24 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (2)

Árið 1961 var ég talsvert ungur eins og áður hefur komi fram og menn geta ímyndað sér. Þá var nýja félagsheimilinu gefið nafnið ARATUNGA, með öðrum orðum tungan hans Ara. Þannig skildi ég þetta allavega og lái mér hver sem vill.
Hér niðri í Laugarási var aðeins um einn Ara að ræða, sem eitthvað kom fyrir í umræðu manna á meðal.  Það þarf því engum  að þykja það skrýtið, að ég hafi tengt nafnið á nýja félagsheimilinu við þann eina Ara sem ég þekkti þá, Ara í Auðsholti.  Það dettur nú væntanlega engum í hug, að Aratunga hafi hlotið nafn vegna hans í raun, en ég man enn myndina sem mótaðist í höfðinu á mér og sem átti að mynda nokkurskonar lógó hússins.

Aratunga er í Biskupstungum. Biskupstungur draga nafn sitt af tungum tveim, Eystri tungunni og Ytri tungunni. Austan Eystri tungunnar er Hvítá, vestan Ytri tungunnar er Brúará og þarna á milli er síðan Tungufljót.
Ég reikna með að tungu-hlutinn í Aratungu sé til kominn vegna þessara  tungna. Ara hlutinn vísar hinsvegar til Ara fróða Þorgilssonar, sem var í fóstri í Haukadal frá 7-21 árs og er talinn hafa verið aðalhöfundur Íslendingabókar og Landnámu.
Ari Þorgilsson virðist hafa lært klassísk fræði í Haukadal og var vígður til prests og þjónaði á Stað á Ölduhrugg (Staðastað). Ari þessi var nú bara í 14 ár hér í sveit, sem barn og ungur maður, en sú dvöl hans dugði til gera hann ódauðlegan í nafni félagsheimilis sveitarinnar.

(meira síðar)

23 október, 2011

Gamall skólabróðir í prestshempu

Það æxlaðist svo að við fD skelltum okkur á þrjúbíó í Félagsheimilið Árnes. Ég frétti af þessari mynd í kringum heimildamyndahátíð á Vestfjörðum. Hún hlaut þar áhorfendaverðlaun og hefu síðan verið sýnd í höfðuborginni.
Ég ætlaði mér alltaf að sjá þessa mynd. Ekki vegna þess að höfundur hennar, Steinþór Birgisson, á ættir að rekja í Gnúpverjahreppinn, sem ég vissi ekki fyrr en í dag, heldur vegna þess að séra Jón Ísleifsson var með mér í skóla um tíma á Laugarvatni. Ég man eftir honum sem fremur sérstæðum, en þó ekki svo að hann ætti erfitt í umhverfinu, hreint ekki. Kannski að hann hafi minnt mig dálítið á fyrrum Laugarásbúann Pál H. Dungal sem bjó í Ásholti.  Það var mér samt undrunarefni þegar ég fregnaði af því að hann væri orðinn prestur. Síðan lagði ég alltaf lagt við hlustir þegar eitthvað var minnst á séra Jón í fjölmiðlum og þá í tengslum við einhverjar útistöður.


Mér fannst þetta ágætis mynd. Vissulega voru stólarnir í Árnesi ekkert þægilegir og hljóðið hefði getað verið berta á köflum, en á heildina litið finnst mér þessu sunnudagssíðdegi hefa verið vel varið, ásamt um 50 öðrum. Þessa sýningu hefði mátt auglýsa betur, t.d. í Aratungu í gærkvöld.


Aratunga, fimmtíu árum seinna (1)


Það eru sem sagt 50 ára á þessu ári frá því félagsheimilið Aratunga var vígt og þar með hófst tími sem hefur haft umtalsverð áhrif á fjölda fólks. 
Ég hugsa að ég hefði nú ekki farið að fjalla um þetta efni nema vegna þess, að ég naut þess heiðurs í gærkvöld að vera veislustjóri á kvöldvöku í tilefni af tímamótunum. Þegar maður er maður með hlutverk þá reynir maður að sjá til þess að standa ekki algerlega á gati og þess vegna fór ég að bruna á vængum hugans langt til fortíðar. Þar reyndist margt vera skýjum hulið ennþá, þótt einstaka gamlir atburðir eða minningar brytust fram úr hugarfylgsnum.

Það liggur við að ég lýsi því yfir, að í Aratungu hafi það gerst sem mótar elstu, skýra minningu mína úr barnæsku, en það var atriði úr leikritinu Lénharði fógeta, sem Ungmennafélag Biskupstungna sýndi á víglsluárinu, þegar ég var 7 ára. Í þessu atriði var um að ræða bardaga þar sem menn voru drepnir (auðvitað ekki í alvöru, þetta var leikrit). Sakleysi mitt, sem var fæddur og uppalinn í tiltölulega kristilega þenkjandi fjölskyldu, þar sem messuferðir voru, í minningunni, vikulegt brauð, beið talsverða hnekki við að upplifa þarna fólk drepið þeð þessum hætti beint fyrir augum mínum - á fremsta bekk. Á þeim tíma var RÁS1 eini ljósvakafjölmiðillinn og Tíminn eina dagblaðið, en hann kom í bunkum með mjólkurbílnum, við og við - og ég las ekkert nema Denna dæmalausa í því blaði. Þá var sko ekkert World of Warcraft eða Call of Duty, nú eða einhver annar svipaður tölvuleikur. Það var ekkert sjónvarp þar sem persónurnar sögðu fokk í öðru hverju orði eða drápu hver aðra með grafískum hætti. Nei, þetta var veröld sakleysis þar sem það næsta sem við komumst einhverju ofbeldi var, þegar við skiptum liði og lékum kúreka  og indíána í runnunum í Ólafs- eða Einarslandi.  Auðvitað voru indjánarnir vondu kallarnir, þannig var það í bandrísku stórmyndunum sem einhverjir í hópnum höfðu séð.

Leikdeild UmfBisk flutti nokkur brot úr Lénharði fógeta í gærkvöld. 
Þar var enginn drepinn. 
Það lá hinsvegar morð í loftinu, þegar Hildur María á Spóastöðum í hlutverki Guðnýjar gerði sig líklega til að drepa Runólf Einarsson, í hlutverki illmennisins Lérnharðs fógeta, með silfurlituðum smjörhníf.
Ætli það atriði myndi ekki bara teljast "krúttlegt"

Það getur verið, en ég er ekki viss, að atvikið þegar Kusa hafði mig undir og hnoðaði, sem eldri minning - það vita sjálfsagt aðrir betur en ég.

Meira kemur í tilefni af Aratunguafmælinu síðar.

16 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (2)


Hún var nú búin að þjóna okkur vel og dyggilega svo lengi sem ég treysti mér til að muna, líklega í ein 20 ár í það minnsta. Það voru á henni 4 hellur, en tvær þeirra virkuðu eiginlega aldrei. Það var komin sprunga í þá þriðju, sem þó virkaði enn. Það var með öðrum orðum eftir ein hella sem var sæmilega nothæf, að því er talið var. Það varð ekki undan því vikist að gera eitthvað í málinu.

Til að eitthvað gerist þarf eitthvert afl að koma til, sem hreyfir við því með einhverjum hætti. Sú var raunin hér. Mér hefur alltaf þótt tilhugsunin um að flytja stóra og þunga hluti þess eðlis, að rétt sé að fresta og sjá til. Það kunna að koma upp þær aðstæður sem leysa þannig flutninga með einhverjum öðrum hætti en beinni aðkomu minni. Það var hinsvegar orðið ljóst þegar hér var komið að beinnar aðkomu minnar væri þörf.

Það þarf ekkert að fjölyrða um kaupin sem slík - lokapunktur þeirra átti sér stað í vel földu vöruhóteli við Sundahöfn. Þarna kom í ljós að nútíma eldunartæki eru talsvert léttari en þau sem eldri eru. Svo létt var þessi nýja, að það vafðist ekki fyrir okkur fD að vippa henni upp þröngan stiga þegar heim var komið. En til þess að hún hæmist á sinn stað þurfti að fjarlægja þá gömlu.

Hún tilheyrði þeim hópi eldavéla sem taldar voru afar vandaðar, og það endurspeglaðist í því að hún bjó yfir tilteknum massa. Ég minnist þess frá árum áður, að tæki sem voru þung í sér, voru í mínum huga traust tæki. Segulbandstæki sem voru þung, miðað við stærð, voru bara einfaldlega góð, meðan aftur á móti létta draslið fól í sér gæðaleysið. Það þurfti ekki að skoða frekar.

Nú eru aðrir tímar, að því er virðist. Létt er gott - sama hvaða þá er verið að fjalla um.  
Mér tókst að koma gömlu eldavélinni út úr innréttingunni og okkur tókst að drösla henni út úr eldhúsinu, en ekki mikið lengra.  Sú nýja og fína, small á sinn stað, tengingar græjaðar á afar fagmannlegan hátt. Stungið í samband. Á endanum kom ljós sem gaf til kynna að nú streymdi orkan um alla þræði. 
Auðvitað á eftir að læra á ýmsa nýja fídusa, en það er ekki viðfangsefnið hér að fjalla um hvernig það hefur gengið.
Það er hinsvegar viðfangsefnið hér að fjalla í örfáum orðum um það hvað tók við. Það beið gamall túbusjónvarpshlunkur eftir að leggjast til hinstu hvílu og nú hafði bæst við áratuga gömul eldavélin, sem var komin á stað sem nauðsynlega þurfti að nota til annars.

Við þessar aðstæður fór ég að segja, hátt og í hljóði, setningarnar sem 1. hluti byrjar á. Enn ætla ég að halda fram miklvægi þess að hugsa öll skref áður en verk er hafið. Vegna þess að ég hafði tekið mér tíma til að hugsa út hvert einasta skref, gekk flutningurinn á Sony og Siemens eins og í lygasögu. Þau hvíla nú á biðstað við hæfi - bíða þess að verða flutt á einhvern stað þar sem þau munu verða leyst  eða brotin í sundur; hætta að vera til.  
Þau þjónuðu vel og eru vel að þeim örlögum komin sem bíða þeirra.

15 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (1)

"Það þarf að fara að koma þessu á gámastöðina".
"Það þarf að fá lánaða kerru."
"Það þarf að fá trillu til að koma þessu út".

Nú er líklegt að það fyrsta sem þeir sem til þekkja, og hafa kíkt að síðurnar hjá mér undan farin ár, hugsi með sér sem svo: "Jæja, er fD nú farin að ýta við kallinum enn eina ferðina?"

Ekki þykir mér slæmt að lýsa því yfir, að ofangreindar setningar hef ég sjálfur haft yfir, bæði hátt og í hljóði, að undanförnu. Ástæðan? Í rauninni einföld, en samt með vott af  (dass af) tilfinningu fyrir því að  setningarnar sem tilgreindar eru hér efst, geti verið væntanlegar þá og þegar hvort sem er og þá í flutningi fD. Hafi svo verið, nú þá var ég bara á undan þessu sinni að segja það sem segja þurfti.

Sem svar við því hvert tilefni ofangreindra setninga er, er hægt að færa fram stutt svar eða langt svar. Gallinn við stutta svarið er, að með því gætu lesendur farið að fá í höfuð sín hugmyndir um okkur Kvisthyltinga, sem eru ekki réttar. Því ætla ég að láta langa svarið duga.

Litasjónvarpstæki tóku við af þeim svart/hvítu fyrir afskaplega löngu síðan. Heimildir mínar segja, að sjónvarpsútsendingar í lit hafi hafist árið 1975. Í allmörg ár eftir það  létum við okkar svart/hvíta tæki duga, enda hvorki peningar til, til uppfærslu, né heldur börn sem þóttust hafa vit á því hvort væri betra svart/hvítt eða litur. 
Ég giska á að fyrsta litatækið hafi komið á bæinn kannski tveim árum eftir að ég var farinn að vinna. Það átti sinn tíma eins og svona dót, en nýtt var ekki keypt fyrr en það gamla dó. 
Það var líklega um það leyti, sem ég las um það einhversstaðar, að framtíðin fælist í sjónvarpstækjum sem hægt væri að hengja á vegg eins og myndir. Í því sambandi ákvað ég að næsta sjónvarp sem ég myndi kaupa yrði veggsjónvarp. Þau voru reyndar ekki komin enn þegar að næstu endurnýjun kom. 

Tækjaminni mitt er afskaplega vont og mér þykir það hreint ekki slæmt. Ég man, s.s. ekki hvort síðasta túbutækið (sem gaf ekki upp öndina og var í fínu standi, fyrir utan það að maður gat ekki orðið fylgst með markatölunni í handboltaleikjum) var það sem tók við þarna, eða hvort annað kom í millitíðinni. Það skiptir í raun engu máli. Það sem skipti máli á þeim tímapunkti sem um ræðir, og átti sér stað í aðdraganda síðustu jóla var, að ég taldi einfaldlega að sú stund væri upprunnin þegar ég uppfyllti um það bil 25 ára gamalt fyrirheitið um veggsjónvarp (og hana nú - ég sagði það). Annar rökstuðningur fyrir þessum kaupum vafðist ekkert fyrir mér.  Nefni hér bara þrjár góðar og gildar ástæður:
a.  LED tæki, eins og hér er um að ræða, ku næstum framleiða orku. 
b. Gamalt túbutæki gæti sprungið þá og þegar og brennt húsið til kaldra kola.
c. Kaup af þessu tagi stuðla að auknum hagvexti og manni er sagt að hann sé grundvöllur alls hins góða sem hægt er að ætlast til af lífiinu.

Gamla túbutækið var sett til hliðar. Þar sem það var í rauninni í fínu standi, enda gott merki, þá ól ég þá von í brjósti, að einhver myndi vilja taka það af höndum mér. Gallinn við þá pælingu var augljóslega sá, annarsvegar, að við auglýstum gripinn með engum hætti og hinsvegar, að líklega eru þeir Íslendingar teljandi á fingrum annarrar handar, sem myndu láta sér nægja túbusjónvarp og 10-15 ára gamalt þar að auki. 

Tækið var sett til hliðar um síðustu jól, og kom ekki við sögu Kvisthyltinga eftir það, nema þá þannig, að ef til vill varð ég var við lítilsháttar sting við og við þegar ég átti leið um kjallarann, vegna þess óleysta sjónvarpsmáls, eða þá í óorðuðum skilaboðum frá fD um að það væri nú kannski skynsamlegt að fara að koma tækinu á einhvern þann stað sem það endaði tilveru sína sem sæmilegum sóma.

Það sem síðan gerði eiginlega útslagið, átti sér síðan stað fyrir nokkrum dögum, en frásögn af því bíður þar til næst.,

09 október, 2011

Það slapp fyrir sextugt.

Það var fyrir um það bil 50 árum sem leiðir fólksins á myndinni lágu saman í Reykholtsskóla í Biskupstungum.

Eftir talsverð heilabrot áhugamanna um að freista þess að stofna til endurfunda, varð tvennt til þess að af samkundunni varð, með svo gæsilegum hætti sem raunin var:
a. Ef þetta gerðist ekki fyrir 60 ára aldurinn þá væri búið að tapa hópnum inn í starfsemi eldri borgara, en þaðan eiga menn víst ekki afturkvæmt svo glatt.
b. Tilkynnt var um áður óbirtar myndir frá barnaskólaárunum, sem þarna átti að sýna.

Í gær var samkoman góða. Flestir komu, en ekki allir, af ýmsum ástæðum. Gengin spor voru nú orðin nokkuð máð, en með góðum vilja mátti ferðast í tímanum til tíma gleði, leikja, harms, trega og gleymsku.
Þarna voru boðaðir árgangarnir sem fæddust 1952-54, sem hafa af einhverjum undarlegum ástæðum lítið hreyft sig úr stað á öllum þessum árum.
Myndir fyrir áhugasama
Fremri röð f.v. Páll M Skúlason, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Geirþrúður Sighvatsdóttir,
Guðrún Hárlaugsdóttir, Kristín Björnsdóttir.
Aftari röð f.v. Sveinn A Sæland, Sigurður Þórarinsson, Pétur Hjaltason, Gunnar Sverrisson,
Ragnar Lýðsson,  Magnús Jónasson, Þorsteinn Þórarinsson.
Þarna vantaði, eftir því sem ég man, sem er líklega ekki alveg rétt, þessi:
Gróa Kristín Helgadóttir, Magnús Kristinsson, Loftur Jónasson,
Hjálmur Sighvatsson, Einar Jóhannsson.

05 október, 2011

Töfraveröld Laugaráss og nágrennis

Ég leyfði mér að fara enn eina ferðina um Laugarás og nágrenni í gær. Myndefnið sveik ekki frekar en fyrri daginn, og ekki EOSinn, PROlinsan og BILORA þrífóturinn.
Sannarlega förlaðist myndasmiðnum ekki heldur.
Nefni svo ekki forritið sem notað var við að koma myndunum í það form sem þær eru í hér.
Það er slatti í viðbót, sem jafnvel slá þessum við, HÉR.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...