30 júní, 2008

Rætur í Hrollleifsdal


Þá er lokið helgarferð norður í Skagafjörð. Megintilgangur þessarar ferðar taldist vera þátttaka í ættarmóti þeirra sem teljast til svokallaðrar Krákustaðaættar. Stærstur hluti þessa móts fór fram að Bakkaflöt en sjálfsagt verður ferðin inn í Hrollleifsdal þar sem Krákustaðir stóðu, sá hlutinn sem helst stendur upp úr og þá fyrst og fremst vegna þess, annars vegar, að erfitt var að átta sig á ástæðum þess að fólk skyldi hafa tekið sér bólfestu svo langt inni í afskekktum dal, og hinsvegar vegna þess að veðurfarið lék ekki beinlínis við rótaleitandi ættmennin. Sannlega norðan garri þar á ferðinni.


Ég tek það auðvitað fram að ekki tilheyri ég þessari ætt heldur frú Dröfn og okkar afkomendur þar af leiðandi. Ég ætla ekkert að tjá mig hér um hvers eðlis fólk af þessari ætt virðist vera, þar sem það gæti komið í bakið á mér, en læt þess þó getið að þarna er að finna ágætis fólk, í það minnsta svona innan um.


Ég er búinn að setja inn þó nokkurn slatta af myndum frá ættarmóti þessu, sem aðallega þeir sem ættinni tilheyra geta haft gaman af að kíkja á.


Þá hafa einnig bæst við fleiri myndir frá hinni bölvuðu aðgerð og öðru skemmtilegu.


Kalt var á krákuslóðum,
kannski vegna þess.....

24 júní, 2008

Að kveðja gamla vini - "Ég er miður mín!"

Það má deila um það hvort nauðsynlegt er að fjarlægja vinina, sem hér er um að ræða, úr daglegu um hverfi. Ætli við höfum ekki átt samleið í rúmlega 30 ár og þeir hafa sannarlega gegnt mikilvægu hlutverki, bæði með því að skapa meiri fegurð í umhverfi okkar en ella hefði verið og einnig og ekki síður með því að skapa okkur skjól fyrir norðan garranum sem oftar en ekki hrjáir þá sem standa óvarðir fyrir veðurhamnum. Það er þannig með þessa vini að þeir hafa átt erfitt með að kljást við aldurinn og vaxandi stærð ásamt því sem fegurð þeirra hefur farið minnkandi með árunum.


Það vill þannig til, að tékkneskur skógarhöggsmaður hefur lagt leið sína í Laugarás. Hann hefur árum saman unnið við að grisja evrópska skóga. Það hefur því orðið að ráði, þó vissulega falli það ekki allstaðar í góðan jarðveg á þessum bæ, að ráðast í skógarhögg sem beinist að viðjunum sem standa meðfram heimreiðinni. Hér er um að ræða mikla breytingu á aðkomu að Kvistholti.
Þó vissulega sé eftirsjá í öllu því sem þessir vinir standa fyrir, þá verður að viðurkennast að þeir eru orðnir of veikburða til að geta haldið áfram lífi sínu með óbreyttum hætti. Þess er nú freistað að skapa þeim tækifæri, fyrir atbeina tékknesks skógarhöggsmanns, til að öðlast endurnýjun lífdaga í skjóli aspanna hinum megin við veginn.


Laugarás er, eins og allir sem til þekkja verða að viðurkenna, einstakur staður þar sem meðalhiti á sumrin er að jafnaði 2-3° hærri en í næsta nágrenni. Þetta þorp væri ekki svipur hjá sjón án þess trjágróðurs sem hér hefur vaxið upp á síðustu áratugum. Það er hinsvegara eðlilegt að sá tími komi að það þurfi að grisja og er reyndar löngu kominn, en það er bara hreint ekki auðvelt þegar á reynir, þó ekki væri nema vegna óttans við norðan garrann. Það verður rætt í Kvistholti þegar haustar að.

Nokkrar myndir frá verknaðinum er að finna hér



Napur er norðan garrinn

22 júní, 2008

Uppgjör við Vesturheim

Ég mun hafa gert ráð fyrir að fjalla hér lítillega um þau áhrif sem ég varð fyrir af ferðinni vestur um haf kringum mánaðamótin maí-júní s.l. Stysta útgáfan felur auðvitað í sér að ferðin þessi hafi verið afskaplega ánægjuleg í alla staði. Það sem þarf til að afreiða megi ferð með þessum hætti er af margvíslegum toga: ferðafélagarnir skipta miklu máli, farastjórnin, farartækin, gististaðirnir, þjóðin sem heimsótt er og landið. Allir þessir þættir voru með þeim hætti að ánægjulegt megi teljast.
Ég ætla nú samt að tína til nokkra þætti sem standa af einhverjum ástæðum enn upp úr þegar þetta er skráð.
* Víðáttan
Til þess að komast frá Minneapolis til landamæra Kanada þurfti að keyra í einn og hálfan dag, með eðlilegum hvíldum. Allan þennan tíma var nánast alltaf ekið í beina línu og hvergi var örðu að sjá í landslaginu. Þegar ferðin er svo skoðuð á korti vírðist hún harla lítilfjörleg í samanburði við N-Ameríku eins og hún birtist þar.
*Vegir
Vegir eru beinir og breiðir og landið er allt reitað niður í ferhyrninga af vegum. Einu hindranirnar fyrir utan landamærastöðvar, voru lestarteinar sem skáru veginn hér og þar. Þar þurfti að hægja á og jafnvel einstaka sinnum stöðva.
*Einnota
Morgunverðar neyttu gestir á hótelum í Bandaríkjahlutanum með plast- eða pappa áhöldum, sem síðan fóru í svartan plastpoka að máltíð lokinni. Ég verð að viðurkenna að fyrir utan það að morgunverðurinn verður engan veginn jafn lystugur, þá varð mér hugsað til allra hinna hótelanna og matsölustaðanna sem framreiða mat með sama hætti. Haugurinn af einnota mataráhöldum í þessu stóra landi hlýtur að vera talsvert stór.
*Rúm fyrir risa
Á öllum hótelherbergjum í þessari ferð voru tvö hjónarúm (á evrópskan mælikvarða). Þetta var óneitanlega talið tengjast vaxtarlagi þjóðarinnar.
*Ostur og skinka
Hvar var ostur þeirra Bandaríkjamanna, eða kjötáleggið? Ekki var um það að ræða þar sem Laugvetningar snæddu morgunverð. Þar var framreitt smjörlíki á brauðsneiðarnar ásamt sultu (hvorttveggja að sjálfsögðu í eins skammts einingum). Það var hinsvegar gaman að baka sér vöfflur og hella síðan út á þær hlynsírópi. Sömuleiðis var ekkert að eggjahrærunni með beikoninu og pylsunum.
*"Íslendingaranir"
Það var vissulega sérstakt að aka inn í einhvern bæinn á Íslendingaslóðum þar sem meiri líkur en minni voru á því að sjá íslensk nöfn á skiltum. Sömuleiðis legsteina í kirkjugörðum. Það var einnig ánægjulegt að hitta alla Íslendingana sem enn tala íslensku, en þeir eiga það reyndar flestir sameiginlegt að vera orðið nokkuð aldraðir, en þar eru þó undantekningar á. Íslenskan sem þarna heyrðist var ekki beinlínis sú nútíma íslenska sem við erum vön og þessvegna yfirleitt fegurri en það sem maður á að venjast.
*Veikindi
Veikindi settu umtalsvert mark á hópinn sem þarna var á ferð.
*Bandaríkjamenn
Það má að öllum líkindum gera ráð fyrir að hver þjóð mótist að einhverju leyti af umhverfi sínu. Að ofan hef ég lýst lítillega því umhverfi sem við blasti þar vestra. Það má draga þá ályktun að þjóð sem býr við þær aðstæður sem þar er lýst, geri sér ekki fyllilega grein fyrir að taka þurfi tillit til eins eða neins. Þar er bara beinn og breiður vegur, engar beygjur eða brekkur þar sem þörf er á aðgát. Ég sá jafnvel fyrir mér, þar sem lestrateinar skáru veginn á einstaka stað, að þar mætti ímynda sér það eina sem áhrif gæti haft á óhindraðan framgang risaveldisins, því það var þarna sem helst þurfti að draga úr hraðanum. Þetta eru ef til vill orðið helst til djúpar pælingar um eðli Bandaríkjamanna.
*Yfirborðsmennska
Það er nú reyndar einkennandi fyrir fleiri en Bandaríkjamenn að það telst mikilvægt að út á við líti allt vel út. Þá skipti ekki eins miklu máli að allt sé í lagi undir niðri. Ég held ég fjalli bara ekkert meira um það hér.
Þar með tel ég mig vera búinn að gera Vesturheimserðinni skil eins og ég hugsa mér.

Þeir eru' ekkert vondir í Vesturheimi (svona almennt séð)

20 júní, 2008

Hættulegt á Íslandi

Það var ekki laust við að færi lítillega um mig við að fylgjast með kvöldfréttum í gær þegar fregnir voru fluttar af því að pólskir ferðamenn hefðu fundið ísbjarnarspor í grennd við Hveravelli. Fréttinni fylgdi að leitarflokkar með þyrlu og hvaðeina væru á leið á svæðið til að leita bjarndýrsins.

Ef maður horfir á kort af Íslandi fer ekki á milli mála, að ef ísbjörn hefur komist alla leið á Hveravelli þá er hreint ekkert ólíklegt að hann geti lagt leið sína í uppsveitir Árnessýslu. Ef hann er kominn þangað á annað borð, er alls ekki ólíklegt að hann geti lagt leið sína í Laugarás, og það lái ég honum ekki, þar sem staðurinn sá er mikil Paradís fyrir menn og dýr og hentar því sérlega vel fyrir ísbjörn sem hefur í hyggju að breyta lífsháttum sínum og gerast skógarbjörn, til að takast á við þær breytingar sem hlýnun jarðar felur í sér.

Nú, í þungum þönkum gekk ég til hvílu og hálf kveið því að þurfa að fara í vinnuna í morgun, síðasta vinnudag fyrir sumarfrí, getandi átt von á því að það væri kominn ísbjörn í garðinn. Ísbirnir eru, að sögn, hin mestu skaðræðisdýr og ekki á færi latte drekkandi lýðs þessa lands að mæta og sleppa lifandi frá samskiptum við þá. Ég hafði lesið einhvers staðar leiðbeiningar um hvernig við skuli brugðist mæti maður ísbirni á förnum vegi. Þar var það ráðlagt að hafa ávallt með sér lopavettlinga. Þegar maður væri óvart búinn að líta í augun á óargadýrinu og það hefði tekið ákvörðun um að drepa mann og éta, þá átti að hlaupa af stað í áttina frá dýrinu, og það auðvitað öskrandi á eftir. Við þessar aðstæður ættu lopavettlingarnir (annar eða báðir) að koma í góðar þarfir væri þeim rétt beitt. Rétt beiting felur í sér, að á hlaupunum skal snúa sér eldsnöggt við og henda lopavettlingunum í áttina að æpandi birninum. Það sem mun gerast ef þetta er framkvæmt eins og fyrir er lagt er, að björninn mun þá gleyma þeim sem hann ætlaði að éta og snúa sér þess í stað að því að snúa lopavettlingunum við, þannig að rangan snúi út. Þar með væri lífinu borgið.

Í morgun var það sem sagt það síðasta sem ég gerði, áður en ég hljóp sem fætur toguðu út um útidyrnar og út í bíl, að fara í hvítu kommóðuna og ná í lopavettlinga frú Drafnar, sem móðir hennar hafði prjónað á hana fyrir lengra síðan en ég kann að rifja upp. Ég komst út í bíl við illan leik, ekki vegna ísbjarnar á stéttinni, heldur bara hreint ekki vegna neins ( það hljómar svo vel að tala um að komast eitthvert 'við illan leik'). Sem sagt ég komst inn í bílinn án þess að sjá til bangsa og setti í gang, bakkaði síðan með yfirveguðum hætti áður en ég setti í fyrst gír og beygði í átt niður á veg í gegnum trjágöngin. Það var nákvæmlega þá sem ég sá hann





þar sem hann sat og horfði í átt til mín og úr augunum skein ákall um hjálp. Hann hafði kannski áttað sig á því að það tekur nokkarar kynslóðir ísbjarna til að breytast í skógarbjörn.



.....Og hvað gerði ég?

18 júní, 2008

Umhverfis þjóðhátíðardaginn



Það er ekki laust við að undanfarnir dagar hafi verið töluvert viðburðaríkir. Það vill reyndar of vera svo á vordögum og fyrri hluta sumars. Tvö afkvæmanna voru í sviðsljósinu þessu sinni; annað útskrifaðist úr HÍ, en hitt tók upp á því að kvænast, sem var auðvitað síður en svo leiðinlegt. Auðvitað var umstangið minna en gengur og gerist, en ekki verður betur séð af skrifum hans en að ekki sé séð fyrir endann á því.

Á þjóðhátíðardaginn sjálfan var fáni dreginn að húni fyrsta sinni á þessum bæ og þótti vel til takast.

Myndir frá hátíðahöldum Tungnamanna er að finna hér.


Ég veit að margir bíða óþreyjufullir eftir úttekt minni á vesturferðinni, en hún er að meltast og lítur vonandi dagsins ljós fljótlega eftir að sumarfrí hefst.

Ég get ekki nógsamlega lofað það tiltæki RUV að bjóða okkur svo vandaða og skemmtilega kvölddagskrá sem verið hefur að undanförnu og sem von er á að fram verði haldið enn um sinn. Þarna er ég algerlega á öndverðum meiði við ýmsa aðra.
Myndir frá atburðum innan fjölskyldunnar undanfarna daga vil ég ekki flytja inn í vefalbúm nema hafa til þess heimild frá viðkomandi. Komi hún, er mér ekkert að vanbúnaði.


Á öndverðum meiði er ei önugt að vera.

15 júní, 2008

Líffræðingurinn okkar


Það er auðvitað ekki annað hægt en að vera stoltur að dótturinni sem útskrifaðist með BSc gráðu í líffræði í gær.

Ýmsar tegundir af fólki í BNA

Ég þykist nokkuð viss um að það eru ekkert sérstaklega margir sem hafa í sér nennu til að lesa sig í gegnum svona ferðasögu og ég skil það reyndar vel. Það er eitt að reyna og upplifa, annað að lesa frásagnir af því. Það breytir hinsvegar ekki því að ég hef nokkuð gaman að að setjast niður og rifja upp hápunktana í þessari merku ferð. Blogg er í eðli sínu ákaflega sjálfmiðuð iðja og í samræmi við það ætla ég að ljúka því sem ég byrjaði á: að skrá frásögn af því helsta sem þarna átti sér stað.

Þegar síðasta hluta lauk var hópurinn við það að yfirgefa Kanada og heiðra Bandaríki N-Ameríku öðru sinni með nærveru sinni. Stefnt var inn í Norður-Dakóta, sem er alræmd Íslendinganýlenda. Fyrsti viðkomustaðurinn var Mountain, sem er þorp sem byggt er á einu ójöfnunni í landslaginu, og ber því þetta þróttmikla nafn. Hæðin nær kannsku 20 m hæð yfir jafnsléttuna. Þarna voru fyrir þó nokkrir íslenskumælandi sem tóku á móti okkur í bjórgarði sem er afar vinsæll þegar Íslendingadagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert. Í framhaldinu var Víkurkirkja í Mountain skoðuð, en þar er einn sálmur sunginn á íslensku á ári: Heims um ból. Þá var ekið um sveitarfélagið Gardar og margt sagt um sögu Íslendinga þar. M.a. var komið við í grafreitum þar sem flest nöfn voru íslensk og þarna mátti t.d. finna legstað Káins. Yfir hann var hellt brennivíni eftir að fararstjórinn hafði lesið eitt ljóða hans. Kirkjan sem þarna stóð brann fyrir nokkrum árum og eftir stóð Kristslíkneski og klukka. Síðasti hluti heimsóknar á slóðirnar þarna, fólst í að vitja fyrrum landareignar Stephans G Stephanssonar, en þar hefur verið reistur minnisvarði um skáldið og bóndann þann. Áður en haldið var brott frá Gardar fengum við að líta nokkurskonar Kóngsveg þeirra þarna, en það var bútur af slóð sem indíánar notuðu áður fyrr.

Næturstaður var aftur Grand Forks, og þaðan lá svo leiðin til Minneapolis daginn eftir. Á leið þangað var komið við þar sem ein af lengstu ám veraldar á upptök sín, en það er sjálf Mississippi. Fengu ferðalangarnir þarna tækifæri til að vaða þetta stórfljót, en það hefur ekki öllum vei(t)st. Eftir vaðmennskuna var borðaður indiánamálsverður með bónussalati.

Síðasti kvöldverðurinn var snæddur á mexíkósku veitingahúsi, þar sem sá sem þetta ritar lenti í nokkuð alvarlegum útistöðum við yfirþjóninn, en maturinn var ágætur.

Þar sem flug heim var undir kvöld daginn eftir, gafst áhugasömum tækifæri til að njóta sín í stærsta vöruhúsi í henni Ameríku, Mall of America, en aðrir sem minni áhuga höfðu, t.d. skelltu sér með lest niður í miðborgina til að drekka í sig stemninguna þar, sem reyndist engin vera á evrópskan mælikvarða. Lítilsháttar viðkoma í vöruhúsinu mikla var síður en svo ánægjuleg.

Það kom svo bara að því að flogið var til heimalandsins og síðan hefur tíminn farið í að gera þetta allt saman upp. Framundan hér, er að tína til þau áhrif sem ferðin hafði og þá mynd sem til varð í huga þess sem hér fjallar um, sem sagt, mínum.


Í mollum þeirra er margt að sjá,
og miðborg engu líka.
..... og botnið nú.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...