15 janúar, 2011

Góði kallinn



Í fjöldamörg ár hefur birst á okkar heimili, eins og væntanlega flestum í nágrenninu og jafnvel í öllu dreifbýli á Suðurlandi, maður, sem hefur skipt út slökkvitækjum, skipt um og prófað reykskynjara og skammað mann fyrir að vera ekki með fleiri slíka í húsinu. Síðast þegar hann kom, gerði hann ekki athugasemdir við fjölda reykskynjara, bara vegna þess, að hann hafði komið inn hjá mér sektarkennd, sem loks varð til þess, að ég setti upp það sem hann hafði talið vera nauðsynlegt í þeim efnum. Þessi þjónusta hefur verið ókeypis (auðvitað ekki ókeypis, þar sem við greiðum fyrir hana með öðrum samfélagslegum gjöldum, svona rétt eins og við greiðum fyrir RÚV).

Fyrir nokkrum dögum kom bréf frá Brunavörnum Árnessýslu. Flestir lesendur þessarar síðu hafa líklega fengið slíkt bréf einnig.

Kjarninn í því bréfi var, að maður nokkur hefði stofnað fyrirtæki (slökkvitækjaþjónustu) og kært Brunavarnir Árnessýslu fyrir að "vera fyrir hans einkaframtaki" - eins og segir í bréfinu.

Hér er sem sagt um það að ræða, eins og ég skil það, að ef samfélagsleg stofnum veitir einhverja þjónustu, sem einhver vill fá að reka sem einkafyrirtæki, þá skal stofnunin hætta að veita þjónustuna og einkafyrirtækið á að fá bitann, og þyggja þá greiðslu fyrir frá þeim sem nota þjónustuna. Það þekkja allir kvartanir frá einkasjónvarpsstöðvum um skekkta samkeppnisstöðu gagnvart RÚV.

Í bréfinu kemur fram, að sveitarfélögin sem standa að BÁ hafi stofnað einkahlutafélag til að bregðst við kröfum einkaframtaksmannsins. Þetta nýja ehf mun síðan veita sömu þjónustu og áður var veitt, og áfram ókeypis. Það er fagnaðarefni í sjálfu sér. Hinsvegar finnst mér nú ekki líklegt að að nýja einkafyrirtækið muni sætta sig við að einkahlutafélag veiti ókeypis þjónustu. Varðar það ekki við samkeppnislög?

Ég stilli hér saman almannaþjónustu sem við greiðum öll fyrir og einkafyrirtækjum sem fólk velur hvort það greiðir fyrir.

Fólk hefur ýmsar skoðanir á þessu, auðvitað.

Þetta er það sem slökkvitæki og heimsmeistaramót í handknattleik eiga sameiginlegt.

Það læðist að mér sá grunur, eftir framgöngu útvarpsstjórs í handboltamálinu, að hann sé í raun að stuðla að því, meðvitað, að RÚV leggi smám saman upp laupana. Hversvegna var sagt frá úrslitum í leik Íslendinga við Ungverja í gær, sem hluta af íþróttapakkaa í lok frétta, en ekki í fyrstu frétt? Barnalegt og skaðlegt.

Það er þó gott að einhverjir eru að reyna að bregðast við yfirgangi einkaframtaksins (sem er auðvitað harla gott þar sem það á við).

Góði kallinn heldur áfram að stuðla að forvörnum á sunnlenskum heimilum.

Hvurslags árásir eru þetta eiginlega!?

"Bjarni Benediktsson sagði við Sam Watson, staðgengil sendiherra Bandaríkjanna þann ellefta nóvember árið 2009, að andstaða hans við Icesave samninga væri byggð á pólitískum hagsmunum Sjálfstæðisflokksins." (Smugan)

Ég hef alltaf haldið að Bjarni hefði hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Svo bregðast krosstré....

"Á ráðstefnu flokksráðs og formanna félaga sjálfstæðismanna árið 1952 lagði einn fundarmanna til að "sjálfstæðismenn gengju að öðru jöfnu að eiga sjálfstæðiskonur"" (Smugan)

Þetta er góð tillaga og til þess fallin að rækta rétthugsandi fólk í þessu landi. Held nú að þetta sé iðkað talsvert í raun.

Tærður fittings

Það var í janúar á síðasta ári, sem ógæfa dundi yfir í Kvistholti, sem nokkuð rækileg grein var gerð fyrir í fjórum eftirminnlegum færslum undir heitinu JANÚARKRÍSA 1-4.
Það var í gær sem ég fékk símtal, sem ég vildi hreint ekkert fá:
"Hitalögnin í efra plasthúsinu hjá þér er sprungin. Ég var þarna á gangi með hundana og heyrði hávaðann."
Ég þakkaði auðvitað fyrir að hundaeigandinn skyldi láta mig vita af þessu. Settist síðan niður og hugsaði minn gang. Fyrsta hugsunin var auðvitað, eins og venjulega þegar svona tilvik koma upp: Ég vil bara að þetta vandamál hverfi! Sannarlega gerði það það ekki. Mér var nauðugur einn kostur að athuga hvernig staðan var. Það var myrkur, enda komið kvöld í janúar. Þá uppgötvaði ég, maðurinn sem á nánast allt, að ég á ekki vasaljós. Sem betur fer var útihitinn tæpar þrjár gráður í plús og því var það, að ég tók ákvörðun um að fresta málinu, fara bara út og skrúfa fyrir - kíkja svo á málið þegar birti.  Þegar ég kom út heyrði ég, svo ekki varð um villst, að eitthvað hafði sprungið í efra plasthúsinu.  Ég stóð fast við fyrri ákvörðun mína og fór niður í gróðurhús þar sem hægt er að skrúfa fyrir hita í bæði plasthúsin. Það gerði ég síðan og svo sem ekkert meira um það að segja. Í skímunni frá götuljósum fikraði ég mig síðan að efra plasthúsinu, en út úr því gaus mikill gufumökkur. Þetta leit ekki vel út. Ég stóð við fyrri ákvörðun mína um frestun frekari aðgerða. Fór aftur inn í hlýjuna og á vedur.is þar sem ég fékk von mína uppfyllta um frostlausa nótt.
Í hönd fór síðan rólegheita nótt þar sem iðkaður var, með réttu eða röngu, svefn hinna réttlátu.

Þegar fór að birta aftur reikaði hugurinn í plasthúsið. Hvað skyldi bíða mín þar? Var kannski allt meira og minna frostsprungið? Hvernig færi ég að því við slíkar aðstæður, að hleypa bara hita á neðra plasthúsið?

Það varð hreinlega ekki undan því vikist að rölta niðureftir og öðlast þannig vitneskju um það sem gerst  hafði. Í gúmmískóna, vopnaður myndavél (augljóslega myndi hún ekki gera neitt gagn, eins og hver maður getur sagt sér).

Af ótrúlegri yfirvegun lagði ég leið mína inn í efra plasthúsið, sem bara var þarna í sakleysi sínu eins og ekkert hefði skeð. Það sem við blasti þegar inn var komið hafði tvennskonar áhrif - aldeilis af báðum pólum mannlegra tilfinninga; önnur kallaði fram í hugann (auðvitað ekki upphátt) ANDSKOTINN SJÁLFUR!, en hin framreiddi hugsunina GUÐI SÉ LOF!

Fyrir 15 árum voru plasthúsin byggð og þá var var plastinu á þeim gefinn 5 ára líftími, en vegna veðurfars í Laugarási sér ekki á því enn. Í húsin var sett miðstöð - af vanefnum, og allir vita að að því hlýtur að koma að mannanna verk gefa sig. Þarna hafði ég, sem sagt sett hitalögn þannig, að lagt var í plasti að húsunum og plastið síðan tengt við hitarörin inni í húsunum. Það var á þeim samskeytum sem  svart hné hafði gefið sig (svart, þýðir að það er ekki galvaniserað og getur því ryðgað), hafði orðið tæringunni að bráð. Á þetta hné var komið gat sem var tæpur fersentimetri að stærð.

Ég tók myndir af hnénu (hversvegna, verður hver að svara fyrir sig). Að því búnu fór ég aftur inn og átti símtal við hG sem hefur haft garðyrkjuhluta Kvistholts á leigu undanfarin ár. Hann kom síðan. Leit á aðstæður. Fór síðan og kom aftur með fittings (fittings, fyrir þá sem ekki vita, eru allskyns bútar með skrúfgangi. Þarna getur verið um að ræða hné, té, skrúfbúta, minnkanir, stækkanir o.þ.u.l.). "Ég geri bara við þetta til bráðabirgða", sagði hG. Með því var mér auðvitað stórlétt. Engin stórframkvæmd framundan. Allt í gúddí, nema auðvitað enginn handbolti í sjónvarpinu í kvöld!

11 janúar, 2011

Nú árið er liðið

Á þessum degi fagnar þessi ungi maður því, að fyrsta ári lífsins er lokið og að í hönd fer ár númer tvö. Þetta er ekki svo lítill áfangi á þessu æviskeiði, annað en með mig, sem þarf orðið að reikna út hver staða mín er. Yfir hálendið flyt ég honum árnaðaróskir.

09 janúar, 2011

Er ég að verða úr leik?

Skömmu fyrir áramótin fékk ég bréf. 
Auðvitað er það ekki merkilegt í sjálfu sér. Bréf fær maður með reikningum fyrir veitta þjónustu eða yfirlitum yfir fjármálalega stöðu, nú, eða eins og í síðasta mánuði, með jólakortum. 
Þetta bréf skar sig nokkuð úr bréfaflórunni. Annars vegar var það ekki með glugga en merkt Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hinsvegar var nafn mitt og heimilisfang handritað utan á umslagið.

Eðlillega velti ég fyrir mér hvað svona bréf gæti hugsanlega innihaldið. Var verið að tilkynna mér um löginheimtu vegna vangoldinna  lífeyrisgreiðslna? Var þetta hótun um að setja ógreidd skuld í innheimtu?
Eðlilega opnaði ég þetta bréf á undan öðrum, þar sem innihald hinna virtist í samræmi við það sem ég hafði átt von á.

Upp úr umslaginu komu blöð með þéttskrifuðum texta, eyðublaði og svarumslagi. Auðvitað byrjaði ég á að lesa bréfið og þar er ekki laust við að fyrstu viðbrögð mín hafi verið svipuð og þeir lýsa sem hafa komist í bráða lífshættu, en verið til frásagnar um upplifun sína. Æviskeiðið skaust hjá með ógnarhraða með vangaveltum (á ógnarhraða líka) um hvernig ég hafi gengið götuna fram eftir veg. Var nú svona komið? Engu verður nú breytt. Framtíðin teiknuð upp af hinum óskeikula arkitekt mannlegs lífs.

MEMENTO MORI, enn á ný. Búinn að uppfylla formlegar kröfur sem gerðar eru til mannkyns um að fjölga sér og uppfylla jörðina. Búinn að fá að upplifa tilfinninguna sem í því felst að verða afi. Laus við skuldaklafa og blómaskeiðið liðið. Á lygnum sjó, að mestu í sátt við guð og menn. Ekkert eftir nema áfallalaus sigling til hafnar. Kannski eftir að skipta um bíl einu sinni eða tvisvar og hlusta á sunnudagsmessur.

Fyrirsögn bréfsins er þessi:
VAL MILLI 32 ÁRA REGLU OG 95 ÁRA REGLU.
Að öðru leyti fer bréfið í að útskýra muninn á þessum tveim reglum, í lokin er komið að erindinu:
Miðað við að ég haldi áfram að greiða í lífeyrissjóð þá get ég hafið töku lífeyris (ELLI-lífeyris) í mars árið 2014, samkvæmt 95 ára reglunni, en við 64 ára aldur skv. þeirri 32 ára.  Ég get, með öðrum orðum, lokið ævistarfinu í upphafi árs árið 2014 - eftir 3 ár. Blöskrar nokkrum viðbrögð mín í ljósi þessa?
Eyðublaðið er mér ætlað að fylla út, setja í svarumslagið og setja ófrímerkt í póst.

Ég velkist ekki í vafa um svar mitt.

Hvað sem líður árafjöld fer ég ekki ofan af því lífsviðhorfi mínu, að maður er ekki eldri en honum finnst hann vera. Það er enn margs að njóta og margt að gera. Þetta er rétt að byrja.


07 janúar, 2011

Enn handboltapirringur

Ég veit að það er ekki til neins að tjá sig í þá veru, að það eigi skilyrðislaust að sýna landsleiki í opinni dagskrá í sjónvarpi - með þeim rökum helstum, að

a. skattgreiðendur taka þátt í að halda úti landsliðum í ýmsum greinum og að af þeim sökum sé það ekki rétt að þeir sem kjósa að vera ekki áskrifendur að einkareknum sjónvarpsstöðum eigi þess ekki kost að fylgjast með landsleikjum.

b. við erum ein þjóð (viljum allavega stundum halda því fram) og eigum því að geta notið þess sem getur sameinað okkur, saman, án tillits til efnahags eða skoðana að öðru leyti.

c. það er mikilvægara nú, en nokkurntíma, að efnahagur ráði því ekki hvort okkur gefst kostur á að fylgja eftir fyrirbærinu sem okkur er sagt að sé "strákarnir okkar".

Maður er alltaf að vona að fjari undan þeirri hugsjón, að það eigi að vera fjármagnið sem ræður öllum hlutum, en það virðist borin von. Sem skattgreiðandi (einn af ekki nógu mörgum reyndar) tel ég, að ef þessi þáttur íþróttanna á að ganga fjármagninu á hönd með þessum hætti, þurfi að taka opinberar styrkveitingar í grundvallarendurskoðun. Það hlýtur að vera eðlilegt að þeir sem borga njóti, og þeir sem borga ekki njóti ekki.

Það fer tvennum sögum af því hve margir af þeim leikjum sem um er að ræða verða sýndir í opinni dagskrá - sumsstaðar eru þeir tveir og annarsstaðar þrír. Ef við sættumst á þetta, þá stöndum við enn frammi fyrir því að þeir sem taka sjónvarp heim til sín í gegnum loftnet, hafa ekki þann möguleika. Ég ímynda mér að það eigi t.d. við um margt eldra fólk. Mér kemur í hug gamall maður mér nákominn, sem hefur fylgst af miklum áhuga með handboltalandsliðinu, en þess ekki kost nú að sjá einn einast leik.

Þetta er dapurlegt.

01 janúar, 2011

Síðustu skrefin

Enn á ný lýkur áfanga í manngerðu tímatalinu. Við slík tímamót er við hæfi að þakka ykkur sem þetta lesið, lesturinn á árinu og vonast til þess að mér auðnist að halda einhverjum dampi í þessum skrifum áfram - aðallega auðvitað fyrir sjálfan mig. Það má með sanni segja, að ég gæti skrifað misspekingslegar færslur mínar með penna í þar til gerða kompu, en það er bara hreint ekki jafn skemmtilegt. Því mun ég halda áfram á þessum slóðum enn um sinn. Ég verð þó að viðurkenna, að þörfin til þess arna kemur og fer. Um þessar mundir er hún ekki sérlega mikil, ekki síst vegna þess að athygli mín hefur verið á öðrum slóðum.

Við, afinn og amman, höfum notið þess vera með nánast fullt hús af okkar fólki um jól og áramót. Þar á meðal er pilturinn Gabríel Freyr, sem senn fyllir fyrsta árið sitt. Eins og nærri má geta situr hann ekki aðgerðalaus stóran hluta vökutíma síns, heldur bræðir hörðustu hjörtu með léttri lund og uppátækjum. Við fD fengum að gæta kappans hluta úr degi og kvöldi meðan foreldrarnir skelltu sér út á lífið. Það má segja að um hafi verið að ræða fullt starf fyrir tvo að sjá til þess að færi samkvæmt settum reglum. Meira að segja það dugði ekki til því pjakkurinn var vakandi þegar foreldrarnir komu aftur upp úr miðnættinu. Þar sem við hefðum átt að setja hnefann í borðið og viðhalda uppeldinu fór allt úr böndum með því að það mistókst að halda ströngum andlitssvip gagnvart grallaralegum uppátækjum. Þetta hefur verð harla ánægjulegt, allt saman.

---------------------------------

Mér þótti ekki leiðinlegt undir lok ársins, að fregna af niðurstöðum rannsóknar, sem reyndar verða birtar nú eftir áramótin, sem staðfesta það sem ég hef haldið fram (aðallega auðvitað með sjálfum mér) svo lengi sem ég man eftir: Þeir sem teljast til svokallaðra hægri manna hafa til að bera þætti í heilanum sem greina þá frá þeim sem aðhyllast svokallaðar vinstri skoðanir. Mandlan (amygdala) í hægri mönnum mun vera stærri. Þessi hluti heilans tengist ótta og tilfinningum. Þessar niðurstöður skýra margt, til dæmis hvernig hræðsluáróður virkar betur á suma en aðra. Samkvæmt þessum niðurstöðum láta hægri menn stjórnast af ótta við vondu kallana og einföldum, skýrum skilaboðum sem hafa tilfinningalegar skírskotanir frekar en rökrænar.  Hér er komin, í mínum huga, skýringin á því hversvegna, nánast undantekningalaust, fólk sem segist vera ópólitískt, er í raun hægri sinnað. Skilaboð hægri manna, byggjast oftast á tilfinningum:  "Hann er svo myndarlegur", "hann er af svo góðum ættum". Með sama hætti höfða skilaboð hægri manna um andstæðinga í stjórnmálum til óttans og tilfinninganna: "Hvað er eiginlega að fólki sem kýs svona rugludalla?" "Nú er í gangi viðtal kjána við rugludall.", "Sjálf minnir Jóhanna dálítið á Brezhnev gamla sem lenti í því að ræðuritarinn gleymdi að taka afritið sem hafði verið á bakvið kalkipappírinn.(rússagrýlan, gamla)".
Já það verður gaman að sjá niðurstöðurnar úr þessari könnun.

--------------------------

Megi nýtt nýtt ár standa undir þeim væntingum sem þú hefur til lífsins og tilverunnar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...