01 febrúar, 2009

Þorramorgunn og stjórnarskipta


Á þessum þorramorgni svífa snjókornin kæruleysislega ofan úr himninum og klæða Laugarás í enn hvítari búning. Þorrablót Tungnamanna var haldið í gærkvöldi, en ég hef fátt af því að segja, en reikna með að þeir sem þangað lögðu leið sína hafi skemmt sér hið besta að öðru leyti en því að mín var eflaust sárt saknað, eða þannig. Þangað þyrptust sveitungarnir með trogin sín, pökkuð inn í dúk og hnýtt að ofan, eins og vera ber. Trogin munu hafa geymt gnægð af nýjum og skemmdum mat, sem síðan var skolað niður með viðeigandi drykkjarföngum. Að matarveislunni lokinni munu gestirnir hafa skemmt sér konunglega undir skemmtidagskrá í boði Haukadalssóknar áður en dansinn var stiginn og ölið kneyfað fram á rauða nótt. Eftir að dansað hafði verið og sungið eins og hver fann sig knúinn til, var haldið heim á leið, með þeim aðferðum sem tiltækar voru og sem vonandi fólu ekki í sér að lög væru brotin. Þá tók við svefn hinna réttlátu, eða annað það sem menn kusu að taka sér fyrir hendur.

Síðan kom morgunninn - og segir fátt af honum.

Lífið heldur áfram - þetta var gott þorrablót, reikna ég með.

Þessa stundina erum við, hin hrausta þorraþjóð, að ganga í gegnum ríkisstjórnarskipti. Ég held að ég ætti ekki að segja margt um þessi mál á þessum vettvangi. Megi takast að koma málum þannig fyrir að þessi þorrakreppuþjóð verði ekki alltof ósátt við lífið og tilveruna þegar upp er staðið. Verst er þetta líklega fyrir bankabólukynslóðina, sem hefur aldrei upplifað hömlur. Hún þarf að venjast nýjum og vondum veruleika, sem væntanlega verður til góðs þegar upp er staðið.

Það eina sem ég óttast við þetta allt saman er, að bóluþjóðin okkar verði of fljót að gleyma; að mjúkmálum stjórnmálamönnum takist alltof fljótt og hvítþvo tiltekna valdaklíkustjórnmálaflokka. Ég ætla að vona að nú teljist þeir hafa gengið of langt og að þeir fái það kjörfylgi sem þeim hæfir.

Ég ætla líka að vona að kverúlantarnir nái ekki að koma málum þannig fyrir, með heimskulegum pælingum sínum, að kjósendur eigi fáa eða enga góða kosti.

Jæja

Oft hylur mjöllin úldið ket
undan það kemur er hlánar.
Upp rísa aftur með ekkert vit, (flámæli)
algerir, bölvaðir kjánar

5 ummæli:

  1. skv mínum heimildum var þetta frekar slakt þorrablót... en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það..

    SvaraEyða
  2. Það mætti halda að höfundurinn hafi verið í flugumynd á veggjum Aratungu í gærkvöld :) En blótið sem slík var ágætt ... misjafn húmor upp- og niðursveitafólksins kom kannski pínulítið í ljós :)

    SvaraEyða
  3. Ort ég hafði um hér brag
    ákvað þó að væri í dag,
    engin þörf að þrykkj' á prent
    því ég viðhef líf svo pent!!!

    En það var nú vitað.Hins vegar dansaðí ég afar sexy dans við Magnús bróður... sem fékk bara ekki undan beðist, blessaður maðurinn. *Engin leið undan því svínaríi. *EN hann var kurteis, allt í gegn. Hugrakkur og hraustur maður. Já, já.

    Hirðkveðillinn, sem hemur sig.
    (Bloggskapur eftir blót í Aratungu)

    SvaraEyða
  4. Ég staðfesti frásögn Guðnýjar um slakt blót - bara lélegt PUNKTUR!

    Guðný mín - endilega seldu það dýrara en þú keyptir það ;)

    BKBen

    SvaraEyða
  5. Missti af setningunni í pistli þínum, um að þín hefði verið sárt saknað:

    Saknaði ég sárt og grét
    samt ég bara alveg lét
    eins og hugsað' ei um þig
    enda þótt að kveldi mig.

    (Bloggskapur um söknuð - á þorrablóti)
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...