19 október, 2008

Kreppusnilld

Það verður víst allt að heita kreppu- eitthvað þessar vikurnar þó svo á þessum bæ verðum við harla lítið vör við þetta margrædda fyrirbæri, enn sem komið er, nema að því leyti að það telst þörf á því að framkvæma ýmislegt sem lengi hefur beðið framkvæmdar, áður en verðið á því sem festa þarf kaup á, hamlar.
Þetta er svona eins og þegar mýsnar safna að sér forða fyrir veturinn, nema hér er ekki um neitt að ræða sem maður leggur sér til munns.
Það varð sem sagt úr að haldið var í kaupstað og fest kaup á svokallaðri innréttingu í eitt lítið sérhæft herbergi hússins. (það stóra bíður enn eftir því að iðnaðarmaður mæti á svæðið til að undirbyggja flísalagningu baðherbergisins sem ekki hefur verið snert við frá því flutt var í þetta hús fyrir 24 árum).
Þegar heim var komið með innréttinguna var komið að mér að sannfæra mig og aðra (menn verða að giska á hverjir það voru) um að þetta væri verk sem ég gat framkvæmt skammlaust.
Það kom auðvitað í ljós, að það sem keypt hafði verið, féll ekki fullkomlega að því rými (innlit/útlit) sem var fyrir hendi, bæði að því er varðar hæð fótanna undir því og einnig dýpt, sem reyndist vera heldur mikil, með þeim afleiðingum að minna pláss er til að athafna sig í rýminu eftir en áður.
Ég gæti farið yfir þann verkferil sem ég hef fylgt þessa helgina, auk þess að skjótast í hnit með tilheyrandi mjamaverkjum, en ég tel að þá myndu all miklu færri lesendur hafa í sér nennu til að lesa það í gegn. Í sem stystu mál tókst mér með brilljant stíliseringu á rýmislausnum og með geðveikri áherslu á díteilana (innlit/útlit) að skapa afar glæsilega umgjörð um grunnþarfir.
Ég er ekki að íkja þegar ég lýsi því yfir, að í þessu, eins og reyndar flestu því sem ég á endanum tek mér fyrir hendur, er ég nokkuð mikill snillingur. (Þetta segi ég nú bara af lítillæti mínu.)

Verkinu er reyndar ekki alveg lokið, en ég veit að framhald þess verður í fullu samræmi við það sem á undan er gengið.

Þar skápum ég skellti og vaski
og skeytti hreint engu um það
að bót verður nokkur af braski
því brátt get ég farið í bað.  (veit af ofstuðlun)

2 ummæli:

  1. Það væri nú kannski sniðugt að henda inn myndum fyrir okkur sem ekki getum skotist í heimsókn til að sjá hvað er að gerast.

    SvaraEyða
  2. Bráðlega mun hann sig baða
    í blíðlegri ilmsápufrauð
    og tóna með tenór fram laða
    frá tónbanda dýrlegum auð.
    Guð hvað ég vild' að ég gæti
    það glögglega heyrt bæð' og séð
    nær sápan þar verkið sitt vinnur
    - og víst er: hann þarf hennar með.


    hihihihihi!
    H.Ág.
    Brosandi bloggskapur um væntanlega baðtöku laumubloggarans

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...