10 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (1)

Það lá fyrir s.l. vetur, að ekki yrði hjá því komist, miðað við tilhögun og skipulag Evrópuferðar okkar fD, að ég æki bíl á evrópskum vegum. Til þessa hef ég komið mér hjá þessu, heldur aldrei verið nauðsyn á, þar sem ferðir hafa verið skipulagðar miðað við engan akstur minn. 
Ég held að ég hafi nú samt alltaf séð fyrir mér, að að þessu hlyti að koma, enda búinn að fá mér nýtt, samevrópskt ökuskírteini fyrir nokkrum árum. Samkvæmt því er mér heimilt að aka risastórum vöruflutningabíl með tengivagn um Evrópu þvera og endilanga, ef ég svo kýs (væri nú gaman að láta á það reyna einhverntíma).
Nú var það, sem sagt uppi, að Berlínarfjölskyldan stefndi á flutning strax eftir tónleikana sem ég er búinn að fjalla um í þrem pistlum. Áfangastaðurinn var bær, austast í Þýskalandi, á landamærunum við Pólland, sem Görlitz kallast, í ríflega tveggja klukkustanda akstursfjarlægð frá Berlín. Berlínarbóndinn hugðist taka á leigu vöruflutningabíl og aka honum sjálfur með búslóðina á áfangastað. Við fD höfðum tekið að okkur að aðstoða eftir mætti við aðgerðina, en þá var strax ljóst, að það yrði ekki pláss fyrir okkur í vöruflutningabílnum, heldur yrðum við að koma okkur á öðrum bíl, með farangur, þangað austur eftir. Ekki var um það að ræða, að fD kærði sig um að sjá um aksturinn, þannig að fyrir lá, með nokkurra mánaða fyrirvara hvert stefndi með málið. Það varð úr, að ég fól Berlínarmanninum að taka á leigu bíl vegna þessa. Ákvað með sjálfum mér, að þetta færi bara einhvernveginn þegar að því kæmi.
Aðspurður hvernig bíl ég vildi leigja, taldi ég nauðsynlegt að hann væri með gott skott til flutninga, kannski jeppi bara, kannski bara Nissan Xtrail - ég hafði heyrt að nýjustu árgerðir af þeim bíl væru nokkuð rúmgóðar (ástæðan var auðvitað ekki sú, að ég ætti slíkan bíl og væri því vanur honum). Það heyrði ég á Berlínarmanninum, að ekki þótti honum valið viturlegt, taldi vélina ekki nógu öfluga fyrir þýskar hraðbrautir, þar sem enginn væri hámarkshraðinn. Hann taldi betra að taka bíl með öfluga vél, sem ætti séns, auk þess sem hann eyddi minna eldsneyti vegna minni snúningshraða vélarinnar. Hvað um það, ákveðið var að taka á leigu Nissan Xtrail.
Ekki ætla ég að fjölyrða um hugrenningar mínar síðustu mánuðina, að því er bílaleigumálið varðar. Margt hugsaði ég, eðlilega og kynnti mér þýskt vegakerfi eftir föngum.


Sá dagur kom, að við komum til Berlínar og þá kom í ljós, að ekki höfðum við fengið Xtrail, eins og óskað hafði verið eftir, heldur kolsvartan jeppa af gerðinni BMW X3 með dísilvél; 6 gíra tryllitæki. Mig grunar nú, að B-maðurinn hafi bara ákveðið að segja mér að hinn hafi ekki verið á lausu. Fyrstu dagana kom ég mér auðveldlega undan því að taka í gripinn, en stundin nálgaðist óðum. Fyrirhugað var að ná í vöruflutningabílinn á sunnudagsmorgni, inn í miðja Berlín. Þá varð þetta ekki umflúið lengur. Ég sá fyrir mér Þjóðverjana hrista höfuð sín af krafti yfir vitleysislegum akstursmáta mínum, en varð þó að viðurkenna að betri tími til að hefja borgaraksturinn væri ekki hægt að hugsa sér.

Sunnudagurinn rann upp og hópur fólks kominn til að bera búslóðina út í vöruflutningabílinn. Ég tók að mér (ekki aðrir valkostir) að aka á bílaleiguna þar sem hann skyldi sóttur.  

Ég hafði, sem forsjáll maður, gripið til ráðstafana sem myndu auðvelda nokkuð þá nýju reynslu, sem hér blasti við.

09 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (3)

......framhald
Tónleikasvæðið
Þegar hér var komið, var einstakri upplifun tónleikanna lokið og þá var ekkert annað en að drífa sig í VIP-mótttökuna, en þar áttum við fD að hafa verið skráð á gestalista.


8. Því héldum við í átt að VIP tjaldinu, sem áður er nefnt og fundum þar í grennd hlið inn á svæði listamannanna. Þar stóðu beljakar og sú til þess að enginn óviðkomandi kæmist inn. Af fyrri reynslu reyndi ég ekki einusinni að halda því fram við þá að við værum á VIP lista. Við ákváðum bara að bíða þarna fyrir utan og sjá hvað það hefði í för með sér. Innan einhverra mínútna birtist dívan Lucia Aliberti, umkringd lífvörðum. Gekk út um hliðið og í átt að sölutjaldi sem þarna var og hóf að árita geisladiska.
Egill Árni, Lucia Aliberti og hljómsveitarstjórinn Hendrik Vestmann
      Skömmu síðar sáum við tenórinn inn um hliðið og í kjölfar ábendinga frá honum breyttist allt viðmót í hliðinu, mennu bukkuðu sig og buðu okkur velkomin inn fyrir, þar sem við síðan fengum að svala þorsta okkar um stund ásamt því að hitta skipuleggjanda tónleikanna, sem hafði það á orði að þetta yrði hreint ekki í síðasta sinn sem hann óskaði eftir samvinnu við soninn. Hér leið nokkur stund, áður er tilkynnt var að nú skyldi gengið til VIP tjaldsins. Sem var gert. Í þeirri prósessíu voru, að sjálfsögðu einsöngvararnir og hljómsveitarstjórinn, ásamt skipuleggjandanum. Við fylgdum þarna með, talsvert útblásin, og töldum okkur heldur betur vera þarna í góðum hópi.
Þegar inn í tjaldið var komið flutti skipuleggjandinn ávarp þar sem hann þakkaði þátttakendum og þeim vara fagnað eins og vera bar.

9. Þá lá leið hópsins (bara hluta hans, reyndar. Tenórinn benti okkur að fylgja með) inn í nokkurskonar VIPVIP hluta VIP tjaldsins. Þar inni var allt skjannahvítt, veggir, stólar, borð og gólf. Þar inni stóðu krásir gestum til boða og fólk tilbúið að hella hverju sem hugurinn girntist í glös gestanna. Þarna hefði maður getað, við eðlilegar aðstæður, belgt sig út, en einhvernveginn var maður hálf lystarlaus eftir adrenalínflæði undanfarinna klukkustunda. Þarna var háborð sem var merkt: ARTISTS, og þar var okkur ætlað, sökum tengsla, að sitja og njóta veitinga.
Myndin sem olli uppnáminu
Allt fallið í ljúfa löð

10. Á einum tímapunkti ákvað ég að taka mynd af tenórnum í þessum hvíta heimi, en það fór harla illa í sópransöngkonuna. Hún benti mér á það, með allmiklum þjósti, að myndatökur væru ekki leyfðar. Þarna var þó ljósmyndari í tjaldinu, sem myndaði í gríð og erg. Tenórinn útskýrði þá fyrir henni, hvers lags var, með þeim afleiðingum að hún skipti algerlega um kúrs og vildi endilega leyfa mér að taka þarna myndir af henni með tenórnum. Þarna skellti hún sér í hlutverk fyrirsætunnar og sýndi samsöngvara sínum ótvíræð blíðuhót.
----------------------------
Viðdvölin í VIP tjaldinu var skemmtileg viðbót við tónleikana, en þar kom að haldið skyldi heim á leið. Ég gerði eins og í bíómyndunum, veifaði hendi, og umsvifalaust renndi leigubifreið að gangstéttarbrúninni. Því næst var ekið til Kurfurstenstrasse í þrumum og eldingum.

07 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (2)

...framhald.

6. Ég hef staðið mig að því gegnum ævina, að vera afskaplega regluhlýðinn maður. Því var það, að ég þurfti talsvert að taka á til að láta verða af því, að beita hreyfimyndafídusnum á EOS550, þar sem við því hafði verið lagt blátt bann. Ég byrjaði smátt, með því að taka upp nokkrar sekúndur, þegar tenórinn okkar gekk inn á sviðið fyrsta sinni. Slökkti síðan snarlega á upptöku þegar arían hófst. Þar sem engar viðvörunarbjöllur fóru af stað, ákvað ég að gera tilraun með að taka upp næstu aríu, að hluta. Byrjaði með því að halda myndvélinni fyrir framan mig eins og ég væri að taka hefðbundna mynd. Fannst þá að fólkinu fyrir aftan mig hlyti að finnast þetta grunsamleg myndataka og því varð upptakan talsvert stutt. Næst reyndi ég þá aðferð sem ég síðan notaði við þær upptökur sem bættust við, að halda vélinni miklu neðar og freista þess þannig að ná stöðugleika. Þetta hafði það í för með sér, að til þess að vita hvort linsan beindist að viðfangsefninu, þurfti ég stöðugt að beina sjónum mínum niður, í stað þess að fylgjast með því sem fram fór á sviðinu. Þar sem oftar en ekki var frammistaða tenórsins með þeim hætti að ekki var um að ræða annað en fylgjast með, var undir hælinn lagt hvort myndavélin beindist að honum á sviðinu. Því var það svo, þegar upp var staðið, að á áhrifamestu augnablikunum beindist linsan um allar trissur, en ekki að því sem henni var ætlað.  Þá fór það auðvitað svo, að þar sem ég var þarna að taka fyrstu hreyfimyndirnar á nýju græjuna, að ég átti í mesta basli með fókusinn.  En hvað um það: Upptökurnar á ég, kolólöglegar, en tek ekki áhættuna af því að setja þær inn á vefinn, af ótta við lögbann og málsókn. Þeir sem hugsanlega vilja líta brot af, óneitanlega stórgóðri, frammistöðu Kvisthyltingsins þarna á sviðinu, verða bara að koma í heimsókn.


7. Það var gert hálftíma hlé á tónleikunum til að gestir gætu vætt kverkarnar. Það reyndist valda enn einum sálarvandanum, með því að ég þurfti að fá höfnun þegar ég freistaði inngöngu í VIP tjaldið, þar sem allt stóð gestum boða án endurgjalds. Við reyndumst ekki vera á neinum lista yfir VIP gesti og útprentaða A4 blaðið frá Íslandi breytti engu þar um. Við hjónakornin þurftum að horfa á eftir danska Kvisthyltingnum og eiginkonu tenórsins inn í VIP tjaldið þar sem sá fyrrnefndi stóð síðan hálftímann á enda og skóflaði í sig kræsingum og hellti í sig ómældu magni af drykkjarvörum af ýmsu tagi. Þetta helgaðist af því, að á miðum þeirra stóð beinlínis að þau væru VIP. Ég skellti mér hinsvegar í langa röð sem beið eftir að fá afgreiddan einn drykk. Það stóð á endum, að þegar hléinu var að ljúka fékk ég afgreiðslu - sjaldan hef ég drukkið drykk af því tagi sem þarna var um að ræða, jafnhratt, enda aðframkominn af þorsta.


-------------------------------------
Eftir því sem á tónleikana leið, gerðu gestir sér betri grein fyrir að tenórinn var ekki bara einhver eldfjallaeyjargaur, heldur fullskapaður stórtenór. Fögnin urðu meiri og meiri eftir því sem á leið og bravóhrópunum ætlaði seint að linna eftir flutninginn á 'O, sole mio'.  Foreldrarnir voru sem í vímu við þetta allt saman, svo mjög, að því er mig varðar, að ég fylgdist ekki nægilega vel með upptökunni, með þeim afleiðingum að myndefnið varð veggur einhversstaðar á bakvið hljómsveitina. Hjóðið komst þó vel til skila.
------------------------------------

Eftir tónleikana tóku síðan við enn frekari ævintýri.


framhald...............

06 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (1)

Já, ég talaði um sálarháska síðast. Auðvitað er þetta alltaf spurning um hvernig maður skilgreinir það hugarástand, en ég kýs að túlka það nokkuð vítt, í þessu tilviki sem þá tilfinningu sem maður verður fyrir þegar afkvæmi manns er í þann mund að stíga á svið fyrir framan 7000 áheyrendur, vitandi það, að þarna mun ef til vill ráðast hvað framtíðin getur borið í skauti sér.
Innifalið í þessu yfirhugarástandi voru síðan allskyns lítilmótlegri sálarháskar - þessir helstir:
1. Ferð um Berlín með neðanjarðarlest með þær leiðbeiningar, að við skyldum fara úr lestinni á stöð sem héti Stadtmitte - þegar við stigum upp á yfirborðið áttu síðan að blasa við okkur amerískir kaffi- og skyndibitastaðir. Nöfn þeirra 10 stoppistöðva lestarinnar sem voru á leiðinni að hinni einu sönnu, voru vel lesin allt talið í bak og fyrir. (Þetta eru reyndar ýkjur, þar sem við voru auðvitað alvön lestarferðum í Berlín eftir heimsókn þangað vorið 2009 með fyrrverandi Skálholtskórnum).


2. Leitin að eina hliðinu inn á tónleikasvæðið þar sem hægt var að framvísa útprentuðum miðanum, sem keyptur var um miðjan mars í latastráksstólnum mínum í Kvistholti. Til undirbúnings fyrir þetta atriði hafði ég auðvitað með reglulegu millibili, allt frá miðakaupum, grandskoðað aðstæður á tónleikastaðnum. Það voru 4 hlið inn á svæðið og það eina sem við þurftum að gera til að komast inn um hliðið eina, var að láta dyravörð skanna strikamerkið á miðanum.
Rétt er að geta þess, að með okkur fD í för á leið á tónleikastað, var Kvisthyltingurinn sem dvelst um þessar mundir í ríki Margrétar drottningar. Við höfðum áætlað rúman tíma til að geta brugðist við óvæntum aðstæðum, en þar sem greiðlega gekk að tryggja að allt væri eins og til stóð, gafst okkur færi á að setjast niður um stund og skella í okkur smá salati, sem reyndist þegar til kom vera nóg til að fæða 15 svanga tenóra.
3. Á stórum skiltum fyrir utan torgið var lagt blátt bann við myndatökum með blossa, og einnig myndbandsupptökum. Það leit ekki vel út og það var því með nokkrum kvíða sem ég nálgaðist hliðið með skannanum, með nýju myndavélina mína í stærðar tösku á öxlinni. (Ég þori nú varla að segja frá því, en fyrir ferðina gerði ég tvenns konar ráðstafanir sem báðar verða að teljast ólöglegar á landi voru. Önnur fólst í því að festa kaup, með tilteknum hætti, á myndavél einni allsvakalegri og sem felur í sér möguleika á að taka HD (háskerpu) kvikmyndir. Hin bíður seinni umfjöllunar). Ekki var gerð athugasemd við myndavélatöskuna.
4. Það var einkennileg tilfinning að ganga inn á áhorfendasvæðið: stólar svo langt sem augað eygði og áheyrendur streymdu að. Ef ekki hefði komið til forsjálni mín (búinn að margstaðsetja okkur í stólahafinu), hefði leitin eflaust orðið þrautin þyngri. Maður hálfvorkenndi þessum greyjum sem sátu í 100 metra fjarlægð frá sviðinu með kvöldsólina beint í augun, meðan við gengum sem leið lá að sætum okkar í Blokk H, röð 8 sætum 29 og 30. Þarna biðu þau okkar algerlega tilbúin til notkunar og ekkert annað að gera en setjast. 
5. Sætin voru tvö og nú þurfti að ákveða hvar ég skyldi sitja og hvar fD. Annað var á raðarenda og ekkert sæti fyrir framan - útsýni óskert inn á sviðið, hitt var einu sæti innar með útsýn á sviðið milli tveggja sæta sem þar voru fyrir framan. Með þeirri óumdeilanlegu röksemdafærslu, að ég hygðist taka merkar heimildamyndir af tenórnum, tókst mér að koma málum svo fyrir að ég sat í endasætinu, þar sem ég tók fram vélina miklu og var þar með tilbúinn fyrir það sem koma skyldi. Reyndin varð sú að það voru engir risar sem settust í sætin tvö fyrir framan þannig að yfirsýn fD skaðaðist ekki svo orð sé á gerandi.

framhald......síðar

04 ágúst, 2010

Heim og blogg á ný

Það hefur orðið úr, að gleðja fjölmarga aðdáendur þessarar síðu með anda míns fóðri, enn um sinn. Þetta er aðeins inngangur að því sem á eftir kemur í formi smámynda frá mikilli Evrópuferð minni og fD. Þó svo oft hafi mér þótt það sem á mig var lagt í þessari ferð, nálgast sálarleg þolmörk, er ég kominn heim til landsins sem hvílir í Norður Atlantshafinu, heill á húfi og má það sama má segja um fD, að því er ég best veit. Ekki ber að skilja það svo, að synir, tengdadætur og barnabörn, né heldur Íshæðarbúar, hafi valdið ofangreindum sálarháska. Þvert á móti var samveran með þeim með þeim hætti, að ekki verður betur gert. Þakkir verða ekki settar í orð hér, heldur er þeim ætlað að berast með fuglum himins, sem brátt hefja flug sitt suður á bóginn. Þá verður heldur ekki sett á þessum vettvangi fram lýsing á þeirri ómældu gleði sem við höfðum af því að endurnýja kynnin við barnabörnin tvö. Við vonum auðvitað, að þau hafi ekki borið skaða af návist okkar, heldur hafi lært eitthvað lítilsháttar af því sem eldri kynslóð ber ávallt að miðla til ungviðisins.
Júlía lærði að segja "Pish" (PEACE)
Gabríel náði mikilli leikni í að taka gleraugun af afa sínum.

Nú er framundan að melta viðburði ferðarinnar og koma þeim í viðeigandi búning, sem hæfir svo virðulegri bloggsíðu sem hér er um að ræða. 
Það gerist þegar hæfilegu jafnvægi hugans er náð og reynslan hefur náð viðunandi fjarlægð frá núinu. Ef fer sem horfir, er von á litríku orðskrúði, þar sem þess verður freistað að varpa sem bestu ljósi á þá hluta Evrópuferðar okkar fD, sem hæfir að tjá sig um hér.

10 júlí, 2010

"Þú segir það, Jón litli, að Guð hafi skapað þig"

Því ber að fagna þegar eitthvað gott gerist. Það geri ég hér með. Ástæðan? Her sláttumanna fór um Laugarás í gær og breytti ásýnd þorpsins í skóginum eins og hendi væri veifað. Bara að þetta gerðist nú oftar. Síðan þetta gerðist hefur ringt látlítið, svo aðstæður hafa skapast fyrir hraðari og öflugri vöxt gróðursins.
Af tilefninu má láta sér detta í hug að gera margt skemmtilegt, eins og t.d. 
- að flytja inn erlenda ferðamenn til að grilla saman í rígningunni
- að flytja loksins myndbandið sem tekið var á Laugaráshátíðinni í fyrra, inn í tölvu og síðan þaðan inn á hátíðarsíðuna.
- að skella sér á tónleika í höfuðborg þess lands er Þjóðverjar byggja.
- að baka heilan helling af kökum.
- að fyllast gleði yfir því að eiga ekki kött.
- að fylgjast með óttalausum maríuerluhjónunum segja ungviðinu til á pallinum. (verst hvað hann er hvítdoppóttur á eftir)
- að fylgjast með lokaleikjum heimsmeistarakeppni (þegar fréttirnar á hinni stöðinni eru búnar að seðja fréttaþyrsta frú)

Það má endalaust tína til aðferðir við að fagna. 

----------------------------

Sumarleyfi felur það oftar en ekki í sér að fólk skiptir um gír og það er nákvæmlega það sem til stendur að gera núna. Næstu vikurnar hef ég hugsað mér að taka mér sumarleyfi frá skrifum á síðu þessa. Auðvitað þykist ég þess fullviss að margir reki upp ramakvein, en það verður svo að vera.  Hvert framhald verður á eftir að leyfinu líkur, verður að ráðast af  ýmsum þáttum, sem skipta mismiklu máli.

ps Fyrirsögnina hef ég eftir gamla unglingnum, sem hefur hana einhversstaðar frá, og beitir alloft. Þegar ég freistaði þess að finna henni stað í veröldinni, komst ég að því að hún kemur einungis fyrir einu sinni á internetinu, en það er í minningargrein, sem var skrifuð 1998, um aldraðan mann. Hinn endanlegi uppruni er þar með óþekktur, enn sem komið er. 
Hver var hann, þessi Jón litli? 
Trúði sá sem þetta sagði ekki á sköpunarkenninguna? 
Var Jón ungur, eða bara smávaxinn? 
Já, hún vekur fleiri spurningar en hún svarar, þessi yfirlætislausa setning.

Lesendum óska ég ánægjulegs sumars án andlegrar upplyftingar frá mér.

08 júlí, 2010

Auðvitað hárrétt

Ástand mála finnst mér kristallast ansi vel í viðtali við sálfræðinginn Kolbrúnu Baldursdóttur og þarf í raun engu við það að bæta. Ekki ætla ég mér að fara að gerast skoðanabróðir Péturs Blöndal, en það er sannarlega rétt hjá honum að ansi margir þegnar þessa lands, sjá ekkert nema naflann á sjálfum sér. Við erum að því er virðist ófær um að líta til þess hvernig kjörum annarra en okkar sjálfra er háttað - hætt að finna til samkenndar nema þá með einstaka: "OMG hvað þau eiga bágt!" - síðan höldum við áfram að skoða naflann á okkur, í litla heiminum okkar.

Það sjá allir, að með slíku áframhaldi tekst okkur aldrei að ná lendingu. Hér verða að koma til málamiðlanir, því það á enginn að sleppa við óhjákvæmilegar byrðar. Auðvitað finnst mér að þeir sem fóru á neyslufyllerí eigi að sitja uppi með sinn skerf; að frekar eigi að koma til móts við þá sem tóku lán til eðlilegra hluta - húsnæðis fyrir fjölskylduna t.d., en ég geri mér grein fyrir að þar eru stór grá svæði.

Það mikilvægasta í öllu finnst mér að skaðvaldarnir fái makleg málagjöld, ekki þeir sem eru að reyna að bjarga því sem bjargað verður, en mér sýnist að naflaskoðararnir séu alveg búnir að gleyma hverjir þessir skaðvaldar voru.

Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Mér var sagt það fyrir nokkrum árum, að einni konu hefði tekist það að verða bæði amma afa míns, Magnúsar Jónssonar (1887-1965) og langamma...