16 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (2)


Hún var nú búin að þjóna okkur vel og dyggilega svo lengi sem ég treysti mér til að muna, líklega í ein 20 ár í það minnsta. Það voru á henni 4 hellur, en tvær þeirra virkuðu eiginlega aldrei. Það var komin sprunga í þá þriðju, sem þó virkaði enn. Það var með öðrum orðum eftir ein hella sem var sæmilega nothæf, að því er talið var. Það varð ekki undan því vikist að gera eitthvað í málinu.

Til að eitthvað gerist þarf eitthvert afl að koma til, sem hreyfir við því með einhverjum hætti. Sú var raunin hér. Mér hefur alltaf þótt tilhugsunin um að flytja stóra og þunga hluti þess eðlis, að rétt sé að fresta og sjá til. Það kunna að koma upp þær aðstæður sem leysa þannig flutninga með einhverjum öðrum hætti en beinni aðkomu minni. Það var hinsvegar orðið ljóst þegar hér var komið að beinnar aðkomu minnar væri þörf.

Það þarf ekkert að fjölyrða um kaupin sem slík - lokapunktur þeirra átti sér stað í vel földu vöruhóteli við Sundahöfn. Þarna kom í ljós að nútíma eldunartæki eru talsvert léttari en þau sem eldri eru. Svo létt var þessi nýja, að það vafðist ekki fyrir okkur fD að vippa henni upp þröngan stiga þegar heim var komið. En til þess að hún hæmist á sinn stað þurfti að fjarlægja þá gömlu.

Hún tilheyrði þeim hópi eldavéla sem taldar voru afar vandaðar, og það endurspeglaðist í því að hún bjó yfir tilteknum massa. Ég minnist þess frá árum áður, að tæki sem voru þung í sér, voru í mínum huga traust tæki. Segulbandstæki sem voru þung, miðað við stærð, voru bara einfaldlega góð, meðan aftur á móti létta draslið fól í sér gæðaleysið. Það þurfti ekki að skoða frekar.

Nú eru aðrir tímar, að því er virðist. Létt er gott - sama hvaða þá er verið að fjalla um.  
Mér tókst að koma gömlu eldavélinni út úr innréttingunni og okkur tókst að drösla henni út úr eldhúsinu, en ekki mikið lengra.  Sú nýja og fína, small á sinn stað, tengingar græjaðar á afar fagmannlegan hátt. Stungið í samband. Á endanum kom ljós sem gaf til kynna að nú streymdi orkan um alla þræði. 
Auðvitað á eftir að læra á ýmsa nýja fídusa, en það er ekki viðfangsefnið hér að fjalla um hvernig það hefur gengið.
Það er hinsvegar viðfangsefnið hér að fjalla í örfáum orðum um það hvað tók við. Það beið gamall túbusjónvarpshlunkur eftir að leggjast til hinstu hvílu og nú hafði bæst við áratuga gömul eldavélin, sem var komin á stað sem nauðsynlega þurfti að nota til annars.

Við þessar aðstæður fór ég að segja, hátt og í hljóði, setningarnar sem 1. hluti byrjar á. Enn ætla ég að halda fram miklvægi þess að hugsa öll skref áður en verk er hafið. Vegna þess að ég hafði tekið mér tíma til að hugsa út hvert einasta skref, gekk flutningurinn á Sony og Siemens eins og í lygasögu. Þau hvíla nú á biðstað við hæfi - bíða þess að verða flutt á einhvern stað þar sem þau munu verða leyst  eða brotin í sundur; hætta að vera til.  
Þau þjónuðu vel og eru vel að þeim örlögum komin sem bíða þeirra.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...