25 janúar, 2009

Tími samsæriskenninga og kverúlanta

"Líst þér ekki vel á að Framsóknarflokkurinn mælist með 17% fylgi núna?" spurði mig gamli unglingurinn á þessum sunnudegi, en hann hefur verið óþreytandi (með glott á vör) við að fjalla um pólitískar hræringar - nánast undantekningalaust með þennan gamla flokk samvinnumanna og bænda í bakgrunni eða forgrunni þeirrar umræðu. "Jú, jú", segi ég auðvitað alltaf til að byrja með, eins og hann talandi þvert um hug mér þar sem við vitum í raun að þessar samræður er nokkurskonar leikrit af okkar hálfu. Ég er svo sem búinn að afgreiða nýja forystu þeirra framsóknarmanna hér fyrir nokkru síðan og bæti engu við það.

"Mennirnir eru að reyna að gera eins vel og þeir geta. Af hverju á ekki að leyfa þeim að bjarga landinu í friði fyrir einhverjum skríl sem kastar eggjum og grjóti?" er önnur mikilvæg umræða sem á sér stað á svipuðum nótum. Spurning hans lögð fram í þeim sama tilgangi og aðrar af þessum toga, til þess að fá fram andstæð viðbrögð.

Það þarf að spyrja til að fá svör.

Það sem mun gerast næst í pólitíkinni er líklegast, að Sjálfstæðismenn slíti stjórnarsamstarfinu til þess eins að þurfa ekki að reka lögfræðinginn í Seðlabankanum. Það geta þeir nefnilega ekki vegna þess að sá maður veit ýmislegt um ýmsa, sem illa þolir dagsins ljós.
Það er reyndar ömurlegra en orð ná að tjá, ef sú er raunin, en önnur skýring liggur ekki á lausu.

Nú er daginn að lengja og það verður stöðugt erfiðara að halda ljósinu burtu.


Það sem ég er að gera hér, er að skella mér í hlutverk kverúlantsins, mér þvert um geð, en nú eru tímar kverúlantanna sannarlega runnir upp. Þeir spretta nú sem óðast fram með einfaldar lausnir og samsæriskenningar sínar. Kverúlantarnir eru ein stærsta ástæða þess að ný stjórnmálaöfl eiga erfitt uppdráttar á þessu landi. Um leið og nýtt stjórnmálaafl lætur á sér kræla stökkva þeir til og leggja það umsvifalauat undir sig svo fremi að grundvöllurinn sé ekki því traustari. Ég held að því miður séu þeir það margir sem telja sig vita best um hvernig málum verði best borgið á þessu landi, að umbreytingin muni reynast torveld. Þetta mun áfram lullast áfram á grundvelli gömlu flokkanna með einhverjum andliltslyftingum, án þess að neitt breytist til langs tíma litið.

Það er einn flokkur kverúlanta starfandi á Íslandi núna. Þar virðast þeir eiga nokkuð gott skjól hjá Guðjóni Arnari.


Kverúlantinn kann ekki' á að
kveikja von í landans hjarta.
Nú er bara best að þrá að
bráðum komi vorið bjarta.

1 ummæli:

  1. Vorið mun þig verma og sjá
    vonabirtu sína
    gefa þér
    -sem Guð þig á -
    og góða vísu mína.

    (Bloggskapur um bjarta tíma með vorinu)
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...