08 maí, 2010

Ég á'etta, ég má'etta?

Til að einhver grunnur skapist að því sem hér fer á eftir vísa ég á það sem ég hef sagt um þetta málefni áður.
Ef það er lesendum ekki kunnugt nú þegar, má reikna með að þeir verði litlu nær.



Þegar menn fá embætti, fylgir það því væntanlega, að þeir sinni embættisskyldum sínum af fagmennsku og trúmennsku við næsta yfirvald, því þeir starfa í umboði þess. Ef um er að ræða embættismenn sem heyra beint undir tiltekin ráðuneyti, bera embættismenn endanlega ábyrgð gagnvart ráðherra og loks þjóðinni, sem veitir ráðherra umboð fyrir tilstuðlan meirihluta á Alþingi. Ég er viss um að við getum öll sætt okkur við að svona sé þessu háttað.

Embættismaðurinn fær í hendur tiltekið vald á ákveðnu sérsviði og þessu valdi fylgir ábyrgð. Ef embættismaðurinn sinnir ekki ábyrgðarskyldum sínum, ber yfirboðari hans ábyrgð á að grípa til viðeigandi ráðstafana. Þannig er yfirboðarinn einnig ábyrgur fyrir gjörðum embættismannsins og verður að svara fyrir þær.


Hér gæti ég verið að tala um margt. Ég er að fara eins og köttur í kringum heitan graut: hef eitthvað eitt í huga, en kýs að fjalla ekki um það beint, af ýmsum, ótilgreindum ástæðum.



Við lifum nú tíma á þessu landi þar sem embættismenn og ráðherrar eru smátt og smátt að verða uppvísir að því að hafa misbeitt valdi sínu í ýmsum efnum. Hér hefur kannski verið um að ræða að þeir hafð leyft öðrum sjónarmiðum en faglegum, að ráða ákvörðunum sínum. Hér er til dæmis fjallað mál af því tagi sem ég er að vísa til.



Mér vitanlega, er ekkert um það fjallað í lögum eða reglugerðum, að embættismönnum sé heimilt að beita valdi sínu af geðþótta - hygla að vinum sínum eða frændgarði innan valdsviðs síns, eða með sama hætti láta persónulega óvild sína í garð einhverra einstaklinga ráða ákvörðunum sínum. Þvert á móti hygg ég að með því að framkvæma vald sitt með einhverjum svona hætti, séu þeir að brjóta þær skyldur sem embættið leggur þeim á herðar og sem þeir hafa undirgengist.


Fyrrverandi organisti og kórstjóri í Skálholti fagnar um þessa helgi áfanga í lífi sínu. Þetta langar hann að gera með því að efna til tónleika. Hann nýtur til þess stuðnings fólksins sem hann starfaði með hér í uppsveitum  og víðar af Suðurlandi í nánast tvo áratugi, ásamt kórnum sem hann starfar með nú. Æfingar fara fram í heimahúsi í Biskupstungum og tónleikarnir verða í Kristskirkju í Landakoti.



Fleiri verða orð mín ekki um þetta málefni, að sinni.

07 maí, 2010

En danskboende Kvistholt dreng på besøg

Ætli megi ekki segja að maður sé smám saman að ná betri tökum á afahlutverkinu og vill auðvitað geta stundað æfingar sem mest, en aðstæðurnar eru nú einfaldlega þannig, að bæði afabörnin hafa búsetu á erlendri grund. Þar með er kannski minna um æfingar en ella, en ég ætla ekkert að vorkenna mér það. Það verður bara að nýta vel þau tækifæri sem gefast.
Um þessar mundir fáum við gömlu hjónin tækifæri til að kynnast litla manninum frá Middelfart sem gisti eldlandið þessa dagana, ásamt móður sinni. Það hefur verið harla gaman að umgangast þennan unga svein og upplifa allar þær breytingar sem hafa orðið á honum frá því hann átti síðast leið hingað austur í sveitir.

Þeir sem til þekkja geta skoðað fleiri myndir á stað sem þeir þekkja.
_________________________________
Þetta var svona ánægju "bloggskapur".
________________________________


É ger ekki enn búinn að ákveða hvort ég legg í að skrifa það sem mér finnst þörf á að fjalla um, og sem er af allt öðum og afar alvarlegum toga. Það kemur bara í ljós.

02 maí, 2010

Fór, eftir allt saman

Það var milt veður í dag, skylduverkum lokið og því ekki úr vegi að skella sér í fleiri þúsund króna ferð austur á bóginn. Ekki get ég sagt að öfund í garð íbúa undir Eyjafjöllum hafi verið það fyrsta sem í hugann kom, við að líta grámann sem þarna huldi foldina. Vindur blés og þornuð aska blés inn og um allt, forvitnir ferðalangar gerðu sitt til að þyrla henni upp þar sem hana var að finna í vegköntum.


Fljótshlíðar-, eða Emstruvegur er ekki góður vegur og þar var að finna árkríli sem þurfti að fara yfir til að ná nokkurn veginn þolanlegu sjónahorni að Gígjökli þar sem hraunið breytir ís í vatn á ógnarhraða með tilheyrandi bólstrum. Þar sem ég er ekki fuglinn fljúgandi, varð ég að láta mér nægja að halda mig neðan skýja, sem komu í veg fyrir að gosstrókurinn sjálfur birtist sjónum mínum.


24 apríl, 2010

Engilingar

Það þurfti talsvert sterk bein til að standa af sér þá orrahríð sem garðyrkjan varð fyrir á þeim tíma þegar gengi krónunnar var lágt og innflutt  grænmeti, blóm og krydd, frá fjarlægum löndum fyllti hillur verslana. Auðvitað kom það síðan í ljós, hve mikilvægt það er fyrir þjóðina að vera sjálfri sér næg um þetta sem annað. 

Það hefur talist til ákveðinnar sérvisku lengi vel að stunda lífræna ræktun hér á landi, alveg fram á síðustu ár, en nú er þessi tegund ræktunar talin sem enn ein viðbótin við framboðið innan hins svokallaða græna geira.

Það er langur tími liðinn frá því einu grænmetistegundirnar sem voru ræktaðar í íslenskum gróðurhúsum voru gúrkur og tómatar. Á síðustu áratugum hafa íslenskir garðyrkjubændur stöðugt verið að þreifa fyrir sér með nýjar tegundir til ræktunar.














Nýir handhafar hvatningarverðlauna garðyrkjunnar hafa verið þátttakendur og frumherjar í þróuninni sem hefur gert íslenska garðyrkju að einni af mikilvægustu atvinnugreinunum.

Ingólfur og Sigrún er sérvitringar að mörgu leyti - óforbetranlegir, að margra mati, en ef svoleiðis fólk væri ekki til staðar væri þetta allt fremur lágkúrulegt hjá okkur.

Enn ein rósin í hnappagat okkar Laugarásbúa.

Ingólfur hefur látið hafa það eftir sér að þau eigi þetta nú ekki skilið, en hvað veit hann um það?

Hamingjuóskir til Engilinga.

23 apríl, 2010

Eyðilegging jákvæðrar fréttar

Mér þykir svo sem ekkert sérstaklega uppbyggilegt eða ánægjulegt, hvorki fyrir mig né aðra, að vera að dunda mér við að benda á það sem betur má fara í umhverfi mínu. Ég hugga mig þó við það, að ég er ekki einn um að vera í þessu hlutverki.

Í dag birtist frétt um það á einum vefmiðlinum, að rannsókn doktorsnema í Háskóla Íslands hefði víða vakið mikla athygli, en hér er um að ræða leið til að bæta líkur á að ráða niðurlögum erfiðs krabbameins. Ekkert nema gott um þetta að segja. 
Ég þurfti hinsvegar, áður en ég las fréttina, að ergja mig á fyrirsögninni, sem var og er svona:

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins




Skoðum þetta nánar með því að búa til svipaða setningu og nota í stað orðsins MEÐHÖNDLUN, annað nafnorð, sem er ekki eins í neinu falli, og þar dettur mér í hug orðið HESTUR.

Hver eftirfarandi setninga væri þá á réttu máli?:

Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hestur skólastjórans. (nf,)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hest skólastjórans.  (þf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hesti skólastjórans. (þgf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hests skólastjórans.  (ef.)

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (nf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þgf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlunar krabbameins. (ef.)

Það má einnig hugsa sér aðrar setningar þar sem orðið VEGNA kemur við sögu:

Hún kom bara vegna ég.
Hún kom bara vegna mig.
Hún kom bara vegna mér.
Hún kom bara vegna mín.

Ég læt lesendur um að finna út hvað er rétt í þessu máli, en hér finnst mér um að ræða eitt leiðinlegasta fyrirbærið í 'þróun' tungunnar á síðustu árum. 

22 apríl, 2010

Lítilsháttar sumarljóð - ef svo má segja

Í ströngum skilningi verður ekki annað sagt en þessi morgunn fyrsta sumardags sé fremur kaldranalegur. Þunnar leifar af síðasta snjónum bera vott um það sem var. Birtan frá lampanum gula, sem ferðast um loftin og vorsöngvar á Rás 1, tjá það sem framundan er.

Ef síðustu mánuðir hafa verið vetrarmánuðir, þá var þar bara um að ræða vetur hugans, vetur óumræðilegrar, en vanmáttugrar reiði sem nær ekki að sefast. 
Vetur náttúrunnar hefur verið mildur og kurteis, eins og til að komast hjá því að gera illt verra.

Norðlægir heimskautavindar strjúka um vanga og fjallahringurinn er af lit eimyrjunnar í suðaustri, sem neyðir okkur til þess, í það minnsta, að velta því fyrir okkur hvort við mennirnir séum þess umkomnir að hreykja okkur með þeim hætti sem verið hefur.


Það er talað um fulltrúa fyrir hagsmuni á þjóðþinginu og í skilningsleysi velti ég því fyrir mér hvernig saman geti farið, þegar að kjörborðinu kemur, hagsmunir fulltrúa viðskiptalífsins og hagsmunir fólks sem vart á til hnífs og skeiðar. 
Skilningsleysi mitt er samofið vorkomunni og ég verð að gera ráð fyrir því, að með hlýjum vindum, fuglasöng og gróðursæld sumarsins, nái ég að greiða úr þverstæðum sem hafa leitt þjóðina mína að ystu þolmörkum, kannski vegna þess að fólk hafði ekki í huga hver er fulltrúi hvers.

Allt er  einhvernveginn samofið. Hvað er hvað, og hvur er hvurs, heldur áfram að vefjast fyrir okkur, aumum mönnum, sem erum eins og skógarþröstur á vori, sem þenur brjóst og sperrir stél, í þeirri fullvissu að hann sé eitthvað merkilegur - eitthvað merkilegri en náttúran að öðru leyti.
------------------------
Gleðilegt sumar, lesendur góðir og þakkir fyrir samfylgdina í vetur.

17 apríl, 2010

Til viðbótar við milljónir

Ekki get ég látið mitt eftir liggja þegar um er að ræða að mynda gos í Eyjafjallajökli.
Hér eru nokkur dæmi af gosmekki í kvöldsól. Hér eru síðan fleiri og stærri. Myndirnar eru teknar milli Iðu og Helgastaða og frá Laugarási.






Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...