03 mars, 2009

Betur sér auga en auga

Eftir því sem árin færast yfir fólk, verður það að reikna með að ýmislegt fari að gefa sig, svona eins og gengur. Heyrnin verður ekki lengur samkeppnisfær við það sem hún var á þrítugsaldrinum og sjónin á það til daprast nokkuð, af ýmsum ástæðum.
Við þessu er að búast og við því er væntanlega fátt að gera - þetta er hluti af því sem lífsskeið mannsins felur í sér.

Eða er það kannski ekki svo?

Ég er ekki með þessum inngangi að undirbúa pistil um sjálfan mig, ef einhverjir skyldu láta sér detta annað eins í hug! Til ítrekunar tek ég það fram, að að mér amar ekkert sérstakt svo ég viti þangað til annað kemur í ljós og þá mun ég væntanlega ekki fjalla um það hér.

Tilefni pistilsins er auga, eða kannski jafnvel augu, sem voru farin að daprast allnokkuð og sem tilheyra einstaklingi sem tengist mér verulega og sem hefur nokkuð oft komið við sögu í þessum pistlum.
Fyrir nokkrum árum, eftir heimsókn hjá augnlækni, var honum bent á, að það mætti líklega lagfæra sjónina töluvert með því að láta skipta um augasteina, en þeir sem fyrir voru, voru orðnir töluvert skýjaðir. Þá var sjónin orðin talsvert daprari á öðru auganu en hinu, af öðrum orsökum, sem ekki mun vera unnt að bæta úr.
Það varð úr, eftir talsverðar vangaveltur, að láta framkvæma þess aðgerð á lélegra auganu. það gekk eftir, en ekki reyndist verða um þá bót að ræða sem vonast var eftir. Þessi aðgerð var sem sagt ekki beinlínis hvati til þes að ráðast til atlögu við betra augað líka, en þó var möguleikanum var samt haldið opnum, en ekkert frekara frumkvæði var af hendu augnaeigandans í málinu.

Það var síðan í byrjun þessa árs, að hringt var frá augnstöðinni og eigandi augnanna boðaður í viðtal vegna möguleika á að ráðast til atlögu við hitt augað - það betra. Allt í lagi með það - farið var í skoðunina og þar var rætt fram og aftur um hvað hugsanlega þessi aðgerð gæti haft í för með sér. Ekki reyndist læknirinn tilbúinn að segja eigandanum að hann ætti að fara í aðgerðina, þó ítrekað væri eftir því leitað, heldur benti hann á mögulega kosti við aðgerðina, en vildi ekki lofa því með afgerandi hætti, að bót væri algerlega örugg af þessu.

Þegar heim var komið og eigandinn hafði verið töluvert hljóður á leiðinni, kvað hann upp úr um að ekkert skyldi verða af aðgerð þessari. Betra væri að hafa þá sjón sem hann þó hefði, en að taka áhættu á að missa betra augað.
Nú fór í hönd tími umræðna og vangaveltna sem lauk í stuttu máli á þann veg að ákveðið var að taka áhættuna, sem átti helst að felast í mögulegri ígerð í kjölfarið.

Aðgerðin var síðan framkvæmd í gær og gekk vel. Eigandinn bara hress, en kvaðst sjá allt í móðu og bara útlínur á fólki. Það hefur verið tryggt með góðu fólki að engin áhætta skuli tekin á sýkingu og síðan er framundan skoðun hjá lækninum á fimmtudag.

Ég heimsótti eiganda augnanna áðan. Þá var hann búinn að taka upp þann nýja sið, að setja gleraugun upp á enni og kvaðst sjá fólk í alveg nýju ljósi - lék við hvurn sinn fingur, eins og sagt er.

Ánægjulegt.

Af augum er allt gott að frétta
og engu er við það að bæta.
Valdi hann veginn þann, rétta,
við blasir dásemdar glæta.

4 ummæli:

  1. Þetta var gaman að heyra.
    Þetta minnir óneitanlega á verðlaunamynd þar sem menn byrja að eldast aftur á bak ...
    Bíð eftir því að mæta honum á þjóðvegunum úti að skokka með hundunum :)

    SvaraEyða
  2. Unglingnum nú óska ber
    allra vænstu sjónar hér
    eygi flest, sem fallegt er
    en frekar loki augum
    - þegar honum finnst
    hann fær' á taugum!

    (Bloggskapur um ný-sjónrænan veruleika unglingsins; valfrjálsan)

    Ort af hlýhug
    Hirðkveðill Kvistholts.

    SvaraEyða
  3. Eigandi augnanna er bara "pjúra" snillingur ;)

    SvaraEyða
  4. Frábærar fréttir :) ég man að eftir síðustu aðgerð var hann látinn fá dropa í augun sem ég setti í hann þrisvar á dag og greyið kallinn varð bara verri af þeim... nei þá var pencillin í dropunum, og sá gamli er með ofnæmi fyrir pencillíni, algjört klúður... En gott að heyra að þessi aðgerð heppnðist betur :)

    kv. Guðný í köben

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...