07 maí, 2011

Auðvitað ekki konum að kenna (2)

Ja, hver skrambinn. Eftir viðbrögð við fyrri hluta, þar sem varpað var fram áleitnum spurningum, og framkomu ákveðnar efasemdir um ég ég væri að túlka með einhverjum rökrænum hætti, sé ég mig knúinn til að reyna að færa, þó ekki sé nema lítilsháttar rök fyrir því sem ég bar á borð. Þar með skellti ég mér inn á vef Hagstofunnar og fann þar upplýsingar um þróun nemendafjölda í háskólum frá 1975-2006. Upp úr tölunum sem ég fann þar tókst mér að búa til þessa töflu, sem sýnir hvernig fjöldi kvenna, annarsvegar og karla, hinsvegar, hefur þróast á þessum tíma:

Mér finnst ekki óeðlilegt, að það vakni spurningar í tengslum við þessa töflu. Sannarlega eru til skýringar á því hvers vegna heildarfjöldi nema í háskólum hefur aukist gífurlega á þessum tíma. Ég tel að þær snúist ekki einigöngu um það að háskólum hefur fjölga, heldur ekki síður um það að háskólanám hefur verið gert aðgengilegra, og þá ekki aðeins í jákvæðum skilningi. Vil jafnvel ganga svo langt að halda því fram að ....... (jæja - legg ekki í að segja mínar skoðanir á því á þessum vettvangi).
Ef ekkert annað kæmi til, þá hefði maður búist við að þróun kynjanna í þessu námi hefði verið svipuð hvað fjölda snertir, en sú er aldeilis ekki raunin. Af um það bil 23000 háskólanemum árið 2006 reynast tæp 17000 vera konur.
Ég vil gjarnan fá skýringu eða skýringar á þessu.
Meðan þær liggja ekki fyrir með ótvíræðum hætti verð ég að búa til tilgátu um það hversvegna þessi er raunin og niðurstaða mín er sú, að námsumhverfi, allt frá fæðingu til tvítugs, sé ekki með þeim hætti að það laði pilta til náms af þessu tagi, þá er ég auðvitað að tala um bóklegt nám, eins og um er að ræða í töflunni hér fyrir ofan. Hvað getur það verið sem skýrir það? Að órannsökuðu máli ætla ég mér ekki að fullyrða neitt, en sú sýring sem ég hef borið fram hljómar hreint ekki illa, að mínu mati.

Öll vitum við, að kynin eru að talsverðu leyti ólík líkamlega strax við fæðingu og ég held, þó svo ekki geti ég vitnað í rannsóknir því til stuðnings, að þau séu einnig í eðli sínu ólík. Á þeim grundvelli má síðan leiða að því rök að í uppeldinu sé þeim mikilvægt að fá að þroskast út frá sínum forsendum, sem stelpa eða strákur.  Það má halda því fram að stelpurnar hafi alla mögulega möguleika á að samsama sig hugmyndinni um hina eðlilegu og venjulegu konu (hver svo sem hún er nú) í uppeldinu, á meðan strákarnir hafi ekki það sama tækifæri að sínu leyti.

Þegar talað eru um einhverja tiltekna ímynd eða eitthvert eðli sem er kvenlegt eða karlmannlegt, er víst betra að vara sig. Ég er ekki að kalla eftir þeirri íktu mynd karlmennsku sem felur í sér hörku, kalt viðmót eða áhættusækni. Það eru eimitt þeir eiginleikar sem mér finnst að piltar í uppreisn gegn kvenlægu uppeldisumhverfi kunni að vera stökkva í til að búa sér til ímynd sem karlmaður. Þeir vita nefnilega að þeir eru ekki í eðli sínu eins og konur; að þeir eigi að vera öðruvísi. Finna þá þessa hörðu, töffara með kalda viðmótið og áhættusæknina, sannfærðir um að þannig eigi karlmenna að vera.

Þetta er nú að verða allt og langt hjá mér og þar með bind ég endann hér með spurningunni: hver er hin sanna ímynd karlmannsins?

Árið 2008 fjallaði ég nokkuð um þessi mál að einhverju leyti og vísa til þeirra texta hér og hér.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En þú hikar ekki við að draga fram ýkta ímynd af konum. Til dæmis í kennslu og uppeldi.

Það vita allir að munur er á konum og körlum. Bæði félagslegur og líffræðilegur. Sumt er eðlilegt og skemmtilegt. Annað ekki. Til dæmis ekki tölurnar um stöðu karlkynsins í skólakerfinu. Það er ekki líffræðilegur munur. Karlmenn eru ekki heimskari eða latari að upplagi. Og sú staða hefur ekkert með skort á karlmennsku í skólakerfinu að gera. Fagmennska framar karlmennsku segi ég. Barn getur til dæmis alist upp hjá foreldrum af sama kyni eða einstæðum foreldrum án þess að fara á mis við einhvern ómissandi kynjaheim sem minnkar tækifæri þeirra í lífinu. Gott foreldri er gott foredri.

Punkturinn er þessi: Það er hæpið að kenna skorti á karlmennsku í uppeldi drengja um stöðu þeirra í skólakerfinu (og í samfélaginu almennt). Vandinn er djúpstæðari og liggur að einhverju leyti í því sem ég hef kallað skaðleg eða kannski óljós karlmennska.

Hinn sanna ímynd karla á að byggja á því að finna og virkja hæfileika sína - hverjir sem þeir eru. Og temja sér hæfilega blöndu af ábyrgð og frjálsræði. Þá verður allt hitt auðveldara og eðlilegra. Karlar eiga ekki að vera konur. En þeir eiga gera minna af því að vera aumingjar með minnimáttakennd sem birtast okkur alltof víða, hvort sem það er í dulargervi eða ljóslifandi.

Þakka góðar umræður. Þetta er eilífðarmál.

Bestu kveðjur, Örlygur

PMS sagði...

Já, hér getur hver maður skrifað eins og hann telur best vera. Ekki einfalt mál.
:)

Nafnlaus sagði...

Konur vilja kvennavöld
því karlar réðu marga öld.
Helst kýs slíkt í hófi sé
og hneigi engan nið'r á kné.
Indælt verður, ósköp gaman
er í kærleik' vinnum saman.

Hirðkveðill yrkir um sína löngun til að sjá kynin vinna saman í gagnkvæmri virðingu fyrir ólíkum þáttum hvors annars.

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...