01 júlí, 2008

"Það verður ljóta návælið!"

Oragnistanum var gert að tæma skrifstofuaðstöðu sína í kjallara biskupshússins fyrir lok júni. Þar sem hann hefur verið órjúfanlegur hluti af starfsemi Skálholtskórsins var ekki svo auðvelt að greina á milli hvað væri hvurs. Það varð því að ráði, að tæma kórkjallarann alfarið, þannig að nýir herrar gætu hafið störf á nýjum grunni. Hópur fyrrverandi félaga úr Skálholtskórnum sáluga, ásamt hjálparkokkum, kom þarna saman og flutti öll gögn og búnað í eigu þessara aðila upp í Aratungu, til bráðabirgða.

Hvað síðan verður veit enginn á þessari stundu, en mér fannst þetta ansi endalengur viðskilnaður, í það minnsta af minni hálfu. Mér er ekki ljóst hvernig Skálholtsmenn hyggjast fylla það skarð sem Skálholtskórinn skilur eftir sig og ég á erfitt með að ímynda mér að einhverjir þeirra sem mynduðu kjarna kórsins, snúi til baka í nýjan kór eftir allt það sem á undan er gengið.

Ég reikna með að þeir séu búnir að biðja Guð almáttugan um leiðsögn í þeim efnum.

Maður verður að reyna að sjá alla þessa hluti í víðara samhengi; hér eru menn að véla með vald sem þeim hefur verið fengið með einhverjum hætti. Það sem mennirnir gera stendur sjaldnast að eilífu. Þó við getum ekki haft áhrif á gerðir þeirra þá mun tíminn líklegast gera það.

Ég tók auðvitað myndir, etv. færri en vera skyldi vegna anna við flutningana, en þó þetta.

Gamli maðurinn minntist þess þegar hann fór til kirkju í hér í sveit (á Torfastöðum) á 4. áratug síðustu aldar um það bil, og söfnuðurinn sá um sönginn. Í því samhengi sér hann fyrir sér söng í Skálholti við brotthvarf Skálholtskórsins með þeim hætti sem fyrirsögnin segir.

3 ummæli:

  1. jáhh það verður fróðlegt að heyra hvernig þeim tekst að redda kór og organista fyrir hina margfrægu skálholtshátíð múhahahhaha... þeir hefðu átt að hugsa um það áður... tekst þeim að kaupa eitthvað "lið" úr reykjavík?! - en það er jú víst það sem þeir eru að biðja um!

    SvaraEyða
  2. Verði þeim bara að góðu blessuðum höfðingjunum. Það er vonandi að buddan geymi digra sjóði þegar kemur að því að borga þann pakka.
    Þó að sjóðirnir rýrni aðeins þá er tilfinnigin örugglega öðruvísi, sárari og tómlegri fyrir hinn sauðsvarta almúga Uppsveitanna. Peningar skipta nefnilega svo litlu en hin líðanin er ansi súr.

    Mig skiptir mestu að láta ekki hafa af mér gleðina sem ég hef haft af söng í góðum hóp, þá er eins og þeir hafi unnið. Það má ekki láta það gerast.
    Annars vil ég láta leggja niður Skálholtssókn, sameina hana annarri sókn með kirkju sem vill sóknarbörnin sín í starf innan kirkjunnar sinnar.
    Bkv. AÐalheiður

    SvaraEyða
  3. Mú hahaha, segir Guðný elskan með augun fögru! Grefilli sem það er nú vel skrifað. Ég heyri þetta alveg fyrir mér. Mú, hahaha!

    EN að einhver hafi "unnið" í kórleiðindunum hræðilegu sé ég málið ekki þannig. Menn hafa tapað þvi enginn er kórinn á kirkjustað. Fremur vil ég nú leita leiða til að halda þessum slétt-dásamlega hópi saman, hvað sem tautar og raular.
    Reiðilestrana vegna alls þessa er ég búin að flytja oft og nokkuð víða, hjá lágum sem háum. Ekki kom það nú fyrir mikið.
    Ég man alltaf þegar Hilmar sagði mér í óspurðum frettum að preláti nokkur hefði vikið sér að honum og sagt:"þú skalt alveg búast við að þér verði sagt upp".
    Andlitið á mér féll í gólfið með háum smelli og var þar lengi vel. Og eðli mínu trú hélt ég að með sómasamlegum viðræðum og rólyndi væri hægt að færa mál til betri vegar. Svo var ekki og sársaukinn í organistabænum mikill; vanlíðanin voðaleg.
    Kórinn okkar hefur skipt mig meira máli en allt annað félagslegs eðlis hér í sveit og það er mér næstum óbærileg tilhugsun að þessi flotti hópur liðist í sundur.
    Það "vinnur" enginn því við berjum ekki meira á fólki, heldur höldum okkar söngstriki í hvaða mynd sem það kann að verða og hvar sem við fáum söngfrið. Vissulega getum við líka haldið góðu söngsambandi við Hilmar og aldrei að vita hvað kemur út úr slíku.
    EN Drífa heldur grillveislu og við berum höfuðið hátt, vitandi að ýmissa spurninga verður sennilega spurt á Skálholtshátíð þegar elsti kirkjustaður landsins getur ekki skartað kór úr eigin héraði. (mú, hahaha)
    Það skal -og bittnú- verða létt-pínlegt fyrir einhverja.
    Já það er ekki gott að virða ekki pöpulinn - fólk var nú hálshöggvið fyrir það hér einhvers staðar í útlöndum ef ég man rétt.
    En við skulum ekki gripa til slíkra ráða; fyrir neðan virðingu þessa frábæra hóps.
    Syngjum saman, höldum hópinn og "ráðum okkar ráðum" eins og ræningjarnir í Kardimommubæ. Bara ekki ræna Soffíu frænku, því hún fellur engan veginn í hópinn.
    H.Ág.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...