30 janúar, 2009

Vörubíll springur - Blóðugur upp á axlir

Ætli það sé ekki tvennt, aðallega, sem hefur orðið til þess undanfarna daga, að ómeðvitað hefur hugurinn leitað til baka og upp hafa rifjast atburðir og minningar sem tengjast lífinu í Laugarási undanfarin 50+ ár. 
Annarsvegar setti fyrrverandi heimasæta í Heiðmörk upp sérstaka síðu á hinni alræmdu fésbók, sem tileinkuð er Laugarásbúum fyrr og nú, hinsvegar birtist sparisjóðsbankastjórinn á Selfossi inn á téða fésbók með látum, en við áttum okkur nokkuð langa og mikilvæga sögu saman hér í Laugarási.

Svo margir áratugir sem hér um ræðir, hljóta, eðli málsins samkvæmt, að skilja eftir sitthvað í hugum þess fólks sem fæddist hér og ólst upp. Minn hugur er búinn að fljúga yfir sviðið; elsta minningin líklegast frá því um 5 ára aldurinn og sú yngsta til atburða síðustu ára. Hér má sjá, á þessu stigi, nokkrar  fyrirsagnir, í æsifréttastíl frá þessum tíma. Engu lofa ég um að framhald verði á  og ekki mun ég skýra hverju fyrirsagnirnar lýsa, en vonast til að einhverjir með svipaða reynslu geti fundið út hvað um er að ræða.

Horfði ofan í bullandi hverinn
Barni rænt
Farið mannavillt á versta tíma
Óhefðbundin ræktun í kjallaranum
Grýla með kerti á kræklóttu nefi.
Kusa gerir árás.
Fékk botnlangakast messu.
Of miklu eytt í messuvín
Skotinn niður þrisvar
Ástin Gypsí eða Landróver?
'Nú skal ég skal drepa þig, helvítið þitt!'
Pikkólína tekin í notkun
Hestur í búri
Tankurinn var ekki tómur
Hent út úr skólabílnum
Talað við ókunnugt fólk
Truntan bakkaði bara
Halinn slitnaði af
Vikan á loftinu
Að skjóta hænur
Göngustígur klýfur
VAT69 úr kaupstaðarferð
Charger tekinn til kostanna
'Ætlarðu að leyfa barninu að keyra?!!?'
Grillaði rollu á Skeiðunum
Og annar hundur til
Heppin að lifa

Ég er búinn að komast að því að ég gæti haldið lengi áfram svona, en það gengur hreint ekki. Þessi Laugarásár, með 10 ára hléi frá fæðingu, hafa greinilega verið þrungin æsilegum atburðum og minnisstæðum.

Laugarás er ljúfur staður 
löngum hef ég vitað það.
Því neitar ekki nokkur maður,
nem'ann búi á öðrum stað.





3 ummæli:

  1. Sko, mér finnst ekki alveg viðeigandi að festa hér á tölvu, það sem mér datt í hug nákvæmlega núna... fer stöku sinnum of hratt yfir...

    Ekki nefnd "öryrki andlátins kórs" fyrir ekki neitt.
    Læt því nægja að senda kveðju Guðs (sem æ er nálægur) og mína....

    Hirðkveðillinn

    P.S. En bíðið bara hæg...!!!

    SvaraEyða
  2. Einhvern veginn æxlaðist það svo
    er ég felldi í ljóðstafina sko,
    vísur um nær allt hvað augað leit
    allt það hvarf á brott "úr minni sveit"*

    Margar vísur voru góðar þar
    var svo glaður hirðkveðill - sem bar-
    lýtur samt í lægra haldi nú
    ljóða mun þó áfram - hananú!!

    Guð, en vís' um "Gifsí"-inn var fín
    guðleg nánast sú um "messuvín"
    "morðhótanir" megnuð' og að fá
    mikið ljóð og "halinn" einnig þá.

    Ör-ykrinn man aldrei ljóðin sín
    ekki heldur þótt sé bara grín
    gjört að kankast kjöltutölvu með
    og kæta þannig söngvinanna geð.

    (Bloggskapur um að hafa týnt ljóðum úr tölvu - Minningum úr Laugarási)
    Hirðkveðillinn




    *sveit er hér að fornum sið notað um tölvuumhverfi.

    SvaraEyða
  3. Nehei , en takk samt, engin "komment"...alls ekki núna; sennilega i fyrramálið!
    hihihi, hehe
    Er alveg stórfenglega mikið á leið í rúmið mitt...
    Guð einn veit hins vegar hvað birtist hér að morgni.

    Ættarfylgjan óræða
    (Kvistholts-Skotta?)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...