24 október, 2008

Yngri er ég aftur á ný

Ég er búinn að vera að endurlifa fortíðina í dag og mér finnst það bara hreint ekkert verra.
Eins og undanfarna daga og vikur er ég að hverfa (allavega í andanum) fjölmörg ár aftur í tímann - til svona kannski áranna 1975-1979, í þrennu tilliti. Þið þekkið það væntanlega öll, að það þarf oft lítið til að vekja upp minningar af löngu liðnum tíma. 
Ég þori nú varla að nefna dæmið sem kemur fyrst upp í huga minn, en ætla auðvitað samt að gera það. Þannig var, að að lokinni útskrift á Laugarvatni, 1974, hélt ég, ásamt samstúdentum mínum til Mallorca - ég í mína fyrstu utanlandsferð. Þegar við höfðum hent farteski okkar inn á hótelherbergi var næst á dagskrá að verða sér úti um ..... já þið vitið hvað það er, flest, að ég tel. Ef ekki, þá getið þið bara slegið á þráðinn. Ekki er það svo að ég telji líklegt að það gerist. Jæja. Það var keypt sem var keypt, í búð sem er ekki til á Íslandi og ekki það sama af sama toga og fram að því hafði verið keypt í sérstakri búð á Íslandi. Síðan hófust rólegheitin með því að smakka það sem keypt hafði verið. Síðan þá, þegar ég bragða það sem þarna var um að ræða, þá er ég umsvifalaust kominn. tvítugur maðurinn, til Mallorka. 

Ég er ekki búinn að missa þráðinn, er það nokkuð?

ÞAÐ FYRSTA
Það fyrsta sem ég nefni, og sem hefur verið að gerast undanfarnar vikur, og er enn í gangi , og verður væntanlega (og jafnvel vonandi, að mörgu leyti) ofarlega á baugi á næstunni, er pólitísk umræða þar sem mér sýnist að þjóðfélag óbundinnar markaðshyggju og arðráns, sé að víkja fyrir meiri skynsemi.

ÞAÐ ANNAÐ
Það sem ég ætla að nefna númer tvö hefur með að gera veðurfarið á landinu bláa. Þannig var, að í morgun hélt ég til fyrirlestrar í höfuðborginni, eins og ég á vanda til þessar vikurnar, á þessum degi. Það gekk mikill stormur yfir suðvestur hluta landsins s.l. nótt, en ég taldi nú að hann hlyti að vera genginn yfir og lagði því eldhress af stað fyrir allar aldir, á Xtrail, að sjálfsögðu. Það fóru að renna á mig nokkrar grímur undir Ingólfsfjalli og það hvarflaði vissulega að mér að hér væri frekar um að ræða kapp en forsjá, og jafnvel skaut sú hugsun upp kollinum að rétt væri að snúa við í öryggið í vinnunni á Laugarvatni. Þessu var auðvitað strax bægt frá (vegna þess hve hið nýja pólitíska landslag hefur yngt mig upp) og áfram var haldið. Þegar ég kom í Hveragerði blöstu við blá blikkljós, sem gáfu það skýrt til kynna að ekki væri um að ræða að velja Hellisheiði, á leið til borgarinnar við sundin. Aftur skaut upp í hugann spurningunni um hvort skynsamlegt væri að láta vaða í Þrengslin, sem sögð voru opin. Auðveldast hefði að sjálfsögu verið, að taka bara hringtorgið í heilan hring, hjá Hveragerði og halda rakleiðis til baka, en af því varð ekki. Ég skrifa það hiklaust á hina æskuþrungnu ævintýragirni sem þarna var að láta á sér kræla. (Ég reikna með að ef tilteknir aðilar hefðu verið með í för, hefði ákvörðunin hugsanlega orðið nokkuð önnur). Þarna fór ég sem sagt ekki nema þrjá fjórðu af hringtorginu og tók stefnuna, einbeittur, á Þrengslin. Það lágu vissulega fyrir upplýsingar að þau væru opin, en þar væri hvasst og hálka. Kva...það gat nú ekki verið mikið mál. Eftir klukkutíma ferðalag um Þrengslin, í iðulausri stórhríð og fljúgandi hálku, náði ég til höfuðstaðarins. Svona ferðalag fleytti mér aftur um einhverja áratugi, en munurinn var sá, að í fjórhjóladrifnum Xtrail sat ég í hlýjunni, eins og Bubbi í auglýsingunni, á meðan úti geisaði illviðrið.  Bifreiðaeignin fyrir 25-30 árum var hinsvegar með þeim hætti, að engan veginn var hægt að treysta því, að farartækið bleytti sig ekki (það kannast væntanlega ekki margir af þeim, sem yngri eru, við það fyrirbæri) við svona aðstæður, auk þess sem það var bara drif að aftan og að skafrenningurinn inni var litlu minni en sá sem úti hamaðist.

ÞAÐ ÞRIÐJA
Þegar til borgarinnar var komið og á fyrirlestrarstað, blasti við tilkynning um að tíminn félli niður vegna veikinda. Ég dáðist nú lítillega að sjálfum mér fyrir þá yfirvegun og æðruleysi sem ég sýndi við þessar aðstæður. Ég settist inn í Xtrailinn og hugsaði málið litla stund áður en ég ákvað að byrja á að fara í Hámu og fá mér kaffisopa. Síðan leiddi eitt af öðru og áður en varði var ég sestur  við borð, búinn að taka upp Dellinn og farinn að vinna að verkefni sem fyrir liggur. Allt um kring ungt fólk að efla þekkingu og færni. Áður en varði varð mér ljóst að það var enginn munur á mér og þeim - það var ekki einusinni spegill á svæðinu til að rugla mig í ríminu. Þarna vann ég af krafti, alveg eins og fyrir næstum þrem áratugum, meðal samnemenda.  Eini munurinn auðvitað sá að allir lömdu á lyklaborð, mismikla speki, í stað þess að skrifa í stílabók. 
Ástæða þess að ég sneri ekki umsvifalaust aftur austur fyrir fjall var sú, að í framhaldi af fyrirlestrinum sem átti að vera, var verkefnahópur sem ég tilheyri búinn að mæla sér mót. Fundurinn sá gekk ágætlega fyrir sig, með ríflega tvítugum skólafélögum, enda var ég var bara þannig líka, eða þannig.

Niðurstaðan er, eins ég hef svo sem alltaf vitað: þú ert í rauninni ekkert, nema vegna þess sem þú varst.

Ungur ég var
og er.
Þá var ég þar,
nú hér.

7 ummæli:

  1. núnú.. og hvernig eru hinir unglingarnir að "fíla" það að vera svona í hóp með öðrum ungling?

    SvaraEyða
  2. Everybody knows that the bird is the word!

    SvaraEyða
  3. Þið eruð nokkuð fyndin. Ha...ha.

    SvaraEyða
  4. Já þær voru öruggar ferðirnar í Datsuninum, með engin öryggisbelti aftur í á leiðinni yfir heiðina í fljúgandi hálku

    SvaraEyða
  5. EInhverra hluta vegna eru mér nú minnisstæðari ferðirnar þar sem maður dróg peysuna að úlpuna sína uppfyrir nef til að kafna ekki. EN það er kannski önnur saga :)

    SvaraEyða
  6. ..eða þegar maður fór í þórsmörk í litla subaru-num, festist úti í miðri á og vatnið byrjað að streyma inn í bílinn :)

    SvaraEyða
  7. Nei, nei þú misstir hvergi þráðinn! Ekki einu sinni á Mallorca.
    En einnig hirðbloggarinn man ferðir í HÍ (að vísu í skröltandi Skoda) - og iðulaus stórhríðin jafnt inni sem úti.

    Ungur eg var
    og er
    þá var ég þar
    nú hér
    ungmenni mér aldrei leiðast, nei!
    ástarkveðja,
    Dorian þinn Gray!

    hihihihihi
    Bloggskapur um eilífa æsku laumubloggarans innra sem ytra!

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...