09 júní, 2008

Eldri borgarar og sjúklingar í vesturveg?

Ekki aldeilis, því hafna ég, ungur maðurinn.
Ekki er það svo að ég ætli mér að fara að segja sögu þessarar eftirminnilegu og skemmtilegu ferðar, til þess hefur verið ráðið ákaflega hæft fólk. Ég ætla hér að bregða upp lítilsháttar mynd af ferðinni í tvennu lagi, fyrst lítilsháttar lýsingu á áfangastöðum og hinum jákvæðu þáttum, en síðan bregða upp lítilsháttar annarri mynd og ekki eins jákvæðri, þó ég vilji alltaf vera jákvæður.
27. maí var sem sagt flogið til Minneapolis (Bloomington) í Bandaríkjunum. Ekki var þar gerður langur stans, heldur var í býtið morguninn eftir lagt í hann í norð-vesturátt með viðkomu á klukkutíma fresti til að teygja úr sér og snæða. M.a. komum við til Alexandríu þar sem er að finna safn sem geymir hinn víðfræga Kensington stein Loks var gist í Grand Forks (hótel) á fylkismörkum Minnesota og N-Dakota. Þarna koma saman tvær ár: Red River og Red Lake River, en það var einmitt meðfram Rauðá sem við ókum mikinn hluta ferðarinnar, enda er Rauðárdalur feikilegt flæmi.
Nú, daginn eftir var haldið sem leið lá að Kanadísku landamærunum á áfram til Winnipeg í Kanada. Þar var byrjað á því að snæða á Round Table veitingahúsinu, en síðan haldið í Winnipegháskóla þar sem við fengum upplýsingar um íslenskudeildina hjá forstöðumanninum og síðan leiðsögn um íslenska bókasafnið sem þarna er að finna. Sérstaklega verð einn ferðalanganna glaður og stoltur þegar hann komst að því að nýja bókin hans um silfur hafsins var til á safninu.
Að þessu loknu kíktum við á styttuna af Jóni Sigurðssyni sem stendur við Löggjafarsamkunduhúsið þeirra Manitobamanna, og þá var loks haldið til hótels í miðborginni.
Og þá kom morgunninn eftir, leiðin lá til Gimli.


Þegar hér er komið sögu sé ég ekki fram á að þetta verði tvær færslur. Mér sýnist þær verða fleiri en tvær. Þið eigið ekki von á góðu.

Gott er að eiga á góðu von

1 ummæli:

  1. Hva? Er búið að færa Alexandríu? Og hann Jón minn líka? Hva, fóru þau saman?? Ja, hvur grefillinn!
    Helga Ág
    .
    Hér dugir ekkert nema saknaðar-blogg:
    Jón er farinn frá mér burt
    að finna aðra píu.
    Ei hef til hans aftur spurt
    né Alexanderíu
    H.Ág.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...