15 janúar, 2011

Góði kallinn



Í fjöldamörg ár hefur birst á okkar heimili, eins og væntanlega flestum í nágrenninu og jafnvel í öllu dreifbýli á Suðurlandi, maður, sem hefur skipt út slökkvitækjum, skipt um og prófað reykskynjara og skammað mann fyrir að vera ekki með fleiri slíka í húsinu. Síðast þegar hann kom, gerði hann ekki athugasemdir við fjölda reykskynjara, bara vegna þess, að hann hafði komið inn hjá mér sektarkennd, sem loks varð til þess, að ég setti upp það sem hann hafði talið vera nauðsynlegt í þeim efnum. Þessi þjónusta hefur verið ókeypis (auðvitað ekki ókeypis, þar sem við greiðum fyrir hana með öðrum samfélagslegum gjöldum, svona rétt eins og við greiðum fyrir RÚV).

Fyrir nokkrum dögum kom bréf frá Brunavörnum Árnessýslu. Flestir lesendur þessarar síðu hafa líklega fengið slíkt bréf einnig.

Kjarninn í því bréfi var, að maður nokkur hefði stofnað fyrirtæki (slökkvitækjaþjónustu) og kært Brunavarnir Árnessýslu fyrir að "vera fyrir hans einkaframtaki" - eins og segir í bréfinu.

Hér er sem sagt um það að ræða, eins og ég skil það, að ef samfélagsleg stofnum veitir einhverja þjónustu, sem einhver vill fá að reka sem einkafyrirtæki, þá skal stofnunin hætta að veita þjónustuna og einkafyrirtækið á að fá bitann, og þyggja þá greiðslu fyrir frá þeim sem nota þjónustuna. Það þekkja allir kvartanir frá einkasjónvarpsstöðvum um skekkta samkeppnisstöðu gagnvart RÚV.

Í bréfinu kemur fram, að sveitarfélögin sem standa að BÁ hafi stofnað einkahlutafélag til að bregðst við kröfum einkaframtaksmannsins. Þetta nýja ehf mun síðan veita sömu þjónustu og áður var veitt, og áfram ókeypis. Það er fagnaðarefni í sjálfu sér. Hinsvegar finnst mér nú ekki líklegt að að nýja einkafyrirtækið muni sætta sig við að einkahlutafélag veiti ókeypis þjónustu. Varðar það ekki við samkeppnislög?

Ég stilli hér saman almannaþjónustu sem við greiðum öll fyrir og einkafyrirtækjum sem fólk velur hvort það greiðir fyrir.

Fólk hefur ýmsar skoðanir á þessu, auðvitað.

Þetta er það sem slökkvitæki og heimsmeistaramót í handknattleik eiga sameiginlegt.

Það læðist að mér sá grunur, eftir framgöngu útvarpsstjórs í handboltamálinu, að hann sé í raun að stuðla að því, meðvitað, að RÚV leggi smám saman upp laupana. Hversvegna var sagt frá úrslitum í leik Íslendinga við Ungverja í gær, sem hluta af íþróttapakkaa í lok frétta, en ekki í fyrstu frétt? Barnalegt og skaðlegt.

Það er þó gott að einhverjir eru að reyna að bregðast við yfirgangi einkaframtaksins (sem er auðvitað harla gott þar sem það á við).

Góði kallinn heldur áfram að stuðla að forvörnum á sunnlenskum heimilum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...