22 júní, 2008

Uppgjör við Vesturheim

Ég mun hafa gert ráð fyrir að fjalla hér lítillega um þau áhrif sem ég varð fyrir af ferðinni vestur um haf kringum mánaðamótin maí-júní s.l. Stysta útgáfan felur auðvitað í sér að ferðin þessi hafi verið afskaplega ánægjuleg í alla staði. Það sem þarf til að afreiða megi ferð með þessum hætti er af margvíslegum toga: ferðafélagarnir skipta miklu máli, farastjórnin, farartækin, gististaðirnir, þjóðin sem heimsótt er og landið. Allir þessir þættir voru með þeim hætti að ánægjulegt megi teljast.
Ég ætla nú samt að tína til nokkra þætti sem standa af einhverjum ástæðum enn upp úr þegar þetta er skráð.
* Víðáttan
Til þess að komast frá Minneapolis til landamæra Kanada þurfti að keyra í einn og hálfan dag, með eðlilegum hvíldum. Allan þennan tíma var nánast alltaf ekið í beina línu og hvergi var örðu að sjá í landslaginu. Þegar ferðin er svo skoðuð á korti vírðist hún harla lítilfjörleg í samanburði við N-Ameríku eins og hún birtist þar.
*Vegir
Vegir eru beinir og breiðir og landið er allt reitað niður í ferhyrninga af vegum. Einu hindranirnar fyrir utan landamærastöðvar, voru lestarteinar sem skáru veginn hér og þar. Þar þurfti að hægja á og jafnvel einstaka sinnum stöðva.
*Einnota
Morgunverðar neyttu gestir á hótelum í Bandaríkjahlutanum með plast- eða pappa áhöldum, sem síðan fóru í svartan plastpoka að máltíð lokinni. Ég verð að viðurkenna að fyrir utan það að morgunverðurinn verður engan veginn jafn lystugur, þá varð mér hugsað til allra hinna hótelanna og matsölustaðanna sem framreiða mat með sama hætti. Haugurinn af einnota mataráhöldum í þessu stóra landi hlýtur að vera talsvert stór.
*Rúm fyrir risa
Á öllum hótelherbergjum í þessari ferð voru tvö hjónarúm (á evrópskan mælikvarða). Þetta var óneitanlega talið tengjast vaxtarlagi þjóðarinnar.
*Ostur og skinka
Hvar var ostur þeirra Bandaríkjamanna, eða kjötáleggið? Ekki var um það að ræða þar sem Laugvetningar snæddu morgunverð. Þar var framreitt smjörlíki á brauðsneiðarnar ásamt sultu (hvorttveggja að sjálfsögðu í eins skammts einingum). Það var hinsvegar gaman að baka sér vöfflur og hella síðan út á þær hlynsírópi. Sömuleiðis var ekkert að eggjahrærunni með beikoninu og pylsunum.
*"Íslendingaranir"
Það var vissulega sérstakt að aka inn í einhvern bæinn á Íslendingaslóðum þar sem meiri líkur en minni voru á því að sjá íslensk nöfn á skiltum. Sömuleiðis legsteina í kirkjugörðum. Það var einnig ánægjulegt að hitta alla Íslendingana sem enn tala íslensku, en þeir eiga það reyndar flestir sameiginlegt að vera orðið nokkuð aldraðir, en þar eru þó undantekningar á. Íslenskan sem þarna heyrðist var ekki beinlínis sú nútíma íslenska sem við erum vön og þessvegna yfirleitt fegurri en það sem maður á að venjast.
*Veikindi
Veikindi settu umtalsvert mark á hópinn sem þarna var á ferð.
*Bandaríkjamenn
Það má að öllum líkindum gera ráð fyrir að hver þjóð mótist að einhverju leyti af umhverfi sínu. Að ofan hef ég lýst lítillega því umhverfi sem við blasti þar vestra. Það má draga þá ályktun að þjóð sem býr við þær aðstæður sem þar er lýst, geri sér ekki fyllilega grein fyrir að taka þurfi tillit til eins eða neins. Þar er bara beinn og breiður vegur, engar beygjur eða brekkur þar sem þörf er á aðgát. Ég sá jafnvel fyrir mér, þar sem lestrateinar skáru veginn á einstaka stað, að þar mætti ímynda sér það eina sem áhrif gæti haft á óhindraðan framgang risaveldisins, því það var þarna sem helst þurfti að draga úr hraðanum. Þetta eru ef til vill orðið helst til djúpar pælingar um eðli Bandaríkjamanna.
*Yfirborðsmennska
Það er nú reyndar einkennandi fyrir fleiri en Bandaríkjamenn að það telst mikilvægt að út á við líti allt vel út. Þá skipti ekki eins miklu máli að allt sé í lagi undir niðri. Ég held ég fjalli bara ekkert meira um það hér.
Þar með tel ég mig vera búinn að gera Vesturheimserðinni skil eins og ég hugsa mér.

Þeir eru' ekkert vondir í Vesturheimi (svona almennt séð)

1 ummæli:

  1. H.Ág lætur svo um mælt:

    Þeir eru' ekkert vondir í Vesturheimi
    þó vil ég ei búa þar
    fullt er af yfirborðs flatneskjugeimi
    og ferningar alls staðar.

    (Þetta er bloggskapur dagsins)

    PS
    I just looooove your jacket, honey! Isn't it great? Hey?
    H.Ág.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...