Sem ég velti fyrir mér tilverunni sendir morgunsólin geisla sína inn um stofugluggann (aðgerð sem er ekki alltaf velkomin) og sýnir mér fram á að dagur lengist stöðugt. Geislarnir munu eflast á næstu vikum og mánuðum og væntanlega flytja með sér von um einhverja bót í kjölfar þriggja mánaða svartnættis. Það er ekki laust við að afsagnir dagsins fram til þessa (hvað veit maður hvað gerist það sem eftir lifir þessa sunnudags) séu ákveðin vísbending um að þeirra breytinga sé að vænta, að við getum farið að líta aftur framan í aðrar þjóðir skömmustulaust.
Auðvitað getur maður ekki verið viss um neitt, en svo mikið veit ég, að það mun hafa mjög jákvæð áhrif á allt okkar umhverfi ef ákveðnir stjórnmálaleiðtogar, seðlabankastjórar og fyrrverandi forætisráðherrar hverfa á braut. Það mun fækka aðhlátursefnunum.
Það felst dálítið sérstök þverstæða í þessu öllu saman sem ég er ekki viss um að ég geti orðað svo ég skiljist (hef orðið var við að töluvert er um að fólk skilji ekki pælingar mínar á þessum vettvangi).
Mér finnst þessi þverstæða í rauninni vera þannig að þegar á heildina er litið sé hún engin þverstæða, heldur eitthvað það sem mun leiða þessa þó nokkuð þjökuðu þjóð í áttina að einhverju betra en verið hefur.
Hækkandi sól felur væntanlega í sér von, jafnframt því sem hún felur í sér kvíða á óvissutímum.
Afsagnir ráðherra og brottvikning ónýtra stuttbuxnagæja fela í sér von, jafnframt því sem þær fela í sér kvíða fyrir því sem næst kann að gerast. (enginn þeirra stjórnmálamanna sem í raun bera ábyrgðina á stöðunni, hefur enn axlað neina ábyrgð).
Sennilega er það aldrei svo, að hægt sé að vænta einhvers sem er bara gott eða bara vont. Má kannski líka halda því fram, að það sé einmitt eins og það á að vera. Öldurótið eflir okkur jafnframt því sem það getur valdið okkur óbætanlegum skaða.
Þetta land vort er sérkennileg samstæða
og sannlega undarleg þverstæða.
Ég ætla það kallast verði hin einstæða
og ótrúlega vitlausa afstæða.
Bestu kveðjur til ykkar sem skildu þetta :)
Til hinna: Það gengur betur næst.
Allt er þetta undur skýrt hjá þér
SvaraEyða(eins og hrifsað út úr huga mér!)
lengra varla vitnað ei er til
í vitsmunanna feikna djúpum hyl :).
Það er gott að þekkja tölvuslóð
þar sem vitrast mér æ sýnin góð
arfleifð þín skal enn í ljóðum skráð
- undarlegt hve rík er Drottins náð!
Farðu nú að fá þér kaffi gott
fylgi þér til verksins "solltið" glott
Við sem skiljum verk og hugsan þín
viljum aðeins ... já, bara að þér líði sem allra best!
Já, ég veit. Sjokkhendur eru slæmar!
(Bloggskapur um hugrenningaferli
Höfuðs Kvisthyltinga að morgni sunnudagsins 25 januar 2009)
Hirðkveðillinn