05 maí, 2011

Auðvitað ekki konum að kenna

Það féll ekki í frjóan jarðveg á mínum vinnustað, í umræðum um það hvort líkur væru á því að kona yrði kosin til embættis vígslubiskups í Skálholti, þegar ég varpaði fram þeirri hófstilltu athugasemd, að á þegar konur fara að láta að sér kveða í einhverri starfsstétt þá blasi hnignunin ein við; launakjör versna, virðing dalar og körlum fækkar.
Í þessu samhengi tók ég dæmi af kennarastéttinni, sem hefur gengið í gegnum þetta ferli með afgerandi hætti á þeim tíma sem ég hef komið þar við.
Afleiðingar kvennavæðingar starfsstétta hafa óhjákvæmilega í för með sér, að kvenlæg gildi verða áhrifameiri en áður var.
Verndandi hönd móðurinnar, móðurástin, móðurleg umhyggjan, móðurleg elskusemin, allt frá fæðingu til tvítugs, að lágmarki, setur óhjákvæmilega (líklega (svona til að hafa vaðið fyrir neðan mig)) mark sitt á þá sem njóta, eða fyrir verða.
Með því að andlegir leiðtogar þjóðarinnar eru nú sem óðast að verða að meirihluta konur, stefnir í að við munum fá í síauknum mæli að njóta alls þessa móður- eitthvað sem ég taldi upp hér að ofan, allt til grafar.

Mér fyndist það afskaplega verðugt verkefni fyrir t.d. doktorsnema, að rannska samhengið milli kvenvæðingar uppeldisstétta og prestastéttar og þróunar í þjóðfélags- og samfélagsmálum, t.d. síðastliðin 50 ár.

Er það kannski svo, að skortur á eðlilegum fyrirmyndum pilta, hafi rekið þá út á brautir sem leiddu til hruns fjármálakerfisins á Íslandi? Voru þetta kannski bara uppreisnartilburðir hjá strákunum, byggðir á fyrirmyndum úr heimi afreksíþrótta, amerískra hasamynda eða tölvuleikja?

Þegar ég hef gert tilraun til að vekja athygli á þessum spurningum mínum, eins og í hópi samstarfsmanna, hef ég lítið uppskorið nema hávaða, enda hafa flestir sem þar tjá sig um þessi mál fengið sitt uppeldi í kvennafansi.

Samt þætti mér gaman að fá einhver svör við þessu, þ.m.t. hvort við höfum gengið til góðs, götuna fram eftir veg.

Ef einhver reiðist við lesturinn þá áttar hann sig ekki á því hvert ég er að fara. Nú, þá verður bara svo að vera.

02 maí, 2011

Hvað var O. Brynjar Þórhallur?

Ég biðst afsökunar á að nota svona ruglingslega fyrirsögn. Sennilega er hér bara um að ræða rugl í mér, en ég held að framhaldið skýri hvað um er að ræða.

Í morgun bárust fréttir af því, eftir öllum hugsanlegum leiðum, að austurlandabúinn og hryðjuverkamaðurinn O.B.L. væri allur.

Í kjölfarið héldu fréttir af þessum atburði áfram í allan dag og enn er ekki talað um neitt frekar, nema þá brotthvarf annarrar lífveru vestur á fjörðum.

Það sem ég velti fyrir mér í öllu þessu fréttaflóði er orðnotkun: Hvað var gert við O.B.L.?

Var hann drepinn, veginn, aflífaður, tekinn af lífi, myrtur, felldur eða deyddur?
Var honum banað, eytt, sálgað, fargað eða stútað?

Það má velta þessu fyrir sér - orðavalið ræðst líklega af viðhorfum til viðfangsins/verksins/verknaðarins.

Þessara sömu spurninga má spyrja í tengslum við litla, fallega óarga/rándýrið sem tapaði lífinu í dag.

Í fréttum var talað um hræ dýrsins. Auðvitað er ekki hægt að tala um lík þess, en má ekki tala um skrokk?

Hvaða orð myndum við nota um jarðneskar leifar O.B.L.?

Það er nú svo.


24 apríl, 2011

Afleiðingar þess að taka frumkvæði

"Ef þú ætlar að gera þetta þá þarftu að fara að taka brauðið úr kistunni" sagði fD upp úr hádeginu.

Undanfari þessara orða er orðinn talsvert langur.

Mér hafa gegnum tíðina þótt brauðtertur nokkuð góðar við hátíðleg tækifæri. Ég hefði þó vilja sjá meiri þróun á þessu sviði í veislum, en svo lengi sem ég man eftir mér hafa bara verið á borðum tvær tegundir: þessi með rækjunum og þessi með skinkunni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það hlyti að vera hægt að búa til góðar brauðtertur sem væru uppbyggðar með einhverjum öðrum hætti, en ég hef nú ekki aðhafst neitt það sem yki líkur á að ég fengi að bragða eitthvert slíkt góðgæti - fyrr en í páskainnkaupaferðinni.

Þarna vorum við á ferð um stórlágvöruverðsverslunina. Skyndilega bar fyrir augu mér nýbakað brauðtertubrauð og eftir að hafa borið kaup á því lítillega undir fD með ekkert sérlega neikvæðum viðbrögðum, ákvað ég að skella einu í körfuna. Ég vissi það, reyndur maðurinn, að með þeirri aðgerð var verðandi brauðterta alfarið á mína ábyrgð. Því var það að ég hélt áfram brauðtertuhugsuninni:


"Ég er að spá í að hafa eitthvað óvenjulegt í henni."
"Já, þú ræður því bara." (enda er þetta þín brauðterta)

Með þetta í farteskinu fór ég að skoða mig um í versluninni í leit að óvenjulegum brauðtertugrunnefnum: Þarna fann ég rauðrófur, radísur, sveppi, papriku og til að hafa kjötmeti með, valdi ég skinku, sem er reyndar dálítið stílbrot miðað við þá stefnu sem ég lagði upp með. Ég reiknaði með, að að öðru leyti myndi ég finna annað sem til þyrfti þegar þar að kæmi.

Já, við áminninguna sem sjá má efst skellti ég mér auðvitað strax í að ná í brauðið í frystinn, bjó helminginn undir þiðnun, en pakkaði hinum hlutanum aftur í frostið. Svo þiðnaði brauðið á meðan ég tók mig til við að undirbúa hráefnið. Ég átti auðvitað aldrei von á öðru en að það yrði kökusneið (piece of cake) að sneiða efnið niður í litla teninga svo auðvelt yrði að skera kökuna. Allt gekk það eftir. Það var bara til öryggis, að ég spurði:


"Kva, blandar maður þessu svo bara saman við mæjónesið áður en það er sett á brauðið?"
"Já, það er auðveldara að dreifa því þannig." hljóðaði svarið.

Þetta var eina spurningin sem ég varpaði fram í öllu ferlinu.


Ég hrærði öllum teningunum saman við olíusósuna og bætti lítilsháttar mjólk út í, annarsvegar til að taka mestu skerpuna út því og hinsvegar til að blandan yrði auðvinnanlegri. Vegna rauðrófunnar varð úr þessu sérlega fögur, bleik blanda, sem ég smurði á neðsta brauðlagið, setta því næst næsta brauðlagið ofan á og dreifði síðan afgangi blöndunnar þar á, og setti loks þriðja brauðlagið efst. Þessu næst smurði ég brauðtertuna með léttmæjónesi og skreytti eftir kúnstarinnar reglum, "rustic style".

Ég þarf auðvitað ekki að segja frá því, en ég veit, áður en ég smakka þessi nýju brauðtertutegund, að hér er á ferðinni nýjung, sem ég er sannfærður um að mun ná fótfestu í veislum framtíðar.

عيد الفصح Велигден อีสเตอร์ יסטער

21 apríl, 2011

Það sem er, en er samt ekki

Þessi mynd fD felur kannski í sér tilvísun í þennan tíma árs. Það er farið að örla á
grænum lit, en enn er þó nokkuð í land. Þarna er jafnvel einstaka snemmsprottið blóm, 
vætan er að byrja að hafa áhrif á það sem koma mun. 
Er eðlan að reyna að koma í vegfyrir framrás vorsins,eða er hún þarna til að örva og hvetja? 
Kannski er hún táknmynd þjóðarsálarinnar þessi árin. Hver veit.

Sól felur sig vissulega á bak við skýjafjöld,
en ég veit hún er þarna og það er nóg.
Bleytuslabbinu get ég svo sem bölvað,
en veit að skúrir í apríl boða blómin í maí.

Það er mér alveg ljóst, að svona værðarvæll
er ekki alveg það sem ég þykist standa fyrir,
en líklegast er allt í lagi, svona við og við
að láta eftir sér að búa til þessi hughrif í sjálfum sér.

Þó að orrustur séu nú háðar um völd og fé
bæði í bakherbergjum og háreistum sölum,
er miklvægt að leggja hatur og vanþóknun 
til hliðar svona dag og dag, eða stund og stund.

Sannlega fylgir oft annatími hvíldardögum;
verkefnabunki, sem minnkar eiginlega aldrei.
Það má ekki láta það sem framundan skyggja á
það sem er hér og nú, heldur njóta stundarinnar.

Hvernig sem allt veltist þá fer það einhvernveginn
þó maður telji oft að svo verði ekki. 
Bak við skýin er alltaf sólarhnötturinn
og bíður þess að skýin vinni sitt þarfa verk.

Birtist síðan í samræmi við spár veðurfræðinga
og baðar regnvotan gróður lífsvekjandi ljósi.

Megi komandi sumar verða þolinmóðum lesendum allt það sem þeir vilja að fylgi þeim árstíma. 
Þakkir sendi ég þeim sem litið hafa inn á liðnum vetri.

20 apríl, 2011

Ég held að nú sé þetta farið að keyra úr hófi

Jæja, þá er hafin söfnun nafna til að fá Bessastaðamanninn til að setja ný fjölmiðlalög í þjóðaratkvæði. Í því samhengi velti ég því fyrir mér, enn á ný, hvort þetta sé nú bara ekki orðið algert bull. 

Auðvitað er mér það ljóst, eins og flestum, að meginástæður allra þessara krafna um að "þjóðin" fái að kveða upp úrskurð sinn, liggja í þeirri staðreynd, að stjórnmálaaflið, sem gekk svo fram af þjóðinni um árið, þolir ekki að meirihluti Alþingis geti sett lög í landinu, eins og hann er kjörinn til. Valdaleysið er farið að valda því að öllum mögulegum meðulum er beitt. Það eru til nægir peningar í þeim ranni til að koma málstaðnum á framfæri og fjölmiðlarnir eru flestir opnir fyrir sensasjón.

Nú eru settar upp vefsíður til stuðnings málum, eða til að mótmæla málum. Síðan hjálpa fjölmiðlarnir, væntanlega ókeypis í frétta- og umræðuþáttum, við að auglýsa nafnasöfnunina, og sakleysingjarnir, algerlega ábyrgðarlausir og illa upplýstir, hlaupa til og skrá nafn sitt án þess að vita í raun um hvað málið snýst.

Ég tók mig til áðan og renndi í gegnum þessi nýju fjölmiðlalög og velti fyrir mér, við hverja greinina á fætur annarri, hve margir þeir væru, af þeim þrjúþúsund og eitthvað sem þegar hafa skrifað undir, sem hefðu lesið það sem þarna stendur, hvað þá skilið það þannig að þeir gætu tekið upplýsta afstöðu. Ég velti einnig fyrir mér hversvegna þeir sem ekki höfðu lesið lögin léðu undirskriftasöfnuninni nafn sitt yfirleitt. Hvað er það eiginlega sem stjórnar hegðun af þessu tagi?  Það er rannsóknarefni.

Mér finnst nóg komið af þessari vitleysu allri saman.

Hvað um það, í einni grein laganna er fjallað um takmörkun á einkaréttindum yfir myndefni. Greinin er hér fyrir neðan. Ég feitletra og lita þann hluta hennar sem mér er mjög þóknanlegur, að því uundanskildu, auðvitað, að þarna virðist allt vera opið: 
    a. Það er heimilt að ákveða í reglugerð - ekki skylt.
    b.Viðburðir sem eru taldir hafa - hver  fær það vald nákvæmlega að telja það?
    c....eða seinkuðum útsendingum - bíddu nú við - ekki vil ég fara að horfa á handboltalandsleikina í SEINKUÐUM útsendingum!

Það er reyndar margt annað í þessari grein sem mér finnst óþarflega opið, en ég hef ekki í hyggju að fara á einhverja vefsíðu til að skrá nafnið mitt í hóp þeirra sem kalla eftir frekari skerðingu á því löggjafarvaldi sem Alþingi er falið.

Takmörkun á einkaréttindum yfir myndefni.
48. gr.
Aðgangur almennings að myndmiðlun frá þýðingarmiklum viðburðum.
    Heimilt er að ákveða í reglugerð að einkarétt fjölmiðlaveitu til myndmiðlunar frá innlendum og erlendum viðburðum sem taldir eru hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu sé einungis heimilt að nýta á þann hátt að meginhluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með viðkomandi viðburðum í beinum eða seinkuðum útsendingum án sérstaks endurgjalds. Í reglugerðinni skal vera tæmandi og nákvæm skrá um þá viðburði sem ákvörðun er ætlað að taka til, og skal ákvörðun um skrána tekin með góðum fyrirvara. Í reglugerð skulu enn fremur vera ákvæði um það hvort hinir tilteknu viðburðir skuli sýndir í heild eða að hluta í beinum útsendingum, eða í heild eða að hluta í seinkuðum útsendingum, ef það telst nauðsynlegt eða hagfellt vegna þarfa almennings, sem og önnur atriði sem nauðsynlegt þykir að kveða á um.

18 apríl, 2011

Jákvætt viðhorf


Ekki skil ég í því fólki sem bölvar því að enn skuli snjóa - það sé kominn miður apríl og vorblíða eigi að vera farin að einkenna veðurfarið.
Þessu er ég ósammála að ýmsu leyti.
Vorinu fylgir ýmislegt sem mér finnst að geti verið gott að eiga inni til síðari tíma. Hér má til dæmis nefna það sem ég lét út úr mér í dag:


"Og ég sem var búinn að hugsa mér að fara að klippa trjágróðurinn, Æ, æ:"

Viðbrögð fD voru þessi:


"Já, það er nú lágmarkið að það sé ekki snjór. Það er bara spáð svona fram yfir páska!"

Já, blessaður snjórinn.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...