28 október, 2011

Síðdegissleggjudómaþátturinn

Einstaka sinnum kemur það fyrir að ég stilli á þátt sem ber nafnið Reykjavík síðdegis og er á útvarpsstöðinni sem kallast Bylgjan. Undanfarin ár hefur þessi þáttur hafist á því að fólki gefst kostur á að hringja þarna inn og lofa eða lasta.


Ég hlustaði áðan, eins og stundum áður.
Bylgjan góðan dag. Vilt þú lofa eða lasta eitthvað, eða einhvern.
Já ég vil lofa lögregluna. Þetta er frábær lögregla sem við eigum.
Já, einmitt. Lögreglan stendur sig við þrátt fyrir að hún hafi ekki úr miklu að moða.
Já þetta eru hörkukallar í lögreglunni - kalla ekki allt ömmu sína.
Það er satt hjá þér. En á einhver að fá lastið frá þér.
Ég vil lasta ríkisstjórnina.
Nú, hversvegna viltu gera það?
Nú vegna þess hvernig hún er að fara með heimilin/fjölskyldurnar í landinu.
Einmitt, þakka þér fyrir það. Já það má sannarlega gera betur. Jæja þá er það næsti. Hvern vilt þú lofa eða lasta?

....þetta samtal er alveg eins og hið  fyrra, utan að síðasta setning viðmælandans er á þessa vegu:
Það á bara að henda þess helvítis drasli út úr kofanum þarna við Austurvöll.

Þarna kom síðan inn ung kona, sem, eins og hinir, lofaði lögregluna, en vildi ekki lasta ríkisstjónina.
Hva....styðurðu ríkisstjórnina?!!! spurði spyrjandinn, hneykslunarrómi.

Það kom á konuna. Henni vafðist tunga umm tönn. 
Eeee...sko...nei, nei. Mér finnst bara að það þurfi ekki að vera alltaf að útvarpa þessari neikvæðni.
Má, þá fólkið ekki segja skoðun sína? Eigum við kannski að banna fólki að lasta ríkisstjórnina.

Þarna spurði spyrjandinn áfram þar til konan hrökklaðist af línunni.

ÞÁ KEM ÉG AÐ TILGANGI MÍNUM MEÐ ÞESSU FJASI.

Ef éf segi við einhvern:
Þú ert nú meira helvítis fíflið.
Er ekki eðlilegt að ég þurfi að rökstyðja það með einhverjum hætti? Til dæmis, svara þessari spurningu:
Hversvegna segir þú það?
Ég get alveg skellt fram einhverri sleggju:
Það vita það nú allir!
Hvað áttu við?
Nú bara allir.
Hvaða allir?

...... svona getur spyrjandinn haldið áfram að spyrja þar til í ljós kemur hvort þarna er um vel ígrundaða skoðun að ræða, eða bara hreina sleggjudóma.


Hversvegna héldu spyrjendurnir ekki áfram að spyrja í dag, nema þegar konan kvartaði yfir neikvæðninni?


Mig langar að fá, til dæmis, svona framhald af þessum fyrstu viðmælendum:
Nú vegna þess hvernig hún er að fara með heimilin/fjölskyldurnar í landinu!
Hvernig er hún að fara með heimilin?
Nú, það eru allir að missa íbúðirnar sínar. 
Allir? Er það rétt?
Jæja þá, margir. Er þetta velferðarstjórnin sem ætlaði að bjarga þessu öllu? 
Ætlaði hún að bjarga öllu?
Já!
Hvaðan hefurðu það?

,..... svona má spyrja, fá fólk til að rökstyðja mál sitt. Kannski hefur það þessi fínu rök  fyrir skoðununm sínum. Kannski eru þetta bara algerir hálfvitar. 


Það væri skemmtilegt verkefni hjá Bylgjunni að gera á því rannsókn úr hvaða þjóðfélagshópum innhringjendur koma.

27 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (4)

Ég ætla nú að leika biðleik, áður en ég tekst á við að lýsa einhverju af því sem ég og aðrir reyndu og upplifðu á blómatíma sveitaballanna hér í uppsveitum. Þaðan búa margir miðaldra, virðulegir borgarar, að ótrúlegum reynslusögum, en eins og með svo margt: það sem gerðist á sveitaböllunum, verður áfram í þeim minningasjóði - það væri varla á það hættandi fyrir marga að ljóstra slíku upp við afa- og ömmubörnin í samfélagi nútímans.

Biðleikurinn er til kominn vegna þess að ég get ómögulega munað hvaða lag það var sem Mánar enduðu öll sín sveitaböll á. Kannski einhver sem veit gauki því að mér. Mig minnir að það hafi verið Jethro Tull með flautuleik, en er ekki viss.

Biðleikurinn, já...
Það kom upp í hendurnar á mér fundargerð, í tengslum við afmæliskvöldvökuna sem áður er nefnd. Hún er frá því í marz, 1982. Síðan þá erum við búin að ganga í gegnum samkeppnisbrjálæðið allt saman, með tileyrandi hruni, meðal annar þar sem kapítalisminn virkaði ekki í frænda-, kunningja-, vina- og flokksbræðrasamfélaginu.

Kannski felst einmitt blómatími sveitaballanna í uppsveitunum í því sem gerðist á árlegum fundum eins og þeim sem hér um ræðir.

Sviðið var, að hér voru komi 4 félagsheimili hvert öðru glæsilegra, Aratunga, Borg í Grímsnesi, Árnes í Gnúpverjahreppi og Flúðir í Hrunamannahreppi. Það var blómatími í dægurtónlistarlegu tilliti. Fólk taldist fullorðið og hæft til að fara á dansleiki þegar það var 16 ára.
Allt frá árinu 1966 komu saman tveir fulltrúar frá hverju félagsheimilanna og röðuðu niður helgunum, ekki síst yfir sumarið. Þeir gerðu nú heldur meira en það.
Á fundinum sem ég nefndi var eftirfarandi ákveðið um verðlag:
Miðaverð: kr. 150
Ölflaska: kr. 10
Flatkökur: kr. 15
Brauðsamloka: kr. 20
Fatagæsla: kr. 5 (á flík)

Þarna fundu þessir hagsmunaaðilar þann flöt, að það gæti verið betra fyrir alla aðila að skipta kökunni jafnt á milli sín, frekar en slást um hana.

Ég vil kalla þessa aðferð NÚ MÁ ÉG - NÚ MÁTT ÞÚ aðferðina við að lifa saman. Það væri gaman ef sagnfræðingur tæki sig til og rannsakaði ris of fall sveitaballanna.

Þau voru allavega harla mikilvæg, í mörgu tilliti.

26 október, 2011

Setið yfir í stærðfræðiprófi

Hver veit nema innan fárra ári verið glæpasagan mín - sálfræðitryllirinn á allra vörum.  Það kemur fyrir einstaka sinnum að ég tek að mér að sitja yfir hinum og þessum prófum - í morgun var það stærðfræði, sem er nú ekki beinlínis það sem ég er að velta fyrir mér dags daglega.
Ég hef það þannig við aðstæður sem þessar, að ég er með blað og skriffæri  og sé til hvað gerist.

Þetta var útkoman í morgun:

Eftir því sem tímar liðu varð erfiðara fyrir hann að takast á við illskuna sem kraumaði djúpt í sálarfylgsnunum. Hvert árið sem leið færði hann nær  þeirri óumflýjanlegu stund þegar hann gæti ekki lengur ..... haldið henni í skefjum. Hún vissi að hverju stefndi og bjó sig undir það, samviskulaus, hiklaus, þolinmóð, einbeitt ... að losna. Því lengri tími sem leið, því öflugri varð hún.
Hann óskaði þess með sjálfum sér, að hann hefði hleypt henni út strax og hann varð var við hana fyrst. Nú var það of seint. Með hverjum mánuðinum jókst þrýstingurinn.

Þetta er nú aldeilis skemmtileg byrjun á 600 síðna stórvirki.
Það virðist stefna í einstakalega frumleg efnistök.
Nú er bara að bíða eftir að komast á eftirlaun, væntanlega.

25 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (3)

Það kom fram í yfirferð Garðars Hannessonar, sem var fyrsti húsvörður í Aratungu, að tvennt hafi orðið til þess að salurinn varð minni en upphaflega var gert ráð fyrir:
- Leikhúsmenn einhverjir hvöttu menn til að dýpka leiksviðin á öllum þessum félagsheimilum sem var verið að byggja um allt land á þessum tíma. Það þyrfti til þess að Þjóðleikhúsið gæti komið með sýningar í húsin. Þetta var gert í  Aratungu. Sviðið var dýpkað um einn metra, en á móti minnkaði salurinn á lengdina um einn metra.
- Vegna skorts á þaksperruefni var síðan gripið til þess ráðs að lækka þakið um 30 sentimetra.

Það var svo í þessu húsi sem Tungnamenn hófu að iðka íþróttir sínar þegar það var leyft - það virðist hafa verið talsverð andstaða við að hleypa svo eyðileggjandi starfsemi sem íþróttum inn í húsið. Leikfimin í barnaskólanum var ekki flutt niður í Aratungu fyrr en um það bil 5 árum eftir að húsið var tekið í notkun - leikfimin var iðkuð áfram af krafti á gangi í barnaskólanum sem er um það bið 3m á breidd og kannski 15-20 m á lengd.  Ég er ekki hissa á hve góðu valdi við, sem þarna iðkuðum leikfimi af krafti undir stjórn Þóris Sigurðssonar frá Haukadal, höfum náð á fínhreifingum.

Það kom að því að ég fékk að fara á fyrstu körfuboltaæfinguna í húsinu - giska á að það hafi verið 1966 eða 7. Sú reynsla hafði svo djúpstæð áhrif á mig, ungan sveininn, að ég svaf ekki alla nóttina á eftir - man enn örvæntinguna yfir þessu svefnleysi klukkan sex um morguninn.

Þarna var síðan lagður grunnurinn að gullaldarliði Tungnamanna í körfubolta, sem ég var auðvitað hluti af. Í þessu liði voru margir öndvegis leikmenn, sem náðu undraverðum tökum á þessum leik í þessu húsnæði sem varð stöðugt smærra eftir því sem leikmennirnir eltust og stækkuðu.
Þegar liðið góða fór síðan í önnur hús til að keppa við nágranna, þá var að jafnaði hærra til lofts (hafði ekki verið timburskortur á landinu). Þar vakti skottækni þeirra í liðinu sem tóku langskotin talsverða athygli - körfurnar urðu samt ekkert færri þess vegna.

Á æfingum var hléið alltaf talsvert tilhlökkunarefni, en það var farið í ölkælinn og tekið úr eins og einni Sinalco, ískaldri.

(enn verður áfram haldið - framundan er að fjalla um sumardansleikina - þar gerðist allt)

24 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (2)

Árið 1961 var ég talsvert ungur eins og áður hefur komi fram og menn geta ímyndað sér. Þá var nýja félagsheimilinu gefið nafnið ARATUNGA, með öðrum orðum tungan hans Ara. Þannig skildi ég þetta allavega og lái mér hver sem vill.
Hér niðri í Laugarási var aðeins um einn Ara að ræða, sem eitthvað kom fyrir í umræðu manna á meðal.  Það þarf því engum  að þykja það skrýtið, að ég hafi tengt nafnið á nýja félagsheimilinu við þann eina Ara sem ég þekkti þá, Ara í Auðsholti.  Það dettur nú væntanlega engum í hug, að Aratunga hafi hlotið nafn vegna hans í raun, en ég man enn myndina sem mótaðist í höfðinu á mér og sem átti að mynda nokkurskonar lógó hússins.

Aratunga er í Biskupstungum. Biskupstungur draga nafn sitt af tungum tveim, Eystri tungunni og Ytri tungunni. Austan Eystri tungunnar er Hvítá, vestan Ytri tungunnar er Brúará og þarna á milli er síðan Tungufljót.
Ég reikna með að tungu-hlutinn í Aratungu sé til kominn vegna þessara  tungna. Ara hlutinn vísar hinsvegar til Ara fróða Þorgilssonar, sem var í fóstri í Haukadal frá 7-21 árs og er talinn hafa verið aðalhöfundur Íslendingabókar og Landnámu.
Ari Þorgilsson virðist hafa lært klassísk fræði í Haukadal og var vígður til prests og þjónaði á Stað á Ölduhrugg (Staðastað). Ari þessi var nú bara í 14 ár hér í sveit, sem barn og ungur maður, en sú dvöl hans dugði til gera hann ódauðlegan í nafni félagsheimilis sveitarinnar.

(meira síðar)

23 október, 2011

Gamall skólabróðir í prestshempu

Það æxlaðist svo að við fD skelltum okkur á þrjúbíó í Félagsheimilið Árnes. Ég frétti af þessari mynd í kringum heimildamyndahátíð á Vestfjörðum. Hún hlaut þar áhorfendaverðlaun og hefu síðan verið sýnd í höfðuborginni.
Ég ætlaði mér alltaf að sjá þessa mynd. Ekki vegna þess að höfundur hennar, Steinþór Birgisson, á ættir að rekja í Gnúpverjahreppinn, sem ég vissi ekki fyrr en í dag, heldur vegna þess að séra Jón Ísleifsson var með mér í skóla um tíma á Laugarvatni. Ég man eftir honum sem fremur sérstæðum, en þó ekki svo að hann ætti erfitt í umhverfinu, hreint ekki. Kannski að hann hafi minnt mig dálítið á fyrrum Laugarásbúann Pál H. Dungal sem bjó í Ásholti.  Það var mér samt undrunarefni þegar ég fregnaði af því að hann væri orðinn prestur. Síðan lagði ég alltaf lagt við hlustir þegar eitthvað var minnst á séra Jón í fjölmiðlum og þá í tengslum við einhverjar útistöður.


Mér fannst þetta ágætis mynd. Vissulega voru stólarnir í Árnesi ekkert þægilegir og hljóðið hefði getað verið berta á köflum, en á heildina litið finnst mér þessu sunnudagssíðdegi hefa verið vel varið, ásamt um 50 öðrum. Þessa sýningu hefði mátt auglýsa betur, t.d. í Aratungu í gærkvöld.


Aratunga, fimmtíu árum seinna (1)


Það eru sem sagt 50 ára á þessu ári frá því félagsheimilið Aratunga var vígt og þar með hófst tími sem hefur haft umtalsverð áhrif á fjölda fólks. 
Ég hugsa að ég hefði nú ekki farið að fjalla um þetta efni nema vegna þess, að ég naut þess heiðurs í gærkvöld að vera veislustjóri á kvöldvöku í tilefni af tímamótunum. Þegar maður er maður með hlutverk þá reynir maður að sjá til þess að standa ekki algerlega á gati og þess vegna fór ég að bruna á vængum hugans langt til fortíðar. Þar reyndist margt vera skýjum hulið ennþá, þótt einstaka gamlir atburðir eða minningar brytust fram úr hugarfylgsnum.

Það liggur við að ég lýsi því yfir, að í Aratungu hafi það gerst sem mótar elstu, skýra minningu mína úr barnæsku, en það var atriði úr leikritinu Lénharði fógeta, sem Ungmennafélag Biskupstungna sýndi á víglsluárinu, þegar ég var 7 ára. Í þessu atriði var um að ræða bardaga þar sem menn voru drepnir (auðvitað ekki í alvöru, þetta var leikrit). Sakleysi mitt, sem var fæddur og uppalinn í tiltölulega kristilega þenkjandi fjölskyldu, þar sem messuferðir voru, í minningunni, vikulegt brauð, beið talsverða hnekki við að upplifa þarna fólk drepið þeð þessum hætti beint fyrir augum mínum - á fremsta bekk. Á þeim tíma var RÁS1 eini ljósvakafjölmiðillinn og Tíminn eina dagblaðið, en hann kom í bunkum með mjólkurbílnum, við og við - og ég las ekkert nema Denna dæmalausa í því blaði. Þá var sko ekkert World of Warcraft eða Call of Duty, nú eða einhver annar svipaður tölvuleikur. Það var ekkert sjónvarp þar sem persónurnar sögðu fokk í öðru hverju orði eða drápu hver aðra með grafískum hætti. Nei, þetta var veröld sakleysis þar sem það næsta sem við komumst einhverju ofbeldi var, þegar við skiptum liði og lékum kúreka  og indíána í runnunum í Ólafs- eða Einarslandi.  Auðvitað voru indjánarnir vondu kallarnir, þannig var það í bandrísku stórmyndunum sem einhverjir í hópnum höfðu séð.

Leikdeild UmfBisk flutti nokkur brot úr Lénharði fógeta í gærkvöld. 
Þar var enginn drepinn. 
Það lá hinsvegar morð í loftinu, þegar Hildur María á Spóastöðum í hlutverki Guðnýjar gerði sig líklega til að drepa Runólf Einarsson, í hlutverki illmennisins Lérnharðs fógeta, með silfurlituðum smjörhníf.
Ætli það atriði myndi ekki bara teljast "krúttlegt"

Það getur verið, en ég er ekki viss, að atvikið þegar Kusa hafði mig undir og hnoðaði, sem eldri minning - það vita sjálfsagt aðrir betur en ég.

Meira kemur í tilefni af Aratunguafmælinu síðar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...