"Ef þú ætlar að gera þetta þá þarftu að fara að taka brauðið úr kistunni" sagði fD upp úr hádeginu.
Undanfari þessara orða er orðinn talsvert langur.
Mér hafa gegnum tíðina þótt brauðtertur nokkuð góðar við hátíðleg tækifæri. Ég hefði þó vilja sjá meiri þróun á þessu sviði í veislum, en svo lengi sem ég man eftir mér hafa bara verið á borðum tvær tegundir: þessi með rækjunum og þessi með skinkunni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það hlyti að vera hægt að búa til góðar brauðtertur sem væru uppbyggðar með einhverjum öðrum hætti, en ég hef nú ekki aðhafst neitt það sem yki líkur á að ég fengi að bragða eitthvert slíkt góðgæti - fyrr en í páskainnkaupaferðinni.
Þarna vorum við á ferð um stórlágvöruverðsverslunina. Skyndilega bar fyrir augu mér nýbakað brauðtertubrauð og eftir að hafa borið kaup á því lítillega undir fD með ekkert sérlega neikvæðum viðbrögðum, ákvað ég að skella einu í körfuna. Ég vissi það, reyndur maðurinn, að með þeirri aðgerð var verðandi brauðterta alfarið á mína ábyrgð. Því var það að ég hélt áfram brauðtertuhugsuninni:
"Ég er að spá í að hafa eitthvað óvenjulegt í henni."
"Já, þú ræður því bara." (enda er þetta þín brauðterta)
Með þetta í farteskinu fór ég að skoða mig um í versluninni í leit að óvenjulegum brauðtertugrunnefnum: Þarna fann ég rauðrófur, radísur, sveppi, papriku og til að hafa kjötmeti með, valdi ég skinku, sem er reyndar dálítið stílbrot miðað við þá stefnu sem ég lagði upp með. Ég reiknaði með, að að öðru leyti myndi ég finna annað sem til þyrfti þegar þar að kæmi.
Já, við áminninguna sem sjá má efst skellti ég mér auðvitað strax í að ná í brauðið í frystinn, bjó helminginn undir þiðnun, en pakkaði hinum hlutanum aftur í frostið. Svo þiðnaði brauðið á meðan ég tók mig til við að undirbúa hráefnið. Ég átti auðvitað aldrei von á öðru en að það yrði kökusneið (piece of cake) að sneiða efnið niður í litla teninga svo auðvelt yrði að skera kökuna. Allt gekk það eftir. Það var bara til öryggis, að ég spurði:
"Kva, blandar maður þessu svo bara saman við mæjónesið áður en það er sett á brauðið?"
"Já, það er auðveldara að dreifa því þannig." hljóðaði svarið.
Þetta var eina spurningin sem ég varpaði fram í öllu ferlinu.
Ég hrærði öllum teningunum saman við olíusósuna og bætti lítilsháttar mjólk út í, annarsvegar til að taka mestu skerpuna út því og hinsvegar til að blandan yrði auðvinnanlegri. Vegna rauðrófunnar varð úr þessu sérlega fögur, bleik blanda, sem ég smurði á neðsta brauðlagið, setta því næst næsta brauðlagið ofan á og dreifði síðan afgangi blöndunnar þar á, og setti loks þriðja brauðlagið efst. Þessu næst smurði ég brauðtertuna með léttmæjónesi og skreytti eftir kúnstarinnar reglum, "rustic style".
Ég þarf auðvitað ekki að segja frá því, en ég veit, áður en ég smakka þessi nýju brauðtertutegund, að hér er á ferðinni nýjung, sem ég er sannfærður um að mun ná fótfestu í veislum framtíðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Radísur klýfur og rauðbeður sker
SvaraEyðameð rifní'u af lauk og svo skinku
í tómataferli töluvert fer
- hann tæplega sýndi hér linku.
Og bleiklitað mæjónið borið var á
þetta brauðið sem lofaði góðu;
rustic var stíllinn er reis ofan á
- hann reikað' í sælkeramóðu.
Hirðkveðill yrkir um brauðtertu sem hann fær ekki að smakka:(
Lítur vel út, væri áhugavert að fá að bragða á þessu :)
SvaraEyðaEf ekki hefði verið almenn ofátstíð, hefði manni auðnast að njóta dýrðarinnar enn betur.
SvaraEyða