Já, ég talaði um sálarháska síðast. Auðvitað er þetta alltaf spurning um hvernig maður skilgreinir það hugarástand, en ég kýs að túlka það nokkuð vítt, í þessu tilviki sem þá tilfinningu sem maður verður fyrir þegar afkvæmi manns er í þann mund að stíga á svið fyrir framan 7000 áheyrendur, vitandi það, að þarna mun ef til vill ráðast hvað framtíðin getur borið í skauti sér.
Innifalið í þessu yfirhugarástandi voru síðan allskyns lítilmótlegri sálarháskar - þessir helstir:
1. Ferð um Berlín með neðanjarðarlest með þær leiðbeiningar, að við skyldum fara úr lestinni á stöð sem héti Stadtmitte - þegar við stigum upp á yfirborðið áttu síðan að blasa við okkur amerískir kaffi- og skyndibitastaðir. Nöfn þeirra 10 stoppistöðva lestarinnar sem voru á leiðinni að hinni einu sönnu, voru vel lesin allt talið í bak og fyrir. (Þetta eru reyndar ýkjur, þar sem við voru auðvitað alvön lestarferðum í Berlín eftir heimsókn þangað vorið 2009 með fyrrverandi Skálholtskórnum).
2. Leitin að eina hliðinu inn á tónleikasvæðið þar sem hægt var að framvísa útprentuðum miðanum, sem keyptur var um miðjan mars í latastráksstólnum mínum í Kvistholti. Til undirbúnings fyrir þetta atriði hafði ég auðvitað með reglulegu millibili, allt frá miðakaupum, grandskoðað aðstæður á tónleikastaðnum. Það voru 4 hlið inn á svæðið og það eina sem við þurftum að gera til að komast inn um hliðið eina, var að láta dyravörð skanna strikamerkið á miðanum.
Rétt er að geta þess, að með okkur fD í för á leið á tónleikastað, var Kvisthyltingurinn sem dvelst um þessar mundir í ríki Margrétar drottningar. Við höfðum áætlað rúman tíma til að geta brugðist við óvæntum aðstæðum, en þar sem greiðlega gekk að tryggja að allt væri eins og til stóð, gafst okkur færi á að setjast niður um stund og skella í okkur smá salati, sem reyndist þegar til kom vera nóg til að fæða 15 svanga tenóra.
3. Á stórum skiltum fyrir utan torgið var lagt blátt bann við myndatökum með blossa, og einnig myndbandsupptökum. Það leit ekki vel út og það var því með nokkrum kvíða sem ég nálgaðist hliðið með skannanum, með nýju myndavélina mína í stærðar tösku á öxlinni. (Ég þori nú varla að segja frá því, en fyrir ferðina gerði ég tvenns konar ráðstafanir sem báðar verða að teljast ólöglegar á landi voru. Önnur fólst í því að festa kaup, með tilteknum hætti, á myndavél einni allsvakalegri og sem felur í sér möguleika á að taka HD (háskerpu) kvikmyndir. Hin bíður seinni umfjöllunar). Ekki var gerð athugasemd við myndavélatöskuna.
4. Það var einkennileg tilfinning að ganga inn á áhorfendasvæðið: stólar svo langt sem augað eygði og áheyrendur streymdu að. Ef ekki hefði komið til forsjálni mín (búinn að margstaðsetja okkur í stólahafinu), hefði leitin eflaust orðið þrautin þyngri. Maður hálfvorkenndi þessum greyjum sem sátu í 100 metra fjarlægð frá sviðinu með kvöldsólina beint í augun, meðan við gengum sem leið lá að sætum okkar í Blokk H, röð 8 sætum 29 og 30. Þarna biðu þau okkar algerlega tilbúin til notkunar og ekkert annað að gera en setjast.
5. Sætin voru tvö og nú þurfti að ákveða hvar ég skyldi sitja og hvar fD. Annað var á raðarenda og ekkert sæti fyrir framan - útsýni óskert inn á sviðið, hitt var einu sæti innar með útsýn á sviðið milli tveggja sæta sem þar voru fyrir framan. Með þeirri óumdeilanlegu röksemdafærslu, að ég hygðist taka merkar heimildamyndir af tenórnum, tókst mér að koma málum svo fyrir að ég sat í endasætinu, þar sem ég tók fram vélina miklu og var þar með tilbúinn fyrir það sem koma skyldi. Reyndin varð sú að það voru engir risar sem settust í sætin tvö fyrir framan þannig að yfirsýn fD skaðaðist ekki svo orð sé á gerandi.
framhald......síðar
Engin ummæli:
Skrifa ummæli