10 apríl, 2009

Sex í sveit - a la Bisk

Fyrst og fremst finnst mér að virðingarvert að fólk skuli leggja það á sig, af áhuganum einum saman, að setja upp leikrit hér í sveit ár eftir ár. Ég veit það hinsvgar af fyrri reynslu minni og þátttöku í svona löguðu, að fyrir þetta fólk snýst þetta hreint ekki um kvöð, heldur einskæra ánægju; skemmtunin er ekki síður þeirra en okkar hinna sem fáum að fylgjast með afrakstrinum.
Heimaverandi Kvisthyltingar gerðu sér ferð í leikhús í gærkvöld. Leikdeild Umf. Bisk. sýnir þessa dagana hinn vel þekkta farsa: 'Sex í sveit'.
Eins og farsa er siður gengur þarna allt með einhverjum ólíkindum - söguþráðurinn er snúinn og undinn einhvernveginn utanum um hið vinsæla og klassíska þema, sem framhjáhald er.
Skemmst er frá að segja að þetta var hin ágætasta skemmtun og eins og vill verða við þær aðstæður þar sem maður þekkir alla leikendur meira og minna, eykur það umtalsvert við skemmtanagildið.
Frammistaða leikendanna var auðvitað misjöfn, en alltaf nógu góð. Besta valdið að farsatöktum fannst mér þau hafa, Sigurjón Sæland og Íris Blandon, en þetta svið leiklistarinnar er ekki hið auðveldasta að takast á við.
Þá fannst mér sérlega gaman á sjá Bjarna á Brautarhóli í hlutverki kraftajötuns.

Skemmtilegt hve margir lögðu leið sína í Aratungu í gærkvöldi.

09 apríl, 2009

Lítið eða stórt líf



Það er einkennilegt, en þó ekki, að mikilvægi lífs er afstætt. Sumir mundu segja, að sumt líf sé mikilvægara og rétthærra en annað, en þá hljóta þeir alltaf að vera að miða við sjálfa sig.
Það líf sem stendur þér næst er þér alltaf mikilvægast, óháð því hvers eðlis það líf er.

Tumi var bara fugl og nú er lífi hans lokið og hann hefur fengið virðulega útför í samræmi við tengsl þau sem hann hafði við mannfólkið sem annaðist hann og naut góðs af lífi hans.

Tumi hvílir nú í Sigrúnarlundi í Kvistholti.

08 apríl, 2009

Sá rauðnösótti? ... ætli það

Það var enn gerð tilraun til að finna þann rauðnösótta. Þarna var hrossahópur og allt meira og minna eins. Ég ákvað að taka nokkrar myndir af nösum, en á ekkert sérstaklega von á að ég hafi haft árangur sem erfiði.

06 apríl, 2009

Vektorabrú




Já, ekki er það amalegt!

Allt í volli.....sumu reddað

Þetta er búinn að vera dagur hinna ýmsu átaksmála sem öll miða að því að gera lífið eða tilveruna betri en er(u). Allt þetta kostaði umtalsverða skipulagningu þar sem við sögu kom mannfólk, fugl og farartæki. 

Upphaflegt tilefni höfuðborgarferðar var framhald augasteinsútskiptingar gamla unglingsins, en honum var nauðsynlegt að kíkja til augnlæknis þar er sjónin hafði eðlilega breyst. Þessi liður ferðarinnar var löngu skipulagður og til hans voru væntingar þó nokkrar og líklega nokkru meiri en niðurstaðan síðan leiddi í ljós. Það mál á eftir að kosta nokkra umræðu. 

Til að nýta ferðina var tekin sú ákvörðun, af gamla unglingnum að mestu, en að nokkru fyrir áeggjan fD, að sinna eðlilegu smurviðhaldi bifreiðar þess fyrrnefnda, sem er af gerðinni Subaru. Pantaður hafði verið tími á viðeigandi smurstofnun fyrir allnokkru síðan. Þegar það var gert lá fyrir, að verðandi stúdent á heimilinu var kominn fram yfir á tanngarðaeftirliti. Það þótt því upplagt að koma málum þannig fyrir að ferðin nýttist honum til tannsaferðar jafnfram því sem hún nýttist til þess að koma ofangreindri bifreið til smurs.

Það gerðist síðan í gær að höfuðborgarangi fjölskyldunnar essemmessaði áhyggjur sínar af heilsufari fóstursonarins, Tuma Egilssonar. Hún hafði þá þegar orðið sér úti um það álit kunnáttumanns, að hann ætti hugsanlega ekki langt eftir.  Það varð úr að ferðin skyldi nýtt til þess að flytja viðkomandi til þar til hæfs læknis, sem var ekki síður flókið þar sem uG þurfti að sinna vinnu í dag.
Skemmst er frá því að segja, að allt skipulag dagsins gekk fullkomlega eftir, enda enginn viðvaningur í skipulagsmálum á ferð.
Það eina sem ekki var leitað leiða til að laga, og sem ekki er í viðunandi lagi, var bak þess sem þetta ritar og þrálátt ólag á heilsu fósturmóðurinnar. Þrálátur verkurinn lét engan bilbug á sér finna og gerir ekki enn og það sama má segja um ástand uG.

Niðurstaða dagsins var þessi:
Augnamál gamla unglingsins eru í lítilsháttar biðstöðu. Fyrir liggur að taka ákvörðun um hvort og þá hve mörg gleraugu verða keypt.
Subaru fékk sína yfirhalningu og telst nú í góðu standi.
Fuglinn Tumi fór til læknis þar sem hann fékk ekki þann dóm að öllu væri lokið. Etv getur breytt mataræði og einhverjir mér ókunnugir dropar vegna ónæmiskerfis snúið heilsufarinu á réttar brautir.
HB fékk tannayfirferð og var útskrifaður með láði.
Þessi hérna er áfram með leiðinda bakverkinn.
UG berst enn við pestina.

Tvö mál af sex afgreidd með vel fullnægjandi hætti
Tvö mál af sex eru í nokkurri biðstöðu.
Tvö mál af sex hafa ekki hlotið neina athygli eða meðferð.


Það verð ég að segja' eins og er,
að allmjög var dagurinn snúinn.
En hinsvegar reyndist hann mér
hreint ekki frekar þungbúinn.


05 apríl, 2009

Hvernig velur maður? (4)


Ekki hvarflar að mér að skilja lesendur eftir með þá grillu í höfðinu, að ég ætli mér ekki að leita jákvæðra ástæðna fyrir því að kjósa aðra flokka, hreyfingar eða framboð, en þau sem þegar hafa verið kynnt til sögunnar. Á þessum degi mun ég gera grein fyrir því hversvegna ef til vill er ástæða til að kjósa 2 framboð til viðbótar og þá verða þau orðin átta, sem kynnt hafa verið, en 7 sem eftir standa.

Ég verð að viðurkenna að sú ákvörðun Tungnamannanna tveggja sem voru leiðandi innan L-listans um að hætta við framboðið, var óleikur í minn garð, þar sem ég hafði lagt ómælda vinnu í að tína fram ástæður fyrir því, að ljá listanum atkvæði. Sú vinna er nú fyrir bí, en ég verða samt að vera jákvæður.



BORGARAHREYFINGIN (O)
1. Mér finnst það hreint út sagt fallegri hugsun en orð ná að lýsa, að stjórnmálahreyfing skuli ætla að leggja sig niður þegar hún hefur náð markmiðum sínum.
2. Ég get ekki annað en hlakkað til að geta farið að taka þátt í að semja nýju stjórnarskrána. Þar mun ég sannarlega ekki láta mitt eftir liggja. Ég sé líka fyrir mér, að stórir skarar hinnar upplýstu þjóðar muni leggja sitt ótæpilega af mörkum.
3. Einn megin talsmaður hreyfingarinnar sótti einu sinni um skólameistarastöðu í ML. Bara það að hafa áhuga á svo áhugaverðum stað, segir meira en mörg orð.
4. Efnahagshrunið verður rannsakað ofan í kjölinn með trúverðugum hætti. Dásamleg hugsun og til sóma. Þessi þjóð verður í fjötrum þar til fyrir liggur hvað gerðist, hver olli og hverjir þurfa að sæta ábyrgð og hver ábyrgðin verður,
5. Það er óendanlega góð hugsun, að hreyfingin á enga sögu og byrjar nú göngu sína undir merkum allst þess góða sem við viljum að gerist.
6. Merki hreyfingarinnar er afar skemmtilegt.


LÝÐRÆÐISHREYFINGIN (P)
1. Þessi hreyfing er eitthvað það framsýnasta fyrirbæri sem Ísland hefur eignast.
2. Ég vel hiklaust þá sem munu stuðla að því að það komi hraðbanki í Laugarás.
3. Ég get ekki annað en dáðst að því hve forystumaður hreyfingarinnar kemur alltaf vel fyrir, er jákvæður og málefnalegur í málflutingi sínum. Klassamaður, enda afar reyndur í framboðsmálum og þjóðin hefur reynst hafa trú á honum.
4. Loksins, loksins, er kominn vettvangur fyrir mig til að bjóða mig fram til forystu á vettvangi Alþingis, þar sem ég get síðan tekið við lagafrumvörpunum sem þjóðin sendir mér í gegnum hraðbankana.
5. Ég á bara  erfitt með að tjá mig yfirvegað um allt það sem ég tel vera jákvætt við þessa hreyfingu fólksins í landinu.
6. Listabókstafurinn er eiginlega punkturinn yfir i-ið - ekki spurning: xP

--------------------------------------

Ekki veit ég hvort áframhald verður á allri þessari jákvæðni minni. Það er allt eins líklegt að næst ákveði ég að finna þessum framboðum allt til foráttu. Það er svo sem harla auðvelt. Þangað til bið ég fólk að vera jákvætt og láta sig hlakka til að negla þetta lið í kosningunum eftir nokkrar vikur.




01 apríl, 2009

Enn af Skálholtsdómkirkju


Okkur varð ekki um sel í morgun þegar við héldum til vinnu, en leið okkar liggur framhjá Skálholtsstað. Þegar við komum í beygjuna fyrir utan Laugarás blasti Skálholtskirkja við okkur, eins og venjulega, tignarleg í vesturátt. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Ég snarhemlaði og stökk út úr bílnum meðan fD sat kyrr, steinilostin og hóf að fara með bænirnar sínar.
Sú sjón sem við blasti, skar í augun eins á und á helgum líkama.

Óknyttafólk virðist hafa tekið sig til og útatað kirkjuna í graffiti. Sem betur fer var ég með myndavélina með mér og tók mynd af ósköpunum. Hana má sjá hér langt fyrir neðan.
Eftir að hafa tekið góðan tíma í að ná áttum, ók ég af stað aftur með fD, enn í hálfgerðu losti við hlið mér, muldrandi guðsorð af ýmsu tagi. Við ákváðum að keyra heim að Skálholti til að kanna málið frekar, en þá tók hreint ekki betra við. Allur vesturgafl kirkjunnar var líka útataður í kroti, og auðvitað smellti ég einni mynd af óskundanum.
Það var enginn kominn á stjá á Skálholtsstað og ég ákvað að raska ekki ró manna þar, enda hefði það ekki breytt neinu úr því sem komið var.
Þegar við komum svo við á heimleiðinni voru mættir menn og byrjaðir að setja upp vinnupalla við báða gafla kirkjunnar.

Ja, svei.



V A R Ú Ð
Það er á þína ábyrgð ef þú flettir neðar.

-------------------------------------------------------
Breyting 2. apríl
Það er engin ástæða til að fletta neðar, þar sem myndirnar af kirkjunni hafa verið fjarlægðar. Ástæða þess er sú, augljóslega, að nú er ekki dagurinn sem var í gær.

Ég hálf vona að þeir hafi ekki verið margir sem sáu ósköpin.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...