Það hefur orðið úr, að gleðja fjölmarga aðdáendur þessarar síðu með anda míns fóðri, enn um sinn. Þetta er aðeins inngangur að því sem á eftir kemur í formi smámynda frá mikilli Evrópuferð minni og fD. Þó svo oft hafi mér þótt það sem á mig var lagt í þessari ferð, nálgast sálarleg þolmörk, er ég kominn heim til landsins sem hvílir í Norður Atlantshafinu, heill á húfi og má það sama má segja um fD, að því er ég best veit. Ekki ber að skilja það svo, að synir, tengdadætur og barnabörn, né heldur Íshæðarbúar, hafi valdið ofangreindum sálarháska. Þvert á móti var samveran með þeim með þeim hætti, að ekki verður betur gert. Þakkir verða ekki settar í orð hér, heldur er þeim ætlað að berast með fuglum himins, sem brátt hefja flug sitt suður á bóginn. Þá verður heldur ekki sett á þessum vettvangi fram lýsing á þeirri ómældu gleði sem við höfðum af því að endurnýja kynnin við barnabörnin tvö. Við vonum auðvitað, að þau hafi ekki borið skaða af návist okkar, heldur hafi lært eitthvað lítilsháttar af því sem eldri kynslóð ber ávallt að miðla til ungviðisins.
Júlía lærði að segja "Pish" (PEACE) |
Gabríel náði mikilli leikni í að taka gleraugun af afa sínum. |
Nú er framundan að melta viðburði ferðarinnar og koma þeim í viðeigandi búning, sem hæfir svo virðulegri bloggsíðu sem hér er um að ræða.
Það gerist þegar hæfilegu jafnvægi hugans er náð og reynslan hefur náð viðunandi fjarlægð frá núinu. Ef fer sem horfir, er von á litríku orðskrúði, þar sem þess verður freistað að varpa sem bestu ljósi á þá hluta Evrópuferðar okkar fD, sem hæfir að tjá sig um hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli