Því ber að fagna þegar eitthvað gott gerist. Það geri ég hér með. Ástæðan? Her sláttumanna fór um Laugarás í gær og breytti ásýnd þorpsins í skóginum eins og hendi væri veifað. Bara að þetta gerðist nú oftar. Síðan þetta gerðist hefur ringt látlítið, svo aðstæður hafa skapast fyrir hraðari og öflugri vöxt gróðursins.
Af tilefninu má láta sér detta í hug að gera margt skemmtilegt, eins og t.d.
- að flytja inn erlenda ferðamenn til að grilla saman í rígningunni
- að flytja loksins myndbandið sem tekið var á Laugaráshátíðinni í fyrra, inn í tölvu og síðan þaðan inn á hátíðarsíðuna.
- að skella sér á tónleika í höfuðborg þess lands er Þjóðverjar byggja.
- að baka heilan helling af kökum.
- að fyllast gleði yfir því að eiga ekki kött.
- að fylgjast með óttalausum maríuerluhjónunum segja ungviðinu til á pallinum. (verst hvað hann er hvítdoppóttur á eftir)
- að fylgjast með lokaleikjum heimsmeistarakeppni (þegar fréttirnar á hinni stöðinni eru búnar að seðja fréttaþyrsta frú)
Það má endalaust tína til aðferðir við að fagna.
----------------------------
Sumarleyfi felur það oftar en ekki í sér að fólk skiptir um gír og það er nákvæmlega það sem til stendur að gera núna. Næstu vikurnar hef ég hugsað mér að taka mér sumarleyfi frá skrifum á síðu þessa. Auðvitað þykist ég þess fullviss að margir reki upp ramakvein, en það verður svo að vera. Hvert framhald verður á eftir að leyfinu líkur, verður að ráðast af ýmsum þáttum, sem skipta mismiklu máli.
ps Fyrirsögnina hef ég eftir gamla unglingnum, sem hefur hana einhversstaðar frá, og beitir alloft. Þegar ég freistaði þess að finna henni stað í veröldinni, komst ég að því að hún kemur einungis fyrir einu sinni á internetinu, en það er í minningargrein, sem var skrifuð 1998, um aldraðan mann. Hinn endanlegi uppruni er þar með óþekktur, enn sem komið er.
Hver var hann, þessi Jón litli?
Trúði sá sem þetta sagði ekki á sköpunarkenninguna?
Var Jón ungur, eða bara smávaxinn?
Já, hún vekur fleiri spurningar en hún svarar, þessi yfirlætislausa setning.
Lesendum óska ég ánægjulegs sumars án andlegrar upplyftingar frá mér.
Þá er að taka því...
SvaraEyðaljúfar kveðjur... út um allt í fjölskyldunni
Hirðkveðill Kvistholts
(harmi sleginn)
********