22 ágúst, 2010

Leitin að Sandhóla-Pétri

Einhvernveginn svona
eiga sandhólar að líta út
Það er tvennt sem varð til þess að móta hugmyndir mínar um vesturströnd Jótlands: svarthvít mynd, sem mig minnir að hafi verið að finna í Kennslubók í dönsku, eftir Ágúst Sigurðsson (pabba Helgu), af sandhólunum á fremur hrjóstrugri og vindbarðri ströndinni og hinsvegar bók sem ég las á unglingsárum: Sandhóla-Pétur, eftir Anders Christian Westergaard.
Mér varð það á, í heimsókn okkar í fjónska bænum við Litlabelti, að minnast á Sandhóla-Pétur. Eftir það kom ekkert annað til greina en að skjótast yfir á vesturströndina í leit að sandhólum. Það var einmitt á leiðinni þangað, sem komið var við á Engilshólmi. Þaðan leiddi GPS græja okkur í átt til hraðbrautarinnar sem leiðir vegfarendur til Esbjerg, en þar töldum við líklegt að rekast á, þó ekki væri nema einn sandhól.

Þetta var það næsta sem við
komumst þvíað greina sandhóla
Þegar nær dró vesturstrandarborginni þurfti að finna einhvern stað til að láta tækið vísa okkur á og varð FANØ fyrir valinu. Við hefðum nú getað sagt okkur það sjálf, að hér var um að ræða eyju, og reyndar gerðum við það, en töldum að sá möguleiki væri fyrir hendi að þangað lægi brú, eða eiði af einhverju tagi. Það kom svo sem ekkert á óvart, að þessi eyja er ótengt landi og þangað gengur ferja. Um ferjuferð gat ekki orðið að ræða og því varð úr að finna stað þar sem hægt væri að fá sér í svanginn. Til þessa var auðvitað notað galdratækið GPS. Þarna sannfærðist ég endanlega um það að framleiðendur forrita fyrir GPS tæki geri kostunarsamninga við tiltekna ameríska skyndibitakeðju; engir aðrir veitingastaðir birtust. Því var ekki um annað að ræða en snæða enn og aftur á slíkum stað. 
Í framhaldi af því hélt leitin að sandhólunum áfram, a sjálfsögðu með aðstoð GPS. 
Sandhóla-Pétur
nútímans?
"Þeir eru örugglega þarna
fyrir norðan"
Óumræðilegur áhugi

















Leitað var að götum með nafnið: Strandvejen. Þegar tækið vísaði okkur beint í austurátt, inn í land, varð leitað áfram, aftur og aftur að ýmsum útgáfum strandlægra gatna. Fyrir tilviljun fann ég götu sem heitir Sædding Strandvej, sem tækið kvað vera í vesturátt, í átt til hafs. Þarna fundum við sannkallaða sandhólagötu, þó svo hólarnir væru mikið til horfnir undir mannvirki. Við ákváðum að láta þessa sandhóla duga - sandurinn var allavega sandhólalegur.
Við höfðum reyndar komist að því, við fyrirspurn í ferjuhöfninni til Fáneyjar, að til að kynnast sandhólunum af einhverri alvöru, þyrftum við að aka til Blávatns, en tíminn leyfði ekki frekar leit.

Ég hef verið að kynna mér lítillega upplýsingar um Sandhóla-Pétur (Klit-Per)  frá því heim kom og kemur á óvart hve fátt er um þessa ágætu bók að finna. Hún lýtur að hafa verið alveg ágæt, úr því hún er mér enn í minni. Ég hef komist að því að  að það var gerð kvikmynd eftir sögunni sem heitir Vesterhavsdrenge. Hún var síðan bútuð niður í 10 mín þætti sem voru sýndir í sjónvarpi. Þá gerði Walt Disney mynd sem byggir á því sama. 
Loks fann ég upplýsingar um að bókin er til í Sunnlenska bókakaffinu:




Höfundur A. Chr. Westergaard.Útgáfuár 1964






Notuð bók
Hilla R4 
Verð kr. 500,-






Kannski er þetta Sandhóla-Pétur í dag.









20 ágúst, 2010

Engilshólmshöll

Eftir Þýskalandsdvölina tóku Kvistholtstengdir Danir við okkur í Flensburg og báru síðan hitann og þungann af dvöl okkar í Danaveldi í vikutíma, eða svo. Margt tóku menn sér fyrir hendur, og ekki verða því öllu gerð skil hér, heldur birtar nokkrar minnismyndir.
Ef grannt er skoðað má sjá, að þumalfingur vinstri handar
bendir upp á við í stórum dráttum.
Í baksýn er Engilshólmshöll

Engilshólmshöll (Engelsholm Slot) stendur því sem næst á miðju Jótlandi og hefur tengst Kvisthyltingum um nokkurt skeið sökum þess, að þar er starfræktur skóli fyrir fólk sem leggur fyrir sig að koma frá sér, með einhverjum hætti, hugarstarfi sínu, eða hugarórum, í einhverju formi, hvort sem um er að ræða léreft, pappír, gler, járn, stein, eða ennað efnislegt eða efnislaust.
Þarna sést til þeirra bygginga (sem sjálfsagt hafa gegnt
hlutverkigripahúsa áður fyrr) sem hýsa listsmiðjur.
Í tilefni af stórafmæli fD varð það úr, að hennar næsta fólk sameinaðist um að stuðla að því að þangað færi hún til að efla sig í myndrænni tjáningu. Í kjölfar þess kom það sem allir þekkja: hrunadans íslensks þjóðfélags, sem enn er dansaður af fullum krafti. Því varð ekkert úr að fyrirhugaður afmælisglaðningur næði að fullkomnast og leiða til aukins listræns þroska og færni gjafarþegans.
Það þótti ekki vitlaus hugmynd, þrátt fyrir máttlítil mótmæli fD, að leggja lítilsháttar lykkju á leið um hinar jósku heiðar, að freista þess að renna í hlað að Engilshólmi og kanna þar með hvort þar væri um það að ræða sem hugmyndir höfðu lotið að.
Hér var málað af miklum móð.
Það varð ljóst þegar nálgaðist höllina, að hún er sérlega falleg í dáindisgæsilegu umhverfi. Ekki varð annað fundið en fyrrverandi afmælisbarni litist sérlega vel á allt sem þarna bar fyrir augu, enda fengum við að leiðsögn um höllina sjálfa og máttum síðan fara hreint um allt til að kynnast enn betur því starfi sem þarna er unnið. Í málningarhúsinu varð á vegi okkar Íslendingur, sem þarna var öðru sinni á námskeiði, sem dásamaði hóflítið staðinn og námið. Sérstakleg held ég að það hafi verið frásögnin af rauðvínslistakvöldunum, sem varð til þess að fD heillaðist endanlega.
Nú er framundan tímu umþenkingar og skipulagningar, sem væntanlega lýkur með því að Kvisthyltingurinn fer til einhverra vikna dvalar á þessum dýrðarstað.
Ég get nú sjálfur alveg hugsað mér að eyða þarna einhverjum tíma við listsköpun, svona þegar sá tími rennur upp, sem nálgast óðum, að formlegu ævistarfi ljúki. Hver veit.
Feðgarnir komust í snertingu við náttúruna á hlaðinu við höllina.

16 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (3)


..framhald


Þó svo ég hafi, þegar hér var komið, verið orðinn talsvert öruggur með sjálfan mig þegar um var að ræða akstur erlendis, vantaði enn nokkuð upp á að ég væri tilbúinn að keyra bara si svona inni í einhverri borg sem ég hafði aldrei komið til áður. Það gæti alltaf komið upp sú staða sem GPS græjan gæti ekki bjargað mér út úr. Þessu stóð til að breyta áður en leigutími BMW-sins væri úti.
Næsta skref tók ég fljótlega, þegar ferð okkar og Görlitzanna lá til Dresden, í um 100 km fjarlægð. GPS-inn var bara stilltur á sænsku húsbúnaðarverslunina í þeirri borg og síðan var keyrt af stað. Auðvitað lauk ferðinni á áfangastað, nákvæmlega eins og til stóð. Mér leið eins og ég væri orðinn ósigrandi í borgarakstri erlendis, en það dugði þó ekki til þess að ég tæki að mér að aka niður í glæsilega miðborg (gömlu borgina (reyndar endurbyggða, enda vita flestir að Dresden var lögð gjörsamlega í rúst í lok seinni heimsstyrjaldar)). Ég afréð hinsvegar að sjá um aksturinn til baka, auðvitað eins og ég hefði aldrei gert neitt annað - enn orðinn öflugri bak við stýrið.

Nú var svo komið, að ég nánast hlakkaði til 700 kílómetra akstursins sem framundan var, en hann var þannig til kominn, að um var að ræða ódýrustu aðferðina til að komast til ríkis Danadrottningar. Upprunalega var áætlunin sú, að skila bílnum í Berlín, sem var, svona eftir á að hyggja, harla vanhugsað. Því var skilastaðnum breytt yfir í Flensburg, rétt fyrir sunnan landamærin að áðurnefndu konungsríki.

Dagurinn kom, þegar Görlitz og Kvistholtstengdir íbúar hennar/þess voru kvaddir og við fD héldum í norðausturátt, á BMW jeppatryllitækinu. Hvað sem upp á kynni að koma yrðum við að leysa sjálf. Allt traust var sett á GPS-inn og BMW-inn og - auðvitað mig (og auðvitað fD). Stysta leiðin sem staðsetningartækið fann hljóðaði upp á 682 km. Mér var svo sem ekkert ljóst hver þessi leið var, utan það að hún hófst á því að keyra til baka sömu leið og við höfðum komið frá Berlín.

Fyrsti hluti ferðarinnar, sveitavegurinn út á hraðbrautina, fól í sér sömu flækju og áður og lausnin fólst enn í því að ögra GPS-num með því að keyra bara eitthvert út í buskann. Eftir það bar fátt til tíðinda fyrr en GPS-inn tilkynnti að innan einhverra kílómetra væri mér ætlað að skipta um hraðbraut. Allt í lagi með það. Það fór hinsvegar aðeins um mig þegar mér varð ljóst að þessi nýja braut beindi okkur beint í norðaustur með skilti sem vísuðu á Frankfurt and der Oder - sem er við landamærin að Póllandi. Hér var um að ræða svakalega fína, þriggja akreina braut. Mér til léttis leið ekki á mjög löngu áður en brautin tók að sveigjast meira til norðurs, síðan norðvesturs og loks alveg í vestur. Þegar síðan birtust skilti sem bentu til að Berlín væri ekki allfjarri, til suðurs, var orðið ljóst að GPS-inn var bara að fara með okkur framhjá umferðartöfum í kringum Berlín.  Meðan á þessum óvissutíma stóð hafði ég haldið nokkuð aftur af mér, að því er varðaði aksturshraða, en í fullvissu þess, að nú værum við örugglega á réttri leið, leyfði ég bensínfætinum að nálgast gólfið æ meir.
"Þú ert kominn á 142 kílómetra hraða!"
Fram til þessa hafði fD ekki fjallað mikið um hraðamálin, enda hafði hún smám saman vanist því að bílar væru frekar að fara fram úr BMW-inum en öfugt. Ég skynjaði að það var ekkert sérlega mikil skelfing sem fólst í þessari yfirlýsingu, þannig að ég hélt uppteknum hætti hvar sem hægt var. Það var bara á einhverjum illþolandi tengivegum (eins og þjóðvegur 1) sem ég neyddist til að slá af ferðinni. 

Ég ætla ekki að skafa utan af því, en þarna fæddist ég sem fullþroskaður hraðbrautaökumaður og fann ótvírætt fyrir því hvernig aðrir ökumenn á brautinni fylltust lotningu þegar ég nálgaðist í baksýnisspeglum þeirra, og viku umsvifalaust til að hleypa mér fram úr. Ef þeir hefðu nú bara vitað að þarna var á ferð miðaldra íslenskur sveitamaður!?

Það þarf ekki að fjölyrða um framhaldið, allt gekk eins og í sögu, utan það að mér var ætlað að skila BMW-inum með fullan tank af eldsneyti. Þarna vorum við að renna inn í Flensburg, sem við höfðum aldrei heimsótt áður, og þurftum að finna bensínstöð áður en GPS-inn leiddi okkur upp að dyrum hjá bílaleigunni SIXT. Auðvitað mundi ég þá eftir fídusnum á GPS-græjunni sem hjálpar manni að leita að ýmsu í nánasta umhverfi sínu. Viti menn, hann fann bensínstöð í 700 m fjarlægð (tók reyndar 1,5 km að keyra þangað). 
Með fullan tank renndum við inn á bílaleiguna og það var með blendnum tilfinningum að ég setti lyklana í næturhólfið. Þær breyttust þó fljótt, því þarna á hlaðinu biðu Danirnir okkar þrír og þeir brunuðu með okkur norður á bóginn til heimabæjar síns við Litlabelti.

Ég tel víst að það verði ekki löng bið eftir því að þessi Kvisthyltingur bruni um evrópskar hraðbrautir á ný.


Myndirnar á þessari síðu eru frá Dresden, en vegna spenningsins í tengslum við aksturinn sem framundan ver, gleymdist EOS-inn heima. Þess í stað notaði ég bara Nokiuna. 

15 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (2)


Til þess að tryggja það, í það minnsta, að ég færi ekki að villast á vegum Evrópu, hafði ég sem sagt fest kaup á, væntanlega með ólögmætum hætti, svokallað GPS tæki. Auðvitað fór ég ekkert að kaupa neitt drasl. Fyrir valinu varð tæki með stórum skjá, því ekki var tekin áhætta af því að ég sæi ekki auðveldlega allt sem það leiðbeindi mér með. Hér má sjá græjuna (1490T):


Fyrsti akstur minn á erlendri grund gekk vel á umræddum sunnudagsmorgni, enda leiðin harla einföld, nánast bara ein beygja alla leiðina og umferðin nánast engin. Þarna ók ég á bílaleiguna og aftur til baka án þess að gera nokkur akstursleg mistök, enda umferðarreglur samsvarandi því sem gerist hérlendis.

Vaskur hópur fyllti á vöruflutningabílinn og það var haldið af stað til Görlitz. Danska fjölskyldan hélt heimleiðis eftir að snætt hafði verið á veitingastað sem ég horfi yfirleitt framhjá, en þarna var mikilvægara að aka auðveldar leiðir en að finna viðurkennda veitingastaði. Berlínarfjölskyldan mannaði vöruflutningabílinn og við fD fylgdum í humátt á eftir, margtryggð fyrir mistökum af einhverju tagi: með vanan ökumann í vöruflutningabíl á undan og glæsilegt GPS tæki sem sagði til um það með bæði myndrænt og með hljóði, hvar og hvenær hitt og þetta gerðist eða ætti að gerast. Þetta var allavega fyrirkomulagið meðan ekið var út úr Berlín.

Hraðbrautin í suð-suð-austur frá Berlín var framundan. Ekki var laust við örlítinn kvíðasting í tengslum við tilhugsunina um að hefja akstur á takmarkalausum hraða, en á hraðbrautum Þýskalands er algengara en ekki, að engin séu hraðatakmörkin. Það þarf nú ekkert að fjölyrða um það, en innkeyrslan á hraðbrautina gekk eins og í sögu: við stöðugt í humátt á eftir vöruflutningabílnum, annars vegar til að tryggja að rétt væri ekið og hinsvegar til að vera viss um að GPS tækið vísaði okkur rétta leið. Eftir aksturinn út úr Berlín þótti mér það orðið ljóst, að GPS tækið virkaði eins og til stóð og því þótti mér ekki líklegt annað, en að það myndi koma okkur hina réttu leið á áfangastað. Þá er það einnig svo, að vöruflutningabílar eru ekki hannaðir til hraðaksturs af því tagi sem þarna var. Þegar ég var búinn að aka á eftir vöruflutningabílum allgóða stund, á hægri akgrein og aldrei nema í 5 gír, fór mér smám saman að aukast þor, sem eðlilegt var, því þarna var umferðarhraðinn með talsvert öðrum hætti en maður á að venjast. Á eftir vöruflutningabílnum fór hámsrkshraðinn nánast ekki yfir 110 km/klst, en það þótti bílstjóranum í farþegasætinu heldur mikið og tjáði það svo ekki varð misskilið.
Þar kom, að ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að skella mér fram úr vöruflutningabílnum, við misgóðar undirtektir annarra farþega. Að hluta til var ákvörðunin tekin þar sem ég er mikill ævintýramaður í eðli mínu og langaði að njóta óvissunnar sem hraðbrautin framundan bæri í skauti sér. Hinsvegar fannst mér ótækt, að athuga ekki hvernig færi ef BMW-inn væri settur í sjötta gír.
Ég sveiflaði tækinu yfir á vinstri akgrein og þá varð ekki aftur snúið. Sett í sjötta gír og hraðamælirinn sýndi stöðugt aukinn hraða. Ég lét ekki segjast þó svo setningar eins og "Ég vil benda þér á að þú ert kominn í 120" eða "Er þetta nú ekki að verða alveg nóg?" bærust mér til eyrna með reglulegu millibili.
Í stuttu máli gekk aksturinn glimrandi vel eftir hraðbrautinni, en framundan var síðan það sem þarna er kallað: sveitavegur, sem er sambærilegt við þjóðveg 1 á Íslandi. Allt gekk eftir og ekkert mál reyndist að skella sér af hraðbrautinni yfir á sveitaveginn. Þegar þarna var komið fannst okkur ekki úr vegi, að  æja á einhverjum góðum veitingastað til að skella í okkur eins og einum kaffibolla. Það gekk vel og fyrsta sinni hlýddi ég ekki fyrirmælum GPS tækisins um að aka áfram. Hvíldin var vel þegin og kaffið gott. Vöruflutningabíllinn var löngu horfinn úr baksýnisspeglinum, en þar sem við sátum í makindum við þjóðveginn, kom að því að hann ók framhjá með Berlínarfjölskylduna innanborðs.

Það sem eftir var leiðarinnar til Görlitz gekk hreint ágætlega fyrir utan tvennt:
1. Það lá tré þvert yfir veginn á einum stað. Þessu hafði GPS græjan ekki gert ráð fyrir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá uppgefna aðra leið krafðist hún þess að tekin skyldi U-beygja svo fljótt sem auðið væri og farin sama leið.  Það var ekki fyrr en sú ævintýralega ákvörðun var tekin, að hunsa græjuna alveg og keyra bara einhvern veg, að hún leiðbeindi okkur eftir nýrri leið.
2. fD hafði misreiknað í huga sér þær vegalengdir sem um var að ræða og hafði um það orð.

Við renndum síðan í hlað á Biesnitzerstrasse númer 31, á undan vöruflutningabílnum, sem reyndist hafa þurft að taka á sig lengri krók vegna trésins á veginum.

Nú var sú staða orðin uppi að mér fannst lítið mál að aka bifreið á evrópskum vegum, og var rétt að byrja.

10 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (1)

Það lá fyrir s.l. vetur, að ekki yrði hjá því komist, miðað við tilhögun og skipulag Evrópuferðar okkar fD, að ég æki bíl á evrópskum vegum. Til þessa hef ég komið mér hjá þessu, heldur aldrei verið nauðsyn á, þar sem ferðir hafa verið skipulagðar miðað við engan akstur minn. 
Ég held að ég hafi nú samt alltaf séð fyrir mér, að að þessu hlyti að koma, enda búinn að fá mér nýtt, samevrópskt ökuskírteini fyrir nokkrum árum. Samkvæmt því er mér heimilt að aka risastórum vöruflutningabíl með tengivagn um Evrópu þvera og endilanga, ef ég svo kýs (væri nú gaman að láta á það reyna einhverntíma).
Nú var það, sem sagt uppi, að Berlínarfjölskyldan stefndi á flutning strax eftir tónleikana sem ég er búinn að fjalla um í þrem pistlum. Áfangastaðurinn var bær, austast í Þýskalandi, á landamærunum við Pólland, sem Görlitz kallast, í ríflega tveggja klukkustanda akstursfjarlægð frá Berlín. Berlínarbóndinn hugðist taka á leigu vöruflutningabíl og aka honum sjálfur með búslóðina á áfangastað. Við fD höfðum tekið að okkur að aðstoða eftir mætti við aðgerðina, en þá var strax ljóst, að það yrði ekki pláss fyrir okkur í vöruflutningabílnum, heldur yrðum við að koma okkur á öðrum bíl, með farangur, þangað austur eftir. Ekki var um það að ræða, að fD kærði sig um að sjá um aksturinn, þannig að fyrir lá, með nokkurra mánaða fyrirvara hvert stefndi með málið. Það varð úr, að ég fól Berlínarmanninum að taka á leigu bíl vegna þessa. Ákvað með sjálfum mér, að þetta færi bara einhvernveginn þegar að því kæmi.
Aðspurður hvernig bíl ég vildi leigja, taldi ég nauðsynlegt að hann væri með gott skott til flutninga, kannski jeppi bara, kannski bara Nissan Xtrail - ég hafði heyrt að nýjustu árgerðir af þeim bíl væru nokkuð rúmgóðar (ástæðan var auðvitað ekki sú, að ég ætti slíkan bíl og væri því vanur honum). Það heyrði ég á Berlínarmanninum, að ekki þótti honum valið viturlegt, taldi vélina ekki nógu öfluga fyrir þýskar hraðbrautir, þar sem enginn væri hámarkshraðinn. Hann taldi betra að taka bíl með öfluga vél, sem ætti séns, auk þess sem hann eyddi minna eldsneyti vegna minni snúningshraða vélarinnar. Hvað um það, ákveðið var að taka á leigu Nissan Xtrail.
Ekki ætla ég að fjölyrða um hugrenningar mínar síðustu mánuðina, að því er bílaleigumálið varðar. Margt hugsaði ég, eðlilega og kynnti mér þýskt vegakerfi eftir föngum.


Sá dagur kom, að við komum til Berlínar og þá kom í ljós, að ekki höfðum við fengið Xtrail, eins og óskað hafði verið eftir, heldur kolsvartan jeppa af gerðinni BMW X3 með dísilvél; 6 gíra tryllitæki. Mig grunar nú, að B-maðurinn hafi bara ákveðið að segja mér að hinn hafi ekki verið á lausu. Fyrstu dagana kom ég mér auðveldlega undan því að taka í gripinn, en stundin nálgaðist óðum. Fyrirhugað var að ná í vöruflutningabílinn á sunnudagsmorgni, inn í miðja Berlín. Þá varð þetta ekki umflúið lengur. Ég sá fyrir mér Þjóðverjana hrista höfuð sín af krafti yfir vitleysislegum akstursmáta mínum, en varð þó að viðurkenna að betri tími til að hefja borgaraksturinn væri ekki hægt að hugsa sér.

Sunnudagurinn rann upp og hópur fólks kominn til að bera búslóðina út í vöruflutningabílinn. Ég tók að mér (ekki aðrir valkostir) að aka á bílaleiguna þar sem hann skyldi sóttur.  

Ég hafði, sem forsjáll maður, gripið til ráðstafana sem myndu auðvelda nokkuð þá nýju reynslu, sem hér blasti við.

09 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (3)

......framhald
Tónleikasvæðið
Þegar hér var komið, var einstakri upplifun tónleikanna lokið og þá var ekkert annað en að drífa sig í VIP-mótttökuna, en þar áttum við fD að hafa verið skráð á gestalista.


8. Því héldum við í átt að VIP tjaldinu, sem áður er nefnt og fundum þar í grennd hlið inn á svæði listamannanna. Þar stóðu beljakar og sú til þess að enginn óviðkomandi kæmist inn. Af fyrri reynslu reyndi ég ekki einusinni að halda því fram við þá að við værum á VIP lista. Við ákváðum bara að bíða þarna fyrir utan og sjá hvað það hefði í för með sér. Innan einhverra mínútna birtist dívan Lucia Aliberti, umkringd lífvörðum. Gekk út um hliðið og í átt að sölutjaldi sem þarna var og hóf að árita geisladiska.
Egill Árni, Lucia Aliberti og hljómsveitarstjórinn Hendrik Vestmann
      Skömmu síðar sáum við tenórinn inn um hliðið og í kjölfar ábendinga frá honum breyttist allt viðmót í hliðinu, mennu bukkuðu sig og buðu okkur velkomin inn fyrir, þar sem við síðan fengum að svala þorsta okkar um stund ásamt því að hitta skipuleggjanda tónleikanna, sem hafði það á orði að þetta yrði hreint ekki í síðasta sinn sem hann óskaði eftir samvinnu við soninn. Hér leið nokkur stund, áður er tilkynnt var að nú skyldi gengið til VIP tjaldsins. Sem var gert. Í þeirri prósessíu voru, að sjálfsögðu einsöngvararnir og hljómsveitarstjórinn, ásamt skipuleggjandanum. Við fylgdum þarna með, talsvert útblásin, og töldum okkur heldur betur vera þarna í góðum hópi.
Þegar inn í tjaldið var komið flutti skipuleggjandinn ávarp þar sem hann þakkaði þátttakendum og þeim vara fagnað eins og vera bar.

9. Þá lá leið hópsins (bara hluta hans, reyndar. Tenórinn benti okkur að fylgja með) inn í nokkurskonar VIPVIP hluta VIP tjaldsins. Þar inni var allt skjannahvítt, veggir, stólar, borð og gólf. Þar inni stóðu krásir gestum til boða og fólk tilbúið að hella hverju sem hugurinn girntist í glös gestanna. Þarna hefði maður getað, við eðlilegar aðstæður, belgt sig út, en einhvernveginn var maður hálf lystarlaus eftir adrenalínflæði undanfarinna klukkustunda. Þarna var háborð sem var merkt: ARTISTS, og þar var okkur ætlað, sökum tengsla, að sitja og njóta veitinga.
Myndin sem olli uppnáminu
Allt fallið í ljúfa löð

10. Á einum tímapunkti ákvað ég að taka mynd af tenórnum í þessum hvíta heimi, en það fór harla illa í sópransöngkonuna. Hún benti mér á það, með allmiklum þjósti, að myndatökur væru ekki leyfðar. Þarna var þó ljósmyndari í tjaldinu, sem myndaði í gríð og erg. Tenórinn útskýrði þá fyrir henni, hvers lags var, með þeim afleiðingum að hún skipti algerlega um kúrs og vildi endilega leyfa mér að taka þarna myndir af henni með tenórnum. Þarna skellti hún sér í hlutverk fyrirsætunnar og sýndi samsöngvara sínum ótvíræð blíðuhót.
----------------------------
Viðdvölin í VIP tjaldinu var skemmtileg viðbót við tónleikana, en þar kom að haldið skyldi heim á leið. Ég gerði eins og í bíómyndunum, veifaði hendi, og umsvifalaust renndi leigubifreið að gangstéttarbrúninni. Því næst var ekið til Kurfurstenstrasse í þrumum og eldingum.

07 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (2)

...framhald.

6. Ég hef staðið mig að því gegnum ævina, að vera afskaplega regluhlýðinn maður. Því var það, að ég þurfti talsvert að taka á til að láta verða af því, að beita hreyfimyndafídusnum á EOS550, þar sem við því hafði verið lagt blátt bann. Ég byrjaði smátt, með því að taka upp nokkrar sekúndur, þegar tenórinn okkar gekk inn á sviðið fyrsta sinni. Slökkti síðan snarlega á upptöku þegar arían hófst. Þar sem engar viðvörunarbjöllur fóru af stað, ákvað ég að gera tilraun með að taka upp næstu aríu, að hluta. Byrjaði með því að halda myndvélinni fyrir framan mig eins og ég væri að taka hefðbundna mynd. Fannst þá að fólkinu fyrir aftan mig hlyti að finnast þetta grunsamleg myndataka og því varð upptakan talsvert stutt. Næst reyndi ég þá aðferð sem ég síðan notaði við þær upptökur sem bættust við, að halda vélinni miklu neðar og freista þess þannig að ná stöðugleika. Þetta hafði það í för með sér, að til þess að vita hvort linsan beindist að viðfangsefninu, þurfti ég stöðugt að beina sjónum mínum niður, í stað þess að fylgjast með því sem fram fór á sviðinu. Þar sem oftar en ekki var frammistaða tenórsins með þeim hætti að ekki var um að ræða annað en fylgjast með, var undir hælinn lagt hvort myndavélin beindist að honum á sviðinu. Því var það svo, þegar upp var staðið, að á áhrifamestu augnablikunum beindist linsan um allar trissur, en ekki að því sem henni var ætlað.  Þá fór það auðvitað svo, að þar sem ég var þarna að taka fyrstu hreyfimyndirnar á nýju græjuna, að ég átti í mesta basli með fókusinn.  En hvað um það: Upptökurnar á ég, kolólöglegar, en tek ekki áhættuna af því að setja þær inn á vefinn, af ótta við lögbann og málsókn. Þeir sem hugsanlega vilja líta brot af, óneitanlega stórgóðri, frammistöðu Kvisthyltingsins þarna á sviðinu, verða bara að koma í heimsókn.


7. Það var gert hálftíma hlé á tónleikunum til að gestir gætu vætt kverkarnar. Það reyndist valda enn einum sálarvandanum, með því að ég þurfti að fá höfnun þegar ég freistaði inngöngu í VIP tjaldið, þar sem allt stóð gestum boða án endurgjalds. Við reyndumst ekki vera á neinum lista yfir VIP gesti og útprentaða A4 blaðið frá Íslandi breytti engu þar um. Við hjónakornin þurftum að horfa á eftir danska Kvisthyltingnum og eiginkonu tenórsins inn í VIP tjaldið þar sem sá fyrrnefndi stóð síðan hálftímann á enda og skóflaði í sig kræsingum og hellti í sig ómældu magni af drykkjarvörum af ýmsu tagi. Þetta helgaðist af því, að á miðum þeirra stóð beinlínis að þau væru VIP. Ég skellti mér hinsvegar í langa röð sem beið eftir að fá afgreiddan einn drykk. Það stóð á endum, að þegar hléinu var að ljúka fékk ég afgreiðslu - sjaldan hef ég drukkið drykk af því tagi sem þarna var um að ræða, jafnhratt, enda aðframkominn af þorsta.


-------------------------------------
Eftir því sem á tónleikana leið, gerðu gestir sér betri grein fyrir að tenórinn var ekki bara einhver eldfjallaeyjargaur, heldur fullskapaður stórtenór. Fögnin urðu meiri og meiri eftir því sem á leið og bravóhrópunum ætlaði seint að linna eftir flutninginn á 'O, sole mio'.  Foreldrarnir voru sem í vímu við þetta allt saman, svo mjög, að því er mig varðar, að ég fylgdist ekki nægilega vel með upptökunni, með þeim afleiðingum að myndefnið varð veggur einhversstaðar á bakvið hljómsveitina. Hjóðið komst þó vel til skila.
------------------------------------

Eftir tónleikana tóku síðan við enn frekari ævintýri.


framhald...............

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...