01 janúar, 2009

Hvenær ætlar Kirkjuholt eiginlega að byrja - eða..?


Þetta klassíska gullkorn var eitt af þeim sem féllu í tengslum við flugeldaskothríð í Laugarási í gærkvöld. Fylgst var grannt með því hvaðan skotið var og oftar en ekki rökrætt töluvert. 
'Þarna kom ein sæmileg frá Hveratúni!'
'Nei þessi kom sko frá Sólveigarstöðum'

Það sem einkenndi þetta kvöld var umtalsverður kreppusvipur á flugeldunum, eða þá það, að í Laugarási býr um þessar mundir aðallega fólk á miðjum aldri og eldra, sem lætur orðið eins og það hafi ekki gaman að svona löguðu. Fyrir utan einhverja, að því er virtist, endalausa sprengiköku við brennuna við Brennuhól, heyrðist vart eða sást til sprenginga fyrr en áramótaskaupi lauk, en þá lifnaði líka talsvert yfir mannskapnum. Auðvitað var ekki spurning um það að samsetning flugeldasýningar Kvisthyltinga bar af, enda ekki við öðru að búast, með pottþétt kökutilboð á boðstólnum. Vissulega verður það að viðurkennast að heimilisraketta gamla unglingsins, sem var með tveim sprengikúllum, var alveg sæmileg. Aðrir stóðu ekki undir væntingum.
-------------------------------------
Á þessum nýársdegi blasir hversdagsleikinn við á ný og allt stefnir í að hann verði nokkuð langur, en handan hans bíður eitthvað til að takast á við og njóta - eins og alltaf er, þó svo segja megi að mörgum reynist tíminn sem framundan er fremur strembinn.

Þegar við erum búin að hlusta af athygli á afsökunarkenndan bjartsýnisboðskap forsætisráðherra og forseta er ekki eftir neinu að bíða - hefjumst handa af kappi - það býr mikill kraftur í þessari þjóð! - verst að það eru bara aðrir sem njóta afrakstursins. 

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
spyr ég sem álfur út úr hól.

30 desember, 2008

Hvort er ég?

Það hefur nú ekki verið minn stíll, svona almennt séð, að gera mál úr því þótt eitt og eitt ár tínist í safn þeirra sem ég hef þegar safnað upp. Þessu sinni hélt ég að ég væri einu ári eldri en raunin er  - og það merkilega er, að það breytir engu. 
Í barnaskap mínum tók ég til við það í morgun, að svara stuttlega nokkrum kveðjum sem mér höfðu borist frá nátthröfnum á fésbókinni. Þetta hefði ég sennilega ekki átt að gera því það skipti engum togum, að í allan dag hafa streymt þarna í gegn afmæliskveðjur frá þeim sem þar eru skráðir sem 'friends'. Ég er auðvitað afskaplega réttsýnn maður í öllu tilliti og hef því ekki kunnað við annað en að svara hverri einustu kveðju, með þeim afleiðingum að fáu öðru hef ég komið í verk - meira að segja seðlabankinn hefur beðið.

Ég er búinn að læra eitt enn í tengslum við fésbókina - sko mig.

---------------------------

Annars er fátt um þennan viðburð að segja annað en, að ég vex enn að þroska og viti, svo ekki sé  talað um reynsluna, sem er hreint alveg að sliga mig. Allt sé ég með réttum gleraugum og ég hef enn ekki hitt þann einstakling sem hefur heilbrigðari og réttari sýn á allt og allt.

Ég vil loks þakka kærlega fyrir allar kveðjurnar sem mér hafa borist, og við þá fésbókarvini mína, sem enn eiga eftir að senda mér kveðju, vil ég segja, að ef þeir fá ekki viðbrögð frá mér, þá er það vegna þess að ég er orðinn örmagna.
Loks óska ég öllum þeim sem ég hef átt samskipti við og sem lesa þessi skrif, þakklæti mitt fyrir líðandi ár, með von um að við fáum öll að njóta hóflegrar gleði  og nýrra áherslna á árinu sem vofir yfir.

Nú ár er að líða í aldanna skaut
og enginn veit hvað okkar bíður.
Þá vart geislar birtu á vinanna þraut  
ég vona það samt - engu' að síður

... og mótmæli í Skálholti

Í dálki sem kallast 'Fólk & fjör' í Sunnlenska fréttablaðinu, sem kom út 29. desember, er ofangreind fyrirsögn á smáfrétt. 
Ég tek mér leyfi til að slá þessa frétt hér inn: 
Hermt er, að einungis 10-15 Tungnamenn hafi látið sjá sig í jólamessu Skálholtskirkju. 
Dræma aðsókn má rekja til óánægju með brotthvarf Hilmars Arnar Agnarssonar,  organista.
Nýráðinn organisti, Glúmur Gylfason, þurfti að smala saman sérstökum kór fyrir messuna, en Skálholtskór, sem var undir stjórn Hilmars, neitar að syngja í kirkjunni.

Það er sjálfsagt margt sem þörf væri að skoða í sambandi við þessa litlu 'frétt'. Ég ætla hér að tæpa á þrennu:

a. Hver taldi þessa 10-15 Tungnamenn? Voru þeir kannski bara 5, 
eða 25? Það er kannski ekki aðalmálið, jafnmikið áhyggjuefni 
engu að síður. Jólamessan var til skamms tíma ein fjölmennasta 
messan á hverju ári og ef rétt er talið ætti kirkjan að líta 
þessa stöðu mjög alvarlegum augum.

b. Er það rétt, að Glúmur Gylfason sé nýráðinn organisti 
í Skálholtskirkju?
Ég vissi ekki betur en Glúmur væri sestur í helgan stein 
og hefði hlaupið í skarðið tilað bjarga málum tímabundið. 
Það er kannski bara hreinn misskilningur hjá mér.

c. Ég leyfi mér að spyrja hvernig kór sem ekki er til getur 
neitað að syngja í Skálholti. Það er þannig, að kór er til 
vegna þess að það er fólk sem kemur saman til að syngja 
saman undir einhverju tilteknu nafni.
Ef ekki er fólk, þá er enginn kór. Þannig er einfaldlega 
staðan. 
Því er það afar frjálslega farið með staðreyndir málsins 
þegar fullyrt er, að Skálholtskór neiti að syngja í Skálholti. 
Skálholtskór er ekki til þessa mánuðina og getur því 
engu neitað.
Það væri gaman að fá upplýsingar um, hvaða heimildir 
blaðið hefur fyrir þessari neitun. 
Ég get sem persóna neitað að syngja í Skálholti 
og það hef ég reyndar gert.
Mér vitanlega stendur ekkert sérstakt í veginum 
fyrir því að Skálholtskór verði stofnaður að nýju - 
það þarf bara til þess fólk og stjórnanda.

Ekki meira um það.

28 desember, 2008

Stundin milli þessa og hins

Hátíðarhöld sem tengjast árlegu jólahaldi eru nú frá og fólk þá væntanlega að freista þess að gíra sig upp fyrir það sem framundan er - endalok þessa undarlega árs og upphaf þess sem tekur við, sem ekki verður séð í fljótu bragði að muni lenda í sögubókum fyrir allsnægtir til munns og handa. Maður hefur á tilfinningunni að þessi örþjóð (ekki lengur stórasta land í heimi) kvíði því sem framundan er, en í bland við þann kvíða má greina "þetta reddast" hugsunarháttinn gamla, góða. 

Ég er viss um, að ef við tryðum því og treystum, að stjórnvöld viti hvað þau eru að gera, hvert skal stefna og hvað þarf til að koma, þá væri hægt að sjá fyrir sér betri tíð - sem kemur að sjálfsögðu.
Ég er líka viss um að landsmenn væru tilbúnir til að taka á sig byrðarnar sem heimskreppa leggur þeim á herðar, ef ekki kæmi til glæpsamleg framganga nokkurra einstaklinga. Fyrr en þeir hafa verið látnir axla ábyrgð svo undan svíður, verður þessi þjóð ekki sátt við hlutskipti sitt. Einhvern veginn held ég nú að það verði ekki raunin meðan við búum enn við sama stjórnkerfið og sama fólkið í öllum lykilstöðum samfélagsins. Embættismannakerfið er í gíslingu eins stjórnmálaflokks, eftir áratuga stjórnarsetu, þar sem einn hefur tryggt öðrum (hvort sem þar er um að ræða samflokksmenn, ættingja, góða vini eða kunningja) öruggan sess. 
Þar til svo er komið, að ég telji mig geta treyst því, að allt sem í mannlegu valdi sé gert til að láta þá sem fóru svona með heila þjóð, gjalda fyrir verk sín, er ég ekki sáttur.
Það sem ég er samt einna ósáttastur við er, að við skulum sjálf  bera stóran hluta ábyrgðarinnar á hvernig komið er, vegna þess hvernig við höfum krossað á atkvæðaseðla s.l. áratugi. Við verðum að axla þá ábyrgð, um annað er ekki að ræða. Hvað segir það okkur um þessa þjóð? Það er pæling út af fyrir sig.
------------------------------------------
Hvað á maður að kaupa mikið af flugeldum fyrir þessi áramót?
Þessarar spurningar er spurt víða þessa fáu daga milli þessa og hins.
Hérna uppi í sveit er eiginlega nauðsynlegt að taka samfélagslega ábyrgð með því að kaupa í það minnsta eins og einn fjölskyldupakka.
"Þarna kemur ein frá Hveratúni!" 
"Vá, þessi er flott! Hvaðan kom hún?"
"Það er aldeilis sem þau hafa eytt í rakettur á Sólveigarstöðum þetta árið!"
"Jæja, er Benni nú byrjaður!"
"Eigum við ekki að kveikja í stóru tertunni núna?"
Þetta er það sem það snýst um, að búa í litlu þorpi á gamlárskvöld. Nágrannar tengjast gegnum 'fýriverkið', það skapast ákveðin samkennd, sem er svo miklu meira virði en sú brjálæðislega stórskotahríð sem maður lendir í á áramótum á höfuðborgarsvæðinu. Eftir nokkrar mínútur er það ástand hætt að hafa áhrif; þú bara stendur þarna í reykmekki og púðurfnyk og sérð upplýstan himininn, án þess að það hafa nein eftirsóknarverð áhrif. Það gefst enginn tími til að vinna úr  einni upplifun, eða fjalla um hana með orðum, áður en sú næsta truflar. Má ég þá frekar biðja um sveitaáramótin.
Fjöskyldupakkarnir ku vera dýrir þetta árið (hafa reyndar alltaf verið það), en það er samt mikilvægt að taka þátt, annarsvegar til að vera hluti af þorpslífinu og hinsvegar til að styrkja mikilvægt starf björgunarsveita.

Skjótum þeim upp um áramót
útrásarvíkingum (snj)öllum
Og hirðum ekki' um það hætishót
þó hátt láti þá í fjöllum.

25 desember, 2008

Og að morgni skuluð þér sjá...


Þessir fáu dagar ársins eiga sjálfsagt að fela í sér ýmislegt sem ekki er gert ráð fyrir í annan tíma, svo sem eins og óvenjumikla trúariðkun, samveru með þeim sem manni standa næstir og hvíld frá erli hversdagsins.
Það fer minna fyrir því fyrst nefnda hér á bæ en allmörg önnur ár þar á undan af ástæðum sem hér hafa áður komið fram. Það annað er einnig með talsvert öðrum hætti en hingað, en þetta er í fyrsta sinn í nánast 20 ára sögu þeirra sex einstaklinga sem hér hafa ferðast saman gegnum súrt og sætt, að þeir eyða ekki allir jólum á sama stað á sama tíma. Sú staða kallar á nýja nálgun að ýmsu leyti:
-  símtal til Ástralíu um hádegisbil í gær þegar jól gengu í garð á þeim slóðum og fólk sat á hlýrabol með kampavín í hönd og beið þess að setjast að hátíðarkvöldverði.
- annað símtal þegar leið á kvöld hér, þessu sinni við Berlín með aðstoð áðurnefnds PS-P640 (sem, að sögn varpaði ekki nógu litfagurri mynd af heimaverandi Kvisthyltingum yfir hafið). Berlínarfólkið hafði þá lokið hefðbundnu, íslensku aðfangadagsferlinu og ungfrúin nýja svaf í rólegheitum í fangi móður sinnar.

Þetta þriðja, um hvíldina frá erlinum, á enn eftir að reyna á, að fullu, en hefur gengið nokkuð vel enn sem komið er og eindregið er stefnt að því að svo verði áfram.

Það er nú megin erindi mitt á þessum morgni að varpa þarna út til ykkar, sem að jafnaði heimsækið þær djúpu andans pælingar sem hér gefur að líta að öllu jöfnu, bestu óskum okkar Kvisthyltinga um gleði og frið á jólum. Megið ykkur takast að nýta þessa daga vel til að sinna því af alúð, sem ykkur þykir mest um vert. 


Þeir segja að það sé að hækka sól
og þessvegna séu nú haldin jól.
Það eru samt alls ekki allir á því
og ákalla frelsarann jötunni í.


22 desember, 2008

Lokahönd

Á þessum bæ eru miklir framkvæmdamenn, sem hafa það viðhorf til verklegra framkvæmda, að þær séu best komnar í höndum þeirra, sem til þeirra sem til þeirra eru menntaðir.
Ég hef reynt að vera trúr þessari lífsskoðun þó vissulega hafi þeir tímar komið, að ég hef sjálfur gripið til tiltækra verkfæra og dyttað að hinu og þessu og búið til hitt og þetta. Þegar slíkt hefur verið framundan hef ég eytt löngum tíma áður en framkvæmdir hefjast, í að hugleiða verkið frá upphafi til enda, til að átta mig á verkferlinu, m.t.t. hönnunar, efnisþarfar, traustleika og annars þess sem telja má skynsamlegt þegar framkvæmdir eru annars vegar. Þetta ferli, sem ég tel nauðsynlegt, hefur ekki alltaf notið skilnings og oft fengið aðra túlkun, en ég hef þá bara tekið því.

Þegar kom að baðherberginu mikla (seðlabankanum), sem nú er við það að komast í gagnið, taldi ég að það verk væri þess eðlis, að það væri betur komið í höndum til þess menntaðra einstaklinga. Allt undirbúningsferlið, sem hefur reyndar tekið rúmlega 20 ár, þó með sérstakri einbeitingu og mikilli hugsun og hönnun frá vordögum á þessu ári. Það hefur reynt nokkuð mikið á meðfædda sköpunargáfu og einstakt auga fyrir "díteilum" (I/Ú) og rýmisnotkun (I/Ú). 
Eins og vill verða þegar iðnaðarmenn eru annarsvegar, þá eru þeir eins og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Þegar hönnunin var tilbúin á haustdögum hafði ég samband við meistara í nágrenninu sem hafði góð orð um að taka verkið að sér. 

Verkið hófst síðan í síðari hluta nóvember og virðist, eins og áður er sagt, vera að ljúka á þessum degi, allavega að því er varðar stórfaglegan hluta þess.

Þó líta megi að það sem brot á meginreglunni um að fagmenn vinni verkin, þá var spartl og málningarvinna framkvæmd af aðilum sem ekki hafa til þess menntun, heldur aðeins fádæma innsæi á slík verk. 

Þá liggur fyrir, að skipta um slökkvara. Sá sem fest hafa verið kaup á, lítur sakleysislega út, en ég get með engu móti séð hvernig tenging ætti helst að fara fram. Það kemur í ljós bráðlega hvort mér auðnast að afgreiða það verk með sóma, eða hvort nauðsynlegt reynist að kalla til fagmann.

Enn liggur ekki fyrir hvernig fer með jólabaðið í seðlabankanum; ég er eldri og reyndari en svo, að ég geri mér óraunhæfar væntingar. Þær hafa oftar en ekki leitt til vonbrigða. Ég hef hinsvegar ákveðnar væntingar í þá átt að allt fari á besta veg.

Um fagmennsku fjallað er hérna
og fagurt og vel hannað bað.


17 desember, 2008

Örsaga um fúlan útrásarvíking - eða bara hál*****gang _ seinni hluti


Tenging við fyrri hluta
Þetta var ekki eins og það átti að vera. 
Það var því ekki um annað að ræða en kynna sér hvað var þarna í gangi.  hP og fD gengu hikandi í áttina að afgreiðsluborðinu og voru innan skamms umkringd fólki sem virtist ekki vera alveg rótt.

Seinni hluti:
Fólkið hvíslaðist á, en brátt fóru að heyrast orðaskil. '....enginn faranagur í vélinni.' '....komu bara 4 töskur!'  '...fylla út eitthvert eyðublað.'
hP færði sig nær afgreiðsluborðinu til að nálgast nákvæmari upplýsingar. Þar sat kona á miðjum aldri, sem bar þess greinileg merki að henni var ekki rótt. 
'Þið verðið að fylla út eyðublöð - þetta hefur aldrei komið fyrir áður - eyðublöðin eru búin - ég verð bara að afgreiða hvern og einn - svo verður að fylla út tollskýrslu'
hP fór alveg að borðinu á meðan fD tók, án frekari orðaskipta, að sér að gæta handfarangurs og fríhafnargóss, nokkuð frá megin þyrpingunni.
Það var engin eyðublöð að fá lengur, en á afgreiðsluborðinu lá spjald með myndum af allskyns töskum þar sem sérhvert einkenni hverrar um sig var skilgreint með tölum og skammstöfunum. Það var augnabliksákvörðun hP að yfirgefa undir engum kringumstæðum þann stað sem hann hafði þarna náð við borðið, undir því yfirskini að hann vantaði upplýsingar. Eyðublað eða ekki eyðublað, hér skyldi þess freistað að fá afgreiðslu sem fyrst. Fyrir hP lá að þurfa að aka í næstum 2 klukkutíma áður en hvíld næðist og því var mikið í húfi.
Miðaldra konan eina við tölvuna einu hóf að skrá upplýsingar af útfylltum eyðublöðum (hver útfylling tók um það bil 5 mínútur og lengur ef viðkomandi hafði ekki fyllt rétt út. Þessa skráningu átti þessi ágæta kona  eftir að framkvæma upp undir 100 sinnum áður en yfir lyki. 
hP var töluvert ýtinn, á eigin mælikvarða, við þessar aðstæður og gætti þess vel að fylla alltaf þær smugur sem mynduðust þegar einhver hafði fengið afgreiðslu.
Konan miðaldra, sem varð stöðugt óstyrkari eftir því sem athugasemdum frá óþolinmóðum flugfarþegum fjölgaði, hélt áfram að skrá í tölvuna einu, af eyðublöðunum sem hún var orðin uppiskroppa með. Eftir hverja skráningu prentaði hún afraksturinn út og afhenti viðkomandi útfyllanda ásamt skýrslueyðublaði sem þurfti útfyllingu hjá tollinum.(Nauðsynlegt að tryggja að fólk væri ekki að brjóta lög með því að freista þess að koma eins og einum koníakspela inn í landið - Guð forði oss frá þeim óskunda!)
Þegar um það bil 10 eyðublaðaútfyllendur höfðu verið afgreiddir með ofangreindum hætti, var hP kominn það nálægt konunni einu við tölvuna eina, að hann ákvað að taka af skarið.
Næstur?
Hérna!!!!
hP rétti fram (og teygði sig fram fyrir hendur með ein þrjú útfyllt eyðublöð) tvo töskumiða, ÁN meðfylgjandi eyðublaðs.
Honum til nokkurrar undrunar tók konan eina við miðunum, umyrðalaust, og hóf að slá númerin inn í tölvuna.
'Hvernig líta töskurnar út?' sagði hún og benti á spjaldið með töskulýsingunum.
'Önnur er eitthvað í líkingu við þessa, en þó ekki eins og svört, og hin er líka í líkingu við hana, en rauð og minni.'
Þetta dugði til að hú slægi einhverjar skammstafanir inn í tölvuna einu.
'Símanúmer?' hP svaraði samviskusamlega.
'Hvaða númer á ég svo að hringja í til að fá upplýsingar á morgun?' Konan eina svaraði samviskusamlega og hP skráði númerið samviskusamlega. Samskiptin voru samviskusamleg í öllu.
Eftir áðurnefndar 5 mínútur lauk konan eina, skránigunni í tölvuna einu og ýtti á 'print'. Innan skamms hóf prentarinn sína vinnu og út kom áprentað blað með tölum og skammstöfunum. Þetta blað afhenti konan hP ásamt eyðublaði handa tollinum. 
Áfanga var lokið - en það var ekki laust við að hP væri lítillega órótt vegna sívaxandi áánægju annarra þeirra, sem þarna biðu afgreiðslu, en sem hann hafði, böðlast fram fyrir samkvæmt 'íslenskri' biðraðahefð.
Hann olnbogaði sig út fyrir hópinn í átt að fD, sem þar beið, þolinmæðin uppmáluð, eða þannig. Þar féllu orð, sem ekki verða endurtekin hér, en áttu fyrst og fremst uppruna sinn í talfærum fD.
Nú lá leiðin í átt til tollvarðanna, sem, þegar hér var komið, vissu um hvað málið snérist. Þar var hP gert að skrifa undir skjal þess efnis, að hann hefði fullnýtt tollfrjálsar innflutningsheimildir í fríhöfninni og honum var jafnfram gerð grein fyrir, að töskurnar yrðu skannaðar þegar þær fyndust. Lítilsháttar kvíði gerði vart við sig vegna einhhvers sem ekki verður nefnt hér og sem finna mátti í töskunum, en hP lét að sjálfsögðu á engu bera: ' Allt í fína!'
Í framhaldi af þessu er ekki mörgu frá að greina í ferðalagi hjónakornanna. Heim voru þau komin kl 03.00 í stað 01.00, heldur óhress með það að töskurnar hefðu verið skildar eftir í Berlín. Hvarnig gat slíkt átt sér stað? Átti enginn að sjá um að tryggt væri að farangur væri kominn í flugvélina?
Eftir ríflega 3ja tíma svefn var haldið til vinnu. 
Þegar honum þótti ljóst að Keflvíkingar væru komnir á fætur, hringdi hP í númerið sem konan eina hafði gefið upp,
Lífsglöð kvenmannsrödd svaraði.
'Ég heiti hP og kom með flugi frá Berlín í gærkvöldi.'
'Já, þú ert að athuga með töskurnar.'
'Já, rétt er það.'
'Þær eru núna á leiðinni á Selfoss með rútu. Þú getur sótt þær þangað.'
'Ég á ekki leið á Selfoss á næstunni og það er dót í töskunni sem við verðum að fá í dag (auðvitað ekki satt - spurning um að láta ekki fara svoleiðis með sig).'
'Ekkert mál. Ég panta bíl til að fara með þær heim til þín.'
'Hvað kom eiginlega fyrir?'
'Það voru mistök. Töskurnar komu til landsins með flugvélinni.'
hP ákvað að spyrja ekki frekar. Þetta var í hans huga eitt það hálfvitalegasta sem hann hafði heyrt á sinni þó nokkuð löngu ævi. Hvernig mátti það vera, að farangur úr heilli flugvél kæmist ekki til skila eftir að hafa verið tekinn út úr farangursrými einu flugvélarinnar á vellinum??? Spurningin kalaði á of fáranleg svör til að hægt væri að spyrja hennar. 

Töskurnar komu heim, með leigubíl frá Selfoss um kvöldmatarleytið. Leigubílstjórinn var augljóslega ánægður með góðan túr í kreppunni.
-----------------
Það getur vel verið að næsti stjórnarfundur flugfélagsins  verði athyglisverður. 
hPtelur hinsvegar að hér sé um að ræða einhverja alvitlausustu uppákomu sem hann hefur lent í, og er þá langt til jafnað,

ENGIN AFSÖKUN - en töskurnar komu þó.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...