08 maí, 2010

Ég á'etta, ég má'etta?

Til að einhver grunnur skapist að því sem hér fer á eftir vísa ég á það sem ég hef sagt um þetta málefni áður.
Ef það er lesendum ekki kunnugt nú þegar, má reikna með að þeir verði litlu nær.



Þegar menn fá embætti, fylgir það því væntanlega, að þeir sinni embættisskyldum sínum af fagmennsku og trúmennsku við næsta yfirvald, því þeir starfa í umboði þess. Ef um er að ræða embættismenn sem heyra beint undir tiltekin ráðuneyti, bera embættismenn endanlega ábyrgð gagnvart ráðherra og loks þjóðinni, sem veitir ráðherra umboð fyrir tilstuðlan meirihluta á Alþingi. Ég er viss um að við getum öll sætt okkur við að svona sé þessu háttað.

Embættismaðurinn fær í hendur tiltekið vald á ákveðnu sérsviði og þessu valdi fylgir ábyrgð. Ef embættismaðurinn sinnir ekki ábyrgðarskyldum sínum, ber yfirboðari hans ábyrgð á að grípa til viðeigandi ráðstafana. Þannig er yfirboðarinn einnig ábyrgur fyrir gjörðum embættismannsins og verður að svara fyrir þær.


Hér gæti ég verið að tala um margt. Ég er að fara eins og köttur í kringum heitan graut: hef eitthvað eitt í huga, en kýs að fjalla ekki um það beint, af ýmsum, ótilgreindum ástæðum.



Við lifum nú tíma á þessu landi þar sem embættismenn og ráðherrar eru smátt og smátt að verða uppvísir að því að hafa misbeitt valdi sínu í ýmsum efnum. Hér hefur kannski verið um að ræða að þeir hafð leyft öðrum sjónarmiðum en faglegum, að ráða ákvörðunum sínum. Hér er til dæmis fjallað mál af því tagi sem ég er að vísa til.



Mér vitanlega, er ekkert um það fjallað í lögum eða reglugerðum, að embættismönnum sé heimilt að beita valdi sínu af geðþótta - hygla að vinum sínum eða frændgarði innan valdsviðs síns, eða með sama hætti láta persónulega óvild sína í garð einhverra einstaklinga ráða ákvörðunum sínum. Þvert á móti hygg ég að með því að framkvæma vald sitt með einhverjum svona hætti, séu þeir að brjóta þær skyldur sem embættið leggur þeim á herðar og sem þeir hafa undirgengist.


Fyrrverandi organisti og kórstjóri í Skálholti fagnar um þessa helgi áfanga í lífi sínu. Þetta langar hann að gera með því að efna til tónleika. Hann nýtur til þess stuðnings fólksins sem hann starfaði með hér í uppsveitum  og víðar af Suðurlandi í nánast tvo áratugi, ásamt kórnum sem hann starfar með nú. Æfingar fara fram í heimahúsi í Biskupstungum og tónleikarnir verða í Kristskirkju í Landakoti.



Fleiri verða orð mín ekki um þetta málefni, að sinni.

11 ummæli:

  1. ... og nú kann eihver að spyrja hvers vegna kórstjórinn haldi ekki þessa tónleika með pomp og pragt þar sem hið farsæla starf hans var unnið...

    Kirkjan hún er fyrir kirkjunnar menn
    í kulda má pöpullinn standa
    og satt er það víst, ég segi það enn
    að sjaldnast má Hilmar anda.

    Gæti hann vanhelgað véin svo helg
    að varanlegt tjón muni hljótast?
    Í Skálholt' er þusað í biðu og belg
    en bann þetta finnst mér ljótast.

    Hirðkveðilll yrkir um bann við afmælistónleikum Hilmars Arnar í Skálholti

    SvaraEyða
  2. Þú segir nokkuð, Hirðkveðill góður :)

    SvaraEyða
  3. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  4. Ég held að þetta blogg þitt sé til að renna stoðum undir þá kenningu mína að lýðræði og sannleika er best borgið ef bloggað er nafnlaust :)

    Þá á ég að sjálfsögðu við að réttmætar skoðanir fólks, sem ekki þorir að skrifa undir nafni að ótta við afleiðingarnar. Mér þætti afar gaman að sjá blogghöfund fá útrás á nafnlausu bloggi :)

    SvaraEyða
  5. Því trúi ég vel :)
    Þetta á hinsvegar að vera svona einhverskonar 'intellectual' blogg þar sem menn verða að geta lesið í merkingarþrungna undirölduna.
    (Þetta var reyndar frekar hrokafull athugasemd)

    SvaraEyða
  6. Vandamálið að standa við stóru orðin kallar ekki bara ráðherra til ábyrgðar heldur líka hinn almenna bloggara, mótmælanda og Pétur og Pál Magnús :)

    Ef við getum ekki tjáð okkur af hreinskilni opinberlega um réttlætismál og siðferðislega mikilvæg málefni þá endum við í sama feninu og við stöndum nú í upp í háls.

    Að því sögðu er rétt að allir átti sig á því að kurteisi er ávallt skilyrði í mannlegum samskiptum, þám. bloggi, fara ekki með órökstuddar dylgjur og að vera viss um sannleika þess sem sagt er - Gróa á Leiti á ekkert erindi í svona umræðu.

    SvaraEyða
  7. Jæhjahhh,
    nú þykir mér stungin stólg!
    Helga Ágústsdóttir
    -hirðkveðill öðru nafni-

    P.S. Hilmari VAR MEINAÐ að halda tónleika í Skálholti. Hef það beint frá honum sjálfum.

    SvaraEyða
  8. Sannleikur er sannleikur sama hvort hann kemur fram undir nafni eða ekki. Því verður ekki breytt. Vissulega þarf að gera það á rökstuddan hátt. En í gegnum söguna hefur það sýnt sig að nafnleysi hefur líklegast komið upp um ansi marga alvarlega glæpi. Mér finnst ekkert að því að koma fram nafnlaust ef upplýsingar eru réttar :) Sama þó einhver haldi að slíkt ógildi það sem sagt er :)

    SvaraEyða
  9. Rétt og satt.

    Nafnlaus af ótta.

    SvaraEyða
  10. Ég get varla tjáð með stórum orðum skort minn á hreinskilni á opinberum vettvangi og heimildatilvitnunum.
    Siðferðislega stend ég augsýnilega talsvert höllum fæti upp í háls. Litla á ég kurteisina, og er líklegast klaufi í mannlegum samskiptum.
    Því hellast úr hugskoti mínu meira og minna óröstuddar dylgjur og Gróursögur um menn og málefni - undir nafni að vísu, óvarinn fyrir vandlætingu lesenda og áminningum.

    Hvort ég læt af ósómanum og fer að vel meintum ráðum um frómari skriftir, læt ég liggja milli hluta.

    SvaraEyða
  11. Ekki láta af ósómanum! það eru aðrir- með knýjandi þörf fyrir slíkt- á undan þér í röðinni.
    H.Ág.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...