Þá stefnir í að enn einni helginni ljúki og við taki næsta vinnuvika lífsins. Við Kvisthyltingar, sem enn gistum landið góða gerðum skurk í að halda lítillega upp á afmæli höfuðborgarans. Þetta fólst í höfuðborgarferð. Þar var auðvitað í leiðinni heilsað upp á barnabarnið, sem er orðið afar óþekkt. Í framhaldi af því lá leið hópsins, að undanteknu barnabarninu, á það sem heimsborgarar í höfuðborginni kalla 'Stælinn' - ég kýs frekar að kalla það AMST í ljósi nútímalegrar skammstöfunarstefnu, eða þá bara hamborgarastað. Já- við létum okkur bara duga að fara á hamborgarastað þessu sinni. Þar fengum við góðan viðurgjörning að mörgu leyti miðað við tilkostnað, utan það að nýbökuðu brauðin voru tveggja daga.
Sumir Kvisthyltingar hafa það ekki fyrir sið að taka sér góðan tíma í að borða, með þeim afleiðingum í þessu tilfelli, þrátt fyrir góðan ásetning þeirra sem að jafnaði telja að máltíða eigi að neyta í rólegheitum, að máltíðinni lauk töluvert áður en tími var kominn á næsta líð höfuðborgarheimsóknarinnar. Bílstjórinn (ég) ók hægt og rólega, eftir krókaleiðum í átt að Breiðholtinu, og þurfti auðvitað nokkuð oft að gefa skýringar á því hversvegna hann fór þessa leið en ekki hina.
Að lokum var rennt í hlað Sambíóanna við Álfabakka.
Þar höfðu daginn áður verið keyptir miðar á midi.is, á glóðvolga, íslenska kvikmynd: Stóra planið. Ekki vildi betur til en svo, að þegar miðarnir voru prentaðir út við brottför, reyndist dagsetningin ekki vera sú sem skyldi. Það var því rennt við í Álfabakkanum fyrr um daginn til að leiðrétta þennan misskilning; láta þá bíómenn vita af því að Kvisthyltingar höfðu ekki ætlað í bíó í gærkvöld, heldur í kvöld. Þeir breyttu dagsetningunni ljúfmannlega og allt bjargaðist að lokum, en eftir stendur sannfæring mín um að sökin á vitleysunni var hreint ekki mín, þar sem ég hafði örugglega valið réttan dag og tíma á midi.is. Þetta var án vafa kerfisvilla hjá fyrirbærinu midi.is. Ekki meira um það.
Hópurinn kom í hlað 45 mínútum áður en sýning skyldi hafin, korter yfir 7, en þá voru fréttir í sjónvarpinu í útvarpinu og þótti þátttakendum tilvalið að sitja í bílnum og bíða eftir fréttinni af fernum tvíburum í Tungunum, sem getið hafði verið í fréttayfirliti. Fréttin sú reyndist svo vera sú síðasta og harla ómyndræn að auki; rætt við tvíburamóðurina Helenu og tvíburaföðurinn Knút, auk væntanlegrar tvíburamóður, Hallberu. Allt mjög áhugavert en myndlaust.
Það kom að þeirri stund, rétt fyrir 19.30 að Kvisthyltingar héldu innreið sína í kvikmyndahúsið. Það kom þeim nokkuð á óvart (hluta þeirra í það minnsta) að þar var nánast enginn fyrir, ekki nema hálftími í sýningu á íslenskri mynd á öðrum sýningardegi. Þarna hefði þegar átt að vera komin löng röð af spenntum kvikmyndahússgestum! Jæja, þeir seinu skyldu þá bara fá lélegustu sætin. Nú var bara að stilla sér upp í röð og vera tilbúin þegar miðarífillinn fjarlægði hindranirnar og byrjaði að hleypa inn. Fljótlega tóku tveir ungir menn sér stöðu fyrir aftan mig (í kringum tvítugt) og hófu ákafar samræður sem voru í mínum eyrum ótrúleg samsuða af íslensku og ensku. Hvert skyldi nú umfjöllunarefni hafa verið? Jú ég skal ekki draga ykkur á svarinu við því: Heath Ledger - kvikmyndaleikarinn sem nýlega safnaðist til feðra sinna. Ekki treysti ég mér til að endursegja ástríðuþrungnar lýsingar á þessum frábæra leikara að öðru leyti en þessu:
"Ef ég hefði farið á Brokeback Mountain eftir að hann dó mundi ég hafa fokkins farið að skæla."
"Skæla, hvað er það?"
"Skæla? .... Gráta."
"Nú? Ekki ég."
Kvisthyltingar héldu ekki uppi sambærilegum samræðum, en skiptust þess í stað á mikilvægum (nánast hneykslunarfullum) augngotum, og héldu áfram að bíða eftir miðaríflinum.
Það fór svo, að með því að standa fremst í röðinni, þrátt fyrir að þó nokkur slatti unglingspilta hefði troðið sér fram fyrir, sem fyllti frú Dröfn baráttuanda í garð svona liðs, þá reyndust vera nokkuð mörg sæti í kvikmyndasalnum (stærsti salur kvikmyndahússins) og því um auðugan garð að gresja þegar kom að sætavali, sem var í höndum ML-ingsins.
Ef ég færi að segja hér frá myndinni væri meiri hætta en þegar er orðin, á því að þeir fáu lesendur sem enn eru að píra augun í þennan texta, gæfust upp. Ég læt það því vera, en get þess svona í lokin, að íslenska kvikmyndin Stóra planið er í góðu lagi.
BROTHÆTT ER BAKS FJALL
Sæll vertu.
SvaraEyðaÉg var ein af þeim sem kom seint og hékk í röð eins og fífl og þ.a.l. fékk leiðinlegt sæti.
En ég var reyndar ekkert gasalega hrifin af myndinni, jú eitt og eitt fyndið. Allt of margar persónur og ofmetinn Soprano´s leikari sem kom fyrir tvisvar í myndinni.
Jæja nóg af bíógagnrnýni.
Bið að heilsa.
BKBen
p.s. ég keypti miðann minn líka á midi.is og á réttum degi.
Alltaf gott að kenna bara mida.is um vitlausan dag ha ha ha... greinilegt að þú og BS eruð eitthvað skyldir :)
Það skal tekið skýrt fram að barnabarnið hlýtur hér fyrirmyndar uppeldi! Hann hefur skynjað að von væri á ömmu og afa þar sem að hann byrjaði á þessu fyrst þá og hefur ekki gert þetta síðan þá !
SvaraEyðaAuðvitað varst þú ekki valdur af því að velja vitlausa dagsetningu hahaha!
Þú mátt ekki gleyma setningum eins og:
"vá þessi mynd er svo súr að það er bara eins og einhver hafi bara ælt sýru á linsuna"
en hún heyrðist þegar umræðan var um einhverja mynd sem annar þeirra hafði séð!