05 maí, 2011

Auðvitað ekki konum að kenna

Það féll ekki í frjóan jarðveg á mínum vinnustað, í umræðum um það hvort líkur væru á því að kona yrði kosin til embættis vígslubiskups í Skálholti, þegar ég varpaði fram þeirri hófstilltu athugasemd, að á þegar konur fara að láta að sér kveða í einhverri starfsstétt þá blasi hnignunin ein við; launakjör versna, virðing dalar og körlum fækkar.
Í þessu samhengi tók ég dæmi af kennarastéttinni, sem hefur gengið í gegnum þetta ferli með afgerandi hætti á þeim tíma sem ég hef komið þar við.
Afleiðingar kvennavæðingar starfsstétta hafa óhjákvæmilega í för með sér, að kvenlæg gildi verða áhrifameiri en áður var.
Verndandi hönd móðurinnar, móðurástin, móðurleg umhyggjan, móðurleg elskusemin, allt frá fæðingu til tvítugs, að lágmarki, setur óhjákvæmilega (líklega (svona til að hafa vaðið fyrir neðan mig)) mark sitt á þá sem njóta, eða fyrir verða.
Með því að andlegir leiðtogar þjóðarinnar eru nú sem óðast að verða að meirihluta konur, stefnir í að við munum fá í síauknum mæli að njóta alls þessa móður- eitthvað sem ég taldi upp hér að ofan, allt til grafar.

Mér fyndist það afskaplega verðugt verkefni fyrir t.d. doktorsnema, að rannska samhengið milli kvenvæðingar uppeldisstétta og prestastéttar og þróunar í þjóðfélags- og samfélagsmálum, t.d. síðastliðin 50 ár.

Er það kannski svo, að skortur á eðlilegum fyrirmyndum pilta, hafi rekið þá út á brautir sem leiddu til hruns fjármálakerfisins á Íslandi? Voru þetta kannski bara uppreisnartilburðir hjá strákunum, byggðir á fyrirmyndum úr heimi afreksíþrótta, amerískra hasamynda eða tölvuleikja?

Þegar ég hef gert tilraun til að vekja athygli á þessum spurningum mínum, eins og í hópi samstarfsmanna, hef ég lítið uppskorið nema hávaða, enda hafa flestir sem þar tjá sig um þessi mál fengið sitt uppeldi í kvennafansi.

Samt þætti mér gaman að fá einhver svör við þessu, þ.m.t. hvort við höfum gengið til góðs, götuna fram eftir veg.

Ef einhver reiðist við lesturinn þá áttar hann sig ekki á því hvert ég er að fara. Nú, þá verður bara svo að vera.

5 ummæli:

  1. Semsagt: Móðurleg umhyggja,vernd og umhyggja eykur líkur á að drengir leiti skaðlegra karlmennskufyrirmynda í tölvuleikjum og kvikmynda? Það getur með engu móti staðist? Kannski skil ég bara ekki punktinn.

    Og hvað er eðlileg fyrirmynd?

    Bestu kveðjur, Örlygur

    SvaraEyða
  2. Leiðrétt:

    Semsagt: Móðurleg umhyggja,vernd og elskusemi eykur líkur á að drengir leiti skaðlegra karlmennskufyrirmynda í tölvuleikjum og hasarmyndum? Það getur með engu móti staðist? Kannski skil ég bara ekki punktinn og er samt ekkert reiður.

    Og hvað er eðlileg fyrirmynd?

    Bestu kveðjur, Örlygur

    SvaraEyða
  3. Það er hart að þurfa að segja
    þessa ræðu skil ég vel
    Piltbörn oft um of slíkt þreyja
    - ekki vænlegt slíkt ég tel.

    Hirðkveðill tjáir sig um kynjaveldi og mismunun pilta og stúlkna í uppvextinum.


    Leikskóli : konur
    Grunnskóli: konur

    Piltbörnin skortir yfirleitt hið eðlilega jafnvægi sem felst í því að kynin eru tvö. Kvelæga orkan verður ríkjandi; kvenlægu gildin ráðandi (sjálfrátt eða ósjálfrátt)
    - og ungu mennirnir fá lítinn sem engan stuðning við "sína tegund þarfa og gilda".
    "Móður-flest" er af hinu góða, en jafnvægisleysi til óþurftar - jafnvel skaða. (sbr. alt tal um KARLAveldi þá gildir hið sama um KVENNAveldi)- Og hananú!
    Hiðrkveðill byggir þessi orð sín á áralöngum kynnum af piltum og stúlkum í efri deildum grunnskóla.

    SvaraEyða
  4. Ég er að nokkru leiti ósammála hirðskáldinu og Páli (ef ég skil hann rétt). Það að skortur á karlmennsku í uppeldisstörfum sé rót vanda drengja í skólakerfinu, er í besta falli einföldun. Vissulega er gott að hafa jafna kynskiptingu á sem flestum sviðum. En hún á ekki að byggja á því að vöntun sé á karlmennskulegum eiginleikum í skólakerfinu. Hún á byggja á því að hver sem er geti leitað sér fagmenntunar eftir áhuga og hæfileikum og notið virðingar eftir því án þess að eðlishyggjulegar einfaldanir og kynjavæntingar stöðvi það. Það skilar sér í góðu uppeldisstarfsfólki af báðum kynjum, óháð karlmennsku eða kvenlægni og betra fólki út í framtíðina. Og hver eru þessi karllægu gildi sem eru svo takörkuð? Harka, kalt viðmót eða ótakmörkuð áhættusækni? Ja, væntanlega það sem andstætt er hinni hættulegu móðurlegu umhyggju og skynsemi samkvæmt því sem hér hefur áður verið reitað. Óskandi væri að fá fleiri karlmenn í uppeldisstörf. Þá ósk byggi ég þó ekki á væntingum um aukna karlmennsku. Heldur á því að fólk geti valið sér starfsvettvang óháð kynjavæntingum. Rót vandamála drengja í skólakerfinu liggur ekki í skorti á karlmennsku. Mín skoðun er að hefðbundnar staðlaðar hugmyndir um karlmennsku og kvenlægni séu mun skaðlegri en skortur á karlmennskuuppalendum í skólakerfinu. Þessar hugmyndir verka hamlandi og hólfar okkur og börnin í skólunum niður. Ólíkar væntingar og skaðleg kynhlutverk rista dýpra í samfélagsgerðinni en að hægt sé að kenna skorti á karlmennskufyrirmyndum og tölvuleikjum einum um.

    Margar rannsóknir hafa sýnt að fremur lítill hópur notenda verður fyrir langvarandi skaðlegum áhrifum frá fjölmiðlum og tölvuleikjum. Þeir sem verða fyrir áhrifum eru oftar þeir sem hafa lítil félagsleg tengsl við foreldra, njóta minni umhyggju og stunda síður tómstundastarf. Virkar í raun sem olía á eldinn - styrkir ákveðin (hættuleg) viðhorf. Viðhorf sem varla verða til vegna of mikillar umhyggja mæðra þessa lands.

    Það er rétt sem Páll segir, óþolandi að laun og virðing hrapi eftir því sem konur verða fjölmennari í tiltekinni stétt. Held að allt þolanlega skynsamt fólk sé sammála því. En ætli karlprestarnir hafi ekki alfarið séð um þetta sjálfir í sinni stétt.

    Ég byggi þessa umræðu á brennandi áhuga á kynjamun og kynhlutverkum og reynslu minni sem kennari á öllum stigum grunnskóla, kennslu í framhaldsskóla og tómstandistarfi með unglingum og börnu í fyrstu bekkju grunnskóla.

    Bestu kveðjur, Örlygur

    SvaraEyða
  5. Ég þakka uppbyggileg innlegg, sem kalla á viðbrögð, með mínum hætti.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...