20 júní, 2008

Hættulegt á Íslandi

Það var ekki laust við að færi lítillega um mig við að fylgjast með kvöldfréttum í gær þegar fregnir voru fluttar af því að pólskir ferðamenn hefðu fundið ísbjarnarspor í grennd við Hveravelli. Fréttinni fylgdi að leitarflokkar með þyrlu og hvaðeina væru á leið á svæðið til að leita bjarndýrsins.

Ef maður horfir á kort af Íslandi fer ekki á milli mála, að ef ísbjörn hefur komist alla leið á Hveravelli þá er hreint ekkert ólíklegt að hann geti lagt leið sína í uppsveitir Árnessýslu. Ef hann er kominn þangað á annað borð, er alls ekki ólíklegt að hann geti lagt leið sína í Laugarás, og það lái ég honum ekki, þar sem staðurinn sá er mikil Paradís fyrir menn og dýr og hentar því sérlega vel fyrir ísbjörn sem hefur í hyggju að breyta lífsháttum sínum og gerast skógarbjörn, til að takast á við þær breytingar sem hlýnun jarðar felur í sér.

Nú, í þungum þönkum gekk ég til hvílu og hálf kveið því að þurfa að fara í vinnuna í morgun, síðasta vinnudag fyrir sumarfrí, getandi átt von á því að það væri kominn ísbjörn í garðinn. Ísbirnir eru, að sögn, hin mestu skaðræðisdýr og ekki á færi latte drekkandi lýðs þessa lands að mæta og sleppa lifandi frá samskiptum við þá. Ég hafði lesið einhvers staðar leiðbeiningar um hvernig við skuli brugðist mæti maður ísbirni á förnum vegi. Þar var það ráðlagt að hafa ávallt með sér lopavettlinga. Þegar maður væri óvart búinn að líta í augun á óargadýrinu og það hefði tekið ákvörðun um að drepa mann og éta, þá átti að hlaupa af stað í áttina frá dýrinu, og það auðvitað öskrandi á eftir. Við þessar aðstæður ættu lopavettlingarnir (annar eða báðir) að koma í góðar þarfir væri þeim rétt beitt. Rétt beiting felur í sér, að á hlaupunum skal snúa sér eldsnöggt við og henda lopavettlingunum í áttina að æpandi birninum. Það sem mun gerast ef þetta er framkvæmt eins og fyrir er lagt er, að björninn mun þá gleyma þeim sem hann ætlaði að éta og snúa sér þess í stað að því að snúa lopavettlingunum við, þannig að rangan snúi út. Þar með væri lífinu borgið.

Í morgun var það sem sagt það síðasta sem ég gerði, áður en ég hljóp sem fætur toguðu út um útidyrnar og út í bíl, að fara í hvítu kommóðuna og ná í lopavettlinga frú Drafnar, sem móðir hennar hafði prjónað á hana fyrir lengra síðan en ég kann að rifja upp. Ég komst út í bíl við illan leik, ekki vegna ísbjarnar á stéttinni, heldur bara hreint ekki vegna neins ( það hljómar svo vel að tala um að komast eitthvert 'við illan leik'). Sem sagt ég komst inn í bílinn án þess að sjá til bangsa og setti í gang, bakkaði síðan með yfirveguðum hætti áður en ég setti í fyrst gír og beygði í átt niður á veg í gegnum trjágöngin. Það var nákvæmlega þá sem ég sá hann





þar sem hann sat og horfði í átt til mín og úr augunum skein ákall um hjálp. Hann hafði kannski áttað sig á því að það tekur nokkarar kynslóðir ísbjarna til að breytast í skógarbjörn.



.....Og hvað gerði ég?

3 ummæli:

  1. Þú skaust hann og ást smá en seldir svo restina af kjötinu fyrir 5000 kr. kílóið og ferðaðist til Grænlands fyrir ágóðann. Gæruna eða feldinn muntu svo leyfa "Frú Dröfn" að nota í hannyrðir og huggulegheit!
    Bkv. Aðalheiður

    SvaraEyða
  2. Tókst hann í fangið, hreinsaðir það mesta af þornuðu slími úr augunum á honum og gafst honum kjöt og mjólk; leiddir hann í skugga. Auðvitað.
    Og svo er vont að fá upp í sig lopavettlinga... og skammastín!

    En bangsi kvað:
    Mér var orðið ansi heitt
    úti'í garði hjóna
    Þá mér ekki þótti leitt
    .. að fá kaldan mjólkursopa!

    Ísbjarnarblogg

    H.Ág.

    SvaraEyða
  3. Geðheilsa er orð sem kemur sterkt upp í hugann við lestu þessa bloggs. Eins dettur mér í hug orðið margmiðlunarskólinn, þegar ég horfi á þá fögru mynd sem skreytir þetta blogg.

    Enn og aftur vellti ég fyrir mér hvort mínir eigin foreldrar þekki mig næst þegar við hittumst :)

    Og í anda HÁ

    Bjössa bráðum allir nú
    hér á landi þekkja
    í Laugarási, Páll og frú
    með dauða'ans landan svekkja.

    Bílnum fína beita nú
    björnin "ljóta" að deyða
    já sita þau þar Páll og frú
    og Skálholts drauga seyða.

    Ekkert skal hér meira sagt
    mér finnst það vel stór hnútur
    Íslands eina og stóra frakt
    hér í Berlín kallast Knútur.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...