01 júlí, 2008

Fjöldamorð!

Mér hitnaði nokkuð í hamsi við ritun síðustu færslu og ákvað að láta slag standa; fá útrás með því að enda æviskeið ótilgreinds fjölda lífvera. Það má auðvitað deila um hvort það sem ég tók mér fyrir hendur var æskileg leið til þess arna, enda fól það í sér að ég tók töluverða áhættu.


Aðgerðin á töluvert langan aðdraganda, eða allt frá því að lífverurnar sem um ræðir hófu að valda ónæði á pallinum stóra og fína á ljúfum sólardögum fyrr í vor. Það var síðan þegar híbýli þeirra fundust uppi undir mæni, að hugsunin fór að snúast æ meir um hvaða leiðir væru færar til að binda endi á þann búskap sem þarna var á ferðinni. Ég var búinn að finna borð sem var nægilega langt til að ná alla leið upp, en vildi síður taka áhættuna af því að hitta ekki í mark með mjóum borðsendanum og eyddi því löngum tíma við að velta fyrir mér hvað ég hefði við höndina sem gæti breikkað hann og þannig tryggt það að markmiðið: að klessa heila klabbið, næðist. Það var svo í gær, þegar ég var að sinna rennuviðgerðum í um 5 metra fjarlægð, að einn íbúinn í þessum óvelkomnu híbýlum settist á öxlina á mér og lét mig vita, svo ekki varð misskilið, að nær skyldi ég ekki voga mér. Það var nákvæmlega þá sem endanlega varð ljóst hvert stefndi með líf viðkomandi.

Þegar saman komu, heitstrengingin frá í gær og skriftirnar í dag, var ekkert eftir sem gat breytt fyrirliggjandi ákvörðun. Snarlega hófst ég handa, með því að fara niður í kjallara í leit að flugnaneti, sem var fylgibúnaður golfiðkunar fyrri ára. Það fann ég auðvitað ekki enda golfsettið rækilega grafið bak við ótilgreinda búslóð. Við svo búið gafst ég ekki upp, heldur leitaði áfram og fann bráðlega rauðan poka sem notaður hafði verið undir gulrætur, meðan þær voru enn ræktaðar hér á bæ. Nú, því næst tók ég til öfluga fingravettlinga og vetrarúlpu. Þá var fatnaðurinn kominn.

Þá var næst að finna eitthvað það sem breikkað gæti borðendann, eins og áður er getið. Loks fann ég nákvæmlega það sem mig vantaði: gataplötu sem gekk af þegar sperrurnar sem halda upp þakinu á bænum voru reknar saman. Ég tók þessu næst til þrjá 1 1/2 tommu nagla ásamt hamri. Þar með var allur búnaðurinn kominn og ekkert eftir annað en festa gataplötuna á borðsendann og kenna frú Dröfn á Canon 400D, sem reyndist ekki flókið.

Þegar ég hafði fest gataplötuna á, alveg nákvæmlega eins og ég hafði hugsað mér, skellti ég mér í þann búnað sem ég hafði tekið til.


Þegar hér var komið gekk ég ákveðnum skrefum að borðinu, svona eins og lyftingamaður sem er búa undir að lyfta mestu þyngd. Borðið greip ég þessu næst báðum höndum og svipti því upp, gekk hiklaust suður fyrir hús með borðið reitt, miðaði gataplötunni á kúluna og lét vaða án þess að hugsa frekar. Það heyrðist frekar ræfilslegt brak þegar kúlan flattist út og það sitraði enginn safi í gegnum götin á plötunni, en til öryggis hélt ég spennunni all lengi og juðaði plötunni til að tryggja sem best að markmiðinu væri náð.

Þess ber að geta, að meðan á þessu stóð átti frú Dröfn að taka myndir í gríð og erg, en sökum þess hve hreint ég gekk til verks varð myndskráning þessa atburðar ekki jafn ríkuleg og maður á að venjast með nútíma myndatöku.

Það kom að því að ég létti spennunni á gataplötuna og lét loks borðið síga. það sem við blasti var klesst geitungabú, sem ekki varð betur séð en væri tómt.

Nú er bara að vona að íbúarnir, hafi þeir allir verið að heiman, hefji ekki, ævareiðir, leit að sökudólgi þegar þeir koma heim í kvöld.

MYNDIR



Óvinur er gataplata geitunga

7 ummæli:

  1. Það er alltaf gaman að lesa um lítrík ævintýr Holts fjölskyldunnar.

    Þeir munu koma aftur og endurbyggja, því þeir gefast ekki upp, eins og köngulærnar.

    Óvinur er gataplata geitunga
    gerir þeim þann óleik fara
    líkt með máli okkar sveitunga
    sem líf úr kór er látið fjara.
    [Helgi Ágústsson]

    SvaraEyða
  2. Mögnuð aftaka. Hrein fagmennska. Var sérstaklega hrifinn af flugnanetinu. Það var tær snilld. :)

    SvaraEyða
  3. hahaha... það vantaði mynd af þér með andlitið í vélina :D

    Það er samt eitthvað með svæðið þarna fyrir ofan herbergið mitt og þessi geitungabú... svo ægilega skjólsælt örugglega!

    SvaraEyða
  4. Morðin í Kvistholti
    Lagboði: Söngur villiandarinnar

    Vonglaður bú undir bjálkunum reisti
    og bjó þar með ungunum, tútnum af hreysti
    :;í sælu og sól
    er mitt sveipaði ból:;

    En morðingi læddist að mér undir sólu
    og mikið sem ungarnir hrinu og gólu
    :;já vondur sá var
    er oss veittist að þar:;

    Á himnum er réttlæti, heyrðu það manni,
    þar hef ég nú bú mitt í sælunnar ranni,
    :;en morðingi minn
    mun ei himin í inn:;

    (þetta var bloggskapur geitungsins)

    SvaraEyða
  5. Hæ hæ
    Finnst thu magnadur penni :) Kikji alltaf reglulega hingad inn og skemmti mer vel
    Bestu kvejdur til Frú Drafnar
    Rannveig (kellan hans Valda ;)

    SvaraEyða
  6. Ég veit ekki hvort er meira brútal, að kremja allt saman í köku eða aðferðin hans pabba að fara að næturlagi þegar þær eru allar "heima", og sprauta eitri inn í búið :) gott að hafa fjölbreytni í þessu

    SvaraEyða
  7. Góð hugmynd. Ég þarf að nota sömu aðferð við tvö bú í afabæ. Bara redda gataspjaldi, fírtommu spítu og kartöflupoka.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...