30 janúar, 2009

Vörubíll springur - Blóðugur upp á axlir

Ætli það sé ekki tvennt, aðallega, sem hefur orðið til þess undanfarna daga, að ómeðvitað hefur hugurinn leitað til baka og upp hafa rifjast atburðir og minningar sem tengjast lífinu í Laugarási undanfarin 50+ ár. 
Annarsvegar setti fyrrverandi heimasæta í Heiðmörk upp sérstaka síðu á hinni alræmdu fésbók, sem tileinkuð er Laugarásbúum fyrr og nú, hinsvegar birtist sparisjóðsbankastjórinn á Selfossi inn á téða fésbók með látum, en við áttum okkur nokkuð langa og mikilvæga sögu saman hér í Laugarási.

Svo margir áratugir sem hér um ræðir, hljóta, eðli málsins samkvæmt, að skilja eftir sitthvað í hugum þess fólks sem fæddist hér og ólst upp. Minn hugur er búinn að fljúga yfir sviðið; elsta minningin líklegast frá því um 5 ára aldurinn og sú yngsta til atburða síðustu ára. Hér má sjá, á þessu stigi, nokkrar  fyrirsagnir, í æsifréttastíl frá þessum tíma. Engu lofa ég um að framhald verði á  og ekki mun ég skýra hverju fyrirsagnirnar lýsa, en vonast til að einhverjir með svipaða reynslu geti fundið út hvað um er að ræða.

Horfði ofan í bullandi hverinn
Barni rænt
Farið mannavillt á versta tíma
Óhefðbundin ræktun í kjallaranum
Grýla með kerti á kræklóttu nefi.
Kusa gerir árás.
Fékk botnlangakast messu.
Of miklu eytt í messuvín
Skotinn niður þrisvar
Ástin Gypsí eða Landróver?
'Nú skal ég skal drepa þig, helvítið þitt!'
Pikkólína tekin í notkun
Hestur í búri
Tankurinn var ekki tómur
Hent út úr skólabílnum
Talað við ókunnugt fólk
Truntan bakkaði bara
Halinn slitnaði af
Vikan á loftinu
Að skjóta hænur
Göngustígur klýfur
VAT69 úr kaupstaðarferð
Charger tekinn til kostanna
'Ætlarðu að leyfa barninu að keyra?!!?'
Grillaði rollu á Skeiðunum
Og annar hundur til
Heppin að lifa

Ég er búinn að komast að því að ég gæti haldið lengi áfram svona, en það gengur hreint ekki. Þessi Laugarásár, með 10 ára hléi frá fæðingu, hafa greinilega verið þrungin æsilegum atburðum og minnisstæðum.

Laugarás er ljúfur staður 
löngum hef ég vitað það.
Því neitar ekki nokkur maður,
nem'ann búi á öðrum stað.





28 janúar, 2009

Það er ekki Davíð

Meðal þess fólks sem ég umgengst daglega er manneskja (ég læt liggja milli hluta hvort um er að ræða karl eða konu, enda álíka vitlaust og að gera mál úr kynhneigð verðandi mögulegs forsætisráðherra), sem tekur það mjög nærri sér hvað fólk talar illa um Davíð. Hún (manneskjan, til að halda því til haga) heldur því statt og stöðugt fram að það sé með engu móti hægt að kenna Davíð um allt sem aflaga hefur farið í þessu þjóðfélagi. Davíð sé bara klár og duglegur maður sem fólk hefur fylkt sér um og treyst til að leiða þessa þjóð inn í eitt mesta góðæri (gróðæri) sem hún hefur fengið að njóta.

Auðvitað er þetta rétt hjá manneskjunni.

Davíð væri ekkert og hefði ekki orðið neitt nema vegna þess að honum var veitt til þess brautargengi í lýðræðislegum kosningum. Hann sem persóna, er sjálfsagt hinn ágætasti maður á margan hátt. Ég treysti mér ekki til að meta hann á þeim grundvelli.

Það eru kannski frekar þeir sem leiddu hann þessa leið með stuðningi sínum (um 40% þjóðarinnar sem léðu Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt + ca. þeirra 15% sem síðan studdu þann flokk annan sem verið hefur í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn undanfarin 18 ár). Það er þetta fólk sem ber ábyrgðina, meira en helmingur þjóðarinnar. Þetta fólk þarf að skoða hug sinn vel.

Davíð hefur hinsvegar orðið táknmynd fyrir allt sem aflaga hefur farið á Íslandi undanfarin ár. Þessi táknmynd lýsir valdagræðgi, spillingu, hroka, dómgreindaraleysi, flokksþjónkun og almennum hálfvitagangi, svo eitthvað neikvætt sé nefnt.

Meðan Davíð er þessi táknmynd, jafnvel þó hann hafi ekki til þess unnið (sem ég leyfi mér hér að taka ekki afstöðu til) er alveg ljóst að hann verður að víkja af sviðinu til að von sé til að þessi þjóð geti farið að taka af sér hauspokann og horfa bjartsýn fram á veginn.

Táknið það verður að víkja
svo vonin ei bresti.
Land vort ei láttu það svíkja,
vor lausnarinn besti.

25 janúar, 2009

Tími samsæriskenninga og kverúlanta

"Líst þér ekki vel á að Framsóknarflokkurinn mælist með 17% fylgi núna?" spurði mig gamli unglingurinn á þessum sunnudegi, en hann hefur verið óþreytandi (með glott á vör) við að fjalla um pólitískar hræringar - nánast undantekningalaust með þennan gamla flokk samvinnumanna og bænda í bakgrunni eða forgrunni þeirrar umræðu. "Jú, jú", segi ég auðvitað alltaf til að byrja með, eins og hann talandi þvert um hug mér þar sem við vitum í raun að þessar samræður er nokkurskonar leikrit af okkar hálfu. Ég er svo sem búinn að afgreiða nýja forystu þeirra framsóknarmanna hér fyrir nokkru síðan og bæti engu við það.

"Mennirnir eru að reyna að gera eins vel og þeir geta. Af hverju á ekki að leyfa þeim að bjarga landinu í friði fyrir einhverjum skríl sem kastar eggjum og grjóti?" er önnur mikilvæg umræða sem á sér stað á svipuðum nótum. Spurning hans lögð fram í þeim sama tilgangi og aðrar af þessum toga, til þess að fá fram andstæð viðbrögð.

Það þarf að spyrja til að fá svör.

Það sem mun gerast næst í pólitíkinni er líklegast, að Sjálfstæðismenn slíti stjórnarsamstarfinu til þess eins að þurfa ekki að reka lögfræðinginn í Seðlabankanum. Það geta þeir nefnilega ekki vegna þess að sá maður veit ýmislegt um ýmsa, sem illa þolir dagsins ljós.
Það er reyndar ömurlegra en orð ná að tjá, ef sú er raunin, en önnur skýring liggur ekki á lausu.

Nú er daginn að lengja og það verður stöðugt erfiðara að halda ljósinu burtu.


Það sem ég er að gera hér, er að skella mér í hlutverk kverúlantsins, mér þvert um geð, en nú eru tímar kverúlantanna sannarlega runnir upp. Þeir spretta nú sem óðast fram með einfaldar lausnir og samsæriskenningar sínar. Kverúlantarnir eru ein stærsta ástæða þess að ný stjórnmálaöfl eiga erfitt uppdráttar á þessu landi. Um leið og nýtt stjórnmálaafl lætur á sér kræla stökkva þeir til og leggja það umsvifalauat undir sig svo fremi að grundvöllurinn sé ekki því traustari. Ég held að því miður séu þeir það margir sem telja sig vita best um hvernig málum verði best borgið á þessu landi, að umbreytingin muni reynast torveld. Þetta mun áfram lullast áfram á grundvelli gömlu flokkanna með einhverjum andliltslyftingum, án þess að neitt breytist til langs tíma litið.

Það er einn flokkur kverúlanta starfandi á Íslandi núna. Þar virðast þeir eiga nokkuð gott skjól hjá Guðjóni Arnari.


Kverúlantinn kann ekki' á að
kveikja von í landans hjarta.
Nú er bara best að þrá að
bráðum komi vorið bjarta.

Einstæð þverstæða í samstæðunni

Sem ég velti fyrir mér tilverunni sendir morgunsólin geisla sína inn um stofugluggann (aðgerð sem er ekki alltaf velkomin) og sýnir mér fram á að dagur lengist stöðugt. Geislarnir munu eflast á næstu vikum og mánuðum og væntanlega flytja með sér von um einhverja bót í kjölfar þriggja mánaða svartnættis. Það er ekki laust við að afsagnir dagsins fram til þessa (hvað veit maður hvað gerist það sem eftir lifir þessa sunnudags) séu ákveðin vísbending um að þeirra breytinga sé að vænta, að við getum farið að líta aftur framan í aðrar þjóðir skömmustulaust. 
Auðvitað getur maður ekki verið viss um neitt, en svo mikið veit ég, að það mun hafa mjög jákvæð áhrif á allt okkar umhverfi ef ákveðnir stjórnmálaleiðtogar, seðlabankastjórar og fyrrverandi forætisráðherrar hverfa á braut. Það mun fækka aðhlátursefnunum.

Það felst dálítið sérstök þverstæða í þessu öllu saman sem ég er ekki viss um að ég geti orðað svo ég skiljist (hef orðið var við að töluvert er um að fólk skilji ekki pælingar mínar á þessum vettvangi). 
Mér finnst þessi þverstæða í rauninni vera þannig að þegar á heildina er litið sé hún engin þverstæða, heldur eitthvað það sem mun leiða þessa þó nokkuð þjökuðu þjóð í áttina að einhverju betra en verið hefur.

Hækkandi sól felur væntanlega í sér von, jafnframt því sem hún felur í sér kvíða á óvissutímum.
Afsagnir ráðherra og brottvikning ónýtra stuttbuxnagæja fela í sér von, jafnframt því sem þær fela í sér kvíða fyrir því sem næst kann að gerast. (enginn þeirra stjórnmálamanna sem í raun bera ábyrgðina á stöðunni, hefur enn axlað neina ábyrgð).

Sennilega er það aldrei svo, að hægt sé að vænta einhvers sem er bara gott eða bara vont. Má kannski líka halda því fram, að það sé einmitt eins og það á að vera. Öldurótið eflir okkur jafnframt því sem það getur valdið okkur óbætanlegum skaða.

Þetta land vort er sérkennileg samstæða
og sannlega undarleg þverstæða.
Ég ætla það kallast verði hin einstæða
og ótrúlega vitlausa afstæða.

Bestu kveðjur til ykkar sem skildu þetta :)
Til hinna: Það gengur betur næst.

23 janúar, 2009

Svona er þá súrrealismi


Staða mála síðan síðast, að því er varðar ástand þjóðmála á Íslandi, er að verða með þeim hætti, að ég treysti mér ekki til að fjalla um þau án þess að eiga á hættu að þurfa að fara að leita uppi vasaklútinn sem hún amma mín gaf mér til að nota við matrósafötin.  Ég nenni ekki að leita að vasaklútnum og þar að auki  er eins gott að láta engin stór orð falla í dag, því þau munu koma í bakið á mér á morgun.

Í næst síðustu færslu lét ég að því liggja að spurningaþátturinn Útsvar væri leiðinlegur og þreyttur þáttur. Ég dreg það hér með til baka.
Í kvöld voru tvö skemmtileg lið á ferð, þar sem m.a. var að finna góðan  Laugarásmann og allsherjargoða. Þessi þáttur var, án efa, hugsaður fyrir fólk eins og þarna var á ferð.
Það var verst að allsherjargoðinn skyldi ekki klára setninguna sem hann byrjaði í lok þáttar, en hún hefði verið svona í fullri lengd: Í Kópavogsliðinu eru eintómir /atvinnumenn/. Megi Álftnesingar sigra í næstu viku. Sigur skemmtilegs fólks yfir misskildum metnaði.

Sjónvarp allra landsmanna er þessa stundina að ganga svo fram af yfirvegun minni, að það liggur við að ég láti orð falla, sem.... já - munu koma í bakið á mér á morgun. Á skjánum er að finna þessa stundina mikla kvikmynd um bjarndýr, sem stofna hljómsveit og skemmta fólki (og bjarndýrum) með íðilfagurri sveitatónlist og tala þess á millli um hvað þau elska hvert annað mikið og hvað vondi bankakallinn er vondur.  

Ekki fleiri orð - þá segi ég of mikið.

Misskildur er metnaður bjarndýra
hvort sem þau sigra í spurningakeppnum
eða leika sveitatónlist fyrir ameríska rauðhnakka.
Þessu má nánast líkja  við ýsulandið góða
sem engist í fæðingarhríðum einhvers - 
kannski bjarndýrs.




19 janúar, 2009

Fáránleikinn

Það er að verða svo komið fyrir mér, að ég vil helst sjá að erlendir sérfræðingar af ýmsu tagi taki hér við stjórn allra helstu stofnana. Þetta er ekki lítil yfirlýsing af þessum vettvangi.

Ég, eins og sjálfsagt margir aðrir, lít svo á, að allt hið íslenska stjórnkerfi sé trausti rúið. Ein birtingarmynd þess skall á mér í gærkvöldi þegar mér barst sú fregn að til stæði að setja einn hinna nýju ríkisbanka í þrot. Fyrir þessu voru áreiðanlegar heimildir úr innsta hring og nöfn nefnd sem heimildir fyrir þessu. Mér fannst vont að geta ekki sagt með fullri vissu, að þetta væri bara bull og vitleysa, en komst að því að ég efaðist. Ég get ekki treyst því að svona muni ekki gerast. Bankinn er ekki kominn í þrot enn, en það hefur ekki aukið traust mitt á þessu apparati öllu saman.

Framsóknarmenn þykjast sjálfsagt góðir eftir gærdaginn þegar enn eitt þekkta andlitið úr sjónvarpi lenti í því, eftir ólýsanlega vandræðalega uppákomu, að verða kosinn formaður þessa "fornfræga" stjórnmálaflokks. Ég man ekki eftir sjónvarpsandliti, sem hingað til hefur gert stóra hluti á þessum vettvangi. Hvað ætli bíði sjónvarpsmannsins þegar gömlu kafbátarnir skríða undan steinum sínum innan skamms og gera tilkall til áframhaldandi áhrifa. Ég leyfi mér að efast um að hann hafi bein í nefinu til að standast það áhlaup. Stjórnmálaflokkur hleypur ekki frá sögu sinni svona einfaldlega. Valdaklíkan innan hans mun hreint ekki  hverfa á braut si svona. Það mun ekki einu sinni duga að bæta Nýi fyrir framan flokksheitið, ó, sussu nei.

Það er nánast sama hvar borið er niður í leit að einhverju eða einhverjum til að trúa á á þessu landi elds og ýsu.
Menn hafa auðvitað Guð almáttugan, en umboðsmenn hans stuðla nú ekki beinlínis að trúverðugleika hans, sumir hverjir. 
Þeir aru allmargir enn sem trúa af öllum mætti á eitthvað mis skondið. "Hann er eini maðurinn á landinu sem veit hvað hann er að tala um." sagði einn sanntrúaður við mig, með glampa í augum. Hver haldiði að "hann" sé?   Hann veit sannarlega hvað hann er að tala um - en hefur ekki grun um hvað hann er að gera - þykist bara vita það og kemst upp með það vegna þess að það virðist enginn annar hafa nokkuð betra fram að færa - eða möguleika eða tækifæri til þess, sem er öllu líklegri skýring.
Skelfing er það rétt, sem Vilmundur sagði í margendurtekinni (Rás1 og Rás2) ræðu fyrir nokkrum áratugum: Það er ekkert lýðræði á Íslandi, heldur flokksræði. Þar er einskis svifist, hvorki í því að láta okkur finnast að við höfum einhver áhrif, né í því að tryggja völd sín og sinna.

Svei

Svei, sagð'ann og settist fyrir framan sjónvarpið,
í von um að fréttir berist af því, að reykurinn sé eitthvað að minnka
og landsýn blasi við.
Þegar vonin ein er eftir (ásamt lítilræði á einhverjum bankareikningi)
er ekki um annað að ræða en setjast við einkabankann
eftir fréttirnar og flytja pening í annan banka
sem flugufregnir hafa ekki enn spáð falli, ....
.... ekki enn.
Eins gott að eiga reikninga í mörgum bönkum.

(þetta er prósaljóð með léttu tvisti, ef það skyldi misskiljast)

18 janúar, 2009

VL og ES

Hér í Laugarási var ekki nægilega mikið af köldu vatni þegar fólki fór að fjölga, svo ekki sé nú talað um þegar ákveðið hafði verið að byggja hér sláturhús. Það varð því úr, að stofna vatnsveitufélag, sem skyldi uppfylla þessa þörf. Þetta minnir mig að hafi verið um 1960. Það var síðan lögð vatnslögn úr Vörðufelli í miðlunartank við Hvítárbrú og þaðan stofnlögn um þorpið, hvaðan væntanlegir notendur gátu síðan náð sér í vatn til heimilisins og þeirrar starfsemi sem stunduð var.
Þessi vatnsveita var síðan nokkurskonar tákn fyrir sjálfstæði Laugaráss. Þetta þorp reis á landi sem öll sveitarfélögin sem voru aðilar að Laugaráslæknishéraði, áttu, en sem laut forræði Biskupstungnahrepps. Biskupstungnahreppi var ekkert sérlega annt um þetta svæði, nema að því leyti að tekjurnar sem hann fékk þaðan, voru vel þegnar.

Árin liðu og Vatnsveitufélag Laugaráss sleit barnsskónum eins og nokkurs konar ungmennafélag, þar sem aðilar að félaginu skiptust á um að sitja í stjórn. Vatnið var gott og það var ekki laust við að Laugarásbúar væru bara nokkuð stoltir af því að geta verið sjálfum sér nægir um vatn.

Smátt og smátt fór að bera á því, að þetta fjöregg fjarlægðist fólkið, aðallega vegna þess, að það flutti stöðugt nýtt fólk í þorpið, sem ekki þekkti þessa sögu, og vegna þess að frumkvöðlarnir eltust og drógu sig út úr daglegu amstri, fluttu burt, eða dóu. Þegar sláturhúsið var aflagt hvarf einnig ein megin stoð þessa félags út úr samfélaginu.

Síðan gerðist það, að sláturhúsið var selt. Nýr eigandi taldi sig eiga helming vatnsins og hugðist nýta sér þann meinta rétt sinn, væntanlega til tekjuöflunar. Stöðugt varð erfiðara til að fá fólk til að sitja í stjórn félagsins, og þar með halda utan um reksturinn. Það var aðallega vegna þess, að ungmennafélagsandinn, sem einkennt hafði félagið, var ekki lengur fyrir hendi. Loks má nefna sem ástæðu, að það var farið að bera á vatnsskorti á álagstímum á sumrin.

Það varð úr, eftir ýmsar hótanir um lögsókn, að "félagar" samþykktu að afhenda sveitarfélaginu veituna gegn því að þeim væri áfram tryggt nægilegt kalt vatn.

Þetta sjálfstæðistákn Laugarásbúa er nú runnið inn í Bláskógaveitu. Sveitarfélaginu ber að sjá íbúum og atvinnustarfsemi fyrir nægu köldu vatni. Ég fæ ekki séð annað en þessi aðgerð hafi orðið til góðs fremur en hitt. Það er búið að leggja mikla vatnslögn til okkar og engin ástæða til að hafa áhyggjur af vatnsskorti lengur.

Mér hefur oft orðið hugsað til Vatnsveitufélags Laugaráss í tengslum við umræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 
Þessi þjóð er ekki stór (reyndar örsmá). Svo lengi sem ég man eftir höfum við sveiflast upp og niður í efnahagslegum skilningi. Því stærri sem sveiflan upp á við hefur verið, því meira hefur fallið verið niður aftur. Það er gaman þegar við erum á toppnum, en ekki svo gaman að það geri lægðirnar þolanlegri. 

Einhver stærstu rökin gegn aðild að ES hafa verið auðlindirnar og þá sérstaklega sjávarútvegurinn. Við erum hinsvegar búin að afsala okkur réttinum til þeirra með því að afhenda hann rækilega til þeirra sem kallaðir hafa verið kvótakóngar, sem urðu ríkir af fiskinum okkar og fjárfestu síðan fyrir hagnaðinn, í bönkunum sem síðan hrundu eins og spilaborg.

Ég get haldið lengi áfram með pælingar í þessa veru, en þegar upp er staðið og við lítum á möguleika okkar sem einstaklinga, þá hygg ég að þeir verði síður en svo erfiðari eftir en áður. 

Við Laugarásbúar gætum, ef við vildum, haldið áfram að halda á lofti þeim gildum sem okkur eru kær, án þess að það skapaði vanda í samskiptum við sveitarfélagið. Ég neita því hinsvegar ekki, að við viljum gjarnan sjá umtalsvert meiri áhuga sveitarfélagsins á okkur.

Hvert skal haldið? Hverju breytt?
Hvernig dansað saman?
Engu það skiptir, yfirleitt,
alltaf verður gaman.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...