15 júní, 2008

Ýmsar tegundir af fólki í BNA

Ég þykist nokkuð viss um að það eru ekkert sérstaklega margir sem hafa í sér nennu til að lesa sig í gegnum svona ferðasögu og ég skil það reyndar vel. Það er eitt að reyna og upplifa, annað að lesa frásagnir af því. Það breytir hinsvegar ekki því að ég hef nokkuð gaman að að setjast niður og rifja upp hápunktana í þessari merku ferð. Blogg er í eðli sínu ákaflega sjálfmiðuð iðja og í samræmi við það ætla ég að ljúka því sem ég byrjaði á: að skrá frásögn af því helsta sem þarna átti sér stað.

Þegar síðasta hluta lauk var hópurinn við það að yfirgefa Kanada og heiðra Bandaríki N-Ameríku öðru sinni með nærveru sinni. Stefnt var inn í Norður-Dakóta, sem er alræmd Íslendinganýlenda. Fyrsti viðkomustaðurinn var Mountain, sem er þorp sem byggt er á einu ójöfnunni í landslaginu, og ber því þetta þróttmikla nafn. Hæðin nær kannsku 20 m hæð yfir jafnsléttuna. Þarna voru fyrir þó nokkrir íslenskumælandi sem tóku á móti okkur í bjórgarði sem er afar vinsæll þegar Íslendingadagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert. Í framhaldinu var Víkurkirkja í Mountain skoðuð, en þar er einn sálmur sunginn á íslensku á ári: Heims um ból. Þá var ekið um sveitarfélagið Gardar og margt sagt um sögu Íslendinga þar. M.a. var komið við í grafreitum þar sem flest nöfn voru íslensk og þarna mátti t.d. finna legstað Káins. Yfir hann var hellt brennivíni eftir að fararstjórinn hafði lesið eitt ljóða hans. Kirkjan sem þarna stóð brann fyrir nokkrum árum og eftir stóð Kristslíkneski og klukka. Síðasti hluti heimsóknar á slóðirnar þarna, fólst í að vitja fyrrum landareignar Stephans G Stephanssonar, en þar hefur verið reistur minnisvarði um skáldið og bóndann þann. Áður en haldið var brott frá Gardar fengum við að líta nokkurskonar Kóngsveg þeirra þarna, en það var bútur af slóð sem indíánar notuðu áður fyrr.

Næturstaður var aftur Grand Forks, og þaðan lá svo leiðin til Minneapolis daginn eftir. Á leið þangað var komið við þar sem ein af lengstu ám veraldar á upptök sín, en það er sjálf Mississippi. Fengu ferðalangarnir þarna tækifæri til að vaða þetta stórfljót, en það hefur ekki öllum vei(t)st. Eftir vaðmennskuna var borðaður indiánamálsverður með bónussalati.

Síðasti kvöldverðurinn var snæddur á mexíkósku veitingahúsi, þar sem sá sem þetta ritar lenti í nokkuð alvarlegum útistöðum við yfirþjóninn, en maturinn var ágætur.

Þar sem flug heim var undir kvöld daginn eftir, gafst áhugasömum tækifæri til að njóta sín í stærsta vöruhúsi í henni Ameríku, Mall of America, en aðrir sem minni áhuga höfðu, t.d. skelltu sér með lest niður í miðborgina til að drekka í sig stemninguna þar, sem reyndist engin vera á evrópskan mælikvarða. Lítilsháttar viðkoma í vöruhúsinu mikla var síður en svo ánægjuleg.

Það kom svo bara að því að flogið var til heimalandsins og síðan hefur tíminn farið í að gera þetta allt saman upp. Framundan hér, er að tína til þau áhrif sem ferðin hafði og þá mynd sem til varð í huga þess sem hér fjallar um, sem sagt, mínum.


Í mollum þeirra er margt að sjá,
og miðborg engu líka.
..... og botnið nú.

1 ummæli:

  1. Mall of America er eins og Reyðarfjöður: "ég er búin að koma þangað".


    Í mollum þeirra er margt að sjá
    og miðborg engu líka
    miklar vörur má þar fá
    ... en mennig smárri flíka.

    H.Ág

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...