19 mars, 2009

Nýjasta dellan í önnunum



Það er margt sem manni dettur í hug, þó svo það virðist eins og andríki mitt hafi, svo sem öllum má vera kunnugt, af einhverjum ástæðum verið í lítilsháttar hvíld að undanförnu. Það er þarna,  hinsvegar  og mér virðist að hér með hafi mér tekist að finna enn eina birtingarmynd þess.

Mér hefur áskotnast fyrirbæri sem ég nefni ekki, sem gerir mér kleift að búa til vektoramyndir með lítilli fyrirhöfn.
Byrja að sjálfsögðu á staðnum eina, sanna. Þetta ber að líta á naivískt byrjendaverk, sem ég get auðvitað skýrt að fullu.

Allt hefur vikið að undanförnu
og engu er við það að bæta.
Annríki ljótu og leiðigjörnu
legg fyrir myndgerð ágæta.

14 mars, 2009

ENDURLIT

Það sem við og samferðamennirnir dundum okkur við svona dags daglega, þykir oftar en ekki mjög merkilegt. Við sinnum okkar og áfram streymir líf okkar án þess að nokkuð verði gert í því. Meðan við rennum þannig áfram verða til allskyns lítil spor sem festast í minninu. Sannarlega eru þessi spor ekki öll jafn djúp, en það eru þau sem valda því að við getum skilgreint okkur sjálf sem einstaklinga.

Í gærkvöldi settist ég niður og horfði á 170 mínútna langa mynd, sem ber heitið Búnaðarfélag Biskupstungna 100 ára. Þessi mynd var gerð 1985-86 og höfðu þeir feðgar Björn í Úthlíð og Ólafur, sonur hans, umsjón með þessari framkvæmd.
Þetta var hreint ótrúlegt endurlit til fortíðarinnar. Þarna birtist aragrúi af fólki sem ekki gistir jörðina lengur auk allra hinna, sem enn eru að burðast við að spígspora um lífshlaupið. Þarna var meira að segja smá skot þar sem mér brá fyrir, grönnum og spengilegum með dökkt hár og ársgamla Guðnýju á handleggnum.
Þessi mynd er snilld - sem heimild um fólkið og lífið í Biskupstungum á 9. áratug síðustu aldar.

Annað sem hefur valdið því, undanfarnar vikur, að hugurinn leitar fortíðarinnar, er það tiltæki Péturs Hjaltasonar, að setjast niður og skrifa í fésbókina æskuminningar sínar, en þær snertast  við mínar í umtalsverðum mæli. Ég er nú samt ekki alltaf viss um að Pétur fari rétt með, en get ekki staðið fast á því að ég muni betur, því ekki hef ég reynst hafa gott minni til æskuáranna, nema e.t.v einstakra mjög dramatískra atburða.

Nú hlakka ég til þess þriðja af þessum sama toga, en það er geisladiskur með myndum sem Ásta og Gústi tóku á 8mm kvikmyndavélina sína, væntanlega á 8. og 9. áratugnum.

-------------------------------

Ég hef fengið af því veður, að æstustu aðdáendur þessara skrifa minna, séu orðnir óendanlega óþreyjufullir eftir því að fá að líta og lesa nýjustu afurð andans auðlegðar minnar. Það hefur vissulega síður en svo orðið til þess að ég stykki til. Það er nefnilega þannig með mig, að ef mig langar til að gera eitthvað í þessu þá geri ég það - nákvæmlega á þeim tíma sem ég tel að henti mér. Þetta er vegna þess að hér er ekki um að ræða dagbók með frásögnum af öllu því sem ber fyrir á lífsgöngunni og ekki heldur vettvang sem ég nota til að koma sjálfum mér á framfæri hjá mögulegum kjósendum; miklu frekar blöndu af háþróuðum og hyldjúpum pælingum og hoppandi eða skoppandi léttmeti, allt eftir því hvernig  hlutirnir standa hverju sinni.


Fortíðarmyndum ég fagna
og fjálglega ét upp til agna.





08 mars, 2009

"Ég held ég hafi nú aldrei...

... sungið við jarðarför tvo daga í röð", sagði félagi Bragi, tenór þegar á var liðið seinni jarðarförina, sem fór fram í gær. Bragi hefur þó marga fjöruna sopið í kórsöng gegnum áratugina. 

Undanfarna daga hefur, sem sagt, verið heilmikið að gera í kórbransanum og allt gekk það eins og lagt var upp með. 

Því verður ekki leynt, hinsvegar, að það er ekkert sjálfgefið, að hér í sveit sé hægt að ganga að fullboðlegum kór til að sinna verkefnum af þessu tagi. Það má segja, að hér sé heimikill mannauður fyrir hendi til þessa, en það er með hann eins og annan mannauð; hann þarf að rækta og þjálfa til að hann geti sinnt verkefnum sínum með fullnægjandi hætti. 

Ekkert er sjálfgefið í þessum efnum. Ef ekki er vökvað ef enginn er áburðurinn, þá vex ekkert. Þetta eru eiginlega of augljós sannindi, sem eiga ekki síður við um fólk en jarðargróður.

------------------ 

Ég hef ákveðið að fara ekki sömu leið og ýmisr aðrir sem hafa tjáð sig með þessum hætti virðast vera að fara. Fésbókin höfðar einhvern veginn harla lítið til mín, aðallega ef eftirtöldum ástæðum:
- flest það sem þar gerist virðist mér vera harla léttvægt,  þó vissulega megi finna þar margt  sem gagn má hafa af. Ég get ekki fengið af mér að skrá þarna inn hvað ég aðhefst frá degi til dags svo "vinir" mínir  geti smellt á 'like'. 
- þeir sem þarna eiga heima virðast sannarlega sökkva sér ofan í þetta, jafnvel svo, að það hlýtur að vera farið að koma niður að störfum þeirra og lífi. Mér finnst þetta í sannleika sagt vera of mikill tímaþjófur.

Eins og margir þeir sem þetta lesa hafa eflaust tekið eftir, þá hefur verið stofnað til aðdáendaklúbbs míns á fésbókinni. Þetta er auðvitað sérlega yndislegt og fallega hugsað að öllum líkindum. Ef að líkum lætur hefur fjöldi fólks skráð sig þarna í hóp aðdáenda minna en ég get ekki varist þeirri hugsun að þar geti einnig legið annað að baki.
Þá velti ég einnig fyrir mér tilganginum með þeim klúbbum, af ýmsu tagi, sem þarna er að finna og einnig hvaða gagn þeir gera. Þetta minnir dálítið á undirskriftasafnanir þar sem fólki finnst ekkert að því að skrá nafnið sitt og spá svo bara ekki meira í það.
Æ, já................


Það er sunnudagur og sólin reynir sitt
til að sannfæra oss um að vona
að vér föllum ekki í þann fúla pytt
sem .......

....Já hvaða pytt?

03 mars, 2009

Betur sér auga en auga

Eftir því sem árin færast yfir fólk, verður það að reikna með að ýmislegt fari að gefa sig, svona eins og gengur. Heyrnin verður ekki lengur samkeppnisfær við það sem hún var á þrítugsaldrinum og sjónin á það til daprast nokkuð, af ýmsum ástæðum.
Við þessu er að búast og við því er væntanlega fátt að gera - þetta er hluti af því sem lífsskeið mannsins felur í sér.

Eða er það kannski ekki svo?

Ég er ekki með þessum inngangi að undirbúa pistil um sjálfan mig, ef einhverjir skyldu láta sér detta annað eins í hug! Til ítrekunar tek ég það fram, að að mér amar ekkert sérstakt svo ég viti þangað til annað kemur í ljós og þá mun ég væntanlega ekki fjalla um það hér.

Tilefni pistilsins er auga, eða kannski jafnvel augu, sem voru farin að daprast allnokkuð og sem tilheyra einstaklingi sem tengist mér verulega og sem hefur nokkuð oft komið við sögu í þessum pistlum.
Fyrir nokkrum árum, eftir heimsókn hjá augnlækni, var honum bent á, að það mætti líklega lagfæra sjónina töluvert með því að láta skipta um augasteina, en þeir sem fyrir voru, voru orðnir töluvert skýjaðir. Þá var sjónin orðin talsvert daprari á öðru auganu en hinu, af öðrum orsökum, sem ekki mun vera unnt að bæta úr.
Það varð úr, eftir talsverðar vangaveltur, að láta framkvæma þess aðgerð á lélegra auganu. það gekk eftir, en ekki reyndist verða um þá bót að ræða sem vonast var eftir. Þessi aðgerð var sem sagt ekki beinlínis hvati til þes að ráðast til atlögu við betra augað líka, en þó var möguleikanum var samt haldið opnum, en ekkert frekara frumkvæði var af hendu augnaeigandans í málinu.

Það var síðan í byrjun þessa árs, að hringt var frá augnstöðinni og eigandi augnanna boðaður í viðtal vegna möguleika á að ráðast til atlögu við hitt augað - það betra. Allt í lagi með það - farið var í skoðunina og þar var rætt fram og aftur um hvað hugsanlega þessi aðgerð gæti haft í för með sér. Ekki reyndist læknirinn tilbúinn að segja eigandanum að hann ætti að fara í aðgerðina, þó ítrekað væri eftir því leitað, heldur benti hann á mögulega kosti við aðgerðina, en vildi ekki lofa því með afgerandi hætti, að bót væri algerlega örugg af þessu.

Þegar heim var komið og eigandinn hafði verið töluvert hljóður á leiðinni, kvað hann upp úr um að ekkert skyldi verða af aðgerð þessari. Betra væri að hafa þá sjón sem hann þó hefði, en að taka áhættu á að missa betra augað.
Nú fór í hönd tími umræðna og vangaveltna sem lauk í stuttu máli á þann veg að ákveðið var að taka áhættuna, sem átti helst að felast í mögulegri ígerð í kjölfarið.

Aðgerðin var síðan framkvæmd í gær og gekk vel. Eigandinn bara hress, en kvaðst sjá allt í móðu og bara útlínur á fólki. Það hefur verið tryggt með góðu fólki að engin áhætta skuli tekin á sýkingu og síðan er framundan skoðun hjá lækninum á fimmtudag.

Ég heimsótti eiganda augnanna áðan. Þá var hann búinn að taka upp þann nýja sið, að setja gleraugun upp á enni og kvaðst sjá fólk í alveg nýju ljósi - lék við hvurn sinn fingur, eins og sagt er.

Ánægjulegt.

Af augum er allt gott að frétta
og engu er við það að bæta.
Valdi hann veginn þann, rétta,
við blasir dásemdar glæta.

01 mars, 2009

Jibbbííí´- það tókst!

Það hefur löngum verið sagt að svo lengi læri sem lifi og síðan  einnig að símenntun og viðbótarmenntun sé 
nauðsynleg hverjum nútímamanni. Því er haldið að fólki, að það sé hverjum manni nauðsynlegt að fylgjast með þeim stefnum og straumum sem ráða ferðinni hverju sinni.

Ég var síðast í alvöru formlegu námi veturinn 1991-92 og þar áður 1975-79. (Þetta er hrikalega langt í burtu orðið) Það nám skilaði mér réttindum til að sinna því starfi sem ég sinni í dag. 
Eftir því sem árin liðu, varð mér meira og meira hugsað til þess, að ef til vill væri tími til kominn að bæta einhverju við sig. (Svona lagað gengur nú yfirleitt ekki hratt fyrir sig á þessum bæ).  

Það var svo vorið 2006 að ég ákvað að láta til skarar skríða og skráði mig til diplómanáms í opinberri stjórnsýslu við HÍ. 
Diplómanám þetta telst vera hluti af námi á meistarastigi, en bara miklu minna að umfangi, en nýtist þó að öllu leyti ákveði maður í framhaldinu að fara í meistaranám. 
Þar sem ekki var um annað að ræða en taka þetta nám með vinnu, var ekki um annað að ræða en mjatla þetta smám saman, en um var að ræða 5, 6 eininga námskeið. 



Síðasta námskeiðinu lauk ég í desember síðastliðnum og það var síðan í gær sem ég var formlega afgreiddur frá HÍ með þessari diplómu. 

Námskeiðin sem mér tókst að klára mig af voru þessi:
Opinber stjórnsýsla 
Mannauðsstjórnum ríkis og sveitarfélaga
Starfsumhverfi og stjórnun sveitarfélaga
Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnana
Almannatengsl

- Ég varð að leyfa mér smávegis sjálfhverfu, svona einu sinni.

Það var engu líkara en ég hefði himin höndum tekið
og að allir heimar hefðu opinberað mér leyndardóma sína.
Það var þó áður en varði örugglega oní mig rekið
og ekkert reyndist vera eins og í var þar látið skína.

- frjáls aðferð

Eftirfarandi barst mér frá Frú Helgu Ágústsdóttur með beini um að það skyldi fært hér inn. Svo hefur nú verið gert, enda geri ég oftast það sem mér er sagt.
Henni er jafnframt þakkað framlagið og kveðjuna sem í því felst.

Skírteinið hið fagra skína sé
skírteinið, sem beygja nær mín kné
lít ég nú í ljóma þennan mann:
Líkast til að menntur vel sé hann.
Skortir orð og skarta öfund nú,
skelfing sem ég vildi -eðli trú-
geta flaggað grip af téðri sort:
greinilegar - trauðla verður ort.

Andað getur aðeins léttar nú
undur mikinn dugnað sýndir þú
harkan líka' – hanga á skólabekk:
Hundrað fyrir árum, burt ég gekk.
Knýr nú dyra björt og betri tíð
blikar skírteinið um ár og síð
takmark náðist töluvert, nú má:
Tralla og syngja – Ligga LiggaLá!

(Bloggskapur til samglaðnings
við útskrift úr H.Í.)
Hirðkveðillinn

Hugsað fram í júní.....

Eins og öllum ætti að vera ljós sem kíkja hingað inn við og við, er framundan utanlandsför kórs nokkurs. Ferðinni er heitið til Berlínar í byrjun júní.  
Smám saman hefur verið að skýrast hvernig ferðinni verður háttað, en einn meginþáttur hennar, sem fyrir liggur, er samsöngur okkar með 110 manna kór á tveim messum: Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar og Berlínarmessu Arvo Pärt. Flutningurinn fer fram í einni merkustu kirkju Berlínar, Gethsemanekirche, sem er í fyrrverandi austur Berlín. Þessi kirkja er einna þekktust í tengslum við átökin sem áttu sér stað í lok níunda áratugar síðustu aldar. 
  • Í kirkjunni, sem var byggð um miðja 19. öld, safnaðist fólk víða að saman árið 1989 til að taka þátt í friðarvökum sem voru haldnar á hverju kvöldi og sem presturinn í kirkjunni stjórnaði. Þessar vökur reyndust eiga mikilvægan þátt í því að Þýskaland var sameinað.

Gethsemanekirche Stargarder Straße 77, Berlin  10437 • +49-(0)-30-4471-5567







Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...