...framhald.
6. Ég hef staðið mig að því gegnum ævina, að vera afskaplega regluhlýðinn maður. Því var það, að ég þurfti talsvert að taka á til að láta verða af því, að beita hreyfimyndafídusnum á EOS550, þar sem við því hafði verið lagt blátt bann. Ég byrjaði smátt, með því að taka upp nokkrar sekúndur, þegar tenórinn okkar gekk inn á sviðið fyrsta sinni. Slökkti síðan snarlega á upptöku þegar arían hófst. Þar sem engar viðvörunarbjöllur fóru af stað, ákvað ég að gera tilraun með að taka upp næstu aríu, að hluta. Byrjaði með því að halda myndvélinni fyrir framan mig eins og ég væri að taka hefðbundna mynd. Fannst þá að fólkinu fyrir aftan mig hlyti að finnast þetta grunsamleg myndataka og því varð upptakan talsvert stutt. Næst reyndi ég þá aðferð sem ég síðan notaði við þær upptökur sem bættust við, að halda vélinni miklu neðar og freista þess þannig að ná stöðugleika. Þetta hafði það í för með sér, að til þess að vita hvort linsan beindist að viðfangsefninu, þurfti ég stöðugt að beina sjónum mínum niður, í stað þess að fylgjast með því sem fram fór á sviðinu. Þar sem oftar en ekki var frammistaða tenórsins með þeim hætti að ekki var um að ræða annað en fylgjast með, var undir hælinn lagt hvort myndavélin beindist að honum á sviðinu. Því var það svo, þegar upp var staðið, að á áhrifamestu augnablikunum beindist linsan um allar trissur, en ekki að því sem henni var ætlað. Þá fór það auðvitað svo, að þar sem ég var þarna að taka fyrstu hreyfimyndirnar á nýju græjuna, að ég átti í mesta basli með fókusinn. En hvað um það: Upptökurnar á ég, kolólöglegar, en tek ekki áhættuna af því að setja þær inn á vefinn, af ótta við lögbann og málsókn. Þeir sem hugsanlega vilja líta brot af, óneitanlega stórgóðri, frammistöðu Kvisthyltingsins þarna á sviðinu, verða bara að koma í heimsókn.
7. Það var gert hálftíma hlé á tónleikunum til að gestir gætu vætt kverkarnar. Það reyndist valda enn einum sálarvandanum, með því að ég þurfti að fá höfnun þegar ég freistaði inngöngu í VIP tjaldið, þar sem allt stóð gestum boða án endurgjalds. Við reyndumst ekki vera á neinum lista yfir VIP gesti og útprentaða A4 blaðið frá Íslandi breytti engu þar um. Við hjónakornin þurftum að horfa á eftir danska Kvisthyltingnum og eiginkonu tenórsins inn í VIP tjaldið þar sem sá fyrrnefndi stóð síðan hálftímann á enda og skóflaði í sig kræsingum og hellti í sig ómældu magni af drykkjarvörum af ýmsu tagi. Þetta helgaðist af því, að á miðum þeirra stóð beinlínis að þau væru VIP. Ég skellti mér hinsvegar í langa röð sem beið eftir að fá afgreiddan einn drykk. Það stóð á endum, að þegar hléinu var að ljúka fékk ég afgreiðslu - sjaldan hef ég drukkið drykk af því tagi sem þarna var um að ræða, jafnhratt, enda aðframkominn af þorsta.
Eftir því sem á tónleikana leið, gerðu gestir sér betri grein fyrir að tenórinn var ekki bara einhver eldfjallaeyjargaur, heldur fullskapaður stórtenór. Fögnin urðu meiri og meiri eftir því sem á leið og bravóhrópunum ætlaði seint að linna eftir flutninginn á 'O, sole mio'. Foreldrarnir voru sem í vímu við þetta allt saman, svo mjög, að því er mig varðar, að ég fylgdist ekki nægilega vel með upptökunni, með þeim afleiðingum að myndefnið varð veggur einhversstaðar á bakvið hljómsveitina. Hjóðið komst þó vel til skila.
------------------------------------
Eftir tónleikana tóku síðan við enn frekari ævintýri.
framhald...............
Engin ummæli:
Skrifa ummæli