók honum síðan af stað í áttina að aðalgötunni. Þar var hinsvegar staðan sú, að snjóruðningsbíll hafði rutt upp snjóhrygg fyrir heimreiðina og var þá um tvennt að velja: moka hrygginn burt, sem ég hafði ekki nennu til á þeim tímapunkti, eða taka tilhlaup og láta vaða í gegn, sem ég var miklu meira tilbúinn í. Trjágróður með heimreiðinni byrgir sýn til hliðanna, þannig að hér var um að ræða talsverða áhættu, eða þannig. Tilhlaupið var tekið, en rétt í þann mund að ég var að þeysast í gegnum haftið á jepplingnum þá ók vígslubiskup framhjá á Volkswagen bifreið sinni, og við hlið hans sat biskupsfrúin. Þetta sá ég allt í snarhendingu áður en ég flaug inn á miðjan veg.
Þar sem ég var þarna búinn að losa bílinn, án þess að slys eða skemmdir hefðu hlotist af, þá var auðvitað allt gott.
Tilvitnun í morgunbænir Aðalheiðar var fengin að láni af bloggsíðu sælu andarinnar (athugasemdahluta) þar sem mér þótti athugasemdin sú henta ljóðinu vel.
Hér má sjá, að útskýringin er lengri en ljóðið, sem segir bara það, að það er hagkvæmara að því er orðafjölda varðar. Vandinn er bara sá, að það er undir hælinn lagt hvort allir lesendur skilja, hin fíngerðu blæbrigði sem því er ætlað að flytja.
Ekki er ljóðið öngstrætis fyrirboði
Já þetta var sem sagt svona Atóm-ljóð.
SvaraEyðaGaman að spúsan gat veitt kosmíska aðstoð og atómskan innblástur...