30 júní, 2008

Rætur í Hrollleifsdal


Þá er lokið helgarferð norður í Skagafjörð. Megintilgangur þessarar ferðar taldist vera þátttaka í ættarmóti þeirra sem teljast til svokallaðrar Krákustaðaættar. Stærstur hluti þessa móts fór fram að Bakkaflöt en sjálfsagt verður ferðin inn í Hrollleifsdal þar sem Krákustaðir stóðu, sá hlutinn sem helst stendur upp úr og þá fyrst og fremst vegna þess, annars vegar, að erfitt var að átta sig á ástæðum þess að fólk skyldi hafa tekið sér bólfestu svo langt inni í afskekktum dal, og hinsvegar vegna þess að veðurfarið lék ekki beinlínis við rótaleitandi ættmennin. Sannlega norðan garri þar á ferðinni.


Ég tek það auðvitað fram að ekki tilheyri ég þessari ætt heldur frú Dröfn og okkar afkomendur þar af leiðandi. Ég ætla ekkert að tjá mig hér um hvers eðlis fólk af þessari ætt virðist vera, þar sem það gæti komið í bakið á mér, en læt þess þó getið að þarna er að finna ágætis fólk, í það minnsta svona innan um.


Ég er búinn að setja inn þó nokkurn slatta af myndum frá ættarmóti þessu, sem aðallega þeir sem ættinni tilheyra geta haft gaman af að kíkja á.


Þá hafa einnig bæst við fleiri myndir frá hinni bölvuðu aðgerð og öðru skemmtilegu.


Kalt var á krákuslóðum,
kannski vegna þess.....

3 ummæli:

  1. Skemmtilegar myndir margar hverjar...

    sorglegt samt að skoða aðkomuna að Holtinu núna.. :(

    svo er ekki annað að sjá en að skógarþrestirnir hafi nóg að bíta og brenna þarna í skóginum, alveg spikfeitir og pattaralegir :D

    SvaraEyða
  2. Mér sýnist nú alveg mega fara höggva niður þessu stóru ljótu grenitré sem eru mikil óprýði við Holtið. ;)

    Gaman að sjá myndir af ættmennum mínum sem ég ekki þekki og mun ekki þekkja, það er alltaf gífurlegt stuð.

    SvaraEyða
  3. H.Ág. tjáir sig:

    Kalt var á krákuslóðum
    kannski já vegna þess
    að lítið var ort af ljóðum
    við langtíma vindastress,
    hrollur með hryssingsvanda
    hrekkti þar gestastóð
    erfitt var oft að standa
    á ættingja frúar slóð.

    Já kalt var á krákuslóðum.

    (þetta er bloggskapur dagsins)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...