28 október, 2008

Langþreyttur á lygimálum

Hver lýgur best?
Er það útrásavíkingurinn, sem lýsir sig ábyrgðarlausan?
Er það Seðlabankastjórinn, sem lýsir sig og bankann (af því að þeir eru einn) ábyrgðarlausa?
Er það forsætisráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það utanríkisráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlaus?
Er það viðskiptaráðherra, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það fjármálaráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það framsóknarformaðurinn, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Eru það hinir flokksformennirnir, sem lýsa sig og flokkana sína ábyrgðarlausa?
Eru það þingmenn úr öllum flokkum, sem lýsa sig og flokkana sína ábyrgðarlausa?

Er það kannski bara ég sem er ábyrgur? 
Ég keypti EOS og meira að segja linsu. Ég keypti PS-P640 og ég keypti Xtrail.

Vissulega er mikilvægt að fylgjast með fréttum og ég get varla sagt að ég missi af einu einasta orði. Ég er hinsvegar kominn að þeirri niðurstöðu eftir allan lygavaðalinn sem okkur, borgurum þessa lands er boðið upp á dag eftir dag  - og nótt líka, að ég trúi engum.  Ef ég trúi engu sem ér sagt, þá er ég væntanlega bara í vondum málum.

Við Íslendingar erum saklausir ljúflingar. Það vefst ekki fyrir aðalleikurum í því sjónarspili sem nú gengur yfir (með saklausari andlit en nýfætt barn), að sannfæra okkur um að þeir beri ekki ábyrgð á því hvernig komið er. 
Þegar þá þrýtur rök fyrir máli sín nota þeir þekkta aðferð: það var eitthvað miklu stærra sem olli þessu. 

Ætli ég láti þetta ekki duga eftir lygaþvæluna (að mínu mati) sem veltist yfir landslýð í fréttatímum á þessu kvöldi.

Stöndum saman - hættum að trúa.

Ljúfsár er lygatrúin.

26 október, 2008

Bögglast með fésbók

Ég held að það sé að verða ár síðan  að Berlínarmaðurinn hvatt til þess að menn stofnuðu aðsestur á fyrirbærinu 'FACEBOOK'. Ég er að mörgu leyti forvitinn maður og tel mig þar að auki ekki fordómafullan og meira að segja all nýungagjarnan. Þessvegna var að að eg fór að þessum ráðum og síðan hef ég birst þarna í öllu mínu veldi, safnandi 'vinum' héðan og þaðan. Það er nefnilega þannig að ég hef fengið tölvupósta frá fólki (að langmestum hluta fyrrverandi nemendum) sem vill vera 'vinir' mínir. Ég hef einnig fengið skeyti frá núverandi 'vinum' mínum þar sem mér er bent á að óska eftir 'vináttu' við tiltekna einstaklinga - en þar dreg ég mörkin. Ég get með engu móti farið út á þá braut að senda fólki beiðni um að fá þá í 'vinahóp' minn. Mér finnst það hreinlega úr karakter.
Já og svo hvað?

Ég verð að viðurkenna, að fyrir mann á mínum aldri, og í minni stöðu, þá örlar sem sagt nokkuð á vandræðagangi í kringum þetta allt saman. Ég hef lítillega verið að spyrjst fyrir um það, hjá áhugasömum fésbókurum, hver tilgangurinn er með þessu, en hef ekki fengið viðhlítandi svör. 

Svo gerðist það í morgun, að einir tíu nýir aðilar (meðal annars 2 nýir fésbókarar í Danaveldi, á mínum aldri) bönkuðu á dyrnar og vildu vera 'vinir' mínir, og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk umyrðalaust, enda allt fólk sem ég þekki af góðu. 
Eftir situr hinsvegar spurningin áleitna: 'Til hvers?"

Fés er fyndin bók


25 október, 2008

Starfið sem er inni


Í dag birtist í raðir þeirra sem stunda eitt göfugasta starfið, nýr liðsmaður. 
Hann er boðinn velkominn og óskað farsældar í störfum á komandi árum. 
Er ekki komið að yfirstjórnarbreytingum á núverandi vinnustað?

24 október, 2008

Yngri er ég aftur á ný

Ég er búinn að vera að endurlifa fortíðina í dag og mér finnst það bara hreint ekkert verra.
Eins og undanfarna daga og vikur er ég að hverfa (allavega í andanum) fjölmörg ár aftur í tímann - til svona kannski áranna 1975-1979, í þrennu tilliti. Þið þekkið það væntanlega öll, að það þarf oft lítið til að vekja upp minningar af löngu liðnum tíma. 
Ég þori nú varla að nefna dæmið sem kemur fyrst upp í huga minn, en ætla auðvitað samt að gera það. Þannig var, að að lokinni útskrift á Laugarvatni, 1974, hélt ég, ásamt samstúdentum mínum til Mallorca - ég í mína fyrstu utanlandsferð. Þegar við höfðum hent farteski okkar inn á hótelherbergi var næst á dagskrá að verða sér úti um ..... já þið vitið hvað það er, flest, að ég tel. Ef ekki, þá getið þið bara slegið á þráðinn. Ekki er það svo að ég telji líklegt að það gerist. Jæja. Það var keypt sem var keypt, í búð sem er ekki til á Íslandi og ekki það sama af sama toga og fram að því hafði verið keypt í sérstakri búð á Íslandi. Síðan hófust rólegheitin með því að smakka það sem keypt hafði verið. Síðan þá, þegar ég bragða það sem þarna var um að ræða, þá er ég umsvifalaust kominn. tvítugur maðurinn, til Mallorka. 

Ég er ekki búinn að missa þráðinn, er það nokkuð?

ÞAÐ FYRSTA
Það fyrsta sem ég nefni, og sem hefur verið að gerast undanfarnar vikur, og er enn í gangi , og verður væntanlega (og jafnvel vonandi, að mörgu leyti) ofarlega á baugi á næstunni, er pólitísk umræða þar sem mér sýnist að þjóðfélag óbundinnar markaðshyggju og arðráns, sé að víkja fyrir meiri skynsemi.

ÞAÐ ANNAÐ
Það sem ég ætla að nefna númer tvö hefur með að gera veðurfarið á landinu bláa. Þannig var, að í morgun hélt ég til fyrirlestrar í höfuðborginni, eins og ég á vanda til þessar vikurnar, á þessum degi. Það gekk mikill stormur yfir suðvestur hluta landsins s.l. nótt, en ég taldi nú að hann hlyti að vera genginn yfir og lagði því eldhress af stað fyrir allar aldir, á Xtrail, að sjálfsögðu. Það fóru að renna á mig nokkrar grímur undir Ingólfsfjalli og það hvarflaði vissulega að mér að hér væri frekar um að ræða kapp en forsjá, og jafnvel skaut sú hugsun upp kollinum að rétt væri að snúa við í öryggið í vinnunni á Laugarvatni. Þessu var auðvitað strax bægt frá (vegna þess hve hið nýja pólitíska landslag hefur yngt mig upp) og áfram var haldið. Þegar ég kom í Hveragerði blöstu við blá blikkljós, sem gáfu það skýrt til kynna að ekki væri um að ræða að velja Hellisheiði, á leið til borgarinnar við sundin. Aftur skaut upp í hugann spurningunni um hvort skynsamlegt væri að láta vaða í Þrengslin, sem sögð voru opin. Auðveldast hefði að sjálfsögu verið, að taka bara hringtorgið í heilan hring, hjá Hveragerði og halda rakleiðis til baka, en af því varð ekki. Ég skrifa það hiklaust á hina æskuþrungnu ævintýragirni sem þarna var að láta á sér kræla. (Ég reikna með að ef tilteknir aðilar hefðu verið með í för, hefði ákvörðunin hugsanlega orðið nokkuð önnur). Þarna fór ég sem sagt ekki nema þrjá fjórðu af hringtorginu og tók stefnuna, einbeittur, á Þrengslin. Það lágu vissulega fyrir upplýsingar að þau væru opin, en þar væri hvasst og hálka. Kva...það gat nú ekki verið mikið mál. Eftir klukkutíma ferðalag um Þrengslin, í iðulausri stórhríð og fljúgandi hálku, náði ég til höfuðstaðarins. Svona ferðalag fleytti mér aftur um einhverja áratugi, en munurinn var sá, að í fjórhjóladrifnum Xtrail sat ég í hlýjunni, eins og Bubbi í auglýsingunni, á meðan úti geisaði illviðrið.  Bifreiðaeignin fyrir 25-30 árum var hinsvegar með þeim hætti, að engan veginn var hægt að treysta því, að farartækið bleytti sig ekki (það kannast væntanlega ekki margir af þeim, sem yngri eru, við það fyrirbæri) við svona aðstæður, auk þess sem það var bara drif að aftan og að skafrenningurinn inni var litlu minni en sá sem úti hamaðist.

ÞAÐ ÞRIÐJA
Þegar til borgarinnar var komið og á fyrirlestrarstað, blasti við tilkynning um að tíminn félli niður vegna veikinda. Ég dáðist nú lítillega að sjálfum mér fyrir þá yfirvegun og æðruleysi sem ég sýndi við þessar aðstæður. Ég settist inn í Xtrailinn og hugsaði málið litla stund áður en ég ákvað að byrja á að fara í Hámu og fá mér kaffisopa. Síðan leiddi eitt af öðru og áður en varði var ég sestur  við borð, búinn að taka upp Dellinn og farinn að vinna að verkefni sem fyrir liggur. Allt um kring ungt fólk að efla þekkingu og færni. Áður en varði varð mér ljóst að það var enginn munur á mér og þeim - það var ekki einusinni spegill á svæðinu til að rugla mig í ríminu. Þarna vann ég af krafti, alveg eins og fyrir næstum þrem áratugum, meðal samnemenda.  Eini munurinn auðvitað sá að allir lömdu á lyklaborð, mismikla speki, í stað þess að skrifa í stílabók. 
Ástæða þess að ég sneri ekki umsvifalaust aftur austur fyrir fjall var sú, að í framhaldi af fyrirlestrinum sem átti að vera, var verkefnahópur sem ég tilheyri búinn að mæla sér mót. Fundurinn sá gekk ágætlega fyrir sig, með ríflega tvítugum skólafélögum, enda var ég var bara þannig líka, eða þannig.

Niðurstaðan er, eins ég hef svo sem alltaf vitað: þú ert í rauninni ekkert, nema vegna þess sem þú varst.

Ungur ég var
og er.
Þá var ég þar,
nú hér.

20 október, 2008

Ég er ósammála

Ég er nú ekki beint vanur því að nota þetta svæði til að vera ósammála einhverri þjóðfélagsumræðu, en ég ætla að vera það núna. Eins og stundum áður fylgdist ég með Kastljósinu í kvöld Horfa í sérglugga (Valur Gunnarsson og Guðmundur Oddur Magnússon).
Þar var meðal annars efnis fjallað nokkuð um fyrirbærið "krúttkynslóð". Sá skilningur sem þar kom fram, er að mínu áliti fjarri lagi, þó ekki sé nema vegna þess, að sú lýsing á kröftugri og djúpt þenkjandi kynslóð, sem þar kom fram, er með engu móti hægt að tengja við það heiti sem þessi kynslóð hefur fengið.

Hér er mín skilgreining:
Þeir sem ég vil flokka til krúttkynslóðarinnar er fólk sem er á aldrinum 15-25/7 ára. Þetta er fólk sem varð ekki lögráða fyrr en 18 ára og þekkir ekkert annað en botnlausan uppgang í efnahagslífinu. Þetta er sú kynslóð sem er hvað límdust við tækin sín hvort sem það eru tölvur eða farsímar og lífir að stórum hluta á yfirborði lífsins; hefur ekki þurft að takast á við erfiðleika á ævinni. Þessi kynslóð er af ofangreindum ástæðum fremur saklaus og að mestu leyti kurteis, enda kann hún vel á yfirborðslega hegðun. 
Þessi kynslóð hefur lifað lífi þar sem nánast allt hefur verið hægt; hún hefur fylgst með því hvernig foreldrarnir hafa efnast og fylgst með því hvernig áberandi landar þeirra hafa safnað brjálæðislegum auði. Aðrar fyrirmyndir þessarar kynslóðar eru  frægt fólk, hvort sem það eru leikarar, íþróttahetjur eða tónlistarmenn. 
Allt um kring allsnægtir - kvöl og dauði einhversstaðar birtist í fréttum sem þessi kynslóð horfir ekki á.
Þetta er kynslóðin sem telur að allt sé hægt (síðari viðbót til nánari útskýringar) án þess að hafa þurfi fyrir því.
Þetta er kynslóðin sem er ekki tilbúin að taka ábyrgð á sjálfri sér.
Þetta er ljúft fólk - alveg hreint ágætt fólk, sem telur að þetta komi allt af sjálfu sér.

Hvernig má líka annað vera eins fyrirmyndir og við þessi eldri höfum verið?

Krúttin eru að kalla,
komið er að því.


19 október, 2008

Gott sem kemur að utan

Einhverjir muna kannski eftir því, að upp úr miðju sumri varð það að ráði, að ráðast í skógarhögg. Það var viðjan með heimreiðinni sem varð fyrir valinu og til verksins voru fengnir skógarhöggsmenn af meginlandi Evrópu; frá Tékklandi og Póllandi, sem hér höfðu sumardvöl í atvinnuskyni. Viðjan var höggvin og stofnar og greinar lagðar meðfram heimreiðinni og hafa verið þar síðan.
Það muna menn örugglega líka að á ýmsum vígstöðvum féll skógarhöggið í fremur grýttan jarðveg, og er ég þá ekki að taka mikið upp í mig í atvikalýsingum. Þegar ég var hinsvegar búinn að úða tilteknu efni á sprotana, sem fljótlega fóru að spretta út úr stofnunum sem eftir voru, og þannig drepa bévítans ranabjöllur sem voru farnar að valda skaða, þá hófst nýtt líf viðjunnar og var hún næstum orðin falleg þegar haustið fór að banka á dyrnar. Næsta sumar má búast við að fegurðin ein ríki meðfram heimreiðinni vegna fyrrnefnds skógarhöggs.

Tilefni þessara skrifa er, að greina frá því, að greinarnar og stofnarnir eru nú horfin úr heimreiðarkantinum. Til þeirrar aðgerðar réð ég enn einn Evrópumeginlandsbúann, Pólverja, sem hefur vetursetu í Laugarási í atvinnuskyni. Það var nefnilega orðið útséð með að ég tæki til hendinni við þá framkvæmd. Þá kom það sér ekki illa, að vinnuveitandi piltsins hefur tiltölulega nýlega bætt mikilli dráttarvél við tækjaflotann, auk þess sem hann er nýbúinn að gera upp mikinn sturtuvagn sem hann átti fyrir. Þegar þetta kom allt saman, Pólverjinn (sem fúlsar ekki við aukavinnu), dráttarvélin og sturtuvagninn, voru orðnar til aðstæður sem kölluðu á brottflutning stofan og greina. 
Með því að þessi aðgerð er nú frá, hvílir einu verkefni færra á mér - og það er bara gott.

Haustverkin eru heldur góð
harla glaður því ég er,
sem betur fer.


Kreppusnilld

Það verður víst allt að heita kreppu- eitthvað þessar vikurnar þó svo á þessum bæ verðum við harla lítið vör við þetta margrædda fyrirbæri, enn sem komið er, nema að því leyti að það telst þörf á því að framkvæma ýmislegt sem lengi hefur beðið framkvæmdar, áður en verðið á því sem festa þarf kaup á, hamlar.
Þetta er svona eins og þegar mýsnar safna að sér forða fyrir veturinn, nema hér er ekki um neitt að ræða sem maður leggur sér til munns.
Það varð sem sagt úr að haldið var í kaupstað og fest kaup á svokallaðri innréttingu í eitt lítið sérhæft herbergi hússins. (það stóra bíður enn eftir því að iðnaðarmaður mæti á svæðið til að undirbyggja flísalagningu baðherbergisins sem ekki hefur verið snert við frá því flutt var í þetta hús fyrir 24 árum).
Þegar heim var komið með innréttinguna var komið að mér að sannfæra mig og aðra (menn verða að giska á hverjir það voru) um að þetta væri verk sem ég gat framkvæmt skammlaust.
Það kom auðvitað í ljós, að það sem keypt hafði verið, féll ekki fullkomlega að því rými (innlit/útlit) sem var fyrir hendi, bæði að því er varðar hæð fótanna undir því og einnig dýpt, sem reyndist vera heldur mikil, með þeim afleiðingum að minna pláss er til að athafna sig í rýminu eftir en áður.
Ég gæti farið yfir þann verkferil sem ég hef fylgt þessa helgina, auk þess að skjótast í hnit með tilheyrandi mjamaverkjum, en ég tel að þá myndu all miklu færri lesendur hafa í sér nennu til að lesa það í gegn. Í sem stystu mál tókst mér með brilljant stíliseringu á rýmislausnum og með geðveikri áherslu á díteilana (innlit/útlit) að skapa afar glæsilega umgjörð um grunnþarfir.
Ég er ekki að íkja þegar ég lýsi því yfir, að í þessu, eins og reyndar flestu því sem ég á endanum tek mér fyrir hendur, er ég nokkuð mikill snillingur. (Þetta segi ég nú bara af lítillæti mínu.)

Verkinu er reyndar ekki alveg lokið, en ég veit að framhald þess verður í fullu samræmi við það sem á undan er gengið.

Þar skápum ég skellti og vaski
og skeytti hreint engu um það
að bót verður nokkur af braski
því brátt get ég farið í bað.  (veit af ofstuðlun)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...