24 júní, 2008

Að kveðja gamla vini - "Ég er miður mín!"

Það má deila um það hvort nauðsynlegt er að fjarlægja vinina, sem hér er um að ræða, úr daglegu um hverfi. Ætli við höfum ekki átt samleið í rúmlega 30 ár og þeir hafa sannarlega gegnt mikilvægu hlutverki, bæði með því að skapa meiri fegurð í umhverfi okkar en ella hefði verið og einnig og ekki síður með því að skapa okkur skjól fyrir norðan garranum sem oftar en ekki hrjáir þá sem standa óvarðir fyrir veðurhamnum. Það er þannig með þessa vini að þeir hafa átt erfitt með að kljást við aldurinn og vaxandi stærð ásamt því sem fegurð þeirra hefur farið minnkandi með árunum.


Það vill þannig til, að tékkneskur skógarhöggsmaður hefur lagt leið sína í Laugarás. Hann hefur árum saman unnið við að grisja evrópska skóga. Það hefur því orðið að ráði, þó vissulega falli það ekki allstaðar í góðan jarðveg á þessum bæ, að ráðast í skógarhögg sem beinist að viðjunum sem standa meðfram heimreiðinni. Hér er um að ræða mikla breytingu á aðkomu að Kvistholti.
Þó vissulega sé eftirsjá í öllu því sem þessir vinir standa fyrir, þá verður að viðurkennast að þeir eru orðnir of veikburða til að geta haldið áfram lífi sínu með óbreyttum hætti. Þess er nú freistað að skapa þeim tækifæri, fyrir atbeina tékknesks skógarhöggsmanns, til að öðlast endurnýjun lífdaga í skjóli aspanna hinum megin við veginn.


Laugarás er, eins og allir sem til þekkja verða að viðurkenna, einstakur staður þar sem meðalhiti á sumrin er að jafnaði 2-3° hærri en í næsta nágrenni. Þetta þorp væri ekki svipur hjá sjón án þess trjágróðurs sem hér hefur vaxið upp á síðustu áratugum. Það er hinsvegara eðlilegt að sá tími komi að það þurfi að grisja og er reyndar löngu kominn, en það er bara hreint ekki auðvelt þegar á reynir, þó ekki væri nema vegna óttans við norðan garrann. Það verður rætt í Kvistholti þegar haustar að.

Nokkrar myndir frá verknaðinum er að finna hér



Napur er norðan garrinn

5 ummæli:

  1. Og við mennirnir erum svo miklir sérfræðingar í því hvernig allt virkar og á að virka, að við horfum fram hjá því hvernig hlutirnir eru. Maður sér ekki svona lagað gerast nema á bakvið leynist einhverskonar gróða eða peningasjónarmið, sem fá alltaf að ríkja yfir fagurfræði náttúrunnar. Hvað verður næst, drepa gamalmennin sem ekki eru lengur "nýtir" þegnar í þjóðfélaginu? Jahh, maður spyr sig. Þetta er allavega ekki verðugt framlag í það sem kallast í dag "carbon footprint".

    Mé finnst þetta synd og skömm og þó ekki sé hægt að gráta orðin hlut, þá bölva ég þessari ákvörðun.

    SvaraEyða
  2. get ekki sagt annað en að ég sé sammála seinasta ræðumanni :(

    SvaraEyða
  3. Napur er norðan garrinn
    niður og nídd er nú flóra
    um göngin ei lengur fer ég inn
    í algleymi tékkneskra bjóra. :)

    SvaraEyða
  4. Vá hvað þetta er mikil breyting á aðkomu að Kvistholti.
    Get ekki sagt annað en að það er bjartara og opnara að keyra inn heimreiðina. Svo er bara að passa að blessaður trjámaðkurinn nái sér ekki á strik, hann gerði það í Varmagerði um árið og sumir gamlir vinir náðu sér aldrei á strik eftir skógarhöggið þar. Sókn er besta vörnin, sprauta strax...
    Það er ekki laust við örlitla nostalgíu hjá fjarverandi afkvæmum Kvisthyltinga eða hvað?

    SvaraEyða
  5. Maður bíður bara eftir að verði fyllt upp í listaverkið framan á Kvistholti

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...