15 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (1)

"Það þarf að fara að koma þessu á gámastöðina".
"Það þarf að fá lánaða kerru."
"Það þarf að fá trillu til að koma þessu út".

Nú er líklegt að það fyrsta sem þeir sem til þekkja, og hafa kíkt að síðurnar hjá mér undan farin ár, hugsi með sér sem svo: "Jæja, er fD nú farin að ýta við kallinum enn eina ferðina?"

Ekki þykir mér slæmt að lýsa því yfir, að ofangreindar setningar hef ég sjálfur haft yfir, bæði hátt og í hljóði, að undanförnu. Ástæðan? Í rauninni einföld, en samt með vott af  (dass af) tilfinningu fyrir því að  setningarnar sem tilgreindar eru hér efst, geti verið væntanlegar þá og þegar hvort sem er og þá í flutningi fD. Hafi svo verið, nú þá var ég bara á undan þessu sinni að segja það sem segja þurfti.

Sem svar við því hvert tilefni ofangreindra setninga er, er hægt að færa fram stutt svar eða langt svar. Gallinn við stutta svarið er, að með því gætu lesendur farið að fá í höfuð sín hugmyndir um okkur Kvisthyltinga, sem eru ekki réttar. Því ætla ég að láta langa svarið duga.

Litasjónvarpstæki tóku við af þeim svart/hvítu fyrir afskaplega löngu síðan. Heimildir mínar segja, að sjónvarpsútsendingar í lit hafi hafist árið 1975. Í allmörg ár eftir það  létum við okkar svart/hvíta tæki duga, enda hvorki peningar til, til uppfærslu, né heldur börn sem þóttust hafa vit á því hvort væri betra svart/hvítt eða litur. 
Ég giska á að fyrsta litatækið hafi komið á bæinn kannski tveim árum eftir að ég var farinn að vinna. Það átti sinn tíma eins og svona dót, en nýtt var ekki keypt fyrr en það gamla dó. 
Það var líklega um það leyti, sem ég las um það einhversstaðar, að framtíðin fælist í sjónvarpstækjum sem hægt væri að hengja á vegg eins og myndir. Í því sambandi ákvað ég að næsta sjónvarp sem ég myndi kaupa yrði veggsjónvarp. Þau voru reyndar ekki komin enn þegar að næstu endurnýjun kom. 

Tækjaminni mitt er afskaplega vont og mér þykir það hreint ekki slæmt. Ég man, s.s. ekki hvort síðasta túbutækið (sem gaf ekki upp öndina og var í fínu standi, fyrir utan það að maður gat ekki orðið fylgst með markatölunni í handboltaleikjum) var það sem tók við þarna, eða hvort annað kom í millitíðinni. Það skiptir í raun engu máli. Það sem skipti máli á þeim tímapunkti sem um ræðir, og átti sér stað í aðdraganda síðustu jóla var, að ég taldi einfaldlega að sú stund væri upprunnin þegar ég uppfyllti um það bil 25 ára gamalt fyrirheitið um veggsjónvarp (og hana nú - ég sagði það). Annar rökstuðningur fyrir þessum kaupum vafðist ekkert fyrir mér.  Nefni hér bara þrjár góðar og gildar ástæður:
a.  LED tæki, eins og hér er um að ræða, ku næstum framleiða orku. 
b. Gamalt túbutæki gæti sprungið þá og þegar og brennt húsið til kaldra kola.
c. Kaup af þessu tagi stuðla að auknum hagvexti og manni er sagt að hann sé grundvöllur alls hins góða sem hægt er að ætlast til af lífiinu.

Gamla túbutækið var sett til hliðar. Þar sem það var í rauninni í fínu standi, enda gott merki, þá ól ég þá von í brjósti, að einhver myndi vilja taka það af höndum mér. Gallinn við þá pælingu var augljóslega sá, annarsvegar, að við auglýstum gripinn með engum hætti og hinsvegar, að líklega eru þeir Íslendingar teljandi á fingrum annarrar handar, sem myndu láta sér nægja túbusjónvarp og 10-15 ára gamalt þar að auki. 

Tækið var sett til hliðar um síðustu jól, og kom ekki við sögu Kvisthyltinga eftir það, nema þá þannig, að ef til vill varð ég var við lítilsháttar sting við og við þegar ég átti leið um kjallarann, vegna þess óleysta sjónvarpsmáls, eða þá í óorðuðum skilaboðum frá fD um að það væri nú kannski skynsamlegt að fara að koma tækinu á einhvern þann stað sem það endaði tilveru sína sem sæmilegum sóma.

Það sem síðan gerði eiginlega útslagið, átti sér síðan stað fyrir nokkrum dögum, en frásögn af því bíður þar til næst.,

1 ummæli:

  1. þetta ber að yrkja um - hef ýmislegt að segja um sjónvörp, túbur, kerrur og flutning á "dóti" í gáma. - En nú fer ég í leikhúsið með mínu fólki og ætla að sjá Svarta hundinn prestsins.... og því bíða ljóðmælin;) (Hugsa sér að nota orðið ljóðmæli - um hortittina mína;)
    Hirðkveðill kveður í Guðs friði - í bili.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...