10 júní, 2008

Ungt fólk um Íslendingabyggðir?

Það er allavega nær lagi en að tala um eldri borgara og sjúklinga.
Gimli hefur einhvernveginn alltaf verið það nafn í Vesturheimi sem hefur í mínum huga verið táknmynd fyrir flutninga landans til þessa heimshluta, aðallega á síðustu 30 árum 19. aldar, en einnig að nokkru á fyrsta áratug þeirrar tuttugustu.
Í þessum bæ byrjaði þessi hópur - skólamanna, að þó nokkrum hluta - á því að heimsækja Gimli High School. Afar vel tekið á móti auðvitað, og við vorum leidd um króka og kima. Áfram var haldið eftir hádegi og ekið til Arborg, sem auðvitað er Árborg upp á íslensku, ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum. Þar var heimsóttur annar framhaldsskóli: Arborg Collegiate. Að þessu loknu man ég ekki betur en leiðin hafi legið á hótelið áður en haldið var í skemmtilegt kvöldboð hjá Íslendingafélaginu, með viðkomu á vísum stað.
Daginn eftir var heilmikil dagskrá, í stórum dráttum svona:
-Kíkt á minnismerki um Vilhjálm Stefánsson,
-Komið við í Riverton (merkilegt að þessi bær er í eða við Arborg - og heitin merkja það sama - ef einhver skilur hvað ég á við) þar sem er að finna garð með ýmsum minnismerkjum um landann, m.a. Guttorm J. Guttormsson.
-Að því búnu lá leiðin svo út í Mikley (Hecla Island), en þar virðast eingöngu hafa búið Íslendingar. Þarna er m.a. að finna skildi með ágröfnum heitum bæjanna sem þarna voru (öll á íslensku) og nöfnum íbúanna (eintómir Íslendingar). Og þarna tók náttúrulega hann Binni á móti okkur og leiddi hreint um allt. Að sjálfsögðu talar Binni afar vandaða íslensku, enda á áttræðisaldri.
-Eftir Hecla lá leið í átt til Winnipeg aftur, en á leiðinni var komið við hjá miklum ágætis Íslendingum, hjónunum Rósalind og Einari Vigfússon í Drangey. Hún stjórnar merkum barnakór sem kemur til Íslands í kringum verslunarmannahelgi, hann (altso Einar) er alræmdur, margverðlaunaður útskurðarmeistari (myndir af sumum fuglunum eru á myndasíðunni).
Þá var ekkert eftir nema aksturinn til Winnipeg á þessum ágæta degi, en þar var gist næstu tvær nætur á sama hótelinu. Daginn á milli náttanna tveggja nýtti fólk með ýmsu móti, en ég tel að flestir hafi lagt leið sína niður í "The Forks". Heitið dregur þetta svæði af því að þar koma saman tvær ár, áðurnefnd Rauðá og Assiniboine áin.
Eftir síðari gistinguna var haldið af stað suður á bóginn til Íslendingabyggðar í Norður Dakota.
Það bíður þar til næst.
Þetta hefur stundum verið kallað: Cliffhanger.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...