19 október, 2008

Gott sem kemur að utan

Einhverjir muna kannski eftir því, að upp úr miðju sumri varð það að ráði, að ráðast í skógarhögg. Það var viðjan með heimreiðinni sem varð fyrir valinu og til verksins voru fengnir skógarhöggsmenn af meginlandi Evrópu; frá Tékklandi og Póllandi, sem hér höfðu sumardvöl í atvinnuskyni. Viðjan var höggvin og stofnar og greinar lagðar meðfram heimreiðinni og hafa verið þar síðan.
Það muna menn örugglega líka að á ýmsum vígstöðvum féll skógarhöggið í fremur grýttan jarðveg, og er ég þá ekki að taka mikið upp í mig í atvikalýsingum. Þegar ég var hinsvegar búinn að úða tilteknu efni á sprotana, sem fljótlega fóru að spretta út úr stofnunum sem eftir voru, og þannig drepa bévítans ranabjöllur sem voru farnar að valda skaða, þá hófst nýtt líf viðjunnar og var hún næstum orðin falleg þegar haustið fór að banka á dyrnar. Næsta sumar má búast við að fegurðin ein ríki meðfram heimreiðinni vegna fyrrnefnds skógarhöggs.

Tilefni þessara skrifa er, að greina frá því, að greinarnar og stofnarnir eru nú horfin úr heimreiðarkantinum. Til þeirrar aðgerðar réð ég enn einn Evrópumeginlandsbúann, Pólverja, sem hefur vetursetu í Laugarási í atvinnuskyni. Það var nefnilega orðið útséð með að ég tæki til hendinni við þá framkvæmd. Þá kom það sér ekki illa, að vinnuveitandi piltsins hefur tiltölulega nýlega bætt mikilli dráttarvél við tækjaflotann, auk þess sem hann er nýbúinn að gera upp mikinn sturtuvagn sem hann átti fyrir. Þegar þetta kom allt saman, Pólverjinn (sem fúlsar ekki við aukavinnu), dráttarvélin og sturtuvagninn, voru orðnar til aðstæður sem kölluðu á brottflutning stofan og greina. 
Með því að þessi aðgerð er nú frá, hvílir einu verkefni færra á mér - og það er bara gott.

Haustverkin eru heldur góð
harla glaður því ég er,
sem betur fer.


2 ummæli:

  1. Já hver segir að peningar kaupi manni ekki hamingju...... eða allavega "peace of mind" ! :)

    Reyndar veit ég ekki hvort Evrópumeginlandsbúinn fékk greitt í peningum eða búfénaði, en kaupmáttur, sama hvaðan sá máttur kemur er alltaf góður.

    SvaraEyða
  2. Hér vantar bara botninn:

    já, húrra fyrir heimreiðinni
    og líka þér!
    Anónímus

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...